Blik 1954/Spaug o.fl.

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit 1954



Spaug og fleira



Í dýragarðinum.
Gesturinn: — Hvar eru aparnir?
Vörðurinn: — Þeir eru inni í kofanum. Þeir eru ástfangnir.
Gesturinn: — Mundu þeir koma út, ef ég gæfi þeim nokkrar hnetur?
Vörðurinn: — Munduð þér gera það í þeirra sporum?

Á Heimatorgi:
Tveir rosknir Eyjaskeggjar stóðu á Heimatorgi, þegar fram hjá þeim arkaði þrýstin blómarós í nankinsbuxum. Mikill asi var á henni. Þeir virtu baksvip hennar fyrir sér. ,,Mikið gengur nú á,“ varð öðrum þeirra að orði. „Já, það má segja,“ sagði hinn, „þetta er eins og tveir strákar í áflogum undir teppi.“

Myndin af mér.
Ég kom í hús. Meðan ég var að tala við frúna, tók ég eftir því, að hún Gunna litla dóttir hennar var önnum kafin með blýantinn sinn og pappírsörk. Hún mældi mig öðru hverju með augunum.
„Hvað ertu að gera, Gunna mín?“ spurði ég. „Ég er að teikna mynd af þér,“ sagði Gunna. Ég gladdist við og sat kyrr til þess að auðvelda henni myndgerðina. Eftir stundarkorn hristi hún höfuðið óánægð. „Æ, hún er ekki góð,“ sagði hún, „ég ætla að setja á hana rófu og gera úr henni hund.“

Í svefni.
Hjónin voru í fasta svefni. Um þrjúleytið dreymdi konuna að hún væri á leynilegu stefnumóti með öðrum manni. Þá fannst henni maðurinn sinn koma, og hún æpti upp úr svefninum: „Guð minn góður, maðurinn minn!“
Maður hennar hrökk upp við þetta og þaut í ofboði út um gluggann.

Ekki skyldunám.
Í heimavistaskóla hagaði svo til að stúlkurnar bjuggu í húsi andspænis húsi því, sem piltarnir bjuggu í, og vissu gluggarnir hver á móti öðrum. Piltarnir gleymdu stundum að draga niður gluggatjöldin. Eitt sinn fengu þeir svohljóðandi bréf frá stúlkunum: „Heiðruðu skólabræður, við mælumst til þess eindregið, að þið gleymið ekki að draga gluggatjöldin fyrir á kvöldin. Við höfum ekki áhuga á námskeiði í líffærafræði.“
Piltarnir svöruðu undir eins með stuttu bréfi: „Kæru skólasystur, það er engum skylt að taka þátt í þessu námskeiði, ekki ykkur heldur.“

Eiginkona segir við manninn sinn, sem er að fága golfkylfurnar sínar fyrir sumarið: „Vel á minnzt, væni minn, til þess að vera viss um, að þú stingir upp garðinn fyrir mig, þá gróf ég 20 beztu golfkúlurnar þínar hér og þar niður í hann.“

Ekki orðinn nógu gamall í starfinu.
Rafvirkjameistari var að vinna og hafði nýja nemandann sinn með sér.
„Heyrðu,“ sagði nemandinn, „borgar húseigandinn fyrir mína vinnu líka?“
„Auðvitað,“ sagði meistarinn.
„En ég hefi ekkert gert ennþá, sagði nemandinn.
Meistarinn hafði verið að lýsa sér með kertaljósi við vinnuna.
„Hana,“ sagði hann önugur og rétti nemandanum kertið. „Slökktu þá á kertinu því arna, svo að þú gerir eitthvað. Þessi ótætis samvizkusemi hverfur síðar, þegar þú eldist í starfinu.“

Ókurteisi.
Málgefin kona sagði manni sínum frá konu, sem hún hafði hitt.
„Hún kunni ekki nokkra mannasiði,“ sagði hún. „Hugsaðu þér, hún geispaði ellefu sinnum, meðan ég talaði við hana.“
„Hún hefur ef til vill alls ekki verið að geispa, væna mín,“ sagði maðurinn. „Ef til vill hefur hún aðeins ætlað að reyna að segja eitthvað.“

Móðir og barn.
Sigga litla er í mömmuleik með brúðuna sína.
„Ef þú verður ekki þæg, Dísa,“ sagði hún við brúðuna, „þá færðu ekki að fara með mér niður í bæ. Og ég er ekki eins og hún mamma, sem segir bara þetta, en tekur mig svo með sér samt.“

Hjá mannætum.
Skip lenti við eyju, þar sem bjuggu mannætur. Skipstjórinn varð undrandi, þegar hann sá trúboða koma í eintrjáningi út í skipið.
„Hvernig í ósköpunum hafið þér komizt hjá að lenda í pottinum hjá mannætunum?“ spurði skipstjórinn.
„Það er auðvelt,“ sagði trúboðinn. „Ég er með gervifót úr korki. Undir eins og ég kom í land, skar ég sneið úr korkfætinum og gaf höfðingjanum. Hann setti sneiðina í pottinn og komst að raun um, að hún var ekkert sælgæti.“

Óglæsileg framtíð.
Lóa litla: „Mamma, ef ég giftist, þegar ég er orðin stór, verð ég þá að giftast manni eins og honum pabba?“
Móðirin: „Já, væna mín.“
Lóa: „Og ef ég giftist ekki, verð ég þá piparmey eins og Jóna frænka?“
Móðírin: „Já.“
Lóa: „Ég vil ekki verða stór, mamma.“

Telpan (að borða egg): ,,Eggið mitt er kalt.“
Bróðirinn: „Það er mitt líka.“
Telpan: „Kannski mamma hafi soðið þau í köldu vatni?“

Góði guð!
Einu sinni var drengur, sem þótti góður sykur, og var gjarn á að taka sykur hjá móður sinni. Mamma hans vildi venja hann af þessu með því að segja honum, að það væri ljótt að stela og Guð sæi til hans, þó að aðrir gerðu það ekki, og hún faldi fyrir honum sykurkarið.
Litlu seinna ákvað hún að reyna hann, lét sykurkarið á borðið og faldi sig bak við hurð, þegar drengurinn kom inn. Hann stanzaði og horfði um stund á sykurinn. Síðan spennti hann greipar og sagði: „Góði Guð, viltu aðeins fara út!“ Svo fyllti hann í skyndi munninn á sér með sykri, spennti svo aftur greipar og sagði: „Góði Guð, nú máttu aftur koma inn.“

Þetta síðasta!
Ungur maður var lagður inn á sjúkrahús í Eyjum og skyldi skerast upp. Á sjöunda degi kom hjúkrunarnemi inn til hans. Hún var auðsjáanlega ný í starfinu. „Ég átti að búa yður undir nóttina,“ sagði hún, „en þér eruð fyrsti sjúklingurinn minn. Hvað á ég að gera fyrir yður?“
„Það er auðvelt að segja yður það,“ sagði sjúklingurinn, „fyrst hristið þér svæfilinn minn, nuddið síðan á mér bakið úr spritti og síðast bjóðið þér mér góða nótt með kossi.“
Hjúkrunarneminn vann þessi verk svo, að sjúklingurinn var mjög ánægður. Þegar stúlkan kvaddi, snéri hún sér við í dyrunum og sagði: „Ég þori að fullyrða, að þetta síðasta hefi ég ekki átt að gera.“