Blik 1953/Liðskönnun
Lengi hafði ég hlakkað til að heimsækja nemendur Gagnfræðaskólans í nýju byggingunni og framkvæma þar hina árlegu liðskönnun mína.
Litla Gunna, vinkona mín, hafði eitt sinn rekið nefið inn um gættir þar, meðan á ræstingu stóð, til þess að fá efni í sögu með næsta kaffibolla. Hún lýsti síðan þessu öllu fyrir mér. Fyrst var gangur mílu langur, svo var gangur ógerður, og í hinum endanum var líka gangur, mjór og langur og inn af honum var annar gangur. Svona lýsti hún því. Nú, var þá byggingin aðeins gangur og ekkert nema gangur? Nei, hurðir voru þar einnig, sagði hún, og hinumegin við hurðirnar voru skonsur með borðum og stólum og svörtu málverki á einum veggnum. Þá sá hún einnig myndir af einhverju fólki, sem hún hélt helzt, að aldrei hefði verið annað en höfuðið og bringan. Hottentottar frá miðöldum, lét hún sér til hugar koma, því að þeir höfðu aldrei verið eins og annað fólk, það vissi hún Litla Gunna; það hafði hún lesið á prenti, sagði hún.
Ég hugsaði mér að leita lags og gægjast inn um gættirnar, þegar vel stæði á og lítið bæri á. Langleggjaður maður í 3. bekk, dökkhærður, var á verði fyrir mig.
Nokkru fyrir páska lét ég svo verða af því að arka suður í skóla. Þetta er rétt steinsnar frá Brekanum, þar sem ég bý.
Ég fór hulduhöfði, eins og ég er vön, því að ég óska að dyljast, svo að bæjarblöðin nái ekki í skottið á mér.
SKÝRING VIÐ MYND TIL HÆGRI.
Röðin niður vinstra megin:
1. Hljómsveit nemenda leikur á ársfagnaði skólans 1. des. s.l.
2. Á Grímudansleik skólans.
3. „Vofan" á grímudansleiknum sveiflar sér í dansinum.
4. Gríman er fallin.
Röðin niður hægra megin:
1. Þeir, sem verðlaun hlutu fyrir ódýran en þó athyglisverðan búning á grímudansleiknum. Frá vinstri: Guðmundur Karlsson, er hlaut 1. verðlaun. Lék uppskafning (Bör Börson?); Ólafía Ásmundsdóttir, er hlaut þriðju verðlaun (Nóttin); Gylfi Guðnason, er hlaut önnur verðlaun (Þríhöfða þursi).
2, „Marzbúinn“ á grímudansleiknum.
3. Dansæfing í skólanum. Ástþór og allir hinir eru í essinu sínu
4. Söngsveit námsmeyjanna syngur á ársfagnaðinum.
Þegar ég beygði út af Dalaveginum vestur að skólabyggingunni, greip mig einhverskonar minnimáttarkennd eða hvað það nú var, þegar ég nálgaðist þessa glæsilegu skólabyggingu. Þrátt fyrir háan aldur og öll gráu hárin, kvelst ég stundum af feimni og einræningshætti, eins og ungmenni á gelgjuskeiðinu.
Fyrst urðu fyrir mér norðurdyr. Þar hitti ég þéttvaxna, ljóshærða stúlku úr 1. bekk B. Hún hafði sofið yfir sig og dró ýsur við dyrnar. Í tuttugasta skiptið kom hún of seint í skólann þennan morgun, sagði Ella mér síðar.
Þessi litla tauta vísaði mér inn til Sveins eðlisfræðings, sem kenndi í 5. bekk einmitt á þessum tíma. Þar drap ég á dyr og hlaut hýsingu. Hér skyldi nú hin árlega liðskönnun eiga sér stað. — Ég skyggndist um. Hlýleg stofa og snyrtileg í alla staði. En hvað um nemendurna? Jú, ekki verður annað sagt, en að piltarnir séu mannvænlegir, stórir, fimir og stæltir, enda íþróttamenn miklir og slyngir loftkastamenn og kaðlasprangarar, eins og Sigurhanna orðar það. Fljóð bekkjarins eru fögur og flest í góðum holdum. Lýsið og hafragrauturinn leynir sér ekki á öllu holdarfarinu, enda þess neytt frá blautu barnsbeini. Það sagði Helena mér. Litarháttur meyjanna er ljós og fagurlega skiptandi, svo að ég hreifst af. Hér er honum ekki spillt með reykingum eða drabbi. Heilbrigðar svannasálir í lofnarhlýjum hömum yndislituðum, hugsaði ég. Mig undrar ekkert, þó að Hreinn, Aðalsteinn og allir hinir séu stundum utan við sig í návist slíkra skólanipta. Allt er þetta einkar eðlilegt og skiljanlegt lífsreyndum konum eins og mér.
Sá, sem hæst ber í 3. bekk að þessu sinni, er Ástþór, ættaður frá Laufási syðra. Í kroppsæfingum rekur hann jafnan lestina hjá Sigurði og gerir hann það af prýði mikilli.
Ástþór er afadrengur og skátaforingi, enda piltur prúður og duttlungalaus, heilbrigður í hugsun og háttum. Þó á hann það til að góla á ólíklegustu augnablikum. Ástþór er atorkumaður mikill og árrisull. Hirðir hann kýr afa síns daglega, áður en hann fer í skóla, meðan Erna sefur. Hann fer í fararbroddi skáta um Heimaey hvern sunnudagsmorgun, hvernig sem viðrar, og gengur þá í úlpu, svo að hvorki bíta hann austanveður né amorsörvar. Annars hefur hann yndi af ungum snótum, en elskar Ernu eina. Í tómstundum sínum þeytir hann horn fyrir afa sinn eða smíðar ausur fyrir ömmu sína. Hann er skápasmiður skólans.
Við hlið Ástþórs situr Eyjólfur kappi úr Laugardal, Eddi kallaður. Hann mun efni í þrjá menn alla jafn snjalla, kaupmann, matmann og málafærslumann. Hyggst hann verða samnefnari þeirra allra. Er þá vel. Hann er hraustmenni mikið og veiðinn vel, enda hefur hann þrjú veiðihár í hvirfli sér, segir sessunautur hans. Hann les eins og hestur og er þá ekki lambið við að leika. Þess á milli er hann kátur, skemmtinn og skrafdrjúgur. Hann gengur jafnan á rauðri blússu, sem kvað vera skorin og saumuð fyrir austan járntjald. Eddi á skjalatösku mikla, sem geymir m.a. uppgötvanir hans um lærifeður sína og annan fróðleik. Hann heldur því fram, að nefið sé helzti fróðleiksgeymir hvers manns, en ekki heilinn. Hann ber nafn Eyjólfs ábóta Pálssonar í Veri.
Að baki Edda situr Eymundur inn sterki. Hann er maður mikill og ákaflega þreklegur. Er hann kominn í beinan karllegg af Þorkeli inum svala úr Höfða, föður Hlenna. Eymundur er augnayndi ungra svanna, er bráðna fyrir blíðu brosi hans. Hildur spáir því, að Eymundur verði annað tveggja járnsmiður eða aflraunamaður, nema hvort tveggja verði, og vill hún fá hann í Landeyjar.
Við hægri hlið Eymundar situr Karl, kominn af Vermundi auðga. Hann er vaskleikamaður inn mesti, málsnjall vel og forvitri, en hægur og þögull hversdagslega. Hann skortir aldrei tíma og miðlar honum tímaleysingjum, enda útsölumaður Tímans um langt skeið. Í hugarinni hans skipar dönsk hefðarmey öndvegi. Hún á hug hans allan, þess vegna fær Hildur jafnan frosið skjálgsbragðið, þegar hún girnist hýrri tillita.
Í sólarátt af Karli inum forvitra situr Gylfi goðumþekkur. Hann rekur kyn sitt til Hafliða Snorrasonar, þess, er týndist með Ásmundi kastinrassa stýrimanni af Grænlandi, er um getur í Sturlungu. Gylfi er meðalmaður á hæð, holdskarpur og skáld gott. Einnig er hann vel að sér í öðrum íþróttum. Venjulega er hann einhöfða, en þríhöfða á stundum, en þeir höfðar eru fágætir nú á dögum, sem kunnugt er.
Gylfi er fagureygur og fráneygur og freistar því sumra íturvaxinna fljóða á fjórða bekk. Gylfi er gulltennt gáfnaljós og gæðablóð.
Ameríkumegin við Gylfa situr Guðbrandur í brúnni blússu. Hann er kristilega kynjaður, kominn af Agötu Helgadóttur abbadís í Kirkjubæ. Guðbrandur er fjárgæzlumaður málfundafélagsins og varaklukkari skólans. Kunnastur er hann þó fyrir öll sín kerfi í kroppnum. Þar er Atlaskerfið frægast og áhrifaríkast. Það veldur dýrkun hans á Mary Ford. Guðbrandur er eðlisfræðingur góður og reiknar sem þríhöfða þurs, hratt og mikið og rétt stundum.
Næst Stórhöfða sitja þeir Sigurður og Eyvindur, garpar miklir.
Sigurður er þrjár álnir danskar og þrjú kvartel um herðar, sem þar stendur, og hár að sama skapi, enda á hann rætur að rekja til hinna mestu sægarpa og sjósóknara, sem komnir eru af Halldóru húsfreyju í Vestmannaeyjum, er um getur í Biskupasögum, og bjó að Skuld fyrir neðan heiði.
Eyvindur er myrkhár mjög og tinneygur, hreggsnarpur og hraðgengur. Formóðir hans var Árný knarrarbringa af Keltum komin. Afkomendur hennar, sem vitað er, hafa jafnan verið manna mest keltneskir á húð og hár, þó að getnir hafi verið af mönnum með hánorrænan litarblæ. Eyvindur er íþróttamaður mikill og röskur til allra verka. Sérgreinar hans eru danska, bifvéladælur og gírkassar.
Út við suðurvegg gegn sól og sumri situr Sigurhanna í sætum hjúp. Hún er þung og traust og enginn veifiskati, enda á hún til traustra að telja, þar sem er Ívar beinlausi Ragnarsson annarsvegar, en hinsvegar séra Ásgeir, kallaður auraprestur, er var skartmaður mikill og manna listugastur, sem skráð er.
Trúmansmegin við Sigurhönnu situr Guðlaug í grænni kápu. Hún hefur dafnað mæta vel um dagana og ber þess sjálf glögg merki. Guðlaug er gædd ríku ímyndunarafli og skáldlegum hneigðum. Hún er tápmikil sem Tarzan og römm að afli sem rekkar þeir, er hún rekur kyn til, svo sem þeir nafnarnir Björn stallari og Björn bríkarnef, gestahöfðingi.
Í þriðju röð Rússlandsmegin situr Erna nokkur Jóhannesdóttir. Hún er augnayndi bekkjarins sveina, ótti þeirra og angist. Rjóð er hún og broshýr og lætur sér ekki allt fyrir brjósti brenna. Bernskuhugsjón hennar var trumbusláttur, en nú hugsar hún einvörðungu til húsmóðurstarfanna á inum laufga ási. Erna er dökk sem nóttin og tíguleg sem sjálf Afrodite.
Ernu til vinstri handar situr Ágústa in gullinhára. Hún er hlý og björt sem morgunsólin og háttprúð sem hefðarmey. Hún er raforkumálasérfræðingur bekkjarins og óútreiknanleg gagnvart piltum í landsprófi, því að hún er þögul sem nóttin, dul og dreymandi. Brámánar hennar eru bjartir og skínandi og heilla höldasyni.
Aðalsteinn í okkurgulri peysu er piltur nefndur, Brynjúlfsson. Hann er lipurmenni hið mesta, ljóshærður að framan en jarphærður aftan fyrir. Aðalsteini þessum er margt til listar lagt: hann er tónskáld og gítarmakari, fimleikamaður mikill og mjög lesandi, náttúruskoðari og leikritasemjari, Þórunnari og þolgóður í hverri raun; þundur ála bála ágætur og efni mikið. Hann er formaður málfundafélags nemenda og situr í miðdepli deildar sem vera ber.
Framanvert við tónskáld bekkjarins, nær Niflheimum, situr Guðmundur hreini niður Aðalsteins. Hann rekur kappakyn sitt í móðurætt til Rögnvaldar Mærajarls, föður Göngu Hrólfs af Mæri, en föðurkyn hans verður lengst rakið til Guðmundar Þorvaldssonar ins dýra, goðorðsmanns á Bakka, et var vinur mikill Snorra bláhatts Þórarinssonar grautnefs, sem kunnugt er. Guðmundur hreini er hugsuður bekkjarins og heimspekingur, sem situr oft í þungum þönkum sem heillaður væri af Helenu eða öðrum yngismeyjum mjög vænum.
Eigi fjarri Guðmundi hreina situr Hildur höldardóttir úr Landeyjum. Hún er kvenna fríðust og skörungur mikill og firðaljómi. Hún er hringjari skólans og umsjónarmaður bekkjarins, bráðgjör og bætandi, traust en mild húsmóðir á sínu heimili. Henni lúta allir af þekkum huga.
Fremst gegnt dyrum situr Guðmundur Þórarinsson, Týsi kallaður, því að hann er í Tý. Hann rakar sig daglega og veitir ekki af. Hann er eljunar maður mikill og hefur ríka trumbuslagaranáttúru, sem hann á kyn til. Svo var og um Aron kjúkabassa, forföður hans, sem vitað er af fornum fræðum. Týsi er drengur í orðsins beztu merkingu, vinnuþjarkur mikill og verkmaður góður, þrjár álnir er hann á lengd, en aðeins þrjá þumlunga um herðar. Buxnaskálmar hans sanna hið fornkveðna, að barnið vex en brókin ekki. Týsi er spaugsamur og æringi mikill, þegar því er að skipta, en stilltur vel hversdagslega.
Rasshandarmegin við Týsa situr Halldór nokkur úr Danabyggðum. Hann kvað vera mælskumaður mikill og orðheppinn, og iðkar hann japanska glímu við sjálfan sig og hnefaleika. Halldór er kroppinhár, köttur liðugur og styrkur vel, svo sem voru föðuráar hans, Skeggi messudjákn og ráðsmaður að Hólum og þeir kórbræður aðrir, sem frá greinir í fornum kirkjuritum.
Að baki Halldóri og honum til hugarléttis situr Helena Björg, háttprúð meyja og þekkileg með spékoppa í báðum kinnum. Hún er prýði deildarinnar og engin piltafæla, eins og Hreinn komst að orði. Þá vildi sá orðvari dýrkandi innar háttprúðu ekki of mikið sagt hafa. Það er næstum fullvíst, að í fyrri tilveru var Helena undurfögur hafmeyja, er seiddi til sín svása seggi, sem hurfu þá í svalar unnir. Enn er hún söngelsk og söngvin, en syngur nú mest sálma og önnur trúarljóð, enda er hún goðkynjuð og vanadísar náttúru. Nú heillar hún hreina og aðra skapnaði norræns eðlis.
Skutbúi bekkjarins og skatna sómi er Guðmundur Karlsson, kynjaður af Flötum vestur. Hann er kaskur og knár, enda ekki smár vexti, fullhugi mikill og fastur fyrir. Hann er dulur og listrænn og leikari góður. Hefur hann hlotið frægð og viðurkenningu skólans fyrir gervi Bör Börsons og persónugerving.
Í hvatningarræðum til bekkjarbræðra sinna fullyrðir Guðmundur hið forna orð Grettis, að eigi skuli skuturinn eftir liggja, ef allvel er róið í fyrirrúmi. Frýr eigi skuturinn skriðar hjá Guðmundi.
- Gudda Gez.