Blik 1951/Villi og Nonni, saga
- Villi og Nonni
Jón, eða Nonni, eins og hann var oftast kallaður, var félagi minn og vinur. Við höfðum gengið í skóla saman og sem sessunautur hans kynntist ég honum persónulega. Hann var í alla staði fyrirmyndarpiltur, hár og grannur. Eini gallinn var sá, að hann var mikill á lofti, sérstaklega þegar íþróttir áttu í hlut. Þveröfugt var þetta með Villa, en hann dróst alltaf í skuggann, þegar Nonni var að stæra sig. Villi var lítill og snareygður strákur. Hann var einbirni, sem hafði misst föður sinn mjög ungur, svo að það má nærri geta, að hann hafði verið augasteinn móður sinnar. Hún hafði unnið fyrir heimilinu með saumum sínum, frá því að hún hafði misst fyrirvinnuna. Villi var orðinn svo hlédrægur í seinni tíð, að það kom ekki orðið fyrir, að hann kæmi með okkur á neina skemmtun utan skólans. Það var ekki til neins að inna hann eftir, hvernig á þessu stæði, því að hann eyddi því alltaf, með því að fara að tala um eitthvað annað.
— Prófinu var lokið. Við höfðum allir þrír náð góðu prófi og sumpart í því tilefni og sumpart vegna veðursins fengum við okkur skemmtigöngu. Við vorum í fyrsta flokks skapi með prófskírteinin upp á vasann, sem sýndu árangurinn af 10 ára starfi á skólabekknum. Eins og af sjálfsdáðum er okkur reikað niður að höfn. Þegar við nálgumst bryggjuna, heyrum við hrópað á hjálp frá bryggjusporðinum. Við tökum allir til fótanna, og þegar niður á bryggjuendann er komið, sjáum við lítinn dreng vera að busla í ísköldum sjónum. Mér varð ósjálfrátt litið á Nonna, bezta sundmann skólans, en hann stóð náfölur og glápti á tærnar á sér, og það var svo langt frá því, að hann hugsaði sér til hreyfings. Svona mátti ekki við búið standa og áður en ég vissi af, sá ég á iljarnar á Villa, en á meðan börðust tvö öfl innra með Nonna, sem ollu því, að það leið yfir hann þarna á bryggjunni. Hugrekkið var ekki meira en það, að hann hopaði þegar á hólminn kom. Á bryggjuna voru nú komnir tveir menn, sem hjálpuðu Villa með drenginn. Þeir voru furðu lítið dasaðir eftir volkið. Íþróttahetjan var nú að koma til sjálfs sín, en enginn gaf honum gaum. Það þarf ekki að taka það fram, að Villi var hetja þorpsins, og fagnaðarlætin urðu ekki hvað minnst, þegar faðir drengsins, Olsen kaupmaður, gaf Villa fimm hundruð krónur, sem verðlaun og gjöf fyrir hina frækilegu björgun. Aldrei hafði ég séð Villa jafn glaðan. Hann blátt áfram ljómaði af gleði.
,,Nú getur mamma fengið sér stigna saumavél, svo að ég þarf ekki að hjálpa henni að snúa þeirri gömlu,“ sagði Villi og roðnaði upp í hársrætur af gleði.
„Ég hefi víst talað af mér,“ sagði hann hægt. ,,Svo að þú hefur þá alltaf verið að hjálpa mömmu þinni, þegar þú þurftir alltaf að fara heim,“ sagði ég. „Já, mamma hefur barizt í bökkum við að halda uppi heimilinu, en nú upp á síðkastið hefur hún verið lasin og ég hef orðið að hjálpa henni, en guð minn, en hvað ég hef verið opinskár,“ sagði hann og hljóp frá mér í einum spretti heim. En það er af Nonna að segja, að stærilætið minnkaði til muna eftir þetta atvik, sem sýndi fram á, að það var ekki nema á yfirborðinu, en þegar til kastanna kom, guggnaði hann.
- Tryggvi Sveinsson,
- III. bekk.
- Tryggvi Sveinsson,