Blik 1951/Spaug o.fl.

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit 1951



SPAUG



Auglýsing.
Í veitingahússglugga í Seattle í Bandaríkjunum hékk auglýsingaspjald með svofelldri áletrun: „Frammistöðustúlku vantar. Hjónaband getur komið til greina, ef þörf krefur.“

Vinnuvísindi.
Hermannaflokkur við æfingu var að grafa skotgröf.
Liðþjálfanum líkaði ekki vinnubrögðin og þótti verkið sækjast seint.
Hann brá hendinni upp að munninum og hrópaði þrumuröddu: „Allir upp!“
Hermennirnir fleygðu frá sér skóflunum og klifruðu upp úr.
„Allir niður!“ hrópaði liðþjálfinn. Hermennirnir hoppuðu niður í gröfina aftur: „Allir upp!“ Enn klifruðu þeir upp úr. Þetta endurtók sig nokkrum sinnum, þar til einn hermannanna spurði, hvað þetta ætti að þýða.
„Nú,“ anzaði liðþjálfinn, „þið berið meiri mold á skónum upp úr gröfinni, en þið mokið upp með skóflunum. Niður aftur!“

Nærgætni.
Það var í anddyri veitingahúss. Hógvær lítill maður lagði hönd sína feimnislega á handlegg manns, sem var að klæða sig í frakka. „Afsakið,“ sagði hann, ,,eruð þér herra Smith frá Newcastle?“
„Nei!“ svaraði maðurinn óþolinmóðlega.
„E—einmitt,“ stamaði litli maðurinn, ,,sko til, ég er herra Smith, og það er frakkinn hans, sem þér eruð að fara í.“

Það gerir ekki svo mikið til.
Herforingi kom eitt sinn ásamt þjóni sínum til gistihúss í K. Eigandinn kom að máli við þjóninn og sagði:
„Við höfum því miður engin flugnanet yfir rúmunum, og er ég hræddur um, að herra yðar verði ekki svefnsamt. Getið þér ekki vakað og varið hann fyrir árásum flugnanna?“
„Hafðu engar áhyggjur út af því, karl minn,“ sagði þjónninn. „Fyrri hluta nætur verður hann svo fullur, að hann veitir flugunum ekki eftirtekt, en síðari hluta næturinnar verða þær of fullar til þess að ónáða hann.“

Innri röddin.
Prestur: „Hvenær heyrist innri rödd mannsins?“
Telpa: „Þegar gaular í görninni.“

—o—

Kennarinn sagði eitt sinn börnunum í skólanum, að þau skyldu teikna það, sem þau óskuðu að verða, þegar þau væru orðin stór.
Börnin byrjuðu þegar á þessu verki og virtist ákafinn mikill. Sum teiknuðu myndir af hermönnum, önnur af bílstjórum, flugmönnum, fínum stúlkum o.s.frv.
Kennarinn tók þó eftir því, að ein litla stúlkan studdi hönd undir kinn og virtist mjög hugsi, en teiknaði ekkert. Hann gekk þó til hennar og sagði:
„Veiztu ekki, hvað þú villt verða, þegar þú ert orðin stór, Anna litla?“
,,Jú, ég veit það,“ svaraði stúlkan, ,,en ég veit ekki, hvernig ég á að teikna það. Ég vil giftast.“

—o—

Hefurðu nokkurn tíma lent í járnbrautarslysi?
Já, það hef ég. Einu sinni þegar ég fór í gegnum neðanjarðargöng, þá kyssti ég óvart föður stúlkunnar í stað hennar. Ég lá í mánuð á eftir.

—o—

Ungfrú: Haldið þér, að það geti átt sér stað, að maður fái digra fótleggi af því að drekka mjólk?
Bóndinn: Mjög sennilegt — kálfar dafna vel af henni.

—o—

Konan: Ósköp varstu lengi, Guðmundur, að sækja fiskinn.
Maðurinn: Ójá, ég kjánaðist til að spyrja hana Tobbu Teiz, hvernig henni liði og það tók hana svona langan tíma að útskýra það.

—o—

Mamma: Komdu hérna Frank litli og kysstu nýju barnfóstruna þína.
Frank: Ég þori það ekki, mamma. Ég er hræddur við það.
Mamma: Hversvegna, elskan mín?
Frank: Pabbi kyssti hana í gærkvöldi og hún gaf honum utanundir.

—o—

,,Það var svo kalt, þar sem ég var,“ sagði heimskautafari einn, ,,að ljósið á kertunum fraus, svo að við gátum ekki slökkt á þeim.“
,,Hvað er það?“ sagði stéttarbróðir hans, ,,þar sem við vorum í fyrra, var svo kalt, að orðin frusu um leið og þau komu út úr munninum á okkur og við urðum að þíða þau til að vita, hvað við vorum að tala um.“

—o—

Úr stíl.
Hundurinn heitir húsdýr. Á öðrum enda hans er haus en á hinum rófa. Ef maður tekur í rófuna, opnar hundurinn kjaftinn og sýnir okkur tennurnar. Það eru víst sjaldan gervitennur í hundinum. Á hundshausnum eru tvö eyru, sem loka fyrir hlustirnar svo að óhreinindi fari ekki inn í þær.
Erlendar konur elska hunda, segir pabbi, en íslenzkar konur gefa þeim að borða. Það er lítið gagn af hundum. Þeir eru hafðir til þess að naga bein. Þeir hafa gaman af að elta hrafna og ketti, sem eru mestu óvinir þeirra.
Þegar ég var lítill, var hundur á sveitabænum, þar sem ég dvaldi. Hann hafði klær á fótunum, til þess að klóra sér með á kviðnum, en í kringum rófuna klóraði hann sér alltaf með framtönnunum. Sá hundur veiddí rottur, en át þær þó ekki.

Orð viturra manna.
Ef það kostaði 50 aura að horfa á sólina rísa, mundu 9/10 hlutar af íbúum jarðarinnar vera jafnan komnir á fætur við sólarupprás.

Hyggin eiginkona er kona, sem lætur manninn sinn lifa í þeirri trú, að hann ráði öllu.