Blik 1951/Liðskönnun

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit 1951



Liðskönnun


Suddakróki, 4. febr. 1951.

Sæl og blessuð, kæra vinkona.
Það hefir allt of lengi dregizt úr hömlu fyrir mér að skrifa þér dálítið fréttabréf héðan. Ég má biðja þig að fyrirgefa mér það sem venjulega. Margt er að frétta, þó að fátt eitt verði hér sagt.
Nú höfum við efnt til útgerðar í Gagnfræðaskólanum og er sjósóknin stunduð af miklu kappi. Ekkert annað kemst að í hugskoti mínu. Við gerum út rammefldan tólfæring, sem heitir Dorían. Þar verður hver fiskur gullsígildi samstundis sem honum er bylt inn fyrir borðstokkinn. Dóra Sif sér um það. Skipshöfnin á Doríunni er einstök hér í Eyjum, þar sem hana skipa horskir halir og mjúklyndar meyjar. Skipshöfnin skal vera tákn hinna komandi tíma um jafnrétti kynjanna.
Skulum við nú kanna liðið á Doríunni.
Skipstjórnarmenn eru tveir af hvoru kyni til þess að fullnægja öllu jafnrétti.
Um stjórnvölinn heldur jafnan inn rammhugaði Friðrik Fleetvoodfari, enda flýtur skipstjórablóðið í æðum hans. Hann er hertur á Halamiðum.
Honum til aðstoðar og yndisauka er in hugprúða og bjartlitaða mær, Margrét frá Þinghól. Yfir skipshöfninni allri svífur inn létti spaugsami andi hennar.
Margrét hefir sér skjaldmey eina, er Dorte heitir af dönskum ættum, kynborinn arfi ins gamla Atterdags. Hún er ið vænsta sprund með ljúfa ásjónu og léttan sefa. Hún hyllist til að ergja ástlynda sveina. Skipstjórnarmenn sitja jafnan á skorbita, hann stjórnborðsmegin, en hún til bakborða. Bakborðsmegin í skútunni rær in léttlynda mær, Ása. Hún er hnellin svanni og Doríunnar yndi. Hún hefur inn milda hlátur, er mýkir ið harðhugaða kyn, og er hún sólargeisli þess í svartabyljum vetrarvolksins. Stjórnmorðsmegin í skútunni rær Ásta. Hún er hánorræn að yfirlitum og hárprúð mjög, enda komin í beinan kvenlegg af Haraldi inum hárfagra.
Ásta er in milda vinstri handar vanadís, sem þyrstir í íþróttir og ævintýr. Svo mikla krafta hefur hún í kögglum, að skipskörlum hrýs hugur við fangbrögðum hennar. Hún dregur jafnan golþorska á gnoðarfjöl.
Í austurrúmi Doríunnar róa garpar tveir, tvíefldir kúlukastarar. Annar er hinn snjallrómaði Sveinn. Engar „beljur“ sofa, þar sem Sveinn fer. Hann syngur mikinn, iðkar íþróttir og leikur Litla í landlegum. Gegnt honum situr inn fróðhugaði Sigurgeir. Hann er sæsiklingaættar og sægarpur mikill og bobbmeistari á Doríunni. Sigurgeir er hrannar-yndi, en miðar öll sín mið við Múla.
Tvær ungmeyjar stinga við í austurrúmi, en ausa þess á milli. Þær heita Halldóra og Soffía. Þær ausa Doríuna með spékoppum sínum. Halldóra er sú dís, er lík er inum ódauðlegu gyðjum. Söngur hennar er svo sætur og hreinn, að Soffía og inir himnesku englar taka sínar gullstrengdu hörpur, stilla þær og leika undir, er ljúflingsómar hennar stíga til himins.
Strengleikur Soffíu er svo töfrandi, að allar inar unaðslegu hafmeyjar sjávardjúpanna taka undir, er hún slær hörpu sína. Sjálf á hún ina hughrífandi englarödd, en syngur sjaldan.
Slógrúm Doríunnar skipa fjórar hvítarmaðar yngismeyjar. Jessý heitir ein þeirra. Hún er in töfrandi fagurlimaða trúðadís og öklaprúða mær Doríunnar og inn göfgasti kvenkostur.
Hún seiðir ,,þann gula“ með svásum söng og margrödduðum hljómum.
Inga á stuttkjól heitir in önnur í slógrúmi. Hún er in langa og mjóa baugalín, hláturmild, skrafgjörn með ið töfrandi blik í auga. Hún er handknattleiksmeistari Doríunnar, leggjalöng og limamjó og inn eftirsóttasti markvörður.
Árndís heitir in þriðja slógrúmsmærin. Hún er augasteinn allra inna ungu sægarpa á Doríunni. Þykir þeim sem hana skorti ekkert, sem til ins kvenlega indisþokka má telja og hyggja hana af ætt innar heilögu Venusar. Hin skapmilda, skemmtanafúsa þokkadís stundar veiðistarfið vel, er fiskin með afbrigðum, enda tilhaldssöm við ,,þann gráa“.
Þá er nú fjórða meyja slógrúmsins. Hún heitir Jóhanna, af austrænu kyni kappa og sævíkinga. Hún er in góðlynda, tízkukæra snót. Hún seiðir rafmögnuðu augnaráði og mildu brosi alla ina hugprúðu sveina. Inir beinvöxnu stertimenn bogna í návist hennar. Hún er seiðmögnuð á dansleikjum á Doríunni.
Í miðskipsrúmi sitja og starfa fjórir hreggsnarpir garpar. Þar situr stjórnborðsmegin inn krullinhærði Einar frá Berjanesi. Hann er köttur liðugur og íþróttaþjálfari eða „kroppaæfingamaður“ á Doríunni. Hann er inn mikli eðlisfræðingur, nema á kvenlegt eðli.
Við hlið Einars situr inn árrisuli Vigfús, sem elskar sína silfruðu vaðbeygju og dorgar jafnan fyrir flyðrur vænar. Í róðri snýr þar oft nef gagnstætt nafla. Vigfús er vanaættar og vænsti náungi.
Bakborðsmegin í miðskipsrúmi situr inn langleggjaði Magnús úr miðskóladeild. Hann er hástökksmeistari Doríunnar og stjörnuspámaður. Hann má nota fyrir miðskipssiglu, þegar því er að skipta.
Þá er þar og inn fílefldi Gísli Skotlandsfari. Hann er sækappi mikill, og inn frægi síldarfangari Doríunnar.
Í fyrirrúmi er blandað lið. Þar er Birgit in mikillynda og brosmilda. Hún er einskonar abbadís ins kvenlega hluta skipshafnarinnar. Hún iðkar ina ensku tungu af inni ítrustu list. Hún er kynjuð í beinan karllegg frá Háreki í Þjóttu Eyvindarsonar skáldaspillis af Hálogalandi og alsystir Margrétar skipstjórnarmanns.
Þar er einnig Dóra Sif, in tignasta meyja útgerðarinnar og féhirðir hennar. Henni verður allt að gulli og gimsteinum. Hún er „agalega“ indæl, þegar vel veiðist, — kappgjarn og traustur kvenkostur.
Þar er og Tryggvi, tápmikill sveinn. Hann er skíðameistari á Doríunni, skálkaskelmir og skáld gott.
Fjórði maður í fyrirrúmi er Helgi, inn hugumprúði halur. Hann á in hnyttnu svör og sprenghlægilegu, er hitta í mark. Hann er dagfarshægur og drengur góður.
Í andófsrúmi er Ármann æðstur, eins konar príor innar karllegu skipshafnar á Doríunni. Hann er inn mikli mælskumaður og söguþulur, sem skemmtir með list sinni í útilegum. Hann er inn lærði í landsprófsdeild.
Gegnt honum á stjórnborða rær in ljósháraða blómarós Selma, gáfnaljós útgerðarinnar og verndarvættur.
Þá er þar og inn verzlunarvísi kímnimeistari Guðmundur, sem leikur Stóra í landlegum. Vegna hæðar sinnar og stinnleika er hann in sjálfsagða framsigla til vara á Doríunni. Guðmundur gegnir mikilvægu trúnaðarstarfi fyrir skipshöfnina. Afkoma útgerðarinnar er í höndum hans að því leyti, að hann selur afurðirnar á „svörtum“ og annast nylonsokkakaup okkar meyjanna.
Í barkarúmi eru tvær inar búsnu bragareinar. Hervör og Guðrún heita þær. Sú in fyrri er úr Eyjum ættuð, komin af Ormi inum ánauðga Bárðarsyni Hárekssonar. Guðrún er vorsaættar. Er hún þrítugasti ættliður frá Úlfi inum vorska að Skálafelli, en síðar í Papýli. Þær annast grautargerð alla á Doríunni með horskum hölum tveim, Erlingi og Þóri. Báðir eru þeir kappakyns og berserkir miklir. Erlingur reiknar út stjörnur og strauma, en Þórir skopteiknar skipshöfnina. Í Krúsinni búa þeir Birgir og Jón Berg, báðir í Eyjum aldir og svalir í særoki. Jón er meistari í inni þjóðversku tungu og er fyndinn á fingramáli. Hann gefur brellin svör.
Birgir er ið göfga skáld skipshafnarinnar og höfðingi stafnbúa. Hann heitir umsjónamaður kappafansar og kvennavals. Þá er ekki fleira í fréttum, heillin góð.

Þín í eilífðinni,
Gudda Gez.