Blik 1950/Nokkrar minningar

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit 1950


Nokkrar minningar


Ég man, ég man ...
Minningarnar þyrlast upp í huga mér. Hvar á ég að byrja? — Ég veit, að ég gleymi aldrei vetrunum, sem ég stundaði nám í Gagnfræðaskólanum, og öllu, sem þá gerðist.
Alltaf man ég, þegar Vigfús einu sinni sem oftar var kallaður upp að töflu og Dengsi raðaði heilli tylft af teiknibólum á stólinn hans. Svo þegar hann kom aftur, glaður og hreykinn yfir því, hve vel hann stóð sig, og hlassaði sér niður á stólinn, en maður lifandi, — þau óhljóð. En hann setti met í hástökki fyrir vikið. Líklega hefur Dengsi fengið varanlegan mínus í manndáðareinkunn sína. Já, það var margt, sem skeði í tímunum.
Einu sinni í reikningstíma hjá skólastjóra, fundum við það á okkur, ég og Sjöfn, að nú myndi hann bráðum taka okkur upp að töflu. Við hugsuðum okkur því gott til glóðarinnar, hættum við dæmið, sem við vorum með, hlupum yfir síðasta dæmið í æfingunni og byrjuðum á næstu æfingu. — Svo kom hann til okkar: „Jæja, stúlkur mínar, hvernig gengur það?“ spurði hann. „Ágætlega,“ sögðum við, „er þetta ekki rétt?“ Hann leit á dæmið hjá okkur og sagði: „Já, en eruð þið komnar svona langt? Eruð þið búnar með hina æfinguna?“ „Nei, ekki síðasta dæmið,“ hálf hvísluðum við í þeirri von, að hann heyrði það ekki. En það fór ekki fram hjá honum. Hann sagði ekki neitt, hugsaði bara sitt og kímdi. — Nú voru þeir búnir, sem upp við töflu voru, og þá sagði skólastjóri með dálítið ertnislegu brosi: „Eigum við ekki að fá Önnu og Sjöfn til að taka síðasta dæmið í æfingunni?“
„Þetta var svo sem eftir honum,“ sögðum við báðar, sveittar af skelfingu. En upp að töflu urðum við að fara, og einhvern veginn klóruðum við okkur fram úr því, sem betur fór. Annars lifðum við í sífelldri skelfingu í tímunum hjá skólastjóra, hann var alltaf að „taka okkur upp“. En þó að ég væri stundum örg út í hann (það var, þegar ég hafði lesið illa), þá er ég honum þakklát núna, því að það verð ég að viðurkenna, að við lærðum hjá honum. — Og spennandi var það.
Það var hávaði í skólastofunni í hléunum þá daga, sem við áttum að skila heimadæmunum. Allir töluðu hver í kapp við annan: „Gaztu öll dæmin? Hvernig fórstu að því? Lánaðu mér bókina þína?“ Þetta og annað því um líkt hljómaði um stofuna, svo að maður fékk hellu fyrir eyrun.
Og það var gaman í íslenzkutímunum, sérstaklega í lestrartímunum, t.d. þegar við vorum að lesa „Jón hrak“ eða hið eldheita ástarkvæði Jónasar „Ferðalok“. Já, það var gaman. Þá var skólastjórinn í essinu sínu, annars vegar gáfaða, misskilda olnbogabarnið, hinsvegar ástin, — ástin. Þá var dillað og brosað. Hún átti einhvers staðar hljómgrunn!
Alltaf man ég eitt sinn, þegar Sigurður átti að kenna okkur í fyrsta tíma og kom dálítið of seint, sem þó aldrei skeði annars, að ég man. Við sögðumst ekki vera að hanga þetta uppi í skóla, og hugðum til heimferðar. Þá kallaði einhver: „Hann er að koma!“ „Felum okkur,“ kallaði annar. Svo þutum við niður í kjallara. Litlu seinna kom Sigurður niður í kjallarann og spurði kurteislega, hvort við vildum ekki heldur koma upp og fá okkur sæti, heldur en að standa þarna. Auðvitað þorðum við ekki annað.
Hálft um hálft er ég hrædd um, að kennurunum hafi stundum orðið það á að brosa, þegar þeir fóru yfir stílana okkar, einkum í dönsku, þar sem þýðingin var stundum svona hálf skrítin, t.d. kraftaverk var þýtt kræftarbejde, og sveitastúlka svedepige. Já, það var margt skrítið, sem kom fyrir.
Og alltaf var gaman á skemmtununum. Aldrei gleymi ég 1. des. í fyrra, þegar ég og fleiri af yngismeyjum 3. bekkjar ösluðum upp í Gagnfræðaskóla í rennandi rigningu með höfuðklútana fyrir næstum öllu andlitinu. (Við vorum með nýlagt hár). Svo skeði það, að ein okkar rakst á skrímsli, æpti upp yfir sig, tók til fótanna og við á eftir. Seinna fundum við það út, að það hafði verið hestur, sem við rákumst á. Og vel skemmtum við okkur, það segi ég satt.
Margar góðar áminningar og ráðleggingar fcngum við af munni kennaranna í „hugvekjunum“. Þeir vissu sem var, að erfiðleikar og vandamál myndu mæta okkur á lífsleiðinni, og þeir gerðu allt, sem þeir gátu til að undirbúa okkur, svo að við gætum mætt þeim á réttan hátt. Við erum þeim öllum þakklát, því að þessar ráðleggingar hafa verið, eru og munu verða okkur til ómetanlegs gagns.
Og að síðustu þetta: Þær minningar, sem ég á frá Gagnfræðaskólanum í Vestmannaeyjum, eru einhverjar mínar allra björtustu, sem ég á. Megi heill og hamingja fylgja framtíð hans.

Anna Sigfúsdóttir,
Osló.