Blik 1949/Liðskönnun
- Liðskönnun
Hringt! — Já, Suddakróki, — halló! — halló! — ósköp heyrist illa, — halló — já, það er ég, — ha, Anna! Hvaða Anna? Anna í III. bekk, já, komdu sæl og blessuð. —Koma hvert? — Upp í skóla! Til hvers? — Ójá, þeirra erinda — kanna nýrun! Eigi þið nokkurn lauk handa mér, ef ég kem? — Nú, er Unnsteinn uppiskroppa, það var slæmt, en Gaukur þá? — Það hlaut að vera, að hann ætti eitthvað. Já, þá kem ég strax, — undir eins.
Svo arkaði ég í skyndi upp í Gagnfræðaskóla til þess að kanna liðið í 3. bekk.
Í hinu fornfálega fordyri skólans mætir mér hár og spengilegur æskumaður og hárprúð og aðlaðandi yngismeyja. Þetta er móttökunefndin. Hann heitir Haraldur og er píanósnillingur, en spilar annars á öll hljóðfæri — frá hárgreiðum upp í þokulúðra. Hann er líka aflraunamaður með stæltan og hertan líkama, sem þolir allt að 1 ° frosti, ef hann er í duggarapeysu.
Yngismeyjan heitir Anna og er fögur og rík, flugmælsk og söngvin. Hún hefir samið valsa við alla málfræðina og spilar undir á gítar, þegar hún syngur hana, enda hefir hún fagra rödd og seiðandi. Þá dansar Sjöfn hin dáðrakka, svo að dunar í fellum og hriktir í hafnargörðum. Sjöfn er söngelsk og syngur daga og nætur alla „slagara“ með tilbrigðum, svo að munar allt að hálfum tón. Vaxtarlag pilta og göngulag er henni fyrir öllu og soðin ýsa. Þegar hún hóstar, kippist Þór jafnan við. Hann er vana kyns með vekjaraklukku í vasanum, stór og stæðilegur, orðheppinn og fyndinn, enda uppfinningamaður mikill og grúskari. Félagi hans og sessunautur er Árni gylltur í efri enda en gljáburstaður í þann neðri, snyrtimaður og kvennagull. Hann er innfæddur í húð og hár og íþróttamaður mikill. Ættir sínar rekur hann til mestu sundgarpa fortíðarinnar. Þegar Árni hafði öðlast þá ættfræðslu, tók hann til að iðka sund í baðkerinu heima.
Að baki Árna situr Perla hin prúða. Hún er augnagaman allra ungra sveina. Bros hennar töfrar, tælir og blindar, þó er hún sakleysið sjálft. Hún er fjörug og fyndin, spaugsöm og smellin. „Glókoll“ kunni hún utanbókar 5 ára gömul. Þess vegna hefir hún yndi af lokkum Árna.
Við hlið Perlu situr Bína hin gulltennta. Hún er liðug og léttlynd, spræk og spaugsöm og gáfnaljós. Hún er dalaættar en býr á Urðum.
Á sama bekk situr Lína, ljósmóðurefni skólans og skáldmær. Hún er drengur góður og dýravinur mikill, góðkynjuð úr Þingeyjarþingum og fram gengin á grasi góðrar sveitar.
Nokkru framar í deild situr Maggi mjög sterkur. Hann er íþróttamaður ágætur og gengur í nudd. Hann reiknar hratt og mikið og rétt stundum. Hann er sægarpakyns. Við hlið Magga situr Gaukur inn goðkynjaði. Hann er inn væntanlegi Olympíufari skólans, enda stundar hann íþróttir hjá hr. Mikson, drekkur lýsi til að styrkja kroppinn, etur lauk til að hreinsa magann og laugar sálina úr Coca Cola. Honum nærri situr gumi fríður, sem Hafsteinn heitir. Hann er sonur pabba síns, vandaður til orðs og æðis. Hann er skáld á bréf í tímum. Lágur vexti en lengist óðum. Órabelgur er hann mikill og situr á prjónum. Hann rekur liðinn tíma til lávarða. — Það gerir einnig Garðar nokkur, garpur mikill á fremri bekk, kominn af mærum múrmeisturum. Þar er einnig Unnsteinn af ætt járnsmiða, þó að hvítur sé á kítínið. Hann er kúlukastari skólans og kappi mikill. Hann er hnyttinn og spaugsamur, léttur í lund og lifir á lauk.
Gegnt honum situr Ingi nokkur einkasonur Óðins. Hann er íþróttafrömuður skólans og foringi. Námið er honum pynding, því að hann er skipstjóraefni, af sæköppum kominn langt fram í ættir með hugann á dýpstu vöstum daga og nætur. Hann snýr út og suður í sæti sínu eins og Jón hrak í gröf sinni, og þó hefur hann á sér höfðingjahátt eins og Bjarni bekkjunautur hans. Þessi Bjarni er talandi skáld og býr yfir miklu hugarflugi, enda þegar orðinn frægur flugmaður. Hann er „stælgæi“ mikill og stúlknagull eins og Einar skátahöfðingi á fremsta bekk. Báðir rekja þeir ættir til Orkneyjajarla.
Þá er þar Birna hin brosmilda, kvennaval og kær öllum, eins og Kristín, hin mikla maddama, sem heldur sér við hitann, þar sem hún breytir amlóðum í atorkumenn. Það þekkja bezt þeir kappar, sem hér eru ótaldir vegna tímaskorts og rúmleysis. Í þeim hefir Kristín kveikt kapp og hetjudyggðir.
- Fyrir þeirra eigin orð,
- með beztu kveðju
- Gvendur gallharður.
- með beztu kveðju
- Fyrir þeirra eigin orð,