Blik 1946. Ársrit/Á ferð og flugi

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit 1946


Á ferð og flugi


Kæru ungu menn og konur!
Skólastjórinn ykkar hefur beðið mig að skrifa nokkur orð í „Blik“, þar sem Tobba Teiz — vinkona mín og ástmey allra ungra sveina — er nú að fullu og öllu flutt yfir á sælulandið.
Mér er ljúft að verða við þessari beiðni að þessu sinni, og reyna þannig að vera sporgengill Tobbu frænku minnar og systur í kaffikönnunni.
Ég hef þá mál mitt með því að segja ykkur frá ferðalagi, sem ég tók þátt í með sveinum og svönnum annars bekkjar og fleirum eitt sinn í vetur.
Ég vakna með andfælum. Láki minn í Laka! Ég á ekki krónu. Er að verða of sein. Allir hanar á haugi, og ég kúri. — Ég þýt fram úr, smeygi mér í sokkana og smokra mér í kjólinn. Svo af stað með nesti og nýja skó. Ferðinni er heitið vestur í Hraunprýði, sælustað skátanna. Ég nudda stírurnar úr augunum og litast um. Sól skín á tinda. Eyjafjöllin blasa við í blámóðu morgunsins. — Mjallhvítan skalla Eyjafjallajökuls ber við bláloftin. Gnípur Tindafjalla eru hjúpaðar hvítum feldi nýfallins snæs. — Hekla skín við röðlinum, fagurhvít og tignarleg. Hún er að enda við að smokka sér úr náttkjólnum, — úðaslæðunni sinni.
Suður við kirkju mæti ég öllum hópnum. — Þar er Dúddi, og hefur orðið. Þar er Óskar gamanvísnasöngvari. Þar er Dúna, Stína og Nína, og eiga að dansa rumbu. Þar er Simbi og Bragi með banjó og trumbu. — Mættir eru þeir brúnstakkarnir Nonni og Palli. Ása og Steina, mildar og fínar, eru þar, og þar er lávarður, með rautt hár óklippt, nýkominn úr höfuðstaðnum. — Þar eru einnig mættir meistarar úr þriðja bekk, t.d. Bebbi með andlitspúðrið og olíustybbuna, Denni ökukappi, og allir hinir frægu, sem „Vikan“ gat um. Stúlkur eru þar með ástaróra, því að þar er piltur með trompet. Hæ, hæ, og þarna er Gaui með nikku og ný lög. Loks hitti ég Tóta í tenórnum. Hann tjáir mér, að allur „Ausukórinn“ sé mættur með nýja útsetningu af þjóðsöng bekkjarins, „Einn var að smíða“, eftir Hönnu Dísu. Ég fyllist fögnuði. Síðan er haldið af stað.
„Tónlistin er list listanna,“ sagði Stella og hnippti í Gauja. Það skildi hann og tók lagið.
Gaui spilaði fantasíur eftir F. Dúr og fúkur eftir D. Moll, ef ég kann að nefna það — og mörg önnur hergöngulög, en við gengum fylktu liði.
Vestur við hraunjaðarinn mættum við Halldóri bónda úr Vík. Hann var að brynna hrútunum sínum. Hann velti vöngum og undraðist ærsli æskunnar svo árla morguns. Síðar, þegar Einar skólaskáld sagði frá þessum atburði í ljóðum, kom það þannig í stuðlum:

Við sungum öll í sama dúr
með svanahljóðum fínum,
svo Halldór bóndi hellti úr
heyrnartækjum sínum.

Þegar að Hraunprýði kom, dró Happi upp lyklavöldin, — heldur rogginn, sá litli. En viti menn: Skráin var gengin úr lagi, svo að hurðin opnaðist ekki. Steig þá fram hinn óklippti og rak fót inn í gegn um hurðina. Svo var gengið í bæinn.
Þegar stund leið, kom í ljós, að okkar beið þarna karrý og kjötkássa, gúrkur og grænar baunir. Mikið var snætt, spilað og sungið, talað og hlegið.
Í þeirri andránni sem Ole paa Stationen var að renna niður tíundu karrýskeiðinni, heyrðist hár hvellur.
„Atómsprengja eða hvað?“ gall við Adolf lávarður. Könnunarliðið var sett á rás. Þetta reyndisi vera Sævar að sprengja línubelgi.
Klukkan 10 um kvöldið var gengið til náða. Þá höfðu lávarðarnir Lárus og Tryggvi tottað 11 pípur hvor, svo vitað var.
Ég kann svo ekki þessa sögu lengri. Þakka öllum ánægjulega samveru.

Gudda Gez.