Blik 1941, 2. tbl./Sara vann verðlaunin
Það er Þorláksmessukvöld. Á veginum, sem liggur í áttina til Straumvíkurþorps, er lítil stúlka á gangi. Göngulagið er þunglamalegt og yfir henni hvílir svo mikil alvara, að það er eins og allar heimsins sorgir séu samansafnaðar á þessar veiku herðar.
Sara hafði fyrir löngu síðan misst bæði föður sinn og móður. Engin systkini átti hún.
Fátæk, heimilislaus og munaðarlaus, stóð hún uppi í heiminum.
Hinar björtu sumarnætur hafði mosinn í íslenzku högunum oft verið hvíla hennar. Á veturna leitaði hún skjóls hjá góðu fólki eða í fjárhúsi. Þær nætur voru hinar beztu, fannst Söru. Hún lagðist niður við hlið einhverrar kindarinnar og ylurinn streymdi um hana.
Áður fyr, þegar þetta gerðist, var ekki mikið fengizt um hina svonefndu flakkara.
Þeir urðu að bjargast eftir beztu getu eða svelta heilu hungri.
Þetta kvöld vissi Sara ekki, hvar hún átti höfði sínu að að halla. Og aðeins eitt kvöld til jóla.
Enginn, sem hún mætti, veitti henni minnstu athygli. Allir höfðu nóg með sitt.
Örmagna af þreytu og hungri hné hún niður í snjóskafl.
Öðruvísi var það meðan mamma lifði. Þá átti hún hlýtt rúm og fékk nógan mat.
Við þessar endurminningar ýfðust upp ógróin sár. Tárin tóku að streyma. Hún grét og grét eins og munaðarleysingi einn getur grátið. Það er svo óendanlega mikill sársauki í þeim gráti.
Eftir veginum kemur kona gangandi. Hún er um það bil að ganga framhjá, þegar hún heyrir grát barnsins.
„Hversvegna ertu að gráta, vina mín?“ spyr hún blíðlega.
„Ó, mamma mín, hversvegna varðstu að deyja?“ snökti Sara, án þess að taka eftir hinni vingjarnlegu konu við hlið sér.
Konan lagði hönd sína á höfuð Söru: „Viltu koma heim með mér?“
Sara leit forviða upp.
Hún hafði oftast nær mátt sigla sinn eigin sjó og enginn sýnt henni vinahót.
Hún stóð á fætur og tók í hönd konunnar. Þær bar hratt yfir og innan lítillar stundar námu þær staðar fyrir utan lítið hús í útjaðri þorpsins. Þær stöppuðu af sér snjóinn og gengu inn.
Að innan hljómuðu glaðværir barnahlátrar. Þeir þögnuðu samt brátt, þegar umgangurinn heyrðist. Þrjú börn komu hlaupandi á móti ferðafólkinu.
Þau heilsuðu mömmu sinni og litu forvitnisaugum til Söru.
Eftir vanalegum mælikvarða hefði þetta ekki þótt fínt hús. En í augum Söru var þarna allt mjög ríkmannlegt.
Á hillunum stóðu látúnsstjakar og skinu og ljómuðu, nýfægðir og gljáandi.
Í einu horninu stóð grenitré og beið eftir að verða skreytt.
Við eldavélina stóð gamall maður og hellti uppá könnuna.
„Gott kvöld, Anna mín,“ sagði hann „hefir þú jólagest með þér?“
„Já, pabbi, ég fann hana liggjandi í skafli við veginn. Þar hefði hún sjálfsagt helfrosið, hefði ég ekki fundið hana.“
„Guð blessi litla jólagestinn okkar,“ svaraði gamli maðurinn og kinkaði kolli til Söru. Nú kom einhver inn. „Guðs frið í bæinn,“ sagði hann. Þetta var maður Önnu.
„En hvað þú hefir skemmtilega jólagjöf með þér,“ mælti hann og leit vingjarnlega til Söru.
Hún hlustaði á allt þetta og vissi hvorki í þennan heim né annan.
Hversvegna voru allir svona góðir núna? Jú! Mamma hafði einhverntíma sagt, að á jólunum væru allir menn svo góðir, af því að þá fæddist Jesú-barnið.
Kannske var þetta ástæðan.
En þetta var allt of dásamlegt, til þess að það gæti varað lengi.
En Sara litla var orðin alvarlega veik og varð að liggja í rúminu.
En nú skulum við hverfa frá þessum litla hamingjusama hóp og líta inn í annað hús í bænum.
Á hverju aðfangadagskvöldi var það alvanalegt í Straumvík, að heyra fátæku börnin segja hvert við annað: „Bráðum kemur seðillinn frá Helgu frænku.“
En hver var svo þessi frænka, sem átti svona marga litla frænda og frænkur?
Jú, það er einmitt hún, sem við skulum heimsækja.
Hún var skipstjóraekkja og bjó í stóru húsi í miðju þorpinu ásamt dóttur sinni.
Á hverjum jólum sendi hún fátækustu börnum þorpsins 10 kr. seðil hverju.
Þetta var kærkomin gjöf, og fyrir þetta hlaut hún nafnið frænka.
En eitt var sérstakt við þessa gjöf. Sá, sem bezt notaði hana,
fékk verðlaun frá Helgu gömlu.
Nú skulum við fylgjast með á hinni vanalegu jólagöngu gömlu konunnar.
Hún er komin að húsinu í útjaðri þorpsins, sem við könnumst nú orðið við.
Hérna er henni tekið með gleðiópi, eins og annarsstaðar.
„Jæja, Doddi minn“, segir Helga, „hvað ætlar þú að gera við þinn seðil?“
„Ég ætla að kaupa mér kind,“ mælti Doddi, sem var 8 ára og þóttist töluverður maður.
„En þú Elsa mín?“ „Ég ætla að kaupa mörg kerti,“ svaraði Elsa, sem var ári yngri en Doddi og ekki eins mikil búmanneskja.
„En þú Lalli minn?“ „Ég ætla að geyma þá og kaupa mér feikna margt, þegar ég er orðinn stór,“ mælti Lalli.
„En nú sé ég ókunnugt andlit,“ mælti Helga og leit á Söru. „Hvað
ætlar þú að gera við þína peninga?“
Sara varð snöggvast óttaslegin á svip. Síðan hvíslaði hún í eyra Helgu: „Ég ætla að gefa þá góðu konunni, sem hjálpaði mér.“
Gamla góða konan varð mjög snortin. Hún tók Söru í fang sér og þrýsti henni að sér. Síðan kvaddi hún í flýti og fór. Sara hafði unnið verðlaunin. Anna tók hana sér í dótturstað, en árlega fékk hún meðgjöf með Söru frá Helgu.
Svona gaf Guð Söru litlu gott heimili.
Hann er vinur og verndari munaðarlausra. (Stælt)
- Guðný Sigurmundard.
- 3. bekk.
- Guðný Sigurmundard.