Blik 1941, 2. tbl./Þjóðkynningarstarf í skólum

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit 1941


Ólafur Björnsson:

Þjóðkynningarstarf í skólum.


Þau tveggja vetra kynni, sem ég hefi haft af Gagnfræðaskólanum á Ísafirði, sem kennari þar, hafa sannfært mig um, að ísfirzk æska er ekki einungis hraust og tápmikil líkamsræktaræska, heldur einnig — og ekki síður — áhugasöm fyrir námi, vitandi það, að kröfur tímans um almenna menntun fara vaxandi og undan þeim verður ekki flúið. Þegar ég lít í huganum yfir þann hóp ungra Ísfirðinga, sem nú sækja ýmist aðra skóla eða eiga að skipa sitt rúm í ísfirzka veiðiflotanum, finnst mér ég skulda þeim maklegt lof.
Það var því óneitanlega með nokkurri eftirvæntingu, að ég kom hingað í fæðingarbæ minn.
En þau stuttu kynni, sem ég hefi haft af Vestmannaeyjaæskunni, hafa enn ekki orðið mér vonsvik. Og ég vænti þess, að svo þurfi ekki að fara.
Ég þykist hafa orðið þess var á þeim stutta tíma, sem ég hefi verið hér, að sitthvað sé svipað með Ísfirðingum og Vestmannaeyingum, enda eiga þeir um margt við lík skilyrði að búa.
Ég er þess fullviss, að þeir gætu margt hvorir af öðrum lært, ef þeim gæfist góður kostur á heppilegri kynningu.
Ísland er ekki stórt, — en þó svo stórt að hætt er við, að íbúar fjarlægra landshluta kynnist aldrei svo almennt sem vert væri og jafnvel nauðsyn krefur nú á tímum, þegar allir Íslendingar skyldu vera minnugir orðanna: „sameinaðir stöndum vér, sundraðir föllum vér“, ekki aðeins fyrir hættum, sem aðsteðja utan frá, heldur einnig innan frá. Ég treysti engum betur til að vera fulltrúar í slíku kynningarstarfi, en einmitt heilbrigðri, siðaðri æsku.
Menntamönnum margra þjóða er nú ljóst, að heppilegt kynningarstarf milli þjóðanna hefir grundvallarþýðingu fyrir friðsamlega menningarsambúð. Af þeim ástæðum hafa nú verið tekin upp stúdentaskipti milli háskóla framandi landa.
En væntanlega er þetta aðeins vísir að víðtæku kynningarstarfi, sem stuðlað gæti að vaxandi samúð og gagnkvæmum skilningi milli þjóða og samlendra manna.
Ég held, að hér bíði skólanna mikilvægt hlutverk. Það hefir verið venja, þegar ástæður hafa leyft, að efstu bekkir gagnfræðaskólanna færu í ferðalög á vorin, að loknu námi, til að kynnast betur landi sínu og þjóð.
Ég er þess fulltrúa, að slík ferðalög gætu haft framtíðarþýðingu, ef rétt væri að farið.
En hér er nýtt í efni. Ferðalögin mega ekki verða aðeins lausleg kynni af náttúru landsins, heldur einnig svo náin kynni sem við verður komið af öðrum landsmönnum. Ef stofnað væri til sameiginlegra ferðalaga tveggja skóla, næðu þau fyrst tilgangi sínum til fulls. Sjálf ferðalögin yrðu skemmtilegri, og endurminningarnar bjartari, en þó skiptir meira máli, að hér gæfist kostur á kynnum, sem glæddu skilning á því, að sameiginleg lífsbarátta og sömu örlög sameina hina íslenzku þjóð. Þau gætu þokað mönnum saman, hvar sem þeir annars stæðu í fylkingu, og skapað þá sönnu þjóðernistilfinningu, sem er dýpstu tilverurök hverrar þjóðar.
Ég hefi kosið mér að slá til hljóðs fyrir þessari hugmynd, án þess að gera að svo komnu frekar grein fyrir, hvernig hún yrði bezt framkvæmd.
Ég vænti þess, að hún finni hljómgrunn meðal nemendanna, en sé viljinn ótrauður, er skemmst til framkvæmda.
Það er hlutverk æskunnar að berjast hinni góðu baráttu fyrir nýjum hugsjónum til heilla fyrir land sitt og þjóð. Heill sé íslenzkri æsku, sem veit sitt hlutverk og vill rækja það.
Hún er það unga Ísland, sem framtíðin hvílir á.

Ólafur Björnsson.