Blik 1941, 2. tbl./Á síld

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit 1941


Erlingur Eyjólfsson:

Á SÍLD.


Sumarið 1940 fór ég á síld með vélbát héðan. Hann fór með síðustu bátum héðan og man ég, að mér þótti fyrir því, hvað lengi var verið að búa hann út á síldina, því að tilhlökkunin var mjög svo mikil. Jæja, loks var hann þó tilbúinn.
Það var í byrjun júlí. Ég var mjög sjóveikur tvo fyrstu dagana, eins og flestra óvaninga er vandi, en síðan fann ég ekki til sjóveiki .
Til Siglufjarðar komum við í blíðskaparveðri að morgni dags. Þótti mér fjörðurinn og kaupstaðurinn harðla undarlegir, einkanlega fannst mér eyrin, sem bærinn stendur á, einkennileg, þar sem við eigum ekki slíku að venjast hér. En þannig er víða fyrir Norðurlandi. Heldur fannst mér samt bærinn og nágrennið viðkunnanlegt.
Sérstaklega var ég hrifinn af Hvanneyrarskál, sem er nokkuð stór hvilft ofan í fjallið vestanmegin; en það er kannske aðeins vegna endurminninga um „rómantíska“ atburði á stjörnubjartri tunglskinsnótt. Það er fagurt um að litast úr Hvanneyrarskál á slíkum kvöldum. Fjöllin í suðri og austri með djúpum skörðum, og opinn fjörðurinn í norðri.
Bærinn fyrir neðan mann er baðaður í geislaflóði rafmagnsljósa og kolareyks frá skipum og verksmiðjum. Þar skiptast á skin og skuggar eins og í mannlífinu.
Á slíkum kvöldum hljómar skröltið í hjólvindum skipanna eins og „jassmúsik“ og eimblástur verksmiðjanna eins og einleikur á lúður í laginu. —
Það var á áliðnu sumri 1940 að fréttist af síld austur við Rauðunúpa og fór því allur flotinn þangað á veiðar. Þegar lagt var af stað, var blæjalogn og brimlaus sjór.
En þegar komið var að Mánáreyjum, var komin talsverð alda og byrjað að kula af norð-austri. Nú var aðeins stutt leið eftir í alla síldina. En kulurinn jókst jafnt og þétt.
Eftir stutta stund kom þetta alkunna: „klárir í bátana“, með fullum raddstyrk vaktmannsins.
Það varð uppi fótur og fit í „lúkarnum“. Nú koma þeir upp hver um annan þveran, sumir með stígvélin í höndunum á sokkaleistunum, aðrir komnir í þau, grútsyfjaðir sumir, aðrir glaðvakandi og ánægðir yfir því að hafa prettað náungann um nokkrar krónur í nýafstöðnu peningaspili.
Svo er farið í bátana og byrjað að kasta. Allt hefir gengið vel; síldin er „inni“, og það er byrjað að háfa. En vindurinn hefir alltaf aukizt og nú veltist báturinn þarna með nótina og nótabátana á síð­unni. Brotöldur hvítfyssa allsstaðar í kringum bátinn. Allt í einu lyftist „móðurskipið“ upp undan öldu og kastast til og síðan nótabátarnir og nótin. En þegar aldan ríður undan samflotinu og allt tekur dýfu ofan í næsta öldudal, verður síldin í nótinni svo þung í dýfunni, að hún sprengir af sér nótina og allt fer niður. En við sitjum eftir með nótina í höndunum hengilrifna og tætta.
Við slík tækifæri sem þetta leyfa allir sér að tína fram öll þau blótsyrði, sem finnanleg eru í málinu. Nú er ekki annað að gera en fara til Siglufjarðar og fá nótina viðgerða.
Óveðrið færist í aukana, öldurnar eru orðnar fjallháar, hvít fyssandi og hrykalegar.
„Matur,“ kallar matsveinninn. Allir fara fram úr „kojunum“ til að fá sér einhverja hressingu.
„Heyrðu kokksi, þú ert alveg ófær; nú hefir kjötið brunnið við hjá þér, svo að það er ekki étandi,“ segir einn hásetinn.
„Ég er nú á öðru máli,“ segir annar, „þarna fáum við svið úr nýju kjöti, ég hugsa, að þannig kokkar séu ekki á hverju strái, sem geta búið til svið úr nýju kjöti.“
Það er eitthvað undarlega létt yfir mannskapnum í dag, þeir fjörugustu fara að fljúgast á sér til skemmtunar. Jafnvel þegar illa gengur, geta sjómenn látið liggja vel á sér, — ekki sízt á leiðinni til Siglufjarðar, og skyldi enginn lá þeim það.

Ve. 14.—11.—1941
Erlingur Eyjólfsson.
(3. bekk)