Blik 1941, 1. tbl/Teknir í landhelgi

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit 1941


Teknir í landhelgi.


Það var nýbúið að taka togarann Rheinland í landhelgi. Vaktin, ég og annar maður til, var komin um borð. Skipstjórinn, lágur en þrekinn maður, spurði mig til hvers við værum komnir hingað út í skipið. Ég sagði honum, að við værum lögregla úr landi, sem ættum að gæta skipsins. Hann varð þá auðsjáanlega mjög reiður og hélt því fram, að hann væri saklaus, sagðist hafa verið tekinn í landhelgi tvisvar áður og þá hefði hann átt það skilið, en nú í þriðja skiptið, væri öðru máli að gegna.
Þetta sama kvöld, þegar dimmt var orðið, lét skipstjóri létta akkerum. Það var norðan rok og allmikið frost. Ég spurði hann, hvert hann ætlaði. ,,Nach Hamburg“ (til Hamborgar), svaraði hann. Ég skýrði það þá út fyrir honum, að það væri ekki leyfilegt, þar sem skipið væri nú hér undir lögreglugæzlu og sagði, að menn yfirleitt höguðu sér ekki svo í slíkum kringumstæðum. Hann kvað þetta vera algerlega einstætt tilfelli, sagði mér að hafa mig hægan, við þessir tveir menn um borð gætum líklega lítið hindrað burtför hans. Síðan kallaði hann á 7 menn upp í brú í viðbót og hringdi á fulla ferð.
Austur af Elliðaey lét hann stöðva skipið, lét losa bátinn í „uglunum“ og sagði mér, að hann ætlaði að láta okkur út í eyna, við skyldum fá tvær dósir af sardínum og nokkrar ýsur, ef við vildum, með okkur, svo við hefðum eitthvað að borða. Það var allmikill sjógangur og rok af norðri, og ég sagði honum undir eins, að ómögulegt væri að lenda við Elliðaey, brimið væri of mikið. Hann hló, greip fast um handlegginn á mér og skipaði okkur að fara út í bátinn, sem hékk í ,,uglunum“ við borðstokk skipsins. Eitt augnablik hvarflaði það að mér, hvort ekki væri rétt að hlýða, þar sem við ofurefli væri að etja, en þegar mér varð litið framan í félaga minn, sem var miklu eldri en ég og sá hina einbeittu, rólegu andlitsdrætti hans, þá tók ég ákvörðun mína. „Við reynum að verja okkur svo lengi, sem við getum,“ sagði ég nokkuð hás. „Verja ykkur!“ hló skipstjórinn. „Annar meistari!“ kallaði hann síðan, en þá heyrðist brothljóð, stór alda hafði náð bátnum, þar sem hann dinglaði við borðstokkinn og brotið hann nokkuð að ofan. Þá var hætt við Elliðaeyjarferðina.
Síðan var haldið til hafs. Tvö skip voru síðan stöðvuð, hollenzkur og þýzkur togari, sem voru beðnir að taka við okkur, en báðir neituðu.
Þegar við vorum komnir dálítið í norðvestur af Færeyjum, sneri skipstjóri við allt í einu og hélt til Eyja. Af hverju hann sneri við, veit ég ekki enn í dag, en hann virtist vera dálítið við skál, þegar hann gerði það. Hann var síðar sendur til Reykjavíkur og var þar í fangelsi í nokkra mánuði. Lýkur svo þessari sögu.


Carl Bender
hét togarinn, sem var nýbúið að taka. Það var þá rúmlega liðinn mánuður frá því að sá síðasti hafði verið tekinn í landhelgi. Vaktin fór um borð eins og venjulega.
Skipið leit sæmilega út, var vel hirt, en skipshöfnin virtist auðsjáanlega í slæmu skapi. Orð eins og „Junge, Junge“, (blótsyrði) og ýmislegt annað ekki betra, barst til eyrna okkar. Við fórum upp í brú.
Skipstjórinn, þrekinn maður, rúmlega fimmtugur að aldri, heilsaði mér með handabandi, og byrjaði síðan undir eins að skýra okkur frá því, hve hroðalegt óréttlæti væri hér á ferðinni, nefnilega valdtaka skips, sem ekkert hefði gert af sér. Hann sagðist vera alsaklaus, og mundi ekki þola það, að sér yrði haldið hér, að minnsta kosti ekki lengur en 2-3 klukkustundir. Slíkt væri ótækt. Ég hlustaði á manninn, svaraði sem fæstu, en tók það fram, að á meðan hann væri í landi, þyrftum við líklega að færa skipið, því blika sú, sem væri á suðvesturloftinu, spáði austan illviðri, líklega ofviðri. Hann sagði mér þá, að gat væri framan á skipinu, naglar hefðu losnað, kúla frá varðskipinu hefði hitt framstafninn.
Hann kom svo aftur um borð sama kvöldið. Hann var þá mjög æstur, skalf allur af reiði og taugaóstyrk og neitaði að fara með skipið inn fyrir Eiði, sagðist ekki skipta sér neitt af neinu, það væri bezt að láta skipið sökkva, þar sem það nú væri statt. Það var nú kominn allsnarpur vindur af austri, og sjórinn orðinn mjög ókyrr á „víkinni“ þar sem við lágum. Skipið rak nær landi og dró akkerin.
Þetta voru mjög óþægilegar kringumstæður. Að lokum klukkan eitt um nóttina í kolamyrkri, og þegar kominn var stórsjór, lofaði vélstjóri að hlýða þeim fyrirskipunum, sem við kynnum að gefa ofan úr brúnni. Skipstjóri var lagztur fyrir.
Síðan var byrjað að létta akkerum. Það gekk afar seint og leit um tíma út fyrir, að það mundi ekki takast, því að annað var fast orðið í botni. Við vorum komnir mjög nærri syðri hafnargarðinum. Á endanum tókst samt að létta, en skipið gekk sama og ekkert á móti storminum, sem var nú að verða að ofsaroki.
Við báðum vélstjórann að auka hraðann, en hann svaraði, að það væri ekki hægt, sökum þess að vélarúmið væri hálffullt af sjó; skipið læki svo að framan. Við komumst þó að lokum vestur fyrir Eyjar. Stormurinn var nú orðinn að ofviðri með öskuhríð, og þar sem þetta var í desembermánuði, þá höfðum við ekki mikið af dagsbirtunni að segja. Í þrjá sólarhringa geisaði ofviðrið, og þennan tíma var skipið látið reka vestur af Eyjum.
Skipstjórinn skipti sér ekki af neinu, hann lá í rúminu og sagðist vera veikur og hélt því fram, að bezt væri að sökkva skipinu; framtíð sín væri einskis virði, hann yrði dæmdur, sektaður og allt af sér tekið. Annar stýrimaður, sem var ungur maður, hafði mest af stjórn skipsins að segja. Einu sinni, kl. 4 undir morgun, vorum við rétt komnir inn á milli skerja þeirra, sem liggja í útsuður af Þrídröngum.
Allt endaði þó vel. Skipið var svo, þegar storminum lægði, látið inn á innri höfn og þar gert við það til bráðabirgða.
Skipstjóri komst að lokum á fætur. Hann hafði í raun og veru verið veikur og þar að auki eyðilagður yfir töku skipsins. Lýkur svo þessari sögu.

X.X.