Blik 1941, 1. tbl/Ein fjöður verður að fimm kollum

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit 1941


Þorsteinn Einarsson:

Ein fjöður verður að fimm kollum.
Lausleg þýðing og staðfæring á æfintýri
H.C. Andersens: „Det er ganske vist“.

Sólin var sigin eftir heitan logndag. Sjórinn sprakk vart við bergið. Fuglabjargið var að skipta um ham. Hinir erilsömu íbúar voru að taka á sig náðir og hjúfruðu sig saman á syllum og bekkjum. Aðeins við og við rumdi í fýl eða svartfuglafjölskylda hóf sinn gargandi kórsöng, er einhver síðbúinn meðlimur lenti og með álútu höfði tróð sér inn í „flatsængina“. En með grámóðu lágnættisins hófst vofuflug sæsvalnanna yfir graskollum bergsins og við og við skutust skrofurnar inn yfir bjargbrúnina af sjónum og gáfu mökum sínum komu sína til kynna með sínu hryssingslega „gag-ala-gæja! gag-ala-gæja!“
Neðstu klettasyllurnar, sem sjórinn þvær yfir, ef nokkur kvika er, og eru loðnar af sölvum og sjókræðu, voru nú víða kærkominn og þægilegur náttstaður fyrir æðarfuglinn, sem allan daginn hafði verið að veiðum úti á víkinni. Æðarfuglarnir, sem ekki áttu egg eða unga til þess að hugsa um, sátu nú þarna í ró og bjuggu sig undir nóttina. Þeir nudduðu fiðurhaminn og smurðu hann vandlega með meðfæddum fegurðarsmyrslum sínum, tíndu og kroppuðu af sér lausar fjaðrir, teygðu sig og göptu af vellíðan. Ofarlega á sjóflánum innar í víkinni, þangað sem brimið að sumrinu nær ekki til, lágu egglægjurnar á hreiðurkoppum sínum og þöndu sig yfir eggin. Við hreiðrin lágu blikarnir og virtu frúr sínar fyrir sér með vekþóknun og svip, sem aðeins þeir einir geta sett upp, er eitthvað eiga til eða hafa mektarstöðu í heiminum.
„Það er hræðileg saga,“ sagði allt í einu ein egglægjan. „Alveg hræðileg saga, sem er til skammar og svívirðingar fyrir hina göfugu ætt vora. Það er gott til þess að vita, að við erum svo mörg hér á flánni, og þú lofar mér því, góði minn, að fara ekki frá mér í nótt. Ég þyrði varla að sofa ein hérna.“ Og svo sagði hún þeim frá því, sem hún hafði heyrt um daginn úti á víkinni og henni sagðist svo, að fjaðrirnar risu á egglægjunum af skömm og fyrirlitningu.
En við skulum byrja á byrjuninni og snúa okkur aftur að sjóflánum, þar sem við höfðum skilið við ungfuglinn, þegar hann var að búa sig undir nóttina og strjúka af sér daginn. Það var einmitt svona kvöld hérna á flánni fyrir nokkrum dögum, að ein heiðvirð lágfætt og bústin æðarkollu-ungfrú — og það skal tekið fram, að hún var á allan hátt heiðvirð, — var að búa sig undir nóttina. En um leið og hún hafði verið að strjúka sig og kroppa, féll lítil fjöður af henni.
„Þarna losnaði þessi,“ sagði hún. „Því meir, sem ég kroppa mig því yndislegri verð ég.“ Þetta hafði hún sagt í glaðværð, því að hún var sú skapléttasta meðal geldfuglanna, og svo stakk hún höfðinu undir hægri vænginn og sofnaði.
Vorrökkrið hvíldi yfir flánni. Æðarfugl kúrði við æðarfugl. Sú, sem sat næst léttlyndu æðarkollunni, hafði heyrt til grannkonu sinnar, en hún hafði heyrt það, sem sagt hafði verið á þann hátt, sem sá má ekki heyra, sem vill lifa í samlyndi og friði í þessum heimi. Þessi léttlyndu orð héldu fyrir henni vöku alla nóttina og undir morgun varð hún að leysa frá skjóðunni við eina stallsystur sína:
„Heyrðir þú, hvað var sagt? Ég nefni engin nöfn og þú berð mig ekki fyrir því, en það er æðarkolla, sem kroppar sig til þess að líta betur út. Væri ég bliki, myndi ég fyrirlíta hana.“
Rétt fyrir ofan æðarfuglana á flánni áttu riturnar hreiðurhrauka. Á einum hrauknum sat ritumamma og ritupabbi með þrjá rituskerlinga. Ritumamma baðaði út vængjunum og sagði:
„Hlerið ekki! En þið hafið víst heyrt það, sem sagt var? Ég heyrði það með mínum eigin hlustum. Það er kolla, sem hefir gleymt, hvað kollu er samboðið. Að hugsa sér, að hún skuli kroppa af sér fjaðrirnar og það í augsýn blikans. Svei, en sú léttúð!“
„Prenez garde aux enfants,“ sagði ritupabbi. Þetta var á frönsku, sem hann hafði lært á síðustu vertíð úti á „banka“, en með þessu meinti hann: „Þetta er ekkert fyrir börnin.“
„Ég ætla aðeins að bregða mér hérna fram með byggðinni og heilsa upp á nokkrar vinkonur.“ Svo flaug hún. Sigg-gí-vegg — sigg-gí-vegg! gargaði hún nú yfir hreiðurhraukum nábúanna. „Hafið þið heyrt það? Hafið þið heyrt það? Það er kolla, sem reitir af sér allar fjaðirnar vegna blikans. En sú léttúð! Sigg-gí-vegg! Sigg-gí-vegg!“
Hvar? Hvar er þessi kolla?“ kurruðu riturnar.
,,Á sjóflánni, ég sá það næstum því sjálf, og þetta er saga, sem er neðan við virðingu heiðvirðrar ritu að segja frá, en hún er alveg sönn. Sigg-gí-vegg! Sigg-gí-vegg!“
„Trúum hverju orði, vinkona.“ Og svo görguðu riturnar, svo að svartfuglarnir, sem höfðu verið í hnipri fast upp að hver öðrum á skítugum, þröngum syllunum, vöknuðu, slógu til hausunum og hneigðu sig í sífellu og göptu af undrun:
„Það er kolla — sumir segja tvær —, sem hafa kroppað allar fjaðrirnar af sér til þess að líta öðru vísi út en hinar kollurnar og með því vekja á sér athygli blikans. Slíkt framferði er tvíeggjað sverð, og þær hafa líka fengið að súpa af því seiðið, því að þær eru báðar dauðar úr kulda og vosbúð.“
„Vaknið, vaknið! Ga-ga-gag-ga!“ rumdi í fýl, sem sigldi á svifflugi upp með fýlabekknum. Nóttin sat enn í skrokknum á honum, og þar sem hann sveif á þöndum vængjunum, hristi hann sig eins og votur hundur: „Það eru þrjár kollur dauðar af ást til blika þarna niðri á sjóflánni. Ga-ga-gag-ga! Þær höfðu reitt af sér allt fiðrið af eintómri ástleitni. Þetta er viðbjóðsleg saga, látið hana ganga, ég vil ekki sitja með hana, látið hana ganga.“ „Látið hana ganga — oh-oh-oh!“ muldraði í lundunum í lundabygðinni. Og lundarnir, sem voru nýkomnir innan úr holunum, til þess að gá til veðurs og athuga lífið ofan jarðar, veltu vöngum og reigðu sig, og skutust svo aftur inn í holur sínar, til þess að segja kellu sinni tíðindin.
Svona flaug sagan um allt fuglabjargið og út á víkina og þaðan til egglægjanna og hélt fyrir þeim vöku í heila nótt og setti gráar fjaðrir í fiðurham þeirra af gremju yfir léttúð heimsins og þeirri hugsun, að þær væru nú í óðaönn að framleiða nýja einstaklinga út í þennan spillta heim. Þegar sagan næsta dag barst á góma úti á sjóflánni, varð þar uppi fótur og fit: „Að hugsa sér,“ var sagt, „fimm kollur, sem hafa keppzt við að reyta af sér fiðrið til þess að sýna blikanum, hver þeirra væri horuðust af ást til hans, og hugsið ykkur, svo nörtuðu þær hver aðra til blóðs, þar til þær féllu allar dauðar niður, til skammar og svívirðingar fyrir alla hina virðulegu ætt.“
Og lágfætta, léttlynda kollan, sem hafði misst lausu, litlu fjöðrina, þekkti auðvitað ekki sína eigin sögu og þar eð hún var heiðvirð kolla, sagði hún:
„Ég fyrirlít þessar kollur, en því miður eru víst til fleiri slíkar og yfir þvílíku framferði sem þessu á maður ekki að þegja og ég skal gera mitt ýtrasta til þess að koma þessari sögu í blöðin og það meira að segja í útvarpið. Það eiga þessar kollur sannarlega skilið og jafnvel öll kolluættin.“
Og sagan komst í blöðin og þar var yfirskrift hennar: „Ein fjöður getur orðið að fimm kollum.“