Blik 1940, 7. tbl./Hjónabylta. (saga)

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit 1940


SIGMUNDUR FINNSSON:

HJÓNABYLTA. (SAGA)


Jón gekk inn í bæinn, raulaði vísubrot fyrir munni sér og var hinn ánægðasti. „Skárri er það nú kátínan í þér,“ þrumaði Brynja, konan hans, „ég held þú ættir heldur að koma hingað og hræra í grautarpottinum meðan ég skrepp út í þvottahús til að baka flatkökur.“ Um leið og hún mælti síðustu orðin, sendi hún honum það augnaráð, að honum þótti ráðlegast að þegja og hlýða. Hann gekk því lúpulegur að grautarpottinum. Brynja tautaði eitthvað um letina í þessum karlmönnum; setti síðan upp öll segl og hvarf með miklum pilsaþyt út göngin.
Jón þreif sleifina og tók að hræra í hafragrautnum. Skárri voru það lætin í kerlingarófétinu að láta sísvona! Fyrst að senda mann bráðsnemma í kaupstaðinn, síðan mjólka kýrnar, og svo núna síðast að hræra í hafragraut. Hafragraut! Jón stundi þungan og hætti að hræra í grautnum og settist á stól við eldavélina. Nei, svona skyldi það ekki vera eftirleiðis. Hann skyldi sína varginum henni Brynju, hvort þeirra væri húsbóndinn. Og Jón sá sjálfan sig skipa kerlu fyrir með harðri hendi. Eftir nokkurn tíma kváðu hrotur Jóns við um eldhúsið, á meðan kolbrenndur grauturinn sauð og bullaði upp úr pottinum og flæddi yfir vélina eins og hraunleðja. Jón hafði sofnað út frá valdadraumum sínum.
Í sama mund spígsporuðu hænsni fram og aftur um hlaðið undir forystu tígulegs hana, sem öðru hvoru horfði stoltur yfir skarann. Hann var húsbóndi á sínu heimili. Allt í einu varð honum það á að reika inn göngin, sem lágu þröng og dimm inn að eldhúsinu, þar sem Jón svaf og grauturinn vall. Allur hænuskarinn fylgdi í fótspor hans.
Nú víkur sögunni að Brynju. Hún er að leggja síðustu nýbökuðu kökuna ofan á kökuhlaðann. Síðan stingur hún hendinni í pilsvasann og kemur upp með tóbaksdósir, hleður dökkum tóbaksgarði á handarbakið og sogar hann hressilega upp í nefið. Síðan þrífur hún kökuhlaðann í fangið og gengur til eldhúss. Inn göngin finnur hún ilmandi angan af viðbrenndum hafragraut leggja á móti sér. Grunar hana þá, að Jón muni hafa slegið slöku við verk sitt og hleypur því við fót inn göngin. — Haninn var nú kominn inn á mitt eldhúsgólf og skimaði þar varkár í kringum sig. Síðan kinkaði hann kolli til hinna hænsnanna og gaf til kynna, að öllu væri óhætt. Þau komu inn eitt á fætur öðru hljóð og forvitin og skimuðu í allar áttir. En í því rumskaði Jón og sparkaði út í loftið án þess að vakna. Við þetta kom styggð að skaranum, svo að hann flaug með gargi og bægslagangi út úr eldhúsinu og fram göngin. Veit kerling ekki fyrr til, en hæna hendist milli fóta hennar, og um leið flýgur haninn á hana miðja. Hún rekur upp skerandi vein, snýst í hálfhring og fellur kylliflöt á moldargólfið með kökuhlaðann undir botninum. Veinið, sem hún rak upp, smaug í eyru Jóns, svo að hann vaknaði með andfælum, rauk upp og ætlaði að rjúka til dyra. En í því rennur hann í einhverju mjúku, sem haninn hafði skilið eftir á gólfinu, og þar lá hann endilangur.

Sigmundur Finnsson,
3. b.