Blik 1939, 6. tbl./Snarræði

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit 1939


Snarrœði.


Vestmannaeyingar hafa um marga áratugi stundað fuglaveiðar í hinum háu og bröttu eyjum, sem umlykja Heimaey. Þar er gnægð af fugli, og ungir menn hafa oft verið fúsir til veiðiferða. Ýmsir atburðir hafa gerzt í sambandi við þessar veiðiferðir. Sagt er, að fuglaveiðar og fjallgöngur hafi þroskandi áhrif á snarræði og fljóta hugsun veiðimannsins og bendir sá atburður, sem hér fer á eftir til þess, að svo sé. Fyrir nokkrum árum voru fjórir veiðimenn við lundaveiðar í Súlna­skeri. Eitt sinn er sóknarbáturinn var nýfarinn heim með veidda fuglinn, voru tveir af veiðimönnunum staddir niður við sjó í berginu. Höfðu þeir verið að afgreiða bátinn og voru nú að fara upp á eyju aftur. Leiðin var löng og nokkuð erfið, en til að stytta sér leið, höfðu þeir band, sem þeir lásu sig upp eftir. Annar maðurinn fór upp eftir bandinu og gekk honum vel. Tvö bönd lágu niður, annað var fast uppi en hitt var laust og hafði verið haft til þess að gefa fuglinn niður á. Félagarnir þrír voru uppi á eyjunni að taka upp sendingar að heiman, en sá fjórði var að leggja af stað upp. Einn af félögunum, sem uppi var tók eftir því, að lausa bandið tók að renna niður, og sú hugsun greip hann strax, að sá sem niðri var, hefði hent sér út á lausa bandinu, en það var sama og að henda sér út í opinn dauðann. Hann þaut á fætur og greip báðum höndum um bandið og spyrnti í bergbrúnina. Reyndust þyngslin mjög mikil og bandið rann í höndum hans, en hann sleppti ekki og hafði að stöðva það. Komu nú félagarnir tveir honum til hjálpar og festu það og komst félagi þeirra upp. Hafði hann strax skilið, hvernig honum hafði orðið misgrip með bandið og ætlaði að taka í hönd félaga síns og þakka honum lífgjöfina, en hinn færðist undan og sýndi þeim í lófa sinn. Skein þá í bera kvikuna, því að allt skinn hafði dregizt af, er hann stöðvaði bandið, og treysti hann sér ekki í handtakið.

Sigurbjörg Hjálmarsdóttir
skráði. — 3. bekk.