Blik 1939, 5. tbl./Fréttamolar

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit 1939


* Fréttamolar. *


Nokkrar greinar eftir nemendur skólans bíða næsta blaðs sökum rúmleysis.

———

Vegna veikinda hefir prófum í Gagnfræðaskólanum seinkað, og uppsögn hans af sömu ástæðum. Voru því engin tök á að láta þetta blað flytja fréttir af prófum.

———

Um 70 nemendur stunduðu nám í Gagnfræðaskólanum, þá flestir voru, þetta skólaár. Í fyrsta sinni í sögu skólans starfaði 3. bekkur nú jafnlengi hinum bekkjunum, eða 7 mánuði. Sá misskilningur virðist almennur hér, að nám í Gagnfræðaskólanum sé svo erfitt, að einungis þau fermingarbörn, sem bezt eru að sér, njóti sín þar. Sannleikurinn er sá, að hingað til hafa þau fermingarbörn helzt um skólann sótt, sem beztar hlutu einkunnir við fullnaðarpróf barnafræðslunnar. Ef hin vildu einnig fjölmenna í skólann, væri hægt að tvískipta 1. bekk og skapa þannig skilyrði fyrir því, að hver sá, sem þar vildi læra, gæti notið sín, með því að námið yrði honum eigi um megn. Nú munu fermast hér nær 70 börn á þessu vori. Af þeim vill Gagnfræðaskólinn geta fengið í 1. bekk sinn 50—60 börn næsta haust.

———

Félagslíf var bæði fjölbreytt, og ánægjulegt í Gagnfræðaskólanum þennan vetur, eins og að undanförnu, og bindindisáhugi nemenda svo mikill að gagn og ánægja er að. — 19. febrúar síðastliðinn gengu milli 30 og 40 af nemendunum inn í stúkuna Báru nr. 2. Þar er nú tvöföld embættaskipun og gegna unglingar embættum að hálfu við hina eldri. Með þessu vinnst það, að unglingar læra að starfa í stúku, þeir öðlast aukinn áhuga í starfinu og aukna ábyrgðartilfinningu fyrir velferð stúkunnar. Einnig eykur þetta tilbreytingu í starfinu.