Blik 1938, 3. tbl./Vetur konungur
Vetur konungur
Stefnuskrá og starfsskrá Menningarfélags Gagnfræðaskólans í Vestmannaeyjum hefir verið mér í huga þessa dagana. Ég er hrifinn af henni og tilfæri hana því hér orðrétt:
Markmið Menningarfélags Gagnfræðaskólans í Vestmannaeyjum er að hlynna að hverskonar menningar- og menntamálum nemenda skólans og æskumanna yfirleitt, með því að styrkja og efla mótstöðu þeirra gegn eiturlyfjanautnum, efla samstarf þeirra um góð málefni, vekja áhuga þeirra á íþróttum og útilífi, hvetja þá til þess að lesa góðar bækur og nota tómstundir sínar þannig, að þær megi þeim til aukins þroska verða og meiri hamingju.
Allir félagarnir skrifa undir eftirfarandi yfirlýsingu: Við undirrituð æskjum þess af heilum hug að taka þátt í starfi fyrir þessi málefni æskunnar og mega sjálf verða öðrum fyrirmynd um bindindi, ástundun og siðprýði, og annað það, sem skapa má ungmenninu meiri hamingju og sanna gleði.
Ég staðnæmist við fyrri lið fyrsta atriðis, „að styrkja og efla mótstöðu.“
Bezti vinur minn sagði mér nýlega sögu. Sú saga á erindi til allra, sem reyna að styrkja og efla mótstöðuorkuna.
Konungur er á ferð. Hann situr á hvítum hesti og kemur frá nyrzta jarðdepli, norðurheimskauti. Hvítur er hann allur frá hvirfli til ilja. Hann er búinn hertygjum og hvít eru þau. Hvítt er sverð hans og kaldur brandurinn. Hvít er kórónan og kaldur svipurinn. Hver ertu konungur, spyrjum vér, og til hvers ertu kominn? Ertu kominn til að drottna? Dimmur þykir oss þú og þungbúinn. Kalt er um þig og vér viljum hvorki lúta þér né neina þjónustu veita þér. Maður, tala eigi svo óþýtt til mín, mælir konungur. Nafn mitt er Vetur og erindi mitt er að þjóna. Víst kann ég að vikna eins og aðrir, sem elska. Ég ann yður, mannanna börn, því að ég er sendur til yðar frá guði. Ég er sendur til þess að kenna yður að þekkja lögmál lífsins. Ég er sendur til þess að áminna yður um að ákalla skynsemina. Ég er sendur til yðar með vonarinnar heilaga ljós og trúarinnar máttuga eld. Ég er í einskonar álögum, sem þér eigið að leysa mig úr. Í hjarta mér býr sú elska, sem er ljósgjafi og lífgjafi og ástin ein getur leyst mig úr álögunum.
Mennirnir mæla: Einkennileg eru orð þín, Vetur konungur, en vér viljum þó eigi rengja þig að óreyndu. Hann svarar: Satt segi ég, að ég er konungur, en þreyta skuluð þér við mig glímu og taka mig fangbrögðum. Þér skuluð freista þess með öllu móti, að sigra mig og fella að velli. Þér munuð þá sanna, að enginn getur lagt mig að velli nema Gyðja vorsins ein, þó munuð þér komast að raun um, hver ég er, er þér þreytið glímuna. Þér munuð sanna, að ég er þjónn yðar og þjónn guðs. Því að vera mín mun sameinast yður og blessa eftir einkennilegum lögmálum andstæðnanna.
Kuldi minn mun verma hjörtu yðar, og myrkur svipur minn tendra ljós í sálum yðar og sinni. Verið þess vegna þrautsegir og sleppið ekki glímutökunum fyrri en Gyðja vorsins snertir mig. Þá munuð þér skilja, hver ég er, því að nafnið Vetur er aðeins gervinafn. Mitt sanna nafn er tími, eilífur tími. Og hvern, sem reynist trúr í baráttunni við mig, þann mun ég æfinlega blessa og umvefja í faðm ljóssins og sumarsins. Munið, að það er ég, sem hefi sveipað um yður blómablæju og umvafið yður gróðurilm og geislum sólar. Ég er tíminn. Ég er fulltrúi guðs. Ég á að kenna yður að þekkja lögmál lífsins, því að ég á að kenna yður að trúa, vona og elska. Ég á að kenna yður að elska ljósið og telja sólskinsdagana.
Og mennirnir segja: Vertu velkominn, sendiboði drottins. Vertu velkominn með birtu og yl. Kenn oss að elska þig, sigra þig og sigrast af þér. Vertu velkominn, fulltrúi eilífðarinnar og ódauðleikans. Og veturinn segir: Sælir eruð þér, ef þér breytið eftir boðskap mínum, sem er boðskapur hins æðsta, guðs. Því að orð mín eru hugræn og hlutræn. Þau eru trú og vísindi.
Það er líkingarþróttur í sögunni, vafurloga blikandi blik. Og hún gefur ómælilega innsýn um það, hvernig menn efla og styrkja, styrkja og efla mótstöðuorkuna.
- Ve. 2./11.'38
- Ve. 2./11.'38