Blik 1938, 3. tbl./Á gægjum

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit 1938


Á gægjum.

Það er annars ljóta rækalls gigtin í karlgreyinu mínu, honum Snerri. Ekki er honum það mögulegt að komast upp í skóla til ykkar til þess að þefa þar um gættirnar, svo að hann geti tínt í ykkur nokkurt fréttasnuður eins og í fyrra. Drengur nokkur í Gagnfræðaskólanum, sem hafði pata af fréttastarfi hans s.l. ár, hefir surgað í honum að undanförnu og beðið hann að skrifa fréttir, en sem sagt, hann getur sig naumast hreyft. Gigtarskömmin er nú komin í allar tærnar á honum og í fingurna líka, svo að skrifað getur hann ekki. En með því, að mér þykir háðung að leggja niður okkar ágætu og arðsömu fréttastofu, þá dirfist ég undirrituð að hefja starfið.
Ég skrapp inn til nágrannakonu minnar hérna um daginn og frétti þar yfir köldum kaffibollanum, að þið drengirnir í Gagnfræðaskólanum væru nokkuð ágengir um kleinurnar hjá matsveinunum, svo að ég hugsaði mér að gera góðverk og hindra það, að þið ætuð þá hreint út á gaddinn á þennan hátt. Fékk ég mér því nokkra snúða hjá henni Sigurlaugu okkar hérna, og hugðist að gæða drengjunum á þeim, ef ske kynni, að ég gæti þá líka veitt upp úr þeim markverðar fréttir úr skólanum. Ég kom upp í skólaganginn um fjögur leytið, rétt þegar leikfimi skyldi hefjast, og hitti þar fjóra náunga, sem báru sig ákaflega sultarlega.

Tobba Teits

Ég sýndi þeim snúðana og vildi gjarnan vita nöfnin á þessum blessuðum pottormum, svona yfirkomnum af sulti; en viti menn, fyr en mig varði, ruku þeir á mig eins og myndin sýnir ljóslega og betur en ég fæ með orðum lýst. Til allrar hamingju var Ásta þarna viðstödd og gerði það fyrir mig að draga upp mynd af okkur svona eftir á. Fyrstur var Einsi, þá Halli, þvínæst Nonni og neðst vafði Kalli sig um fætur mér, svo að mér lá við falli. Myndin ber það með sér, að þeir hafa einhverntíma lært að klifra kaðla, þessir drengir. Þetta enti þó allt vel. Þegar þeir höfðu etið snúðana, skildum við vinir. Þeir báðu mig blessaða að koma næsta dag, og það gerði ég.
Þá sá ég plöntusnuddara skólans skríðandi á fjórum öngum um leikvanginn, leitandi að jurtum og blöðum, skertum og skörðóttum, tenntum og tökkóttum, og hvað þeim nú annars dettur í hug að kalla það, þessum ungu og lærðu skruddusnuddurum og prófessoraefnum.
Þá frétti ég, að allar kosningar og skipanir hefðu fram farið í skólanum, og hefðu allir embættismennirnir sér til ágætis nokkuð eins og vera ber.
Formaður málfundafélagsins kvað vera kosinn Helgi vinur vor frá Brimvíkurströnd, skáld og einsöngvari skólans og buxnaböðull. Honum til hægri handar í stjórninni er Jón nokkur frá Hvítadal, prúður drengur, sem stígur ölduna fyrir Helga. Einnig er þar Sigurjón nokkur, framsóknarmaður mikill, a.m.k. í félagslífi nemenda.

Meira næst.
Með ástúðlegri kveðju.
Tobba Teits.


                            ———————————————
Ábyrg ritstjórn:
Stjórn Málfundafélags Gagnfræðaskólans í Vestmannaeyjum.
Ísafoldarprentsmiðja h.f.
Reykjavík