Blik 1938, 2. tbl./Skólinn okkar og við.

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit 1938



SKÓLINN OKKAR OG VIÐ.

Við unglingarnir, sem erum í þessum gagnfræðaskóla, eigum því láni að fagna, að vera í góðum félagsskap, þar sem saman starfa nemendur og kennarar. Við lærum margt, sem er gott og gagnlegt, til undirbúnings undir lífið. Við reynum að þroska sál okkar með ýmsu móti, svo að við fáum víðara sjónarsvið, og viljum verða að betri og fróðari mönnum. Við stöndum fast saman með áhugamál okkar innan skólans, og vinnum að því, að skólalífið verði okkur sem gagnlegast og skemmtilegast, svo að það skilji eftir góðar endurminningar síðar meir, þegar við minnumst þess.
Við starfrækjum nú í skólanum þrjú félög: Málfundafélag, menningarmálafélag og taflfélag. Á málfundum tölum við um ýmislegt, bæði áhugamál okkar og önnur mál, sem okkur dettur í hug. Þá eru líka oft einhverjir, sem lesa upp kvæði eða sögur til skemmtunar. Menningarmálafélagið hefir ýmis menningarmál á stefnuskrá sinni. Meðal annars er þar á stefnuskrá bindindi um áfengi og tóbak. Allir, sem eru í skólanum, eru bindindismenn. Við vitum um það tjón, sem slík eiturlyf gera líkama okkar og sál, og viljum reyna að forðast það. Taflfélagið er fyrir þá, sem vilja æfa sig í að tefla, og þreyta þá íþrótt sér til skemmtunar.
Við leggjum ekki einungis stund á andlega menntun, heldur reynum við líka að styrkja líkama okkar með leikfimi, göngum og ýmsum íþróttum, því að takmarkið er að skapa heilbrigða og þroskaða sál í hraustum líkama, svo að við séum færari um að mæta þeim erfiðleikum, sem e.t.v. bíða okkar á lífsleiðinni. Ef það tekst, er okkur borgið.
Þetta er nú annar veturinn minn í þessum skóla, og ég mun ábyggilega aldrei sjá eftir þeim tíma, sem ég hefi verið í honum. Það hefir veitt mér margar ánægjustundir, sem ég mun aldrei gleyma.
Sumir unglingar nenna ekki að ganga í skóla, þó að þeir hafi góðar ástæður til þess. Þeir vilja heldur slæpast á götunum aðgerðarlausir, og lenda svo e.t.v. að lokum í slæmum félagsskap og óreglu. En þeir munu sjá eftir því seinna, þegar þeir fara að vitkast, að hafa ekki heldur farið í skólann á meðan þeir gátu, heldur en að eyða tímanum í aðgerðarleysi.
Ég ráðlegg því öllum foreldrum að brýna fyrir börnum sínum, að sækja þennan skóla, þar sem ekkert skólagjald er, og þau læra margt sér til gagns. Og unglingum vil ég ráða til þess að hugsa sig vel um, áður en þeir hafna því að fara í skólann, þar sem þeir vissulega munu njóta margra ánægjustunda, bæði í námu sínu og utan þess.

Vestm.eyjum 25. febrúar 1938.
Magnea Hannesdóttir 2. b.