Blik 1938, 2. tbl./Minni nemenda 3ja bekkjar 1938

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit 1938


MINNI NEMENDA 3JA BEKKJAR 1938
flutt af Leifi Eyjólfssyni 2. bekk.

Nemendur 3ja bekkjar hafa lokið prófi sínu og eru á förum úr skólanum. Margir þessir nemendur, sem við kveðjum nú, hafa verið góðir starfskraftar við skólann og í nemendafélögum hans á liðnum árum.
En nú skilja leiðir og hver heldur í sína átt. Kennarar þeirra og samnemendur geyma efalaust margar minningar frá liðnum samverustundum og öll munum við geyma þökk fyrir það samstarf. Þessir nemendur halda nú sínar leiðir út í lífið, þar sem bíður þeirra nýtt starf og ný viðfangsefni, ný viðhorf og nýir sigrar — vonandi. Vissulega eru þessir samnemendur betur búnir undir lífið, en margir aðrir, sem hefja svipaða för, jafnvel þó spádómar hins æruverðuga náunga, sem er „á gægjum“ hér í skólanum og máske hér í kvöld, rætist ekki til fulls. Þá er hitt mest um vert, að þessum nemendum takist að verða nýtir menn hver á sínu sviði og þjóðfélaginu til gagns og sæmdar.
Lífinu má líkja við stórt og mikið reikningsdæmi og það er ekki fyrir neina meðalmenn að reikna slíkt rétt. Það útheimtir djúpan skilning og sterkan vilja, en það er von okkar allra, að þessum nemendum 3ja bekkjar takist að leysa það á sem bestan hátt. Þegar þessi skóli kveður þessi fósturbörn sín, þá gerir hann það í þeirri von, að þau haldi áfram sömu stefnunni og hingað til, stefnunni að marki hinna háu hugsjóna, starfinu fyrir hin góðu málefni. Þeir sem kafa í djúp samvisku sinnar og gera hiklaust upp reikningana við sjálfa sig og leitast ávallt við að göfgvast og þrosk­ast og stefna áfram, þeir verða miklir menn. Það er trú mín, að margir 3ju bekkingar eigi mikið lífsstarf fyrir höndum og það er einnig trú mín, að þeir vinni það lífsstarf með sóma og dyggð.
Sá maður, sem hyggst að klífa fjallið, þar sem þroskinn býr, verður að vera gæddur góðum mætti og heitri trú á sjálfan sig og þora að leggja á brattann, hann sýnir viðleitni og máske vinnur hann mikinn sigur. En hinn, sem alltaf lítur fjallið með vonleysisaugum og þorir aldrei að leggja af stað, verður alltaf barn jafnsléttunnar. Í þessu sambandi ber að minnast hins forna spakmælis: „Hjálpaðu þér sjálfur, þá hjálpar guð þér.“ Sá, sem sáir, mun uppskeru hljóta.