Blik 1937, 3. tbl./Helgi Sál. Scheving
HELGI SÁL. SCHEVING
stundaði nám í Unglingaskóla Vestmannaeyja veturna 1927—'28 og 1928 —'29, eða fyrstu tvo veturna, sem ég kenndi við skólann.
Góðir nemendur skilja eftir ljúfar endurminningar hjá kennurum sínum.
Kennarar minnast sumra nemenda sinna vegna mikilla námsgáfna, sumra vegna skyldurækni, ástundunar og dugnaðar, sumra vegna meðfæddrar ljúfmennsku og góðmennsku og sumra vegna siðprýði og fágaðrar framkomu o. s. frv.
Einstaka ungmenni hafa þessa eiginleika flesta eða alla til brunns að bera. Svo var um Helga Scheving. Hann var í einu orði sagt frábært ungmenni. Hann afkastaði líka óvenjulega miklu starfi, jafn ungur maður. Hann varð frumkvöðull að bindindishreyfingu í skólum landsins með aðstoð nokkurra annara ágætra æskumanna.
Hann lagði sig allan fram í því brautryðjandastarfi og þar naut hann sín, þar var mikið gott og þarft að vinna. Hans djúpstæðu tilfinningar fyrir ógæfu óhamingjusömustu ungmenna þjóðarinnar, sem orðið hafa bráð eiturlyfjanautnanna,
og hans innilega samúð með þeim, var sá aflgjafi, sem knúði hinn ríka vilja til starfa. Ræðumaður var hann ágætur og báru ræður hans vott um mannkosti hans, viðsýni og raunhyggju, svo ungur sem hann var.
Mættu Eyjarnar fróstra sem flesta æskumenn honum líka. Mætti minningin um hann verða æskumönnum til blessunar og líf hans þeim til fyrirmyndar.
Blik birtir að þessu sinni kafla úr hvatningargrein, sem Helgi Scheving skrifaði í Hvöt, blað Sambands bindindisfélaga í skólum, 1. tbl 1. árg. og nefndi hann greinina:
BINDINDISHREYFINGIN.
Bindindishreyfingin hefir á undanförnum árum aðallega verið borin uppi af hinni eldri kynslóð. Það hefir verið hún, sem unnið hefur stefnunni það fylgi, sem hún á. Æskan, unga kynslóðin, hefir ekki látið þessi mál til sín taka. Hún, sem átti að ganga á undan, hefir látið hvatningarorð eldri bindindismanna afskiftalaus. Og ef ekki er hægt að fá æskuna til að vinna fyrir þessi mál, þá er bindindishreyfingunni bráður bani búinn. Hinir eldri endast ekki, þeir falla í valinn, en engir virðast koma í staðinn. Öllum hugsandi mönnum hlýtur því að vera þetta mikið áhyggjuefni, að einhver fegursta hugsjónin skuli deyja út, vegna skilningsleysis æskunnar.
En örlítið virðist vera að rofa til í þessum málum. Nýir menn hafa komið fram á sjónarsviðið og reynt að vinna bindindsstefnunni fylgi. Hér á ég við þá hreyfingu, sem aðallega hófst á síðasta ári, í skólum landsins. Ég hygg að öllum, sem um þessi mál hugsa, sé þetta gleðiefni. Ég vona, að þessi hreyfing sé vorboði, sem eigi eftir að þroskast og koma miklu til leiðar meðal þjóðar vorrar.
......
Öllum bindindismönnum hlýtur að vera það ljóst, að nauðsynlegt var að vekja bindindishreyfinguna meðal yngri kynslóðarinnar. Það er hún, sem á að taka við völdunum eftir hina eldri, og hún þarf að vera sem best undir það búin. En, því miður, verða allir bindindismenn að játa, að æskulýður þessa lands hefir aldrei drukkið eins mikið af áfengum drykkjum sem nú. Og aldrei hefir verið greiðari aðgangur að afla sér drykkjarfanga. Ríkið selur áfengi. Ríkið sjálft byrlar þegnum sínum eitur. Er hægt að hugsa sér geigvænlegra ástand? Og ekki nóg með það. Heldur eru alls staðar menn, sem annað hvort af fáfræði eða lágum hvötum, geta gert svo lítið úr sér, að vinna fyrir sér með því að selja áfenga drykki. En peningar, sem koma inn fyrir vín, eru sannkallaðir blóðpeningar, útsognir af fátækum mönnum, sem jafnvel vita ekki, hvað þeir eiga að hafa til næsta máls.— Það er því eðlilegt, að æskulýður þessa lands hafi áfengi um hönd. Almenningsálitið, að því er virðist, dregur taum þeirra manna, sem víns neyta. Það dregur einhvern frægðarhjúp yfir launsala og smyglara, og
þeir verða að hetjum í augum fólksins. Og ef armar réttvísinnar ná til þeirra, þá er þeim lýst sem píslarvottum, jafnvel í víðlesnum fréttablöðum. Almenningsálitið er fyrst og fremst með víninu, það held ég að sé óhætt að fullyrða. Og þessu áliti verða bindindismenn að breyta, það er beinlínis skylda þeirra.
Bindindishreyfing ungra manna hófst í skólunum. Það er að mínu viti eðlilegt, og þar átti hún fyrst og fremst að hefjast. Ég vil víkja að þessu atriði með nokkrum orðum.
Við Íslendingar erum fámenn þjóð, sem verðum á öllum okkar kröftum að halda. Það mun ekki vera auðfundið það ríki, sem leggur fram eins mikið fé hlutfallslega til skóla og menningarmála. — En þar sem þjóðfélagið leggur þessa erfiðleika á herðar sér, verður það að krefjast þess, að þeir, sem öðrum fremur njóta hlunnindanna, gangi á undan að góðum siðum og heilbrigðu líferni. Menntun og lærdómur er ekki til neins, ef hann gerir menn ekki hæfari til að mæta erfiðleikum lífsins. — Og sá þroski, sem af menntun leiðir, hann verður að koma fram í verkinu, annars er hann einskis nýtur.
......
Vér Íslendingar höfum mátt sjá marga af okkar bestu mönnum falla í valinn vegna áfengisnautnar. Vér verðum að byggja fyrir það, eins og vér getum, að slíkt endurtaki sig oftlega fyrir augum vorum. Baccus mun aldrei flytja þjóð vorri hamingju. Hann mun altaf vera steinn í götu allra sannra þjóðar þrifa.
......
Verkefnin eru mörg fyrir höndum. Aldrei hefir verið drukkið eins mikið hér á landi og aldrei hefir verið meiri þörf á ungum og efnilegum mönnum til að vinna fyrir bindindi. Sérhver hugsandi ungur maður hlýtur að finna hvöt hjá sér, til að vinna fyrir þessi mál. Það þarf að breyta almenningsálitinu, bindindisstefnunni í hag. Það þarf að gera æskulýðinn bindindissaman. En það verður aldrei gert nema með fræðsluuppeldi. — Að því vill samband bindindisfélaganna vinna. Og ég veit, að hugur margra manna mun fylgja því með einlægum árnaðaróskum, er það leggur nú á örðugasta hjallann, út í baráttuna fyrir tilveru sinni.