Blik 1937, 3. tbl./Hesturinn bjargaði húsfreyjunum

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit 1937



HESTURINN BJARGAÐI HÚSFREYJUNUM

Það skeði veturinn 1885 undir Eyjafjöllum á bæ þeim, sem hét á Efri-Rotum. Bóndinn þar hét Hjálmar Eiríksson. Kristín hét kona hans. Hjálmar var heilsuveill og lentu því útistörfin á húsfreyju.
Þennan vetur var þröngt í búi hjá fátæku fólki. Kom þá eitt sinn að máli við nágranna sína kona ein, sem hét Guðrún, og átti heima í Nýjabæ. Hún var ekkja og hafði fjórum börnum fyrir að sjá. Tvær vinnukonur hafði hún og vinnumann, sem nú var farinn til útvers.
Hjónin á Efri-Rotum og Guðrún töldu öll líkindi til þess, að fiskur mundi kominn fyrir söndum og því mætti ske, að rekafiskur fyndist á söndunum. Ekki var um aðra að gera, en þær húsfreyjur til að ganga á fiskrekann, og ákváðu þær að fara næsta dag.
Þá var þykkt loft og blíðviðri. Ferðin suður að sjó gekk þeim vel. Vegalengdin er um 5 km.
Þær finna töluverðan fisk og er sumt af honum étið eftir selinn. Æði stund eru þær að afla upp á hestana, sem þær ríða. Kristín hefir orð á því, að fjúklegt sé í lofti og því vissara að halda heim. Stundu síðar skall á þær norðan bylur.
Móti veðri var því að sækja. Þær höfðu ekki langt farið, er þær tóku að kíta um áttirnar. Kristín lét Guðrúnu ráða í fyrstu. — þó að hún segði að Hæringur, — svo hét hestur hennar — mundi rata heim. Ríða þær nú alllengi. Þá koma þær að melum, sem þær kannast ekki við, og eru nú ramviltar. Ákveður Kristín því að láta Hæring ráða ferðinni og leggur beislistaumana fram á makkann á hestinum. Hann tekur þá aðra stefnu. Ríða þær þannig lengi og tók að skyggja af nóttu. Loks nemur Hæringur staðar við þústu nokkra. Þar fer Kristin af baki þjökuð og köld. Hún þekkir, að þetta er peningshús; lýkur upp hurðinni og er þetta hús Hærings. Þær lofuðu guð, því að nú var auðratað til baðstofu. Hjálmar var alls hugar feginn, þegar þær komu, því hann óttaðist orðið um þær, en treysti þó Hæringi sínum til að rata svo lengi sem þær létu hann ráða, svo oft hafði hann reynt hann að frábærri ratvísi.

G. St. 1. b.