Blik 1937, 2. tbl./Við skólalok

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit 1937


Þorsteinn Þ. Víglundsson, skólastjóri:


VIÐ SKÓLALOK.


„Hvárki skal ek á þessu níðast
og á engu öðru, því er mér er til trúat.“
Kolskeggur.

KÆRU nemendur! Ég vil að skilnaði minnast ykkar eigin orða. Eitt ykkar birtir hér í blaðinu hlýlega grein um samstarfið og ljúfar endurminningar frá vetrinum.
Við kennararnir eigum líka hugljúfar endurminningar frá samverustundunum. Eitt verður mér minnisstæðast: Hinar góðu hugsanir, sem þið hafið sett fram í stílum ykkar og ritgerðum. Við þær tengjum við góðar vonir. Þar hefir komið fram réttur skilningur ykkar á miður hollum aðsteðjandi straumum, sem vilja hrífa ykkur með á þessum „hættulega aldri,“ eins og þið orðið það, og hversu ykkur ber að vera á verði gegn vondum félagsskap, og yfirleitt öllu því, sem tælir og spillir.
Það virðist vera bjargföst trú ykkar, að okkur beri að vera bindindismenn. Þið hafið á ýmsa lund og réttilega lýst þeim hörm­ungum í ýmsum myndum, sem eru áfengisnautninni samfara, og hve unglingum er alveg sérstaklega mikil hætta búin af eiturlyfjanautnum. Þið vitið, hvaða afl er brotið á bak aftur með fyrsta vindlingnum og fyrsta staupinu. Þá er lagður hornsteinn að sérstöku lífi, nautnalífinu, með ömurleik þess og tjóni í andlegum og efnalegum skilningi.
Ykkur virðist einnig vera það ljóst, hvernig við bezt megum nota fyrstu árin eftir ferminguna, svo til farsældar leiði. Þið hafið sjálf tekið það réttilega og skemmtilega fram, að við eigum að nota þau til undirbúnings „undir lífið, afla okkur fjársjóða, sem ekki verða frá okkur teknir,“ o.s.frv.
Ég hefi þá dregið hér fram hina þrjá veigamestu þræði í hugsunum og skoðunum ykkar sjálfra um þetta efni. Í styztu máli þetta :
1. Vörumst vondan félagsskap.
2. Drekkum aldrei fyrsta staupið, né reykjum fyrsta vindlinginn.
3. Notum vel æskuárin til undirbúnings manndómsárunum.
Það má vera okkur kennurunum, og ekki síður foreldrum ykkar, ánægjuefni, að þessi þrjú veigamiklu atriði skuli vera ykkar sannfæring. Hún verður ykkur til blessunar, ef þið bregðist henni ekki. Ég hefi engar ástæður til að væna ykkur þess. Að hvika frá henni væri að níðast á sjálfum sér. Þá væruð þið að bregðast þeim, sem unna ykkur og mestu hafa fyrir ykkur fórnað. Það gerið þið ekki.
Mér er í minni móðirin, sem til mín kom eitt sinn í nauðum sínum og kvað son sinn valda sér meiri sorgar en hún gæti með orðum lýst. Hann var orðinn drykkjumaður. Á ykkar aldri hafði hann trú á blessun bindindisins og hafði unnið sjálfum sér bindindisheit. En 17 ára gömlum fannst honum heitið orðið hversdaglegur hlutur. Eitt sinn í miður góðum félagsskap stóðst hann því ekki „mátið“, lét ögra sér og byrjaði að reykja. Þá var leiðin opin til áfengisnautnarinnar. Þangað lenti hann. Nú var hann orðinn foreldrum sínum sorgarefni. Við getum öll, þótt við séum ung, sett okkur inn í hugarkvöl þeirra foreldra, sem uppskera sorgir og andstreymi á elliárunum vegna misheppnaðra barna sinna. Það eru ömurleg laun fyrir margra ára áhyggjur og strit þeirra vegna.
Við eigum enga ósk innilegri ykkur til handa, en að þið mættuð bera gæfu til að halda trúnað við þessar góðu æskuhugsanir ykkar og verða foreldrum ykkar til hamingju og gleði, og öðrum þeim, sem unna ykkur og trúa ykkur einungis til góðs.
Allir unglingar kannast við Gunnar á Hlíðarenda, ekki síst þið, sem hafið lesið um hann í vetur. Æskumenn hrífast af glæsimennsku hans og vopnfimi, og síðast því, að „hann vildi heldur bíða hel, en horfinn vera fósturjarðarströndum.“ Minna ber á bróður hans, Kolskeggi. Hann er hinn hægi maður, með fasta skapgerð og djúpstæðar tilfinningar. Hann má ekki vamm sitt vita. Færri minnast orða hans, þegar Gunnar sneri aftur og níddist á heitum sínum, sveik loforð sín og brást trausti góðra manna.
Þá sagði Kolskeggur : „Hvárki skal ek á þessu níðast og á engu öðru, því er mér er til trúat.“ Mætti íslenska þjóðin eignast sem flesta æskumenn með skapgerð og drenglyndi Kolskeggs, æskumenn, sem á engu vilja níðast, sem þeim er trúað fyrir, hvað sem það kostar, og láta ekki ömurleik hversdagslífsins kýta sér saman eða tæta sig sundur.
Hittumst aftur heil í haust með endurnýjaðan dug — og námshug.