Blik 1937, 2. tbl./Vorið og eyjan okkar

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit 1937


Þorsteinn Einarsson, kennari:


VORIÐ OG EYJAN OKKAR


„Vorið er komið
og grundirnar gróa...“


FÁ vísuorð eru ofar í hugum okkar þessa dagana; og þau kvæði og stökur, sem hrjóta fram á varir okkar, eru um vorið. Og detti einhverjum í hug að raula eitthvað, er það um gróanda, sunnanvind og vorboðann.
Jafnvel útvarpið hefir hrifist með af vorkomunni og leikur nú vorsónötur og fleiri lofsöngva í ýmsum tónlistarbúningum um vorkomuna. Skáldin taka saman vorkvæði eða kvæði þeirra fá léttleika og draumblæ vorsins.
Allt klæðist nýju lífi með komu vorsins. Bæjarlífið fær annað snið. Kvenfólkið hefur stórþvotta og hreingerningar til þess að bjóða sólargeislunum og vorinu inn í hrein hýbýli. Sjúklingnum vaknar í brjósti ný von um bata og líf. Bóndinn hjálpar nýgræðingnum fram í sólarljósið og vorblæinn með því að bera á tún sín. Nýjum ræktunarblettum er bætt við túnskikann.
Fræin, sem hafa verið hulin niðri í grassverðinum, mosanum eða moldinni, sprengja hýðið með spírum sínum. Við sjáum ljósgræna nýgræðingsnálina, en ánamaðkurinn ljósgráa rótarangana fikra sig niður í moldina til þess að sækja þangað fæðu og festu. Skollafætur (elfting), vortúnblóm, fíflar og steinbrjótar byrja að stinga fram kollunum og móarnir sindra í sólskininu af smjörvíði (grasvíði) og á morgnana skína daggardroparnir eins og gimsteinar á maríustakksblöðunum.
Horblaðkan, tágamuran og fjöruarfinn byrja að teygja úr sér í fjörusandinum. Jafnvel fjörugróðurinn með sínum dumbungs lit, virðist reyna að gera sitt til að fagna ylnum. Sölin og blóðhimnan verða rauðari, fjörugrösin og sjókræðan dumbrauðari og þangið gulgrænna.
Fjaran og móinn ómar af kvaki og tísti. Á leirunni spígsporar tjaldurinn í fylgd með nokkrum stelkum. Uppi í urðinni inn á milli þangs og þara skýst sendlingur og tildra og nokkru ofar sitja nokkrar sandlóur. Á grasbalanum fyrir ofan fjöruborðið, þar sem nokkrir stórir steinar hafa oltið niður og mynda urð, skýst einn okkar norrænu vetrargesta, svartþrösturinn: „Þú ættir að setjast að hérna í urðinni, því nefið á þér er alveg í stíl við gulleitan mosann og skófirnar og hinn hrafnsvarti fjaðralitur þinn fellur inn í mósvarta urðina.“
„Sko til, þarna ertu alveg horfinn saman við hinn dökka lit glufunnar milli steinanna, aðeins gula nefið þitt segir til þín.“ „Af hverju brá þér?“ „Hvað? Varstu hræddur við þennan músarrindil, sem skaust þarna inn í glufuna hjá þér.“
„Vertu kyrr, úr því að þú ert ekki enn farinn, eins og hinir vetrargestirnir okkar, sem gera eyjuna okkar að suðrænu landi með vetrarsetu sinni.“ „Veistu kannske, hvað hefir orðið af gráþröstunum, störunum, skógþröstunum og öllum snjótitlingunum?“ „Segðu þeim, ef þú hittir þá, að við hlökkum til að sjá þá aftur og að veturinn í vetur hafi verið óvanalega harður og snjóþungur. Biddu þá að staldra við næsta haust......“
„Þessi snös þarna hefur oft vakið forvitni mína. Ég hefi líka oft rennt mér svona skáhalt upp að henni. Stundum hef ég reyndar tillt mér á hana, en hún er alltaf svo skrítin héðan að neðan. En hvað er þetta hvítleita uppi á snösinni núna? Jú, það er fugl. Mér finnst ég kannast við þetta nef. Kannske ég taki mér eina „reisu“ hérna upp undir snösina og heilsi upp á þennan náunga.“ Og um leið og fýllinn rennir sér hjá snösinni, nemur hann hálf staðar í loftinu frammi fyrir henni, víkur til hausnum, hristir sig og þenur út stélið.
„Já, svo þú ert komin, gamla moldvarpa. Heldurðu, að þú látir það ekki vera að ausa á mig mold eins og í fyrra, þegar þú ferð að hreinsa út hjá þér holuna. Það hlífði þér þá, að ég varð blindaður af moldinni. Ég hef verið að hugsa um það í allan vetur, að varna þér holubúskapar þarna í nágrenninu við mig eða að minnsta kosti hefna moldargusunnar með annari gusu. Já, þú skalt halda þér í skefjum, ef þú vilt hafa brjóstið svona hvítt og óblettað..... “
Þannig getur hver einstaklingur látið sér detta í hug hitt og þetta, ef honum er reikað út um eyjuna okkar og þá einkum um þetta leyti árs, þegar eyjan er að skipta litum, vetrargestirnir að kveðja og sumargestirnir að koma. Við mennirnir, sem næstum því er hægt að segja um, að lifum í átthagafjötrum, hljótum því að fagna yfir hverri breytingu, sem verður á umhverfi okkar. Fyrsta dag þessa mánaðar kvöddu vetrargestirnir. Sumir flugu suður á bóginn, aðrir norður, í fylgd með öðrum farfuglum frá suðlægum löndum. Daglega heilsuðu smá hópar eyjunni. Sumir tóku sér hvíld í móunum eða í fjörunni, meðan aðrir fljúga áfram.
Ný og ný blóm reka fram kollinn. Alltaf er sitthvað nýtt að skoða úti í náttúrunni á þessari litlu eyju okkar. Mörgum virðist hún lítil, en hún er ekki eins smá, þegar henni er kynnst. Það er vel farið, að maður sér daglega fleiri og fleiri taka sér gönguferðir út um eyjuna. Unglingar hendast upp á hina hæstu hnúka. Fjölskyldufólk tekur sig upp á sunnudögum og finnur sér laut eða stað til að drekka sér kaffisopa. Væri hægt að gera þessar gönguferðir almennari meðal þess fólks, sem stundar innivinnu t. d. húsmæður, væri mikið fengið. Unglingana þarf að fá af götunni og út á víðavang, frá hættum, ryki, og öðru því, er bæjarlífi fylgir. En þó þarf þess að gæta, sem vill of oft brenna hér við og það er klifrið og tildrið á mörgum unglingum utan í björgum og hömrum. Það er mikilmennskan og montið að klifra hamarinn, heldur en að labba götuslóðann, alfaraveg.
Hitt er það líka, sem hér vill brenna við sem annarsstaðar: Ill umgengni fólks um staði, er það setur sig niður í til þess að fá sér hressingu.
Og eitt er það ennþá, sem benda verður fólki á, sem leggur í gönguferðir, að skemma ekki annara eignir með því að ríða niður girðingar, ganga yfir tún og garða og svo að láta þá fugla í friði, sem egg eiga á víðavangi, t.d. æðarfugl.
Það er von mín og trú, að hér eins og annarsstaðar hefjist aukið útilíf, það verði hægt að rekast á fleiri og fleiri hópa glaðværrar æsku, sem leitar styrkleika við að ganga brattann, heilbrigði með því að þenja út lungun með hreinni hafgolu í stað vindlingareyks. Ungt fólk, sem örfast til dáða við að leggja brattann að baki sér og mætir erfiðleikum lífsins með orku, hreysti og lífsgleði, sem er sótt út í náttúruna í hópi glaðværra jafningja.