Blik 1936, 1. tbl./Fjöruferð

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit 1936



Fjöruferð


ÞAÐ var árla morguns fyrir páska í fyrra, að ég vaknaði og leit út um gluggann, og sá, að fyrstu geislar sólarinnar voru að teygja sig upp fyrir Skarðshlíðarfjall. Himinninn var heiður og blár, og roði í austri. Mér varð litið á sjóinn, sem var úfinn eftir undanfarandi austanátt, og þegar sjór deyr snögglega um þenna tíma árs, og veður gengur til norðanáttar, er oft mikill fiskreki. Um leið og ég nuddaði stýrurnar úr augunum, ásetti ég mér að skreppa á fjöru.
Ég klæddi mig í snatri, því ekki veitti mér af að flýta mér, því fuglinn er árla á ferli, og hirðir þá allt ætilegt, sem í fjörunni liggur. Því næst sótti ég mér hest og lagði á hann hnakk og spennti á hann allt, hvað ég gat hugsað mér, að ég þyrfti að nota til ferðarinnar. Ég klæddi mig vel, því oft er stormur við sjóinn, þó logn sé upp við fjallið.
Mér gekk ágætlega suður á fjöru. Mér varð fyrst litið á Ægi, sem kastaði til mín kveðju með þungri og dynjandi raust.
Ég staðnæmdist á kampinum. Það er malar- og sandhryggur, sem sjórinn hefir myndað í stórveltum. Er ég litaðist þar um, sá ég skammt frá ógrynni af fugli, sem sýnilega var að gerja í æti. Þegar þangað kom, var þar engan fisk að sjá. Ég hélt því áfram út fjöruna. Þegar ég kom út á miðja fjöruna, sá ég þéttan hnapp af fugli á einum stað. Ég trúði varla mínum eigin augum, þegar ég kom þangað og sá, að hver fiskurinn lá við annan á smábletti, og þurfti nú snör handtök. Ég snaraði mér af baki og tók til óspilltra málanna við að seila fiskinn upp og láta hann jafnóðum á hestinn. Þegar ég hafði bjargað því, sem rekið var, rak fiskinn svo ört, að ég hafði naumast við að hirða hann upp og seila.
Það er ekki auðvelt að snúa á krumma, því hann er úrræðagóður og slunginn að stela eins og þjálfaðasti þjófur. Svo reyndist hann mér nú, því að á meðan ég var að hirða fiskinn, jafnóðum og hann rak, setti krummi sig á bak hestsins og tók að eta í ákafa þann fisk, sem ég hafði hengt á hann. Þegar ég sá aðfarir krumma, setti ég fiskinn í poka. En krummi lét, það ekki á sig fá. Hann hjó gat á pokann og át fiskinn út um það. Ég lét því hér við sitja og hélt heimleiðis. Þrjátíu þorska hafði ég á hestinum heim, og gat því ekki setið sjálfur ofan á allri þessari byrði, því fjöruvegurinn var langur og erfiður. Þegar ég kom heim, var ég mjög þreyttur eftir allt þetta bjástur mitt. Þegar ég hafði hvílt mig um hríð, fór ég aftur í fjöruferð og fékk annan dreng á mínu reki með mér. Við fengum mikinn afla, og skiptum honum bróðurlega á milli okkar, og þóttumst við hafa verið fengsælir þann daginn. Klukkan var orðin 11 um kvöldið, þegar við komum heim. Það er mjög mikill fengur og nýnæmi að fá svona mikið af nýjum og óskemmdum fiski alveg upp í hendurnar, þar sem í sveitinni við hina brimasömu og hafnlausu suðurströnd naumast sést nýr fiskur allt árið. En fjaran bætir stundum úr þeirri vöntun.

Friðrik Jörgensen
frá Hvoltungu, 13 ára.