Blik 1936, 1. tbl./Íþróttir
ORÐIÐ íþróttir er um allan heim að verða viðtækara hugtak en það hefir verið, og það á vonandi eftir að leggja undir sig fleiri og fleiri hugtök, sem yfirfærast á þá menn, sem stunda þær og veita þeim með því fremri stöðu í mannfélagsstiganum.
Eins og t.d. í Englandi er orðið búið að fá þá merkingu, að sá maður, sem kallast íþróttamaður, þýðir hið sama og hann sé drenglyndur.
Það væru ánægjulegir tímar, þegar orðið íþróttamaður feldi ekki aðeins í sér merkinguna íþróttaiðkandi, heldur um leið drenglyndan, háttprúðan og frjálslegan mann — og að síðustu, en ekki sízt, reglumann og bindindismann á tóbak og áfengi. En því miður á þetta enn langt í land, hvað viðvíkur bindindi. Það er leitt fyrir íþróttamann, sem vill fá sem flest ungt fólk til að gerast íþróttamenn og -konur, að þurfa að segja slíkt. Það er ekkert aðlaðandi fyrir aðstandendur, að vita af því, að þegar börn þeirra ganga í einhvern félagsskap, þá sé ekki ríkjandi í honum starfsemi gegn því voðalegasta, sem nokkurt foreldri getur hugsað sér, en það er áfengi og tóbak.
Um þetta atriði hefir nokkuð verið rætt, en þó hvergi til fullnustu innan íþróttastarfseminnar. Það hefir oft virzt, að þegar þessum málum hefir verið hreyft, þá er eins og komið hafi verið við glóðarköggul og um leið kviku. Íþróttastarfsemin hefir staðið, og stendur enn, bindindisstarfseminni of fjarri. Þessar tvær starfsgreinar þarf að sameina betur, því að þær starfa báðar að hinu sama markmiði, hraustum líkama.
Íþróttirnar hafa sagt bognum bökum, innföllnum brjóstum, silalegu göngulagi og því um líkum líkamslítum, stríð á hendur, en bindindisstarfsemin áfenginu og tóbakinu. Þessar baráttur hafa á báða bóga misst marks. Þess vegna er það eina ráðið að koma á laggirnar sameining íþróttastarfseminnar og bindindisstarfsins.
Íþróttamenn þurfa að afmá þessa mótsetningu, sem oft hljómar: „Hann er íþróttamaður og drekkur.“ Bindindisstarfið vantar aukinn kraft og sá kraftur á að koma frá æskunni undir forustu íþróttamanna. Það þýðir ekki að hrópa núna (í sífellu) þegar talað er um bindindi: „Veitið aukna fræðslu um eiturlyf.“ Nei slíkt þýðir ekki. Hér á Íslandi hefur verið rætt og frætt um áfengi í 50 ár og aldrei hefur verið meira drukkið en í ár. Hér þarf ekki meiri fræðslu, heldur átök — og þau átök hljóta, ef íþróttamenn hafa ekki misst sjónar á markinu, að koma frá íþróttahreyfingunni.
Hugsið ykkur, unglingar, sem standið að þessu blaði, ykkur vantar skólahús, bað í sambandi við íþróttaiðkanir ykkar, fullkomin kennslutæki til þess að létta og fullkomna námið, og hugsið ykkur, íþróttamenn, ykkur vantar íþróttavöll til þess að byggja íþróttalíf ykkar á, og færa það nær fullkomnun. Og það er drukkið hér í kringum ykkur á eyjunni fyrir þær peningaupphæðir, sem myndu duga til að koma fótum undir þessa menningarhluti, skólahús og völl. Hér hlýtur að vera, ég segi dásamlegt verkefni fyrir heilbrigða æsku að taka á. Segja drykkjuskapnum stríð á hendur sameiginlega og ganga af honum dauðum.
Íþróttahreyfingin, sem enn er ung, á eftir að hlaupa af sér hornin á mörgun sviðum. Hún þarf að færast í fjölbreyttari búning. Hún þarf að beinast meira út í náttúruna, og hún á ekki aðeins að koma fram í íþróttasölunum eða á völlunum. Íþróttaiðkandinn þarf að skilja, að hann er ekki aðeins íþróttamaður á þeim stöðum.
Víða um heim eru að rísa upp hreyfingar, sem byggjast á þessum atriðum. Enginn í þeim hreyfingum byrjar dagleg störf án þess að hafa tekið liðkunaræfingar, öndunaræfingar og bað. Æfingar með þetta fyrir augum, eru settar saman svo, að þær taka aðeins 3-5 mínútur. Böð hefir þessi hreyfing fremst á stefnuskrá sinni. Í þeim löndum, sem þessi hreyfing er komin af stað, eru innan hreyfingarinnar sérstakir skólar, þar sem menn geta á stuttum tíma lært nýjar æfingar og fengið ýmsa tilsögn. Kvenfólkinu, sem vill gera allt til þess að halda í yndisþokka sinn, er meira og meira að skiljast, að það þýða engar afmegrunar-„pillur“, heldur halda þær yndisþokka sínum með því að stunda slíkar íþróttaiðkanir, léttar, daglegar æfingar og böð.
Hreyfing þessi breytir hugtakinu: sterkur maður. — Sterkur maður er núna sá kallaður, sem hefir afskræmdan líkama af vöðvum, og getur lyft sem þyngstri byrði, en eftir hinni nýju hreyfingu, sá sem hefir alla vöðva jafnt þroskaða. Og þeir skýra hugtakið nánar með þessari spurningu:
„Geturðu hugsað þér kött, sem ekki getur hreyft sig vegna vöðva?“ Meginkenning þeirra er: „Þjálfaðu líkama þinn ekki undir keppni, heldur undir baráttu lífsins.“
Og þegar þessi hreyfing, sem berst fyrir aukinni líkamsmennt og bindindi, er búin að grípa um sig, þá er orðið íþróttamaður búið að fá sinn rétta hljóm.