Birkir Kristinsson (viðtal)
Þetta viðtal tók Skapti Örn Ólafsson fyrir Þjóðhátíðarblað Vestmannaeyja.
Ferillinn hafinn austur á Fjörðum
Birkir er í Vestmannaeyjum þar til hann hefur nám í Verslunarskóla Íslands haustið 1980, en er reyndar í Eyjum yfir sumartímann allt þar til hann heldur austur á Firði sumarið 1983 til að leika knattspyrnu á Vopnafirði. „Ég fór með Gústa Bald. þjálfara sem þá var að þjálfa Einherja í gömlu 1. deildinni. Ég átti möguleika á að fá að spila og ég sé ekki eftir því. Frændi minn, Óskar Sigmundsson, kom með austur og það var mikið ævintýri,“ segir Birkir sem þar með hóf sinn meistaraflokksferil sem markvörður og er enn að leika knattspyrnu. Eftir sumarið á Vopnafirði fylgdi Birkir Gústa til Akureyrar en hann tók þá við þjálfun KA. „Það var nú stutt gaman þar sem ég slasaðist illilega í upphafi móts. Löppin snéri í raun öfugt og ökklinn fór í sundur. Meiðslin voru mjög slæm og ég var á hækjum næstu mánuði. Mér var varla hugað að leika knattspyrnu framar,“ segir Birkir sem var hins vegar staðráðinn í að byggja sig upp á nýjan leik.
Veturinn 1984 hafði Hörður Helgason, sem þá þjálfaði Skagamenn, samband við Birki og bauð honum að æfa með ÍA. Þá var landsliðsmarkvörðurinn Bjarni Sigurðsson á leið í atvinnumennsku og því vöntun á markmanni á Skaganum. „Hörður vildi endilega nota mig þrátt fyrir að ég ætti í þessum meiðslum, þannig að ég æfði vel um veturinn og oft tvisvar á dag til að koma löppinni í lag. Sem betur fer náði ég mér af meiðslunum og spilaði með ÍA sumarið 1985 og næstu þrjú tímabil,“ segir Birkir, en hann lék á þessum tíma með miklum kempum á Skaganum eins og Guðjóni Þórðarsyni.
Gullaldarárin með Fram og ÍA
Árið 1988 hafði Birkir síðan vistaskipti og hélt í Safamýrina í Reykjavík til að spila með Fram. Þar var hann til ársins 1995 er atvinnumennskan tók við. „Ég átti góð ár bæði með Skaganum og Fram og varð m.a. bikarmeistari með Skaganum á þessum árum og síðan Íslands- og bikarmeistari með Fram. Ásgeir Elíasson þjálfaði okkur hjá Fram á þessum tíma og ég man eftir því að tímabilið 1988 vorum við í svipaðri stöðu og FH er í dag og hreinlega rúlluðum upp mótinu,“ segir Birkir, en þetta ár vann Fram bæði í bikar og deild með miklum yfirburðum.
Aðspurður um hvort Framliðið sumarið 1988 hafi verið betra en FH í dag segir Birkir erfitt að bera saman þessi tvö lið þar sem um ólíkar aðstæður sé að ræða. „Við vorum með yfirburði í deildinni þetta sumar eins og FH í dag, en það er erfitt að meta svona á milli tíma þar sem mörg ár eru á milli tímabila. Gæðin hafa batnað og þetta er orðin meiri atvinnumennska í dag en var og menn eru kannski eingöngu að stunda fótbolta sem þekktist lítið áður fyrr,“ segir Birkir. „Eins og þegar ég var uppi á Skaga þá flakkaði maður á milli með gömlu Akraborginni á æfingar og í leiki á veturna, en þá var ég kominn í viðskiptafræði í Háskólanum. Síðan var maður uppi á Akranesi á sumrin. Þannig að maður er kannski í aftur í þessum aðstæðum hérna í Eyjum, nokkuð mörgum árum síðar,“ segir hann hlæjandi.
Atvinnumennska í fjórum löndum
Haustið 1995 hélt Birkir síðan í atvinnumennskuna er hann hóf að leika með Brann í Noregi tímabilið 1996/97. Þaðan lá leiðin síðan yfir til Svíþjóðar þar sem hann spilaði með Nörrköping. „Ég var reyndar lánaður til Birmingham í Englandi áramótin 1996/97 og eins þegar ég var að klára tímabilið með Nörrköping þá spilaði ég með Bolton veturinn 1998/99. Eftir það tímabil kom ég síðan aftur heim og gekk til liðs við ÍBV,“ segir Birkir sem hjá Bolton hitti fyrir Eið Smára Guðjohnsen, Arnar Gunnlaugsson og Guðna Bergsson. Birkir var þó ekki alveg búinn að segja skilið við atvinnumennskuna því haustið 1999 hélt hann til Austurríkis til að spila með Austria Laustenau og aftur haustið 2000, er hann spilaði með Íslendingaliðinu Stoke City út það tímabil. „Ég lenti síðan í því að fara aftur til Stoke City tímabilið á eftir en þá í öðrum erindagjörðum. Þá var erindið að fara yfir fjármálin hjá félaginu og vinna skýrslu fyrir stjórn félagsins um fjárhagsstöðuna. Það var svolítið fyndið að þegar ég kem út til Englands á fimmtudegi og er varla kominn inn fyrir dyr á skrifstofu félagsins að ég er beðinn um að koma inn í liðið þá um helgina þar sem markvörðurinn hafði meiðst,“ segir Birkir sem spilaði nokkra leiki með Stoke City tímabilið 2001. „Það má segja að maður hafi verið gjörnýttur hjá félaginu, bæði inni á skrifstofunni og síðan úti á velli,“ segir hann kankvís.
Í dag er Birkir að spila sitt sjöunda tímabil með ÍBV og deildarleikirnir eru orðnir 119 með liðinu og alls hefur hann spilað 319 deildarleiki, fleiri en nokkur annar leikmaður fyrr og væntanlega síðar. Það má eiginlega segja að ferill Birkis sem knattspyrnumanns sé ótrúlegur. Hann fær ekki spjöld, hefur leikið flesta landsleiki sem markvörður, er fyrstur til að halda markinu 100 sinnum hreinu í leik og hefur ekki misst úr deildarleik með félagsliði sínu hér á landi síðan vorið 1985, eða í rúmlega tuttugu ár.
„Það er svolítið magnað að vera að rifja upp þessa tíma núna árið 2005. Mér finnst eins og hlutirnir hafi gerst í gær,“ segir Birkir.
Vinir fyrir lífstíð
En þú hefur alltaf jafn gaman af fótboltanum? „Það er eitthvað í þessu sem erfitt er að skilja við og það má kannski segja að það sé ekki beint spilamennskan sem slík sem standi upp úr, heldur mikið frekar félagsskapurinn og það sem er í kringum fótboltann. Það hefur gefið manni eitthvað sem erfitt er að slíta sig frá,“ segir Birkir sem kynnst hefur ógrynni af fólki í gegnum langan feril í fótboltanum. „Margir skemmtilegir fýrar hafa orðið á vegi manns og síðan hefur maður eignast vini til lífstíðar í gegnum fótboltann og það er eitthvað sem er ómetanlegt,“ segir Birkir blaðamanni og telur upp nokkra eftirminnilega samherja. „Mér dettur í hug menn eins og Baldur Bragason og Páll Guðmundsson sem spiluðu með ÍBV á sínum tíma. Báðir eru þeir eftirminnilegar týpur og skemmtilegir. Síðan höfum við hjá ÍBV fengið marga útlendinga í gengum tíðina sem hafa verið fyndnar týpur. Til dæmis lékum við gegn B36 frá Færeyjum fyrir stuttu í Evrópukeppninni og með þeim var Allan Mörköre sem spilaði með ÍBV fyrir nokkrum árum. Síðan er maður að vinna með Inga Sig. í Bankanum en við lékum í mörg ár saman og sama má segja um Hlyn Stefáns,“ segir hann og bætir við að allt séu þetta góðir vinir hans í dag.
„Það er svo fyndið að menn eru allt öðruvísi á vellinum en í hversdagslegu lífi,“ segir Birkir þegar hann lýsir fyrir blaðamanni hvernig menn geta breytt um ham þegar fótboltinn er annars vegar. „Maður finnur oft tvær týpur af sama manninum, þeim sem er á vellinum og síðan fyrir utan hann. Sumir eru algjörir ljúflingar utan vallar en breytast í óargadýr þegar komið er í leik.“
Eftirminnileg ár með landsliðinu
Birkir á langan og glæsilegan feril með landsliðinu, en alls lék hann 74 leiki fyrir Íslands hönd á árunum 1988 til 2004. Í raun hætti Birkir með landsliðinu haustið 2003, en punkturinn var settur yfir i-ið 18. ágúst 2004 þegar hann lauk glæsilegum ferli með kveðjuleik frammi fyrir troðfullum Laugardalsvelli í frábæru veðri gegn mögnuðu liði Ítala. „Það var alveg frábært að fá tækifæri til að klára landsliðsferilinn með því að vinna Ítali fyrir framan rúmlega 20.000 áhorfendur og fara síðan beint að halda upp á afmælið sitt,“ segir Birkir en þremur dögum fyrir landsleikinn varð hann fertugur.
Birkir hefur leikið marga eftirminnilega leiki með landsliðinu og var hann ekki lengi að rifja upp nokkra leiki þar sem Ísland stóð uppi í hárinu á stórþjóðum. „Þar ber kannski helst að nefna leikinn gegn Frökkum hérna heima árið 1998 þegar við gerðum jafntefli við þá, en þá voru þeir nýorðnir heimsmeistarar. Það var alveg frábær stemning á leiknum og ég hef aldrei upplifað annað eins á Laugardalsvelli,“ segir Birkir. „Settar voru upp stúkur fyrir aftan mörkin og völlurinn var alveg troðfullur. Allan seinni hálfleikinn heyrði maður ekki í neinum leikmanni inni á vellinum, slík var hvatning áhorfenda. Þessi leikur var alveg stórkostlegur og í raun einnig leikurinn úti gegn þeim þegar við rétt töpuðum 3:2,“ segir Birkir og hefur gaman af því að rifja upp gamla og eftirminnilega leiki frá landsliðsárunum. Landsliðsmarkvörðurinn fyrrverandi nefnir fleiri leiki til sögunnar eins og þegar knattspyrnustjarnan Ronaldo lék sinn fyrsta landsleik gegn litla Íslandi árið 1994 og þegar Ísland mætti Frökkum með hinn litríka leikmann, Eric Cantona, í leik árið 1991.
Birkir segir tímann með landsliðinu hafa verið frábæran og hann hafi fengið tækifæri til að heimsækja mörg lönd. „Það hefur nú verið þannig að tími til ferðalaga hefur ekki verið mikill, fótboltinn hefur tekið mikinn toll, en með landsliðinu hefur maður aðeins fengið að sjá heiminn og heimsótt framandi staði,“ segir hann.
Ótrúlegt atvik í leik gegn Víkingum
Birkir hefur verið ótrúlega heppinn með meiðsli á ferlinum utan þess er hann fótbrotnaði illa í leik með KA á Hlíðarenda sumarið 1984. Blaðamaður spurði Birki út í atvik á knattspyrnuvellinum þegar hann fékk takka í löppina á sér. Birkir var fljótur að leiðrétta misskilninginn, en oftar en ekki hefur sagan verið þannig að Birkir, sem þá lék með Fram, hafi lent í atvikinu. Leyfum Birki að leiðrétta misskilninginn. „Það eru nú margir sem hafa haldið að ég hafi fengið takkann í löppina á mér, en því var þveröfugt farið. Þetta var sumarið 1991 og ég var að spila með Fram í leik gegn Víkingum. Þá var Guðmundur Steinsson farinn yfir í Víking frá Fram og við lentum í samstuði og ég fór eitthvað með lappirnar á móti honum. Því miður lenti ég á löppinni á honum og eitthvað stóð út úr hnénu sem virtist vera bein við fyrstu sýn. Víkingarnir réðust í kjölfarið á mig og létu við mig eins og ég væri einhver glæpamaður,“ segir Birkir og heldur áfram að rifja upp atvikið: „Þeir héldu að ég hefði rústað löppinni á Gumma og að bein stæði út úr hnénu á honum. Upphófust mikil læti á vellinum og enginn skildi neitt í neinu. Víkingarnir vildu að sjálfsögðu fá mig útaf vellinum en ég fékk ekki einu sinni spjald. Síðan kom í ljós þegar uppá sjúkrahús var komið og læknir fór að skoða Gumma að um takka væri að ræða sem stæði út úr hnénu á honum en ekkert bein, en þá hafði takki losnað úr skónum mínum og fest í hnénu á honum. Gummi var síðan með í næsta leik hjá Víkingum eins og ekkert hafi í skorist,“ segir Birkir sem hefur verið með prúðari leikmönnum á Íslandi og eins og áður segir aldrei fengið spjald á ferlinum.
Líf eftir boltann
Þá var komið að bera upp spurninguna sem brennur á allra vörum. Ætlar Birkir Kristinsson að leggja hanskana á hilluna eftir að tímabilinu lýkur í haust? „Já þetta er síðasta tímabilið sem ég spila. Ég ætlaði nú að hætta í fyrra, en það framlengdist aðeins,“ segir Birkir sem sér ekki eftir neinu þrátt fyrir dapurt gengi ÍBV liðsins það sem af er sumri. „Það er alltaf hægt að velta því fyrir sér hvort maður hefði átt að gera þetta eða hitt. Ég er bara ekkert að velta mér upp úr því. Ég ákvað að taka tímabilið í sumar og mér var það alveg ljóst að við yrðum að berjast í botnbaráttunni í sumar. Markmiðið hjá okkur er númer 1, 2 og 3 að halda liðinu uppi og ef það tekst er maður auðvitað frábærlega sáttur. Ég held að það yrði mjög dýrkeypt fyrir fótboltann hér í Eyjum ef við föllum og það má hreinlega ekki gerast,“ segir Birkir með áherslu.
Aðspurður segir Birkir það verða væntanlega gríðarlega mikla breytingu frá því sem verið hefur að hætta að spila knattspyrnu. Engir leikir eða æfingar. „Þetta verður mikil breyting og maður hefur eiginlega ekkert náð að hugsa út í það. Mikill tími hefur farið í fótboltann bæði á sumrin og ekki síður veturna hjá manni, þar sem undirbúningstímabilið er mjög langt hér á landi. Þá verða mikil viðbrigði að vera laus yfir hátíðirnar eins hvítasunnu og páska sem hingað til hafa verið undirlagðar fyrir fótboltann,“ segir hann og bætir við að hann sé hvergi banginn og hlakki til að takast á við nýja hluti. „Eigum við síðan ekki að segja að það sé líf eftir boltann?“
Reiknar þú með að vera eitthvað viðloðandi knattspyrnu eftir að skórnir og hanskarnir fara upp í hillu? „Ég hef svo sem ekkert velt því fyrir mér. Vissulega á maður eitthvað eftir að fylgjast með boltanum en ég er nú þannig að ég er ekkert eitthvað sjúkur í knattspyrnu sem slíka. Eins og núna þegar ég er að spila þá nenni ég varla að horfa á leiki í sjónvarpinu eða yfirleitt að horfa á þá. Það er kannski vegna þess að ég hef nóg annað fyrir stafni. Maður hefur eytt miklum tíma í knattspyrnuna og kannski hugsar maður sem svo að frítíminn eigi ekki að fara í að spá og spekúlera í knattspyrnunni með því að horfa á leiki og þannig,“ segir Birkir.
Vantar meiri metnað hjá ungum knattspyrnumönnum
Birkir segist vera mjög sáttur og ánægður þegar litið er yfir farinn veg í knattspyrnunni. „Ég átti nú aldrei sérstaklega von á því að ná einhverjum árangri í knattspyrnunni og mér hefur aldrei fundist ég hafa haft eitthvað meira fram að færa en aðrir. Maður hefur kannski haft metnað til að reyna að geta eitthvað og lagt svolítið meira á sig í gegnum tíðina til að ná þeim markmiðum. Ég hef æft meira en aðrir og það hefur skilað sér ásamt því að ég hef verið heppinn með meiðsli,“ segir Birkir sem finnst vanta meiri metnað í unga knattspyrnumenn í dag. „Mér finnst svolítið vanta í fótboltann í dag að menn hafi metnað fyrir að ná árangri og leggi þ.a.l. meira á sig en ella. Það er vel hægt að komast langt á þvermóðskunni þó svo að hæfileikarnir séu kannski ekki alltaf miklir. Dæmin sanna það,“ segir hann.
Þingholtarar á þjóðhátíð
Birkir er tengdur Þingholtsættinni víðfrægu héðan úr Eyjum í gegnum föðurættina, en Þingholtararnir láta sig sjaldan vanta á Þjóðhátíð og eru ætíð hrókar alls fagnaðar. Birkir sver sig í ættina því honum finnst ákaflega gaman á þjóðhátíð og ætlar að mæta í Dalinn í ár. „Ég missti nú af nokkrum hátíðum þegar ég var erlendis og sem mest í fótboltanum en reyndi alltaf að koma á þjóðhátíð. Mér fannst alltaf erfitt að vera einhvers staðar annars staðar en á þjóðhátíð,“ segir Birkir sem þó segist aðeins vera hálfdrættingur á við aðra Þingholtara. „Ég get nú varla kallað mig alvilltan Þingholtsmann í þjóðhátíðarhaldinu eins og Óskar Þór og Gylfa frændur mína. En ég reyni að láta mig ekki vanta í Dalinn þegar tækifæri gefst og hver veit nema maður verði jafn ferskur á þjóðhátíðinni í ár eins og þeir frændur,“ segir hann.
Aðspurður um eftirminnilegar þjóðhátíðir segir Birkir Stuðmannahátíðirnar 1982 og 1986 sitja eftir í minningunni. „Þegar ég var uppi á Skaga árin 1985-´87 kom ég með félaga mína með mér á þjóðhátíð og þeir skemmtu sér alveg konungslega og eru í raun ennþá að tala um hvað hafi verið gaman á þjóðhátíð. Síðan voru Stuðmenn náttúrulega á stóru hátíðinni árið 1986 og þá var mjög mikil stemmning í Dalnum,“ segir stuðmaðurinn Birkir.
Birkir segir allar þær hefðir sem skapast hafa í kringum þjóðhátíð skipta miklu máli og geri hátíðina að þeim mikla viðburði sem hún er. „Ég er ekki í nokkrum vafa um að hefðirnar skipa miklu máli, hvort sem um er að ræða stóru póstana eins og brennuna og brekkusönginn eða þá hvítu tjöldin og kjötsúpuna. Það hefur hins vegar oftar en ekki farið þannig hjá mér í gegnum tíðina að lítill tími hefur gefist til að taka þátt í undirbúningi hátíðarinnar vegna fótboltans. Eins og núna í ár þá eigum við leik á fimmtudaginn fyrir þjóðhátíð og því getur maður ekki tekið þátt í undirbúningnum af neinu ráði,“ segir hann og bætir við að best væri að vera með leik á sunnudegi, helgina fyrir þjóðhátíð. „Þá hefur maður alla vikuna til að undirbúa tjaldið og smyrja ofan í mannskapinn og síðan það sem skiptir kannski mestu máli – að skreppa í lundaveiði,“ segir Birkir.
Forréttindi að vera í Eyjum á sumrin
Óhætt er að segja að Birkir haldi vel í ræturnar í Eyjum, því eins og sönnum Þingholtara og Eyjamanni veiðir hann lunda. „Já ég hef eitthvað verið að leika mér að því að veiða lunda. Það er náttúrulega bara hluti af því að vera hérna í Eyjum, enda mikil náttúruperla. Nábýlið við náttúruna hefur laðað mann hingað til Eyja sumar eftir sumar. Að vera hérna á sumrin er alveg frábært og að geta labbað eitthvað út eftir vinnu og vera kominn út í náttúruna, einn með sjálfum sér, á nokkrum mínútum og þá kannski að veiða lunda eru alger forréttindi,“ segir Birkir sem töluvert hefur farið í lundaveiði á sumrin á Heimaey. „Ég hef farið mikið í Dalfjallið og eins í Sæfjallið og Kervíkurfjallið. Ég er nú enginn sérfræðingur í þessum fræðum, heldur hef bara gaman að því að prufa og reyna að ná í nokkra fugla,“ segir hann.
Hefur þú tekið í háf í sumar? „Nei, það er nú vandamálið og mér er farið að líða illa yfir því. Ég hef bara ekkert komist,“ segir Birkir. „Ég hef heyrt í félögum mínum eins og Eyþóri Harðar, að hann hefur verið að fara í lunda, þannig að ég verð að fara að koma mér af stað. Það hefur bara verið svo mikið að gera í fótboltanum og vinnunni það sem af er lundaveiðitímabilinu að maður hefur ekkert komist. Maður er bara að átta sig á því núna að það eru ekki nema tvær vikur í þjóðhátíð og ekki hefur gefist tími til að fara í lunda,“ segir Birkir sem deilir áhyggjum sínum með blaðamanni. „Síðan eru ekkert nema leikir framundan, þannig að ástandið er ekki nógu gott.“
Hann segir reyndar smá séns vera á því að komast í lundaveiði í Færeyjum þegar ÍBV mætir B36 frá Þórshöfn í Evrópukeppninni. „Leikurinn er á fimmtudeginum fyrir þjóðhátíð og ef við verðum veðurtepptir vegna þoku þá fer maður kannski í lunda,“ segir hann hlæjandi og bætir við: „Allan Mörköre sagðist síðan ætla að bjóða mér í snafs og bjór eftir leikinn í Færeyjum, en þá er Ólafsvakan á fullu skriði hjá þeim.“ Ef það verður pláss í flugvélinni þá reynir maður að lauma háfnum með.
Lít framtíðina björtum augum
Aðspurður segir Birkir að sér líði ákaflega vel í Vestmannaeyjum með náttúruna og fjölskylduna allt um kring. „Það er eitthvað sem tengir mann hingað, bæði náttúran og útgerðin og síðan er fjölskyldan hérna í Eyjum. Þannig að það er erfitt að slíta sig héðan og kannski ástæðan fyrir því að maður hefur haldist svona lengi í fótboltanum að maður vill halda góðum tengslum við Vestmannaeyjar og þá sérstaklega vera hér á sumrin. Síðan er peyinn minn alveg sjúkur í að vera hérna í Eyjum,“ segir hann.
„Mér líst vel á framtíðina,“ segir Birkir aðspurður út í hvernig augum hann líti framtíðina. „Hún er svo síbreytileg og ef maður bara vissi hvar maður verður niðurkominn eftir eitt ár. Ég veit allavega að ég verð hérna í Eyjum næstu tvo mánuðina en síðan veit maður ekki meir. Í þeim geira sem ég er í, fjármálaheiminum, þá getur maður þess vegna verið kominn út í heim í haust án þess að maður viti af því í dag. En ég reyni að plana sem minnst í þessum efnum,“ segir Birkir sem nóg hefur fyrir stafni bæði í boltanum og vinnunni að ógleymdum óveiddum lundum sumarsins.
Eyjarnar munu blífa
Þegar blaðamaður spyr Birki út í hvernig honum finnist bæjarbragurinn vera í Vestmannaeyjum segir hann braginn vera góðan, en þó heyri hann á fólki sem sæki Vestmannaeyjar heim að því finnist Eyjarnar hafa breyst mikið, ákveðið hnignunarskeið sé ríkjandi. „Ég einhvern veginn finn ekkert fyrir því þar sem ég hef bara verið í mínum verkefnum hérna í Eyjum, fótboltanum og vinnunni og síðan að leika mér í náttúrunni, þannig að maður er ekkert mikið að velta fyrir sér stöðu mála hérna í Eyjum. Maður veit að það er minna um atvinnutækifæri og fólki hefur fækkað sem er miður en ég er handviss um að eyjarnar eigi eftir að blífa í framtíðinni. Ég sé fyrir mér að hér verði sumarparadís í framtíðinni fyrir fólk að sækja,“ segir Birkir sem vel getur ímyndað sér að eiga sumarhús í Vestmannaeyjum í framtíðinni. „Ég gæti vel ímyndað mér að áhugi sé fyrir slíku hjá brottfluttnum Eyjamönnum og ég tala nú ekki um ef göngin koma.“
Birkir segir að öflugt atvinnulíf sé forsenda þess að byggð þrífist sem skyldi hér í Eyjum og meiri fjölbreytileika þurfi í atvinnuframboð. „Atvinnulífið hefur verið heldur einhæft hér í Eyjum í gegnum tíðina og allt snúist í kringum fiskinn, útgerðina og vinnsluna, en maður vonar að hingað komi einhver starfsemi sem getur dregið til sín fólk. Ég veit svo sem ekkert hvað það getur verið en ég er bjartsýnn á framtíð Vestmannaeyja og trúi ekki öðru en að hér eigi eftir að verða gott mannlíf áfram,“ segir Birkir Kristinsson.
- Eftir Skapta Örn Ólafsson.