Axel Vigfússon
Axel Vigfússon fæddist í Vestmannaeyjum 16. október 1918 og lést 28. júní 2001. Foreldrar hans voru Vigfús Jónsson, formaður og útgerðarmaður í Holti, og Guðleif Guðmundsdóttir, frá Vesturhúsum í Vestmannaeyjum. Síðari kona Vigfúsar, Valgerður Jónsdóttir, sá um uppeldi Axels og reyndist honum vel meðan hún var á lífi.
Axel, sem oftast var kallaður Púlli, veiktist þegar hann var á öðru aldursári og náði ekki andlegum þroska. Axel dvaldi á elliheimilinu í Skálholti í Vestmannaeyjum fram að eldgosinu 1973 er hann fluttist á Kópavogshælið, þar sem hann undi hag sínum vel þrátt fyrir fjarlægðina frá Vestmannaeyjum. Síðustu árin dvaldi hann í góðu yfirlæti á Hraunbúðum í Vestmannaeyjum.
Árni Elfar sagði eitt sinn í viðtali að það væru margir minnisstæðir menn úr bæjarlífinu í Eyjum en þá sérstaklega tveir sem eru fallnir frá. Nefndi hann Púlla sem annan þeirra og Jóhann Friðfinnsson hinn. Segir Árni: „Ég man sérstaklega eftir einum manni sem setti sterkan svip á bæjarlífið í Eyjum á þessum árum og það var hann Púlli. Ég sá Púlla í Eyjum rétt áður en hann dó þegar ég var í heimsókn á elliheimilinu. Ég hélt að hann væri löngu látinn þar sem hann var svo fatlaður maður en þá sat hann þarna í anddyrinu með bílinn sinn. Þetta er eitt það lygilegasta sem hefur komið fyrir mig.“