Arnfríður Jónsdóttir (Oddsstöðum)
Arnfríður Jónsdóttir húsfreyja á Oddsstöðum fæddist 5. september 1807 og lést 10. maí 1867.
Faðir hennar var Jón sýslumaður í Eyjum 1801-1812, f. um 1769, d. 22. apríl 1815, Þorleifsson alþingisskrifara og bónda í Ási í Holtum og víðar, f. 1732. d. 8. júlí 1805 í Eystri-Skógum u. Eyjafjöllum, Nikulássonar sýslumanns á Barkarstöðum í Fljótshlíð, f. 1700, drekkti sér í gjá (síðan nefnd Nikulásargjá) á Þingvöllum 25. júlí 1742, Magnússonar bónda á Hólum í Eyjafirði, f. 1657, Benediktssonar og konu Magnúsar, Ingibjargar húsfreyju, f. 1660, Þorkelsdóttur.
Móðir Þorleifs alþingisskrifara og kona Nikulásar sýslumanns var Rannveig húsfreyja, f. um 1708, d. 12. júlí 1785, Þorsteinsdóttir prests í Holti u. Eyjafjöllum, f. 1668, d. 1752, Oddssonar, og konu sr. Þorsteins, Kristínar húsfreyju, f. 1671, d. 1742, Grímsdóttur.
Móðir Jóns sýslumanns og fyrri kona Þorleifs alþingisskrifara var Guðrún húsfreyja, f. 1732, d. 1782, Jónsdóttir lögréttumanns á Stóra-Núpi í Gnúpverjahreppi, veiktist á geði á efri árum, f. um 1690, var á lífi 1755, Magnússonar bónda í Bræðratungu, („júngkærinn‟ í Bræðratungu), veiktist á geði, f. 1651, d. 8. mars 1707, Sigurðssonar, og annarrar konu Magnúsar í Bræðratungu, Þórdísar („Snæfríður‟, „hið ljósa man‟) húsfreyju í Bræðratungu, f. 1671, d. 1741, Jónsdóttur biskups á Hólum, Vigfússonar.
Móðir Arnfríðar á Oddsstöðum og síðari kona Jóns sýslumanns var Bóel Jensdóttir húsfreyja á Oddsstöðum, f. um 1783, d. 22. maí 1855.
Arnfríður var með ekkjunni móður sinni á Oddsstöðum 1816 og 1835.
Hún var gift húsfreyja á Oddsstöðum 1840, ekkja með ekkjunni móður sinni þar 1845 og 1850. Niðursetningur var hún á Búastöðum 1855 hjá Páli Jenssyni og Gróu Grímsdóttur og í Stakkagerði 1860 hjá Ásdísi Jónsdóttur og Árna Diðrikssyni.
Samkvæmt þjóðsögum af henni varð hún veik á geði.
Sjá:
1. Úr fórum Árna Árnasonar. Verk hans og annarra/Frá Sigurði Breiðfjörð í Eyjum og
2. Sögur og sagnir úr Vestmannaeyjum/Sigurður Breiðfjörð og sýslumannsdóttirin
Maður Arnfríðar var Guðmundur Sigurðsson frá Skíðbakka í A-Landeyjum, bóndi og járnsmiður á Oddsstöðum 1840 , skírður 7. janúar 1798, drukknaði 18. nóvember 1842 með Vigfúsi Bergssyni í Stakkagerði og félögum. Hann var bróðir Magnúsar Sigurðssonar bónda í Háagarði, afa Magnúsar í Hlíðarási og hálfbróðir, af sama föður, Sigurðar Sigurðssonar bónda í Þorlaugargerði.
Börn þeirra Guðmundar hér:
1. Sigríður Guðmundsdóttir, f. 7. apríl 1838, d. 17. apríl 1838 „af Barnaveikin“.
2. Guðmundur Guðmundsson, f. 6. apríl 1839, d. 14. apríl 1839 „af Barnaveiki“.
3. Ólafur Verner Guðmundsson, f. 12. maí 1840, d. 25. maí 1840 „af Barnaveikleika“.
4. Eyjólfur Guðmundsson, f. 2. maí 1841, d. 15. júní 1841 úr ginklofa.
5. Geirlaug Guðmundsdóttir, f. 10. október 1842, d. 18. október 1842 úr ginklofa.
Heimildir
- Samantekt: Víglundur Þór Þorsteinsson.
- Holtamannabók II – Ásahreppur. Valgeir Sigurðsson og fleiri. Ritstjórn: Ragnar Böðvarsson. Ásahreppur 2007.
- Íslandsklukkan. Halldór Kiljan Laxness.
- Íslendingabók.is.
- Íslenzkar æviskrár. Páll Eggert Ólason og fleiri. Hið íslenzka bókmenntafélag 1948-1956.
- Lögréttumannatal. Sögurit. Einar Bjarnason. Sögufélag gaf út. Ísafoldarprentsmiðja h.f. 1952-1955.
- Manntöl.
- Sögur og sagnir úr Vestmannaeyjum/Sigurður Breiðfjörð og sýslumannsdóttirin.
- Úr fórum Árna Árnasonar. Verk hans og annarra/Frá Sigurði Breiðfjörð í Eyjum.
Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.