Anna Guðlaugsdóttir (Þorlaugargerði)

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Anna Guðlaugsdóttir.

Anna Guðlaugsdóttir húsfreyja frá Ketilsstöðum í Mýrdal fæddist 30. september 1835 á Ketilsstöðum og lést 26. nóvember 1915 í Utah.
Foreldrar hennar voru Guðlaugur Eyjólfsson bóndi víða, en lengst á Ketilsstöðum, f. 22. júní 1803 í Mörtungu á Síðu, d. 1886 á Syðsta-Hvoli í Mýrdal, og kona hans Ingibjörg Ingimundardóttir húsfreyja, f. 13. júlí 1805 á Lækjarbakka í Mýrdal, d. 26. ágúst 1879 á Ketilsstöðum.

Anna var með foreldrum sinum til ársins 1854, var vinnukona í Pétursey í Mýrdal 1854-1856. Hún fluttuist til Eyja 1856 og var vinnukona í Þorlaugargerði. Þar var Loftur Jónsson húsbóndi. Hún tók mormónatrú, var trúlofuð Þórði Diðrikssyni. 1857 fluttist hún til Vesturheims með Lofti og fjölskyldu. Á leiðinni er sagt, að hana skorti fé fyrir farinu. Hljóp þá Jón Jónsson undir bagga með henni. Varð endirinn sá, að þau giftust um borð í skipinu.
Þau eignuðust barn á leiðinni yfir slétturnar í Bandaríkjunum, en það dó og var jarðsett á sléttunum, settust að í Iowa-ríki um skeið, en fluttust til Utah 1859. Ferðast var í vagni, en þau urðu þó að ganga síðustu nær 2 þúsund kílometrana.
Þau stofnuðu heimili í Spanish Fork og eignuðust 8 börn. Jón fluttist með fjölskylduna til North Bend í Sanpete-héraði, þar sem hann var ráðinn til varna gegn árásum Indíána. Um það leyti, sem síðasta barnið fæddist, réðst til þeirra vinnukonan Ingibjörg Sigríður Jónsdóttir frá Hvammi í Langadal í A-Hún.
Jón kvæntist henni 1877 sem annarri konu sinni að mormónskum hætti, en Anna skildi við hann nokkru síðar.
Hún fluttist til Ellenar (Banks) dóttur sinnar, var lömuð síðustu 17 ár ævinnar, lést 1915.

Maður Önnu, (1857 um borð í hafskipi á leið til Vesturheims), var Jón Jónsson sjómaður, bóndi, smiður, f. 31. júlí 1834, d. 15. júlí 1913.
Þau eignuðust 8 börn, 7 hér nefnd:
1. Jonah Jónsdótttir, f. 19. júní 1859, d. 11. september 1867.
2. Parley Pratt Jónsson Johnson, f. 19. apríl 1862, d. 8. apríl 1935. Kona hans Caroline Albertson Johnson.
3. Sarah Anna Jónsdóttir, f. um 1865, bjó í Colorado. Maður hennar William Phibbs.
4. Alma Jónsdóttir, f. 5. okt. 1866, d. 4. október 1867.
5. Orson Telee Jónsson Johnson í Spanish Fork, f. 20. des. 1868, d. 19. nóvember 1950. Kona hans Margaret Ann Chrisholm Johnson.
6. Ellen Guðrún Jónsdóttir Banks, f. 29. nóv. 1871, d. 14. maí 1964. Maður hennar Robert Taylor Banks.
7. Louise Vigdís Jónsdóttir, f. 13. nóv. 1875, d. 14. október 1966. Fyrri maður hennar Benton Hart Brown. Síðari maður hennar Hyrum Mickel Christensen.


Heimildir


Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.