Annáll ÍBV íþróttafélags í 20 ár/2016 -

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search

2016 -


JANÚAR:

Þrettándinn

Þessi merki dagur í Vestmannaeyjum kallar á flesta bæjarbúa til þátttöku. Og þeir vilja honum allt hið besta. Í Fréttum rétt fyrir þrettándann skrifaði Salóme Ýr Rúnarsdóttir hugvekju í blaðið: „Því langar mig að biðla til allra þeirra sem komið geta skilaboðum til jólasveinanna, tröllanna, Grýlu og Leppalúða að það eru svo mörg börn sem bíða og bíða eftir smá eftirtekt, klappi á kollinn eða  smá stríðni. Ég hef heyrt að sumir hafa farið heim með tárin í augunum af því að jólasveinninn heilsaði ekki eða að tröllið tók ekki eftir þeim í öll þessi skipti sem þau fóru framhjá en heilsuðu hins vegar fullorðna manninum sem stóð við hliðina á þeim eða jafnvel bara besta vininum sem þau voru með, til þess að njóta Þrettándans. Spennan sem hafði magnast upp fyrir þessum furðuverum varð að engu, þau fóru svekkt heim og voru jafnvel hálf fúl út í mömmu og pabba fyrir að leyfa þeim ekki að fara inn á svæðið. Er það ósk mín að þetta verði lagað, svo að öll börn fái að njóta þess sem Þrettándinn býður upp á.  Það ætti ekki að vera mikið mál að laga þetta, bara ef viljinn er fyrir hendi.“

Hvort farið var að tilmælum Salóme er ekki vitað, en þrettándinn fór vel fram og var ÍBV íþróttafélagi til sóma.

Auk þrettándagleðinnar sjálfrar, ýmislegt annað til skemmtunar að deginumtil, þótt ekki væri það á vegum félagsins. T.d. sýndi leikfélagið, leikritið Ævintýrabókina og ratleikur var á vegum Sagnheima.

Sigur í fyrsta leik ársins

Í fyrsta leik ársins vann ÍBV  frábæran sigur á Fram í Olís-deild kvenna. Í Fréttum sagði að  það verði að viðurkennast að eftir tuttugu mínútna leik hafi ÍBV ekki sýnt sínar bestu hliðar. Liðið var fjórum mörkum undir, 4:8 og hafði meðal annars klikkað á þremur vítaköstum, gert sig sekt um allt of marga tæknifeila og látið markvörðinn verja sig í kaf.  Í hálfleik var staðan 13-13. Erla Rós Sigmarsdóttir varði fjórtán skot í marki ÍBV en Ester Óskarsdóttir skoraði tíu mörk, þá skoruðu Telma Amado og Vera Lopes þrettán mörk samtals.

ÍBV íþróttafélag hlaut Fréttapíramída

Það var niðurstaða Eyjafrétta að veita ÍBV íþróttafélagi Fréttapíramída fyrir árið 2015 vegna framlags þess til íþróttamála í Eyjum. Í rökstuðningi sínum sagði: „Við erum stödd á Básaskersbryggju í maí 2014. Það er kvöld í maí og strákarnir okkar í handboltanum á leiðinni með Herjólfi, nýkrýndir Íslandsmeistarar. Veður er gott, logn og fullt tunglið lýsir upp himininn. Þar sem því sleppti tóku við flugeldar og blys sem skotið var upp af Kleifabryggju, Hörgeyrargarði og Skansinum. Þetta var tilfinningaþrungin stund, Hjartað slær er spilað og það hrærir.  Móttökunum verður ekki lýst með orðum en þarna upplifðu leikmenn, þjálfarar og aðrir aðstandendur liðsins stund sem aldrei gleymist.   Sagan endurtók sig tæpu ári seinna, um mánaðamótin febrúar mars þegar strákarnir urðu bikarmeistarar og Eyjamenn um allt land glöddust. Þetta var stór helgi hjá ÍBV því konurnar í meistaraflokki komust í undanúrslit í bikarnum og stelpurnar í þriðja flokki ÍBV urðu bikarmeistarar. Aftur var fagnað á Básaskersbryggju enda ástæða til. Árangur ÍBV-íþróttafélags hefur verið einstakur undanfarin ár. Ekki bara í meistaraflokki því yngri flokkarnir hafa skilað ófáum titlum sem sýnir frábært starf innan félagsins. Íþróttaakademían á líka sinn þátt í því. Það ber að þakka og minnumst þess að á bak við árangur liggur mikil vinna margra.“

Heimir Eyjamaður ársins

Eyjafréttir gerðu Heimi Hallgrímsson, landsliðsþjálfara að Eyjamanni ársins 2015, ásamt Fanney Björk Ásbjörnsdóttur. Heimir er Eyjamaður, lék hér upp alla yngri flokkana og með meistaraflokki. Þjálfaði yngri flokka hér í Eyjum, gerði ÍBV að bikarmeisturum í knattspyrnu kvenna. Náði líka  mjög góðum árangri með karlalið ÍBV en snemma var ljóst að hann stefndi hærra. Hann er nú landsliðsþjálfari Íslands í knattspyrnu. Hann er orðinn nafn í alþjóðlegum fótbolta 

17 marka sigur á Aftureldingu

Stelpurnar í meistaraflokki kvenna hjá ÍBV gerðu sér lítið fyrir og tylltu sér á topp Olísdeildar kvenna með sautján marka sigri á Aftureldingu í Mosfellsbænum. Sigurinn var aldrei í hættu en liðið var 1:8 yfir eftir átta mínútur.

FEBRÚAR:

Úrslit nokkurra leikja yngri flokkanna

2. flokkur karla:

ÍBV 22:23 Valur. 

3. flokkur karla:

ÍBV 32:30 Valur,

ÍBV2 37:19 HKR. 

4. flokkur kvenna - eldri:

KA/Þór 20:12 ÍBV,

KA/Þór 18:12

ÍBV,  KA/Þór 26:21

ÍBV.  ÍBV 17:22 KA/Þór.

4. flokkur kvenna - yngri:

ÍBV 14:23 Víkingur.

4. flokkur karla - yngri:

ÍBV 21:19 Afturelding,

ÍBV 2 29:25 Afturelding 2. 

Úr leik í bikarnum en á góðri siglingu í deildinni

ÍBV var úr leik í Coca Cola bikar kvenna eftir eins marks tap á móti Stjörnunni á heimavelli. Stjarnan náði fljótt yfirhöndinni en þær voru nýbúnar að sigra Gróttu nokkuð örugglega í deildinni.   Þegar tuttugu mínútur voru liðnar munaði heilum sex mörkum á liðinu og virtist Stjarnan vera að stinga af. ÍBV náði þó að klóra í bakkann og skoraði meðal annars fjögur mörk í röð, staðan var 12:15 í hálfleik. Stjarnan byrjaði seinni hálfleikinn einnig af krafti en þær voru í þægilegri stöðu stóran hluta síðari hálfleiks.  Staðan var 16:21 þegar fimmtán mínútur voru eftir en þá kom annar góður kafli hjá ÍBV. Stjörnustúlkur voru þó alltaf með svör og voru fimm mörkum yfir þegar sjö mínútur voru eftir af leiknum. Þær skoruðu ekki meira í leiknum en það má þakka sterkri vörn ÍBV og Erlu Rós Sigmarsdóttur sem stóð þar fyrir aftan. ÍBV minnkaði muninn niður í eitt mark og voru með boltann þegar innan við mínúta var eftir af leiknum.

Florentina Stanciu stóð þá í vegi fyrir Ester Óskarsdóttur sem ætlaði að jafna leikinn. Florentina fékk síðan tveggja mínútna brottvísun fyrir að tefja leikinn en það kom ekki að sök þar sem Stjarnan fagnaði eins marks sigri. Erla Rós Sigmarsdóttir var best í liði ÍBV en hún varði 16 skot, vörn ÍBV spilaði þó mjög vel í leiknum. Ester Óskarsdóttir skoraði fimm mörk hjá ÍBV og var markahæst, þá skoruðu Greta Kavaliuskaite og Drífa Þorvaldsdóttir meðal annars fjögur mörk.

Deild - ÍBV 37:29 ÍR

ÍR Stelpurnar létu tapið á móti Stjörnunni ekki trufla sig og styrktu stöðu sína á toppnum með átta marka sigri á ÍR. ÍR byrjaði leikinn mjög vel og leiddu þær í stöðunni 1:4. Þá fóru leikmenn ÍBV  hinsvegar að sýna sitt rétta andlit.   Seinni hluti fyrri hálfleiks reyndist ÍBV mjög dýrmætur þar sem þær komu stöðunni úr 7:7 í 19:14. Í síðari hálfleiknum tókst gestunum að minnka muninn niður í fjögur mörk í stöðunni 29:25 en nær komust þær ekki. Á lokakaflanum sást vel hvort liðið væri á toppi deildarinnar en leiknum lauk með átta marka sigri, 37:29 og heldur ÍBV því toppsætinu. Ester Óskarsdóttir skoraði átta mörk, Telma Amado gerði sex líkt og Drífa Þorvaldsdóttir en Greta Kavaliuskaite gerði fimm mörk. Erla Rós Sigmarsdóttir varði fjórtán skot í marki ÍBV og Sara Dís Davíðsdóttir þrjú.

Bikar - ÍBV B 22:36 ÍR

Stelpurnar í B-liði ÍBV mættu ÍR í 16-liða úrslitum Coca Cola bikarsins um helgina en ÍR-ingar höfðu betur með fjórtán marka mun. ÍR komst í 1:5 snemma leiks

og héldu þær forystunni út allan leikinn. Í fyrri hálfleiknum var B-liðið nokkuð óheppið en mörg skota þeirra enduðu í markrammanum.   Í hálfleik var staðan 12-17 en þá var útlitið nokkuð svart. ÍR hélt áfram að bæta við mörkum eftir leikhlé en sjö marka forskot þeirra lifði lengi vel. Undir lokin fór hinsvegar að halla undan fæti hjá B-liðinu og rúlluðu ÍR-stelpur yfir liðið. Mörk ÍBV skoruðu þær: Sóley Haraldsdóttir 6, Þórsteina Sigurbjörnsdóttir 4, Andrea Atladóttir 3, Ásta Björt Júlíusdóttir 2, Bryndís Jónsdóttir 1, Ingibjörg Jónsdóttir 1, Guðný Ósk Guðmundsdóttir 1, Hrafnhildur Ósk Skúladóttir 1, Hildur Sólveig Sigurðardóttir 1, Aníta Elíasdóttir 1 og Sandra Gísladóttir 1. Tinna Tómasdóttir var góð í marki ÍBV en hún varði 14 skot og þar af tvö víti.

Aftur tap gegn Stjörnunni

ÍBV tapaði öðru sinni á fáeinum dögum gegn Stjörnunni en í þetta skiptið í Olís-deild kvenna. Leiknum lauk með eins marks sigri Stjörnunnar,  30-29, sem var tveimur mörkum yfir í hálfleik.

Teddi heitur

Fyrstu mótherjar karlaliðs ÍBV var HK og fór leikurinn fram í Eyjum.  Hann átti upphaflega að fara fram í Kópavogi en liðin komust að samkomulagi um það að leikurinn yrði í Eyjum.

Jafnræði var í upphafi leiks og staðan var 6:6 eftir tíu mínútna leik. Þá gáfu Eyjamenn í og skoruðu ellefu mörk gegn einu. Staðan í hálfleik var 19:9 en leikmenn ÍBV léku vel í fyrri hálfleik gegn ungu liði HK.   Sigurinn var aldrei í hættu í seinni hálfleik og lauk leiknum með tólf marka sigri ÍBV. Theodór Sigurbjörnsson var vægast sagt sjóðheitur í liði ÍBV en hann skoraði þrettán mörk, Einar Sverrisson og Grétar Þór Eyþórsson skoruðu sex hvor en Andri Heimir Friðriksson gerði fjögur.

Agnar Smári kominn heim

Agnar Smári Jónsson sem lék með ÍBV þegar liðið varð Íslands- og bikarmeistari, er kominn heim.  Agnar freistaði gæfunnar í Danmörku en hefur á ný  gengið til liðs við ÍBV.

3. flokkur hefur unnið alla 20 leiki tímabilsins

3. flokkur ÍBV samanstendur af tveimur liðum, einu sem keppir í 1. deild og öðru sem sett var í 3. deildina. Í liðinu sem er í 3. deild eru einungis strákar fæddir árið 1999, sem er yngra ár flokksins.

Í liðinu sem er í 1. deild eru þá strákar fæddir árið 1998 auk þess að nokkrir strákar fæddir 1999 spila með í hverjum leik. Það sem af er leiktíð hefur 3. flokkur spilað átta leiki í 1. deildinni, tíu leiki í 3. deildinni og síðan tvo leiki í bikarnum.  Það sem gerir það merkilegt er að liðið hefur unnið hvern og einn einasta leik. Í fyrstu deildinni hefur liðið sigrað eins og áður segir átta leiki og hafa skorað 77 mörkum meira heldur en þeir hafa fengið á sig.   Þeir eru þó ekki eina taplausa liðið þar en Haukar tróna á toppi deildarinnar með átta sigra úr níu leikjum, eina jafntefli þeirra kom gegn FH. ÍBV spilaði við FH um miðjan febrúar og átti mjög góðan leik en liðið vann með níu marka mun þökk sé frábærum síðari hálfleik. Þá  lék liðið einnig við Stjörnuna og vannst sá leikur með fjórtán marka mun.   

Í 8-liða úrslitum bikarsins var Afturelding var ekki mikil fyrirstaða en þrátt fyrir það lauk leiknum einungis með þriggja marka sigri ÍBV. Áður hafði ÍBV keppt í 16-liða úrslitum bikarsins og sigruðu þeir HK-inga þar með tólf marka mun.

Liðið sem leikur í 3. deildinni hefur ekki byrjað tímabilið verr, þeir hafa sigrað alla tíu leiki sína í deildinni og hafa skorað 375 mörk en einungis fengið á sig 240. Þar eru Haukar einnig við toppinn þar sem þeir hafa sigrað alla níu leiki sína. ÍBV mætir ÍR í undanúrslitum bikarsins í Austurbergi en ÍR sigraði Hauka með þriggja marka mun og voru því fyrstir til að leggja Hauka að velli á tímabilinu en það gerðu þeir í 20. leik Hauka.

Það verður gaman að fylgjast með 3. flokki á lokasprettinum í deildinni og vonandi fáum við að sjá þá í úrslitaleikjum í deild og bikar. Í liðinu eru ótal leikmenn sem hafa leikið með yngri landsliðum Íslands undanfarið en það er ekki nóg að vera með góða leikmenn til að ná árangri. Liðsheildin í hópnum virðist vera stórkostleg og ná þeir Svavar Vignisson og Kári Kristján Kristjánsson greinilega vel til strákanna.

Nokkur úrslit leikja yngri flokkanna

2. flokkur karla:

Fram 33:26 ÍBV

og Stjarnan 25:28 ÍBV.

3. flokkur karla:

Afturelding 28:31 ÍBV,

ÍBV1 sigraði FH-inga á útivelli

Stjarnan 27:41 ÍBV1

og HKR 24:39 ÍBV2.

3. flokkur kvenna:

Víkingur2 27:40 ÍBV.

4. flokkur karla:

FH 32:23 ÍBV1,

Afturelding1 16:12 ÍBV1

og Valur2 18:17 ÍBV2.

4. flokkur kvenna - eldri:

ÍBV 17:13 ÍR

og ÍBV 21:25 ÍR.

4. flokkur kvenna - yngri:

ÍBV 20:9 Afturelding2

og ÍBV 20:12 ÍR.

Agnar Smári spilaði sinn fyrsta leik

ÍBV náði einungis í 1 stig gegn slöku liði ÍR í Olís-deild karla. Agnar Smári Jónsson spilaði þarna sinn fyrsta leik í  langan tíma fyrir félagið en hann kom úr atvinnumennskunni fyrir viku síðan. Spenna var í leiknum allt loka  en þá jafnaði Agnar Smári metin í 25:25 sem urðu lokatölur leiksins. Agnar Smári Jónsson og Theodór Sigurbjörnsson deildu átján mörkum á milli sín en Agnar setti tíu þeirra.

Duttu úr bikarkeppninni í 8 liða úrslitunum

Karlalið ÍBV féll úr leik í Coca-Cola bikarnum gegn Val. Valsmenn sigu fram úr í lokin en ÍBV leiddi mest allan leikinn. ÍBV leiddi með tveimur mörkum í stöðunni 21:19 þegar korter var eftir en þá gerðu Valsmenn fimm mörk í röð á þrettán mínútna kafla þar sem Eyjamenn náðu ekki að gera eitt mark.   ÍBV náði ekki að jafna metin sökum klaufaskapar á lokamínútum leiksins og lokatölur því 23:25. Eyjamenn fá því ekki tækifæri til þess að verja titilinn í Laugardalshöllinni. Einar Sverrisson var markahæstur í liðinu með sex mörk en markverðir liðsins vörðu tíu bolta samanlagt. 

Leikhléið réði úrslitum

ÍBV og FH áttust við í Olís-deild kvenna í byrjun febrúar.  ÍBV sigraði nokkuð örugglega með sex marka mun. FH-ingar byrjuðu mjög vel og skoruðu meðal annars fyrstu tvö mörk leiksins en í hálfleik var staða 12-10. ÍBV átti erfitt með að halda forskotinu en FH-ingar komust yfir þegar um tuttugu mínútur voru eftir. Hrafnhildur Skúladóttir tók síðan leikhlé sem skilaði sér heldur betur vel. ÍBV skoraði fjögur mörk í röð og komst aftur í bílstjórasætið og sigraði með 27 mörkum gegn 21.

Arnar tekur sér leyfi frá þjálfun

Fréttir greina frá því að Arnar Pétursson, þjálfari meistaraflokks karla hafi tekið sér tímabundið leyfi. Sé ákvörðun hans tekin í fullu samráði við forsvarsmenn ÍBV en ástæða hennar er sú að grunur er um einelti innan æfingahóps félagsins.

Í frétt frá ÍBV er tekið fram að Arnar tengist því máli ekki sem þjálfari en hann taldi rétt að víkja á meðan utanaðkomandi fagaðili væri fenginn til að gera formlega eineltisathugun og leiðbeina félaginu um framhaldið.   „Við viljum beina því til fólks að gefa forráðamönnum félagsins og fagaðilum ráðrúm til að vinna úr þessu máli og að aðgát skal höfð í nærveru sálar,“ segir í fréttatilkynningu félagsins og er hægt að taka undir það.

Ekki einelti að neikvæði samskipti

ÍBV-íþróttafélag sendi frá sér eftirfarandi fréttatilkynningu í febrúarbyrjun vegna meints eineldis innan félagsins. Kallaðir voru til utanaðkomandi og hlutlausir sérfræðingar til að gera formlega eineltisathugun og leiðbeina félaginu um framhaldið vegna gruns um einelti sem upp kom í æfingahópi félagsins í handbolta karla. Í frétt frá ÍBV íþróttaafélagi segir að sérfræðingarnir hafi nú skilað stjórn félagsins skýrslu þar sem meginniðurstaðan er þessi: „Niðurstöður þessarar athugunar eru þær að ekki sé hægt að fullyrða að um einelti hafi verið að ræða skv. skilgreiningu þess í reglugerð nr. 1009/2015. Hins vegar er ljóst að neikvæð samskipti innan hópsins hafi verið til staðar um nokkurn tíma og komið niður á liðsheildinni og samskiptamáta liðsmanna.“  Skýrsluhöfundar telja „... jákvætt að ÍBV hafi tekið málið alvarlega og leitast við að koma því í farveg sem fyrst.“

Sérfræðingarnir leggja jafnframt fram tillögur til lausnar á þeim samskiptavandamálum sem urðu kveikjan að ofangreindri athugun - og sömuleiðis hvernig félagið skuli taka á málum af þessu tagi almennt í öllum flokkum félagsins. Þær tillögur verða leiðbeinandi fyrir félagið í framhaldinu. 

Stjórn ÍBV Íþróttafélags vill brýna fyrir fólki að varast rætni, illmælgi og sleggjudóma í tengslum við þetta viðkvæma mál.

Fyrir hönd handknattleiks- deildar ÍBV, Karl Haraldsson formaður.

Fyrir hönd aðalstjórnar ÍBV íþróttafélags, Íris Róbertsdóttir formaður.

Theódór íþróttamaður ársins

Það kom fáum á óvart að Theodór Sigurbjörnsson, handknattleiksmaður ÍBV var útnefndur íþróttamaður Vestmannaeyja 2015. Hann hefur verið einn af burðarásum meistaraflokks karla undanfarin ár og á sinn þátt í að ÍBV varð Íslandsmeistari 2014 og Bikarmeistari 2015. Þá vara Hákon Daði Styrmisson valinn íþróttamaður æskunnar.

Það kom svo í hlut Unnar Sigmarsdóttur að fá sérstaka heiðursviðurkenningu fyrir mikið og gott starf fyrir íþróttahreyfinguna í Eyjum. Valið fór fram á Íþróttahátíð Vestmannaeyja sem haldið var í Höllinni.

Tvö töp

Í endaðan febrúar tapaði kvennalið ÍBV gegn góðu liði Fylkis 32-33.  Var leikið í Eyjum. Karlaliðið mátti einnig sætta sig við tap gegn Haukum í Hafnafirði, en þetta var sjónvarpsleikur.  Skemmst er frá því að segja að ÍBV var undir allan leikinn en þremur mörkum munaði í hálfleik. ÍBV virtist ætla að laga stöðuna í síðari hálfleik en á lokakaflanum sigu heimamenn aftur fram úr og unnu fimm marka sigur, 29:24.

MARS:

Gerðu góða ferð  á fastalandið

3.  flokkur karla í handbolta fór algjörlega geggjaða ferð á fastalandið fyrst í mars þar sem þeir léku sex leiki. ÍBV1 lék þrjá leiki, tvo gegn KA og einn gegn Haukum. Ekki nóg með að ÍBV hafi unnið alla leikina með þriggja marka mun heldur var sama markatala í þeim öllum, 26:23. Það er í raun ótrúlegt en þó aðallega hlægilegt. Þeir virðast greinilega hafa verið mjög stöðugir í leik sínum.   Fyrsti leikurinn var  rétt eftir skemmtisiglingu með Herjólfi. Voru Haukar sóttir heim sem höfðu ekki tapað í fyrstu tólf leikjum sínum í deildinni. Strákarnir gerðu sér lítið fyrir og sigruðu þann leik nokkuð örugglega, að lokum munaði þó einungis þremur mörkum eftir að ÍBV gaf eftir undir lokin.   Andri Ísak Sigfússon átti stórleik í markinu, varði meðal annars tíu skot í fyrri hálfleiknum. Logi Snædal Jónsson, einn af lykilmönnum liðsins, var fjarri góðu gamni  en hann glímir við meiðsli í öxl, Friðrik Hólm Jónsson, Ágúst Emil Grétarsson og Luis Rafael skoruðu fimmtán mörk samanlagt sem þeir skiptu bróðurlega á milli sín.

Í næsta leik spilaði ÍBV við KA og leiddi í hálfleik með fjórum mörkum, það þarf nú varla að segja aftur hvernig leiknum lauk, en sigurinn var aldrei í hættu. Andri Ísak átti aftur góðan leik í markinu og varði 14 skot. Nú var Ágúst Emil einn markahæstur með níu mörk. Elliði Snær Viðarsson átti einnig góðan leik í vörn og sókn en hann skoraði fjögur mörk.   Síðasta leiknum hjá ÍBV1 lauk augljóslega einnig með þriggja marka sigri.  ÍBV leiddi í hálfleik með sex mörkum.  Þessir sigrar fleyta ÍBV1 alla leið upp í annað sætið en liðið á leik inni á Hauka sem sitja á toppnum. Haukar hafa gert eitt jafntefli og tapað einum leik en ÍBV hefur einungis tapað einum. Þá spilaði þriðji flokkur á yngra ári einnig þrjá leiki um helgina, einn gegn Haukum og tvo gegn Þór2. Fyrsti leikurinn var á mjög óvenjulegum tíma, klukkan 22:00 á föstudagskvöldi. Þar áttust við toppliðin í 3. deild en ÍBV og Haukar höfðu unnið alla sína leiki þegar þau mættust.   Ef veðja hefði  átt að  á einhver úrslit fyrir leik þá hefði jafntefli orðið fyrir valinu og sú var raunin. Liðin skildu jöfn 32:32 en ÍBV var einu marki yfir í hálfleik. Lárus Garðar Long og Gabríel Martinez Róbertsson áttu vægast sagt magnaða leiki en Lárus skoraði níu og Gabríel gerði tíu mörk.

Í næsta leik sem var gegn Þór áttu Eyjapeyjar aftur flottan leik, leiddu í hálfleik með fjórum mörkum og unnu að lokum með tíu. Gabríel skoraði aftur tíu mörk og Lárus  átta. Bjarki Svavarsson átti mjög góðan leik í markinu og varði átján af þeim skotum sem hann fékk á sig.   Strákarnir unnu líka Þór en þá með þremur mörkum.  Sigrarnir hjá ÍBV 2 gera það að verkum að liðið situr í efsta sæti 3. deildar með 25 stig eftir 13 leiki, tveimur stigum á undan Haukum sem hafa spilað tólf leiki. ÍBV er þó með mun betri markatölu og stendur því vel að vígi

(Eyjafréttir greindu frá)

Magnaður sigur á Fram

ÍBV lyfti sér upp í 4. sæti Olís-deildar karla á nýjan leik með fjögurra marka sigri 31:27 á Fram. Gestirnir skoruðu fyrstu þrjú mörkin og fór þá um einhverja stuðningsmenn Eyjamanna. 

Grétar Þór Eyþórsson skoraði fyrstu þrjú mörk Eyjamanna en liðin skiptust á um að hafa forystuna um miðbik fyrri hálfleiks en í hálfleik var staðan 14:13.   Í Fréttum var sagt að svo virtist sem  einungis eitt lið væri á vellinum í síðari hálfleik sem ÍBV byrjaði af gríðarlegum krafti. Grétar Þór fór þar aftur fremstur og skoraði sjö mörk í leiknum, flest þeirra eða fimm talsins komu á fyrstu mínútum hálfleikjanna.  Fram átti aldrei  svör í seinni hálfleik og valtaði ÍBV hreinlega yfir þá. Mestur varð munurinn átta mörk í stöðunni 29:21 en 31:27 var niðurstaðan.  Agnar Smári Jónsson átti algjörlega magnaðan leik og skoraði átta mörk úr tólf skotum.   Kolbeinn Aron Arnarson átti einnig nokkuð góðan leik í markinu þar sem hann varði tíu skot. Sigurinn færir ÍBV upp í 4. sætið sem gefur heimaleikjarétt í úrslitakeppninni.

Tvö töp, svolítið bras

Heldur hefur gengið brösuglega hjá meistaraflokki kvenna að undanförnu. Þær léku tvo leiki í byrjun mars og töpuðu þeim báðum. Fyrst var topplið Gróttu sótt heim, en þær stúlkur hafa verið á fljúgandi siglingu. ÍBV stúlkur byrjuðu leikinn vel og voru yfir mestallan fyrri hálfleikinn. En í seinni hálfleik virtist sem annað ÍBV-lið kæmi til leiks, því fátt gekk upp hjá þeim. Undir lokin setti Grótta í fluggírinn og sigraði 26-21.

Vera Lopes og Ester Óskarsdóttir skoruðu sjö og sex mörk en Sandra Dís Sigurðardóttir gerði þrjú.

Valskonur komu í heimsókn helgina á eftir og það stefndi ekki í skemmtilegan leik. Staðan var 11:9 í hálfleik.   ÍBV hélt forystunni lengi vel í seinni hálfleik og leiddu með tveimur mörkum. Það kom hinsvegar bakslag hjá ÍBV og ekkert gekk í sókninni. Valskonur nýttu sér það auðvitað og skoruðu sex mörk gegn einu á síðustu tíu mínútunum og sigruðu með þriggja marka mun, 20:23.   Markverðir liðanna voru algjörlega frábærir. Erla Rós Sigmarsdóttir varði 21 skot og þar af tvö vítaköst. Drífa Þorvaldsdóttir átti einnig góðan leik og gerði sjö mörk.  

8 stelpur í  U-14

Átta stelpur frá ÍBV eru í U-14 landsliðinu sem var valið á dögunum en um er að ræða æfingahóp sem Rakel Dögg Bragadóttir stýrir.

Ekkert lið er með fleiri leikmenn í hópnum en ÍBV. Þar eru þær Andrea Gunnlaugsdóttir, Birta Lóa Styrmisdóttir, Bríet Ómarsdóttir, Clara Sigurðardóttir, Harpa Valey Gylfadóttir, Helga Stella Jónsdóttir, Linda Brynjarsdóttir og Mía Rán Guðmundsdóttir. ÍBV er með besta lið landsins í þessum aldursflokki en það er mikill heiður fyrir stelpurnar að vera valdar í þetta verkefni.

Dramatík í lokin

Eitt sinn voru allir leikir handboltans í svokölluðum gamla sal Íþróttamiðstöðvarinnar, það var áður en nýju salirnir voru teknir í notkun árið 2001. Þar sem áhorfendarýmið var frekar lítið þótti stemmning í þeim sal oft vera  meiri en í nýju sölunum. Þá er gamli salurinn með   parketi en nýju salirnir með dúk, sem flestum þykir verri og meiðsli algengari. Einhverra hluta vegna var leikur ÍBV og  Gróttu í Olísdeildinni leikinn í gamla salnum.

Gróttu menn mættu til leiks af fullum krafti og  Eyjamenn voru skildir eftir. ÍBV liðið er hinsvegar feiki sterkt um þessar mundir og náðu að snúa leiknum sér í vil. Jafntefli og var lokaniðurstaðan, 24-24. Í lokin varð nokkur dramatík.  Theodór Sigurbjörnsson kom ÍBV yfir þegar 40 sekúndur voru eftir en Gróttumenn jöfnuðu þegar ellefu sekúndur voru eftir.   Þá tóku Eyjamenn leikhlé og ætluðu að kreista fram eitt mark. Andri Heimir Friðriksson fékk færi þar sem virtist vera brotið á honum en ekkert var dæmt. Boltinn hrökk út til Nökkva Dan Elliðasonar sem skoraði af þrettán metra færi en tíminn virtist vera útrunninn þegar boltinn fór inn, grátlegt fyrir Eyjamenn.   Í lokin brutust út mikil mótmæli ÍBV en ákvörðun dómaranna virðist hafa verið rétt, þrátt fyrir slaka framgöngu þeirra.

Erfitt í Lengjubikarnum

Karlaliði ÍBV gekk hálf illa í Lengjubikarnum. Einungis tekist að vinna Huginn en tapað gegn Keflavík og Stjörnunni.  Í fjórða leik sínum fengu þeir Val sem mótherja. Sá leikur tapaðist 0-2. ÍBV liðið hélt eftir þann leik í æfingaferð suður í sólina.

Yngri flokkarnir

4. flokkur karla - yngri:

ÍBV 24:25 FH

ÍBV 2 21:20 Fjölnir.

4. flokkur kvenna - yngri:

ÍBV 21:7 Fram 2.

3. flokkur karla:

ÍBV 31:29 HK

ÍBV 2 25:18 HK 2. 

3. flokkur kvenna:

HK 2 32:36 ÍBV. 

2. flokkur karla:

ÍBV 36:31 Fram.

11-1 kaflinn réði úrslitum

ÍBV vann Akureyri með eins marks mun 26:27 þegar þeir brugðu sér norður yfir heiðar. Lengi framan af stefndi í öruggan sigur heimamanna en þökk sé frábærum 11:1 kafla Eyjamanna fengu þeir stigin tvö.

Það stefni allt í stórsigur Akureyringa. En eftir að Arnar Pétursson tók leikhlé, virtist liðið hafa endurheimt getu sína.  Nökkvi Dan Elliðason var settur inná skoraði tvö mikilvæg mörk. Þau dugðu skammt þar sem Akureyri hélt áfram að síga framúr og munaði fjórum mörkum þegar liðin gengu til búningsherbergja.  Í Fréttum sagði að ÍBV hafi skorað þrjú af fyrstu fjórum mörkum síðari hálfleiks og löguðu stöðuna verulega. „Þá kom hinsvegar fjögurra marka kafli hjá Akureyri á móti einungis einu marki ÍBV. Nú var staðan 19:14 og tók Arnar Pétursson leikhlé, til að kveikja í sínum mönnum.   Hann grunaði þó líklega ekki að hann myndi sjá einn besta viðsnúning seinni ára eftir leikhléið. ÍBV skoraði ellefu mörk á móti einungis einu hjá heimamönnum. Þeir sneru sem sagt 19:14 stöðu upp í 20:25, ótrúlegur kafli þar sem allt virðist hafa gengið upp.   Gestirnir minnkuðu muninn jafnt og þétt en með tveimur mörkum á síðustu mínútunni tókst heimamönnum að koma forskoti ÍBV niður í eitt mark. Það var þó ekki nóg í þessum handboltaleik og Eyjamenn fögnuðu því sætum eins marks sigri eftir að hafa verið með tapaða stöðu á tímabili.   Theodór Sigurbjörnsson skoraði átta mörk en Kári Kristján Kristjánsson skoraði sex. Þá varði Stephen Nielsen átta skot en Kolbeinn Aron Arnarson sjö.“

Stórtap gegn Val

Valur rótburstaði ÍBV þegar liðin áttust við í Eyjum í Olísdeild karla. Leikurinn endaði 24-30. Og fátt meira um hann að segja.

Theodór Sigurbjörnsson skoraði sjö mörk en fjögur þeirra voru úr vítum, hann tók sex víti í leiknum. Andri Heimir Friðriksson og Agnar Smári Jónsson gerðu fimm mörk hvor en aðrir skoruðu minna. Markvarslan hefur aldrei verið verri en Stephen Nielsen varði fimm bolta og Kolbeinn Aron Arnarson fjóra. 

Minningarathöfn, Abel kvaddur

Landakirkja var þéttsetin í minningarathöfn um Abel Dhaira, markmann ÍBV sem lést 27. mars sl., aðeins 28 ára gamall eftir stutta baráttu við krabbamein. Það var ÍBV og vinir hans sem stóðu fyrir athöfninni þar sem sr. Guðmundur Örn Jónsson, sóknarprestur Landakirkju og Guðni Hjálmarsson, forstöðumaður Hvítasunnusafnaðarins í Eyjum fluttu minningarorð. Hvítasunnufólk sá um tónlist og Árný Heiðarsdóttir, sem gekk honum í einskonar móðurstað. ÍBV fáninn var í kór klæddur sorgarklæði þar sem leikmenn meistaraflokks karla sátu.  Athöfnin var látlaus og í anda Abels sem ekki lét mikið fyrir sér fara nema þegar hann var mættur á milli stanganna í marki ÍBV. 

Af orðum þeirra sem þarna tóku til máls og annarra sem tjáðu sig um Abel má ráða að þar hafi farið drengur góður sem heillaði alla sem honum kynntumst, börn jafnt sem fullorðna. Hann var mjög trúaður og þakkaði Guði allt það góða í lífinu. Var trúin honum mikill styrkur í veikindum sínum.   Abel Dhaira var hvítasunnumaður og hafði náin tengsl við söfnuðinn hér. Guðni sagði hann hafa verið mikinn gleðigjafa en um  leið baráttumann. Það hafi sýnt sig þegar veikindin bönkuðu upp á.   „Já, leiktíminn er liðinn í lífi Abels, þó er það svo að hin kristna von og trú segir okkur að hér sé bara fyrri hálfleik lokið.  Seinni hálfleikur er fyrst núna að byrja hjá Abel og sigurlaunin hans, sem var svo sannarlega trúr allt til dauða, eru þau sömu og boðuð eru í fermingum allra barna hér í Landakirkju: Lífsins kóróna,“ sagði Guðmund Örn í ræðu sinni.  Það var alveg kristaltært í huga Abels, hvað tæki við, eða öllu heldur hver tæki við þegar þessu jarðlífi myndi ljúka.  Hann lést á páskadag, þann 27. mars.  Hann lést inní upprisuna, og maður fær það eiginlega á tilfinninguna að það geti ekki hafa verið tilviljun. 

Trúmaðurinn Abel Dhaira var á svo táknrænan hátt samferða frelsara sínum inní vonarljós upprisunnar,“ sagði Guðmundur Örn og flutti kveðjur og þakklæti frá fjölskyldu Abels til allra Vestmannaeyinga fyrir þá góðvild sem þeir hafa sýnt Abel.  

Knattspyrnuráð ÍBV þakkaði Árnýju fyrir einstakan hlýhug og fyrir allan þann tíma, ást og umhyggju sem hún veitti Abel í veikindum hans.  Einnig Hvítasunnusöfnuðinum í Vestmannaeyjum og öllum þeim einstaklingum og fyrirtækjum, hér heima og á fastalandinu sem studdu Abel í veikindunum

Strákarnir í knattspyrnuráðinu urðu hans nánasta fjölskylda

Heimir Hallgrímsson skrifaði minningargrein um Abel í Eyjafréttir að honum gengnum, falleg minning um góðan dreng.

Í janúar 2010 fór ég í ferð til Úganda í þeim tilgangi að finna miðjumann fyrir ÍBV. Í ferðinni sá ég þrjá landsleiki Úganda. Markmið ferðarinnar náðist og Tony Mawejje lék með félaginu það leiktímabil. Í þessum landsleikjum sá ég og hitti Abel Dhaira í fyrsta skipti. Ungur og efnilegur markvörður sem vakti strax athygli mína. Abel hafði reyndar gert samning við annað lið en við vorum í sambandi eftir þessa heimsókn og þegar tækifærið gafst gerði hann samning við ÍBV og kom til Vestmannaeyja 2011. Abel var góður og litríkur markvörður, þjálfaður frá unga aldri af föður sínum sem var sjálfur landsliðsmarkvörður Uganda. Fyrir utan það að vera dökkur á hörund og mjög hávaxinn þá var það leikstíllinn og taktarnir sem gerðu hann frábrugðinn öðrum markvörðum. Ótrúleg knatttækni sem var fremri flestum útileikmönnum og það að taka ákvarðanir sem jók hjartsláttartíðni heitustu stuðningsmanna ÍBV verulega.  Þrátt fyrir mikil gæði á vellinum var það þó persónuleikinn sem gerði Abel einstakan. Abel tengdi strax við liðsfélagana, alltaf jákvæður og tilbúinn að leggja mikið á sig til að ná árangri.

Abel kallaði Yngva Borgþórs alltaf bróður sinn, útlitslega eru líklega ólíkari bræður vandfundnir. Abel var mjög trúaður, hann talaði við og treysti almættinu öllum stundum. Hann fór með sínar bænir fyrir leiki, í hálfleik og eftir leiki. Allt það góða sem henti Abel þakkaði hann Guði og það má segja að ég hafi stundum verið öfundsjúkur út í hann þarna uppi. Burtséð frá því hvaða snilldartaktík við settum upp, þá var það alltaf Guði að þakka að við unnum.  

Abel var einstakur karakter. Brosið og hláturinn voru bráðsmitandi og oftast það fyrsta sem tók á móti fólki. Bros og líkamstjáning sem sagði „það er virkilega gaman að sjá þig“. Einlægt bros sem kostaði ekkert en hafði varanleg áhrif á þann sem þáði það. Abel var kurteis, auðmjúkur, kvartaði aldrei og sýndi öllu fólki virðingu. Hann setti aðra í forgang,  meira segja í veikindum sínum og kvölum hafði hann áhyggjur af öllum öðrum en sjálfum sér.     Við sem höfum það betra og eigum mun meira af veraldlegum hlutum sjáum því miður of oft tækifæri til að kvarta yfir smámunum. 

Hugur hans var þó alltaf heima hjá fjölskyldunni í Úganda, hjá foreldrum, bræðrum og systrum. Abel reyndi á allan hátt að styðja þau að ná sínum markmiðum.   Þetta er ástæðan fyrir því hvers vegna Vestmannaeyingar og þeir sem kynntust Abel þótti vænt um hann. Ástæða þess að allir tóku höndum saman að styðja hann í erfiðum veikindum. Þegar ættingjar hans og vinir spurðu mig hvernig stæði að því að allir væru svona vingjarnlegir á Íslandi, þá var svarið mitt að þetta hefði ekki verið gert fyrir hvern sem er. Að vissu leyti sorgleg staðreynd en sönn.  Menn uppskera eins og þeir sá.      

Margir voru undrandi á því að ÍBV vildi fá Abel heim til Íslands, veikan manninn, í byrjun árs. Í knattspyrnuheiminum í dag er þetta óvanalegt. Leikmenn þurfa ekkert annað en eiga slakan leik til að vera ýtt til hliðar en ef vel gengur er mönnum hampað. Ég er óendanlega stoltur af félaginu mínu ÍBV, fyrir það að flytja Abel til Íslands og gera allt til að hjálpa honum í hans erfiðu veikindum, þrátt fyrir að allir vissu að hann væri ekki að fara að leika knattspyrnu fyrir félagið. Strákarnir í knattspyrnuráðinu urðu hans nánasta fjölskylda, ásamt Árnýju Hreiðars, þangað til móðir Abels og systir komu til landsins.

Allur þessi stuðningur, bæði fjárhagslegur og ekki síst umhyggjan, sýnir að ÍBV er meira en bara íþróttafélag. ÍBV er stór fjölskylda. Ég kveð þig, góði vinur. Við erum ríkari að hafa fengið að kynnst þér. Ég veit að þú ert í góðum höndum hjá þínum yfirþjálfara í dag. Ef einhver á frátekið sæti í byrjunarliðinu í himnaríki þá ert það þú.

Fjölskyldunni votta ég okkar dýpstu samúð og vona að Guð gefi ykkur styrk á erfiðum tíma. Heimir Hallgrímsson

APRÍL:

Barátta um heimaleikjaréttinn

ÍBV og Selfoss gerðu jafntefli í Olísdeild kvenna, 28-28 eftir að ÍBV liðið hafði leitt leikinn mestallan tímann. Betur tókst til þegar ÍBV stúlkur sigruðu HK 31-28. Með sigrinum lyftu þær sér í 6. sæti deildarinnar og eru í harðri baráttu um heimaleikjaréttinn í úrslitakeppninni.

Ekki alltaf jólin

ÍBV tapaði með fjögurra marka mun gegn föllnum Víkingum í Olís-deild karla. Var þetta síðasti heimaleikurinn í deildinni. Kom virkilega á óvart hversu mikið var skorað í leiknum. Víkingar gerðu 35 mörk en þeir hafa aldrei skorað jafn mörg mörk í deildinni. ÍBV tókst þá að skora 31 mark en vörnin var skelfileg.

3. flokkur tvöfaldir deildarmeistarar

3. flokkur karla náði frábærum árangri í vetur, liðið varð deildarmeistari í 1. deild og þeirri 3., þar sem yngra árið lék sem ÍBV2. Í 1. deildinni var úrslitaleikur um toppsætið þar sem ÍBV nægði jafntefli til þess að taka við bikarnum í Íþróttamiðstöðinni.

ÍBV spilaði við Hauka sem voru í 2. sætinu, Haukar höfðu tapað fyrir ÍBV fyrr á tímabilinu en ljóst var að hart yrði barist á laugardaginn. ÍBV spilaði líklega sinn besta leik á tímabilinu og vann að lokum sjö marka sigur, á köflum var forystan í hættu þar sem ÍBV spilaði nokkurn hluta leiksins tveimur færri. ÍBV stóð þó af sér þá kafla og jók forystuna undir lokin. Leiknum lauk 26-19 þar sem Ágúst Emil Grétarsson og Elliði Snær Viðarsson gerðu sex mörk hvor. Andri Ísak Sigfússon átti frábæran leik í markinu og varði 17 skot, mörg hver á mikilvægum augnablikum í leiknum. Daníel Freyr Gylfason, sem hefur verið að jafna sig eftir veikindi, tók við bikarnum í leikslok. Mikið af fólki mætti á leikinn og horfði á strákana taka við bikarnum.  Strákarnir í liði 1 munu því mæta Þór Ak. í 8-liða úrslitum Íslandsmótsins í Eyjum. ÍBV 2 spilaði í 3. deild en í liðinu voru einungis leikmenn á yngra ári flokksins, fæddir árið 1999 eða seinna.

Liðið hafði sigrað 13 af þeim fjórtán leikjum sem liðið hafði spilað á tímabilinu og gert eitt jafntefli við Hauka á útivelli. Liðin mættust í Eyjum og sýndi ÍBV allar sínar bestu hliðar, liðið sigraði með tíu marka mun 30-20. Daníel Örn Griffin skoraði sjö mörk, Gabríel Martinez skoraði sex líkt og Óliver Magnússon. Bjarki Svavarsson varði 29 skot í markinu, sem er frábært afrek. Liðið hefur því sigrað fjórtán af þeim fimmtán leikjum sem liðið hefur spilað. 

Fimm í landsliðshóp

Á dögunum voru einnig fimm leikmenn úr flokknum valdir í U-18 ára landslið Íslands. Markvörðurinn Andri Ísak Sigfússon, línumaðurinn Elliði Snær Viðarsson, hornamaðurinn Friðrik Hólm Jónsson, miðjumaðurinn Logi Snædal Jónsson og skyttan Daníel Örn Griffin. Þessir leikmenn spiluðu allir stórt hlutverk í liði 3. flokks sem vann 1. deildina. Logi Snædal hefur þó verið meiddur undanfarnar vikur og ekkert getað spilað með liðinu, það verður því sterkt fyrir þá að fá hann inn í liðið í úrslitakeppninni. Daníel Örn hefur þá einnig spilað með ÍBV 2 þar sem hann er á yngra ári í flokknum, hann hefur verið algjör lykilmaður í báðum liðunum.

(Eyjafréttir greindu frá)

3. flokkur kvenna einnig deildarmeistarar

Þriðji flokkur kvenna varð eins og strákarnir deildarmeistari, þar sem liðið sigraði í annarri deildinni. Þetta er annað árið í röð sem þriðji flokkur kvenna verður deildarmeistari þar sem liðið vann fyrstu deild á síðustu leiktíð.

ÍBV sendi þó einungis lið til leiks í annarri deild þessa leiktíðina sem sigraði deildina án teljandi vandræða.   ÍBV sigraði fjórtán af fyrstu sextán leikjum sínum, gerði eitt jafntefli og tapaði einungis einum. Þá er tveimur leikjum ólokið en þeir skipta nú engu máli uppá lokastöðu deildarinnar.

Úrslitakeppnin framundan

Meistaraflokkur kvenna tapaði gegn Haukum í síðasta heimaleik deildarinnar, 25-32. Með þessum úrslitum er ljóst að liðið fær ekki heimarétt í úrslitakeppninni.

ÍBV kláraði tímabilið í Olísdeild kvenna með þriggja marka sigri á Fjölni. Fjölnir er eitt af slakari liðum deildarinnar og eru þær í 10. sæti. Leikurinn var miklu meira spennandi en flestir áttu von á, lauk 28:31 en ÍBV leiddi með þremur mörkum í hálfleik 13:16.  

Liðið endaði í 6. sæti deildarinnar með 37 stig og fá Fram í úrslitakeppninni, en fá ekki heimaleikjaréttinn.

Karlarnir gerðu jafntefli við  Aftureldingu í síðustu umferð Olísdeildarinnar og lentu í 4. sæti með 27 stig. Það voru nokkur vonbrigði, því liðinu var spáð jafnvel deildarmeistaratitlinum. En heimaleikjarétturinn var tryggður og mótherji í úrslitakeppninni verður Grótta.

Fyrirliðahjónin

Fyrirliðar meistaraflokka kvenna og karla eru Magnús Stefánsson og Ester Óskarsdóttir. Það  er í sjálfu sér ekki merkilegt, en þau eru hjón og það er mjög sérstakt. Þau eru bæði í viðtölum á síðum Eyjafrétta, þar sem þau spá og spekulera í  mótherjum sínum í úrslitakeppninni og bæði bjartsýn fyrir hönd sinna liða.

Kvennaliðið datt út í 8 liða úrslitunum

Kvennalið ÍBV var slegið út af Fram í átta liða úrslitum Íslandsmótsins. Einvígið byrjaði frábærlega hjá stelpunum en þær stálu heimaleikjaréttinum í fyrsta leiknum þar sem þær unnu flottan sigur í Safamýrinni.

Í fyrsta leiknum voru þrír leikmenn sem stóðu sig betur en aðrar. Erla Rós Sigmarsdóttir átti frábæran leik í markinu þar sem hún varði átján skot og þar af eitt víti. Drífa Þorvaldsdóttir skoraði átta mörk og Telma Amado gerði sjö af línunni. Fæstir bjuggust við sigri ÍBV í þessum leik en þær sjálfar virtust allan tímann hafa trú á verkefninu og refsuðu fyrir flest mistök Fram.

Leikur tvö

Fram vann næsta leik í Eyjum en það kom einnig á óvart, héldu margir að ÍBV myndi klára dæmið á heimavelli. Stefán Arnarson sagði t.a.m. í viðtali við Fimmeinn.is að hann teldi ÍBV vera að klára einvígið og gerði lítið úr vonum Fram-kvenna að komast áfram.   Í þeim leik missti ÍBV Fram of langt frá sér og þær leiddu meðal annars með fimm mörkum á kafla í fyrri hálfleik. Mikil orka fór hjá ÍBV í það að minnka muninn en þær minnkuðu í tvö mörk þegar tíu mínútur voru eftir. Þá snerist taflið við og Fram-liðið var sterkara á lokasprettinum. Lokatölur 19:23 fyrir Fram. Ester Óskarsdóttir átti stórfínan leik hjá ÍBV og skoraði níu mörk en Erla Rós Sigmarsdóttir hélt uppteknum hætti í markinu og varði átján skot.

Leikur þrjú

Oddaleikurinn fór síðan fram í Safamýrinni og þar reyndust heimakonur sterkari. Jafnt var framan af og skiptust liðin á að hafa forystuna alveg fram að lokamínútunum, þar gaf Fram í og kláruðu leikinn. Þær virtust einfaldlega vera í betra formi og náðu að klára leikinn af krafti. ÍBV var 17:19 yfir þegar heilar nítján mínútur voru eftir af leiknum. Þá kom 7:1 kafli hjá Fram sem algjörlega gerði úti um leikinn sem þær kláruðu síðan 25:21. Ester Óskarsdóttir skoraði átta mörk fyrir ÍBV en Erla Rós varði sextán skot.  Markahæstu leikmenn ÍBV í  leiknum sem vannst eru Telma Amado og Drífa Þorvaldsdóttir.

Sópuðu Gróttu út í tveimur leikjum

Meistaraflokkur karla hjá ÍBV er kominn í undanúrslit Íslandsmótsins en þeir sigruðu Gróttu í tveimur leikjum og skildu þá þar með eftir. ÍBV var mun betra og virtist Grótta ekki eiga svör við vörn ÍBV sem var heilt yfir mjög góð.  Grótta byrjaði mun betur og komust þeir í 1:4 og 3:5.

Um leið og ÍBV fór að finna leiðir framhjá vörn Gróttu var ekki aftur snúið. ÍBV komst 8:5 yfir og héldu þeir áfram að bæta við forskotið alveg fram að hálfleik.   Spilamennska liðsins minnti á árið 2014 þar sem refsað var fyrir öll mistök mótherjanna og hraðaupphlaup og flæðandi sóknarleikur réðu öllu. Þá var vörnin mjög góð og náði Gróttumenn einfaldlega ekki að leysa það.  

Á síðustu átján mínútum fyrri hálfleiks skoraði ÍBV þrettán mörk gegn þremur hjá Gróttu. Leikurinn var þannig séð búinn í hálfleik þar sem ÍBV leiddi 16:8. Munurinn varð mestur í stöðunni 20:11 en eftir það reyndi Grótta að koma sér inn í leikinn á ný. Þeir minnkuðu niður í fjögur mörk en komust aldrei nær, leiknum lauk með fimm marka sigri ÍBV 32:27.   Theodór Sigurbjörnsson var í stuði í leiknum þar sem hann skoraði tíu mörk en Agnar Smári Jónsson skoraði sjö mörk eftir erfiða byrjun. Stephen Nielsen varði vel í markinu en hann tók ellefu skot, mörg þeirra dauðafæri.

Leikur tvö

Í leik tvö var búist við hörkuskemmtun og fóru nokkrir stuðningsmenn ÍBV frá Eyjum með Herjólfi um morguninn. Góður  hópur stuðningsmanna mætti á leikinn úr Reykjavík. Skemmst er frá því að segja að ÍBV sigraði með sex marka mun og var leikurinn ekki ólíkur leiknum í Eyjum. Grótta byrjaði betur og komst í forystu á fyrstu mínútunum, þeir voru þremur mörkum yfir í dágóðan tíma en ÍBV átti erfitt með að komast framhjá vörn þeirra.  Eins og í fyrri leiknum þegar ÍBV fann svör við vörn Gróttu sigu þeir fram úr. Grótta var 9:7 yfir en frábær kafli ÍBV sneri því við og var staðan 11:15 í hálfleik.

Seinni hálfleikurinn byrjaði vel hjá gestunum sem minnkuðu muninn niður í eitt mark en þá var korter eftir af leiknum. Eins og vanalega náði ÍBV góðu áhlaupi þar sem þeir skoruðu hvert markið á fætur öðru, fljótlega var staðan orðin 19:25 fyrir ÍBV sem höfðu þá skorað fimm mörk í röð. Það var því einungis formsatriði að klára leikinn en ÍBV sigraði að lokum 23:29 og þurftu ekki oddaleik til að vinna einvígið. 

Theodór Sigurbjörnsson átti aftur flottan leik en hann skoraði átta mörk, Einar Sverrisson var næstur honum með fimm mörk. Stephen Nielsen varði 14 skot í markinu af þeim 36 sem hann fékk á sig en Kolbeinn Aron Arnarson kom inn í markið undir restina og varði þrjú af þeim fjórum sem hann fékk á sig.  

(Eyjafréttir greindu frá)

Flott frammistaða, flott umgjörð

Mikil stemmning var á Ásvöllum í fyrsta leik Hauka og ÍBV í úrslitakeppninni. Hvítu Riddararnir fjölmenntu á Ásvelli og byrjuðu að syngja hálftíma fyrir leik. Þeir stálu senunni eftir einungis eina sekúndu í leiknum þegar þeir fleygðu klósettrúllum inn á völlinn. Þá var leikurinn stoppaður en við það varð söngurinn hærri hjá Riddurunum.  Þetta uppátæki stuðningsmannasveitarinnar virtist ætla að bera árangur þar sem ÍBV byrjaði leikinn miklu betur. Liðið skoraði nánast í hverri einustu sókn og voru fjórum mörkum yfir í nokkurn tíma. Haukar sneru þó stöðunni úr 6:10 í 13:12 á kafla og þar héldu margir að Haukar myndu ganga á lagið og valta yfir ÍBV.   Í hálfleik var staðan 13:13 en leikmenn ÍBV geta sjálfum sér um kennt að hafa ekki verið yfir í hálfleik. Haukar byrjuðu seinni hálfleikinn miklu betur og voru komnir með sex marka forskot eftir 48 mínútur. Þá var ÍBV einungis komið með þrjú mörk eftir átján mínútur.   Leikmenn ÍBV reyndu hvað þeir gátu að minnka muninn en þeir komust ekki nær en í þriggja marka fjarlægð. Leiknum lauk með sigri Hauka 29-24.  Theodór Sigurbjörnsson átti algjöran stjörnuleik en hann skoraði þrettán mörk. Hákon Daði Styrmisson var atkvæðamestur hjá Haukum en hann skoraði 10 mörk úr fimmtán skotum.

Grátlegt tap í ótrúlegum leik

Í leik nr. 2 voru Eyjamenn þannig séð komnir með bakið upp við vegg. Sigur var í raun það eina sem kom til greina í leiknum. Haukar sigruðu þó með eins marks mun eftir tvær framlengingar og algjöran háspennuleik.   Í stöðunni 7:10 gerðist þó atvik sem átti eftir að draga dilk á eftir sér.   Hákon Daði braut þá á Kára Kristjáni Kristjánssyni en dómararnir dæmdu vítakast. Eftir brotið gerði Kári sig sekan um dýr mistök, hann virtist ýta höfðinu á Hákoni niður í gólfið nokkuð harkalega. Hákon fékk tveggja mínútna brottvísun fyrir brotið og Kári fyrir viðbrögðin. Þegar þeir voru að ganga af velli ætlaði Hákon að taka í hendina  á Kára sem var ekki til í það. Hann myndaði byssu með hendinni og ýtti í áttina að Hákoni, í raun barnaleg hegðun og  Kári fékk umsvifalaust að líta rauða spjaldið frá Antoni Gylfa Pálssyni, öðrum dómara leiksins.   Ekki var þetta til að bæta leik ÍBV þar sem Haukar leiddu með þremur mörkum í hálfleik og héldu þeirri forystu fyrstu mínútur síðari hálfleiks. Þá tóku stuðningsmenn ÍBV við sér, þakið ætlaði af húsinu þegar mest á reyndi. 

Eyjamenn jöfnuðu metin á fimm mínútum og voru komnir tveimur mörkum yfir stuttu seinna. Forystan var orðin þrjú mörk og hélst þannig þangað til fimm mínútur voru eftir af leiknum. ÍBV skoraði ekki mark á síðustu fimm mínútum leiksins en Haukar gerðu þrjú. Framlengja þurfti leikinn og stemningin var alveg ótrúleg og spennan nær óbærileg Haukar leiddu með þremur mörkum þegar rúm mínúta var eftir af framlengingunni en ÍBV náði á einhvern ótrúlegan hátt að snúa taflinu við og jafna metin.

Theodór Sigurbjörnsson skoraði jöfnunarmarkið eftir frákast þegar tíu sekúndur voru eftir.   Í næstu framlengingu náðu Haukar aftur þriggja marka forskoti þegar fjórar mínútur voru eftir af þeirri framlengingu. Eftir það klikkaði Theodór á vítakasti en hann skoraði úr hinum sex vítum sínum. Elliði Snær Viðarsson skoraði með gullfallegri vippu og minnkaði í tvö mörk og Theodór minnkaði í eitt mark. Þá komust Haukar yfir á ný en aftur minnkaði Elliði muninn með eitursvalri vippu.  ÍBV fékk boltann á ný þegar fimmtán sekúndur voru eftir og gátu komið leiknum í vítakastkeppni. Einari Sverrissyni var treyst fyrir síðasta skotinu en markvörður Hauka varði.

Grátlegt tap í ótrúlegum leik því niðurstaðan.  Hákon Daði Styrmisson reyndist ÍBV mjög erfiður en hann skoraði ellefu mörk úr fyrstu ellefu skotum sínum í leiknum. Hann gerði  samtals tólf mörk í leiknum og er kominn með 22 mörk í fyrstu tveimur leikjunum í einvíginu. Theodór skoraði átta mörk í þessum leik.

Þriðji leikurinn

Íslandsmeistarar Hauka og ÍBV buðu upp á einn með öllu þegar þau áttust við í þriðja undanúrslitaleiknum í Olísdeildinni í Schenkerhöllinni að Ásvöllum. Leikurinn var frábær skemmtun og óhætt er að segja að fjölmargir áhorfendur hafi fengið mikið fyrir aurana sína, en boðið var upp á spennutrylli af bestu gerð. Eyjamenn höfðu betur í framlengingu, 35:33, og minnkuðu þar með muninn í einvígi liðanna í 2:1. Það var Adam Haukur Baumruk sem tryggði Haukunum framlengingu þegar honum tókst að jafna metin í 29:29, rúmri einni mínútu fyrir leikslok. Bæði lið fengu sóknir til að gera út um leikinn en það tókst ekki og því þurfti að framlengja leikinn.

Í henni náðu Eyjamenn frumkvæðinu og stórskyttan Einar Sverrisson sá til þess að ÍBV fagnaði sigri, en hann skoraði tvö síðustu mörk Eyjamanna og fögnuður leikmanna og stuðningsmanna liðsins minnti um margt á þegar ÍBV varð meistari á sama stað eftir sig

ur á Haukum í úrslitaeinvígi fyrir tveimur árum. Haukarnir höfðu frumkvæðið megnið af fyrri hálfleik. Þeir náðu mest fjögurra marka forskoti, 9:5, en Eyjamenn þéttu raðirnir og með frábærum endaspretti í fyrri hálfleik höfðu þeir tveggja marka forskot í hálfleik, 14:12. Frábær handboltaleikur Haukarnir voru fljótir að jafna metin og eftir það skiptust liðin á að hafa forystuna í frábærum handboltaleik og eiga bæði hrós skilið. Adam Haukur Baumruk og Janus Daði Smárason voru mjög atkvæðamiklir í sókninni og Hákon Daði Styrmisson hélt uppteknum hætti hvað markaskor varðar í einvígi liðanna, en þessi fyrrverandi leikmaður ÍBV skoraði 11 mörk, þar af átta af vítalínunni, og hefur þar með skorað 33 mörk í leikjunum þremur. Án Kára Kristjáns Kristjánssonar og Magnúsar Stefánssonar sýndu Eyjamenn gríðarlegan baráttuvilja. Þeir seldu sig dýrt og það var greinilegt að þeir voru ekki tilbúnir að fara í sumarfrí. Það var fínn taktur í liðinu og örugglega besti leikur þess í þessu einvígi. Theodór Sigurbjörnsson átti frábæran leik og þeir Einar Sverrisson, Grétar Þór Eyþórsson og Agnar Smári Jónsson lék einnig afar vel.

„Það var enginn tilbúinn að fara í sumarfrí í okkar liði. Við ætluðum okkur sigur og ekkert annað og það var frábært að ná honum í hús með hjálp okkar frábæru stuðningsmanna. Við vorum svolítið lengi í gang en undir lok fyrri hálfleiks fóru hlutirnir að ganga betur og það sem eftir lifði leiks spiluðum við virkilega vel,“ sagði Agnar Smári Jónsson, leikmaður ÍBV, við Morgunblaðið eftir leikinn. „Við ætlum okkur að mæta aftur hingað á Ásvelli, það er alveg öruggt. Við fáum byr í seglin með þessum leik og þessari fínu frammistöðu,“ sagði Agnar Smári, sem átti frábæran leik

Fjórði leikurinn

Næsti leikur var síðan í Vestmannaeyjum og með sigri myndi ÍBV tryggja sér oddaleik á Ásvöllum og voru margir á því að ÍBV gæti sigrað. Kári Kristján kom aftur inn í liðið en annars var allt óbreytt í báðum liðum. ÍBV byrjaði leikinn  af miklum krafti og stemmningin var rafmögnuð.  Haukar misstu Giedrius Morkunas, markvörð snemma í leiknum þegar hann fékk að líta rauða spjaldið. Annað áfall þeirra var þegar Tjörvi Þorgeirsson, einn af þeirra bestu mönnum fór út af meiddur. Eyjamenn virtust með pálmann í höndum sér en svo varð ekki og unnu Haukar með einu marki, 29:30. 

Þetta einvígi var báðum liðum, leikmönnum og stuðningsmönnum til mikils sóma. Það var rafmagnað andrúmsloftið í Íþróttamiðstöðinni þar sem Eyjamenn studdu sína menn á vellinum.

ÍBV er meðal þeirra bestu í handboltanum og stuðningsmenn þeirra þeir allra bestu. Eins og stundum áður hafa Eyjamenn lyft handboltanum upp á hærra plan og gert hann að þeirri skemmtun sem hann er í dag. Já, hvar væri handboltinn á Íslandi dag ef Eyjamanna nyti ekki við?  Þá fékk ÍBV einn séns til að jafna metin en þar var dæmt sóknarbrot á liðið. Hákon Daði kórónaði einvígið sitt og skoraði sigurmarkið.

ÍBV því úr leik í undanúrslitum eftir 3-1 tap gegn Haukum.  Theodór Sigurbjörnsson og Hákon Daði Styrmisson voru algjörlega frábærir í þessu einvígi þar sem þeir léku á als oddi. Teddi skoraði 42 mörk í þessum fjórum leikjum en Hákon Daði gerði 41 mark.

3. flokkur Íslandsmeistari

ÍBV eignaðist Íslandsmeistara í 3. flokki karla í fyrsta skiptið, þessir sömu strákar unnu fyrsta Íslandsmeistaratitil ÍBV í karlaflokki árið 2013. Þar sigraði liðið HK í úrslitaleik undir stjórn Jakobs Lárussonar.  Í ár var liðið undir stjórn Svavars Vignissonar og tefldi það fram tveimur liðum, einu sem spilaði í 1. deild og öðru sem spilaði í 3. deild. Liðið sem var í 3. deild var einungis skipað leikmönnum fæddir 1999, á yngra ári flokksins.

Hjá eldra liðinu gekk allt í deildinni eins og í sögu, liðið vann alla leiki sína að undanskildum tveimur. Tapaði á heimavelli fyrir FH og á útivelli gegn Val, hafnaði í efsta sæti deildarinnar og fengu því Þórsara frá Akureyri í  átta liða úrslitum. Liðið sigraði þar með eins marks mun eftir að hafa verið fjórum mörkum undir á köflum í seinni hálfleik.   Í næsta leik spilaði liðið gegn Val á heimavelli en liðið var aldrei undir í þeim leik. Þeir tóku góða forystu snemma í leiknum og létu hana aldrei af hendi. Síðan í febrúar hafði liðinu vantað einn sinn besta leikmann, Loga Snædal Jónsson, en hann varð fyrir hnjaski í leik gegn Haukum í meistaraflokki. 

Það er því magnað afrek hjá strákunum að taka deildarmeistaratitilinn og komast í úrslitaleik Íslandsmótsins án Loga. Hann lagði sig þó allan í það að vera tilbúinn í úrslitaleikinn. FH-ingar komust nokkuð óvænt í úrslitin með sex marka sigri á ÍR en ÍR-ingar höfðu orðið bikarmeistarar eftir stórsigur á ÍBV í undanúrslitum. Úrslitaleikurinn æsispennandi Úrslitaleikurinn var spilaður í Dalhúsum og vel var mætt.

ÍBV byrjaði betur og hafði forystuna framan af. FH-ingar tóku fljótlega yfir leikinn og leiddu með einu marki í hálfleik.   Á góðum kafla í seinni hálfleik tókst þó ÍBV að snúa taflinu við en þeir leiddu með þremur mörkum. Hægt og bítandi tókst FH-ingum að komast aftur inn í leikinn og jöfnuðu þeir metin.   Þeir hefðu getað komist yfir þegar sjö sekúndur voru eftir úr hraðaupphlaupi en þeir misstu boltann beint í hendurnar á Eyjamönnum. ÍBV náði ekki að skora á síðustu sekúndunum og því þurfti að framlengja. Þarna virtist allur vindur farinn úr ÍBV þar sem FH-ingar keyrðu á liðið.

Fyrri hálfleikur framlengingarinnar fór 3:1 fyrir FH-ingum sem virtust ætla að hirða bikarinn.   Í seinni hálfleik framlengingarinnar sýndi ÍBV þó allar sínar bestu hliðar, þeir skoruðu fjögur fyrstu mörkin og voru tveimur mörkum yfir þegar fimmtán sekúndur voru eftir. FH náði að klóra í bakkann en nær komust þeir ekki og 35:34 sigur Eyjamanna staðreynd.   Á þessum kafla reyndist Logi Snædal Jónsson gríðarlega mikilvægur þar sem hann fann Gabríel Martinez Róbertsson í næst síðasta marki ÍBV og skoraði sjálfur það síðasta. Logi lagði því upp tvö og skoraði eitt af síðustu þremur mörkum ÍBV.  

Það var frábær stund að sjá Loga skora sigurmarkið og enn flottara að sjá hann lyfta titlinum í leikslok, ótrúleg endurkoma hjá ÍBV. Ágúst Emil Grétarsson var útnefndur maður leiksins en hann skoraði átta mörk, í öllum regnbogans litum.  Strákarnir fengu síðan móttöku við hæfi á bryggjunni eftir leik þar sem þeir höfðu ferðast með bikarinn til Eyja í Herjólfi með tilheyrandi látum og söngvum.

Þriðji flokkur karla vann einnig  í B-úrslitum Strákarnir í yngra liði 3. flokks fóru í B-úrslitin eftir sigur í 3. deildinni og þar mætti liðið Selfossi, Stjörnunni og Aftureldingu. B-úrslitin voru haldin degi eftir A-úrslitin og hefði maður því haldið að mikil þreyta væri í leikmönnum liðsins þar sem leikmenn yngra ársins spiluðu stóra rullu í liðinu sem vann A-úrslitin degi áður.   Þeir sýndu þó engin þreytumerki þegar þeir ruddu liði Selfoss úr vegi með átta marka mun 30:38. Næst urðu Stjörnumenn í vegi liðsins en þeim leik lauk með fjögurra marka sigri ÍBV 25:29.

Þeir voru því komnir í úrslitaleikinn þar sem þeir mættu Aftureldingu í Mosfellsbæ, þar sigraði liðið einnig nokkuð örugglega með fimm marka mun, 23:28.   Liðið tapaði ekki leik á öllu tímabilinu. Þeir unnu 15 af sínum 16 leikjum í deildinni og voru með 178 mörk í plús.

Vetrarlok með glæsibrag

Vetrarlok ÍBV-íþróttafélags voru haldin hátíðleg að viðstöddum leikmönnum, þjálfurum, stjórnarmönnum, sjálfboðaliðum og styrktaraðilum á Háaloftinu 14. maí. Þar voru veittar viðurkenningar fyrir frammistöðu leikmanna fyrir veturinn. Bestu leikmenn meistaraflokkanna voru valin þau Ester Óskarsdóttir og Theodór Sigurbjörnsson og Fréttabikarinn, sem efnilegustu leikmennirnir fengu þau Þóra Guðný Arnarsdóttir og Elliði Snær Viðarsson.

Árangurinn í vetur var vel viðunandi þar sem standa hæst Íslandsmeistaratitlar í þriðja flokki kvenna og fimmta flokki kvenna, eldri og yngri. Konurnar komust í átta liða úrslit þar sem þær lentu á móti Fram. Karlarnir komust í fjögurra liða úrslit þar sem Haukar höfðu betur.   Þó meistaraflokkarnir hafi ekki skilað titlum þetta árið hafa Eyjamenn náð að setja mark sitt á íslenskan handbolta svo um munar. ÍBV teflir fram liðum sem spila með hjartanu og gefa allt í leikinn.

Þá á ÍBV öflugasta stuðningsfólkið og eru önnur félög farin að tefla fram sveitum á áhorfendapöllum sem sækja fyrirmyndina í Hvíta riddara Eyjamanna sem er öflugasti stuðningshópur í sögu íslensks handbolta.  Allt það fólk sem stendur á bak við ÍBV-íþróttafélag á mikinn heiður skilinn, stjórn, fólkið í ráðunum, sjálfboðaliðar, bakhjarlar sem alltaf eru reiðubúnir þegar kallið kemur frá félaginu vinnur ómetanlegt starf. Þetta fólk ásamt keppendum og þjálfurum og öðru starfsliði félagsins hefur gert ÍBV-íþróttafélag eina af megin

stoðum Vestmannaeyja. Og krafturinn er mikill, líka þegar kemur að því að skemmta sér og það kann handboltafólk svo sannarlega.

Hámarki náði kvöldið í myndbandi sem strákarnir í þriðja flokki höfðu soðið saman. Þar voru sum skotin nokkuð þung en ekki þyngri en svo að allir áttu að geta gengið heilir frá borði. Meðal þeirra sem fengu viðurkenningar voru þeir Halldór Sævar Gíslason og Guðni Davíð Stefánsson sem voru heiðraðir fyrir góð störf fyrir félagið. 

Í þriðja flokki karla á yngra ári fékk Bjarki Svavarsson viðurkenningu fyrir mestu framfarir, Daníel Örn Griffin valinn besti leikmaðurinn, efnilegastur þótti Logi Snædal Jónsson, mestu framfarir sýndi Gabriel Martinez Róbertsson, ÍBV-arinn er Ingvar Ingólfsson og besti leikmaðurinn er Elliði Snær Viðarsson.

Hjá stúlkunum í þriðja flokki var Sirrý Rúnarsdóttir valinn efnilegasti leikmaðurinn og Ásta Björt Júlíusdóttir besti leikmaðurinn. 

Mestu framfarir í öðrum flokki karla sýndi Magnús Karl Magnússon, besti leikmaðurinn er Nökkvi Dan Elliðason. 

Í meistaraflokki kvenna fékk Þóra Guðný Arnarsdóttir Fréttabikarinn sem efnilegasti leikmaðurinn. Mestu framfarir sýndi Erla Rós Sigmarsdóttir markvörður og ÍBV-arinn er Greta Kavaliauskait og besti leikmaðurinn er Ester Óskarsdóttir. 

Í meistaraflokki karla fékk Elliði Snær Viðarsson Fréttabikarinn sem efnilegasti leikmaðurinn, mestu framfarir sýndi Svanur Páll Vilhjálmsson, ÍBV-arinn er Grétar Þór Eyþórsson og besti leikmaðurinn  Theodór Sigurbjörnsson.  Einnig voru þeir Halldór Sævar Gíslason og Guðni Davíð Stefánsson heiðraðir fyrir góð störf fyrir félagið.

(Eyjafréttir greindu frá)

Lengjubikarmeistarar 2016

Eftir mikla velgengni í Lengjubikarkeppninni tók meistaraflokkur kvenna tók á móti Breiðabliki í úrslitunum á Hásteinsvelli. ÍBV stelpurnar  höfðu betur í 3:2 sigri og fengu því Lengjubikarinn í ár.

ÍBV stelpurnar byrjuðu frábærlega en eftir 25 mínútur var staðan orðin 3:0 fyrir okkar stelpum. Blikastelpurnar minnkuðu muninn í 3:1 á 27. mínútu. Staðan var 3:1 í hálfleik. Gestirnir skoruðu svo annað mark sitt á 85.mínútu leiksins og voru því lokatölur leiksins 3:2 og ÍBV stelpurnar því handhafar Lengjubikarsins 2016.  

Mörk ÍBV skoruðu þær Chloe Lacasse, Lisa Marie Woods og Rebekah Bass. 

Áfram í bikarnum

2. flokkur karla hjá ÍBV komst áfram í bikarnum með sigri á HK-ingum. Fyrir leikinn bjuggust flestir við sigri HK-inga en þeir stilltu þó ekki upp sínu besta liði, þar sem nokkrir leikmenn úr 2. flokki spila með meistaraflokki og voru ekki með.   Að sama skapi vantaði Devon Már Griffin hjá ÍBV.

ÍBV kláraði leikinn í fyrri hálfleik með þremur mörkum frá Róberti Aroni Eysteinssyni. Mörkin voru í öllum regnbogans litum en HK-ingar litu aldrei út fyrir að geta komið til baka.  Þeir minnkuðu muninn eftir 78. mínútna leik en komust ekki nær. ÍBV er því komið áfram í 16-liða úrslitin þar sem liðið heimsækir Fram.

Flott byrjun á Íslandsmótinu

Meistaraflokkur ÍBV karla í fótbolta lék sinn fyrsta leik í Pepsídeildinni  þegar liðið tók á móti ÍA á Hásteinsvelli. Rúmlega 900 stuðningsmenn mættu á leikinn og mátti skynja mikla spennu í stúkunni fyrir fyrsta leik tímabilsins.   Þetta var fyrsti leikur ÍBV undir stjórn Bjarna Jóhannssonar, sem sneri aftur til Eyja fyrr í vetur, en hann stýrði ÍBV liðinu við góðan orðstír fyrir 17 árum síðan.  

Áður en leikurinn hófst var stund til minningar um Abel Dhaira sem og fyrrverandi stjórnarmann knattspyrnuráðs ÍBV, Eggert Garðarsson, sem báðir létust á árinu. ÍBV hefur fengið leyfi frá KSÍ að leika með minnismerki um Abel á búningum sínum í sumar, en á búningunum stendur Abel Dhaira #1.  

Leikurinn byrjaði vel fyrir okkar menn og fyrsta mark leiksins kom á 9. mínútu. Það var Simon Smidt sem skoraði markið eftir glæsilega stoðsendingu frá Aroni Bjarnasyni.  Aron var svo sjálfur á ferðinni á 16. mínútu og skoraði glæsilegt mark. Sindri Snær Magnússon skoraði svo þriðja mark leiksins á 36. mínútu, eftir skyndisókn upp vinstri vænginn eftir útkast frá markverðinum Derby Carillo.  

Hálfleiks tölur voru því 3:0 ÍBV í vil.

Charles Vernam kláraði svo leikinn endanlega með glæsilegu marki á 82. mínútu. Fjögur núll sigur var því staðreynd fyrir okkar menn í fyrstu umferð Pepsi deildarinnar. Frábær byrjun á tímabilinu hjá ÍBV.

Molnaði

ÍBV náði ekki að fylgja eftir góðum sigri í síðasta leik, þegar þeir heimsóttu Fjölni í Grafarvoginn. Heldur slakt gengi  á útivöllum hjá ÍBV undanfarin ár heldur áfram í Pepsi-deildinni, en í fyrra safnað liðið einungis fjórum stigum í 11 útileikjum.

Liðið  tapaði með tveggja marka mun gegn Fjölni, 0-2.  ÍBV-liðið var ekki verri aðilinn framan af gegn Fjölni en molnaði gjörsamlega niður eftir fyrsta mark Fjölnis sem var frekar klaufalegt. Þar labbaði Daninn Morten Lund Pedersen í liði Fjölnismanna framhjá Andra Ólafssyni og Pablo Punyed áður en hann sendi Derby Carillo í vitlaust horn. Boltinn rúllaði mjög hægt í netið og leit þetta allt frekar vandræðalega út fyrir Eyjamenn.   Nokkru síðar vann Martin Lund Pedersen boltann aftur af leikmönnum ÍBV. Hann lék boltann óáreittur upp kantinn, stillti boltanum á hægri fótinn og setti hann auðveldlega í nær. Aftur frekar kjánlegt fyrir ÍBV sem tapaði að lokum 2:0. ÍBV átti eitt skot á markið í leiknum gegn átta skotum Fjölnis.  

Ekki byrjun sem vonast var eftir

Fyrsti leikur kvennaliðs ÍBV Margir höfðu beðið spenntir eftir fyrsta leik stelpnanna í Pepsideildinni þetta árið. Þær höfðu unnið Breiðablik í  úrslitaleik í Lengjubikarnum.  Þar spilaði liðið vel. Það varð ekki raunin þegar þær fengu Selfossdömur í heimsókn á Hásteinsvöll. Eina mark leiksins skoraði Selfyssingurinn Lauren Hughes. ÍBV reyndi allt í síðari hálfleik, með vindinn í bakið en ekkert virtist ganga. Mínúturnar flugu hjá og tókst liðinu ekki að jafna. Ekki beint byrjunin sem liðið hafði vonast eftir. 

Dómaraskandall

Pepsídeild karla byrjaði óvenju snemma þetta árið og var leikið þétt fyrst framan af.  Ástæðan var Evrópumótið, þar ekki átti að spila meðan á því stóð, eða allavega lítið.

Í þriðju umferð mættu Víkingar frá Ólafsvík á Hásteinsvöll. Það var svo Sigurður Grétar Benónýsson hleypti lífi í leikinn með marki fyrir ÍBV eftir rúmar áttatíu mínútur eftir sendingu fram frá Avni Pepa.  Nánast í næstu sókn féll framherji Ólsara í teig heimamanna við enga snertingu en dómarinn dæmdi samt vítaspyrnu. Framherjinn skoraði sjálfur úr spyrnunni og lokatölur leiksins því 1:1.   Algjörlega grátlegt fyrir Eyjamenn sem sitja eftir með sárt ennið. Bjarni Jóhannsson, þjálfari ÍBV, sagði í viðtali eftir leik að Víkingar hefðu tekið eitt stig, dómarinn eitt og að Eyjamenn sitji eftir með eitt. Þá sagði hann einnig að dómarar ættu ekki að gefa stig og hvað þá safna þeim sjálfir.

Hermann og Hannes

Nokkrum dögum síðar var leikur við Fylki og var leikið í Árbænum. Var það leikur sem stuðningsmenn vildi helst af öllu vinna. Þar kom aðallega til að þjálfari Fylkis var Hermann Hreiðarsson, sem mörgum þótti koma illa fram við ÍBV, þegar hann nappaði þeim knáa Sito af ÍBV áður en síðasta leiktímabilið var búið. Áhorfendum varð að ósk sinni, 3-0 sigur var niðurstaðan.   Eftir leik virtist hiti vera í mönnum þar sem einhverjar myndir sýna Hermann Hreiðarsson reyna að grípa í hálsmál Hannesar Gústafssonar, stjórnarmanns ÍBV. Hannes er grjótharður og lét það ekki á sig fá. Vakti þessi uppákoma talsverða athygli.

Eyjamönnum kippt niður á jörðina

Eyjamönnum var kippt niður á jörðina eftir flottan leik gegn Fylki. Sigurlausir Víkingar komu í heimsókn og unnu stórsigur 0:3. ÍBV er nú með sjö stig eftir fyrstu fimm leikina og er útlitið ekki jafn bjart og eftir síðasta leik. 

Enn vantar sigur á Hásteinsvelli

Meistaraflokkur kvenna lék þessa sömu helgi við  Fylki á Hásteinsvelli og unnu með þremur mörkum gegn einu. Næstu leikir voru gegn Val og Stjörnunni og töpuðust þeir báðir  með einu marki gegn engu. Þeir þrír leikir sem liðið hefur spilað á Hásteinsvelli hafa því allir tapast.

10 stig í húsi

Karlalið ÍBV komst áfram í Borgunarbikarnum með sigri á Huginn frá Seyðisfirði, 2-0. Í sjöttu umferð Pepsídeildarinnar sigraði ÍBV svo Þrótt með einu marki gegn engu. 10 stig eru nú í húsi hjá ÍBV. Ef gengi liðsins verður áfram á þessum nótum ætti liðið að fá 36 stig í lok mótsins.

KR-ingar lagði að velli

Það var gott innlegg í sjómannadaginn að sigra KR á Hásteinsvellinum, 1-0. Sigurinn var verðskuldaður og það var Bjarni Gunnarsson sem skoraði markið rétt undir leikslok. ÍBV komst þar með í toppsætið um stund, en þegar umferðinni var lokið var liðið komið 4. sætið. Engu að síður flott frammistaða og gefur vonir um Evrópusæti.

76 lið kepptu á TM mótinu

TM mótið í 5. flokki kvenna hófst 9. júní stóð til 11. júní. Mótið var fyrst haldið árið 1990.   Að þessu sinni mæta 76 lið frá 26 félögum, alls um 800 manns með þjálfurum og farastjórum. Ýmislegt var í boði eins og venjulega auk þess að spila fótbolta.  Meðal þess sem boðið var upp á var diskósund, bátsferðir, kvöldvaka, Idol keppni, landsleikur, grillveisla og margt fleira.

Dóra Björk Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri ÍBV íþróttafélags sagði í viðtali  við Eyjafréttir, að mótið hafi gengið mjög vel  og gestir mótsins farið  glaðir í bragði heim eftir vel heppnaða daga í Eyjum, þó veðrið framan af hefði mátt vera betra.   ,,Mótið gekk mjög vel en hér voru 28 félög sem spiluðu tæplega 400 leiki á þrem dögum. Til þess að svona stórt mót gangi upp þarf margar hendur, komu 70 manns að því á hverju degi í að skammta mat, dæma, sinna gæslu í skólum og  starfsfólk hér í Týsheimilinu var á fullu. Það er því óhætt að segja að það sé ekki hægt að halda mót sem þetta nema með því að allir leggist á eitt. Foreldrar í yngri flokkum félagsins hafa á síðustu árum komið töluvert meira að mótunum okkar en var. En fyrirtækin í Vestmannaeyjum hafa verið okkur hjálpleg og lána starfsfólk sitt til okkar í dómgæslu og er það ómetanlegt,” sagði Dóra Björk.

Margrét Lára Viðarsdóttir setti mótið fyrir hönd TM og ÍBV og talaði við stelpurnar um mikilvægi liðsheildar í hópíþróttum og að hvert lið þurfi að hugsa vel um sína liðsheild. Einnig var Margrét Lára með snapchat fyrir TM á fimmtudag og föstudag og vakti það mikinn áhuga hjá stelpunum.

Föstudagurinn var tekinn snemma í töluverðu roki, en stelpurnar létu það ekki á sig fá. Landsleikur TM mótsins var svo á sínum stað, þar sem landslið og pressulið mættust, en hann fór fram á Hásteinsvelli. Mörg glæsileg tilþrif sáust í leiknum en ekki vildi boltinn inn þannig að liðin skildu jöfn 0-0.

Guðmundur Tómas Sigfússon sagði í viðtali við Eyjafréttir  að ÍBV hefði átt mjög flott mót. „Ég gríðarlega ánægður með stelpurnar. A-liðið endaði í 5. sæti mótsins sem er mjög góður árangur, þær voru meðal annars tveimur mínútum frá sigri á Val, sem vann að lokum mótið.   Liðið vann FH í tvígang 1-0 en FH var einungis þremur mínútum frá því að komast í úrslitaleik mótsins. Efstu átta liðin á mótinu voru mjög jöfn og hefði þannig séð hvaða lið sem er af þessum átta geta unnið mótið. B-liðið stóð sig einnig mjög vel og enduðu rétt fyrir ofan miðju í mótinu. Þar eru nokkrar sem eru að stíga sín fyrstu skref í fótbolta og hafa tekið gríðarlegum framförum á þeim mánuðum sem þær hafa æft.“

Bæði liðin áfram í Borgunarbikarnum

ÍBV sótti Stjörnuna heim í 16-liða úrslitum Borgunarbikars karla og var leikið á gerfigrasinu í Garðabæ. ÍBV tók forystu á 17. mínútu þegar Pablo Punyed skoraði gegn sínum gömlu félögum með þrumuskoti af kantinum.   Bjarni Gunnarsson, töframaður, skoraði annað mark ÍBV snemma í seinni hálfleik og gerði þannig úti um leikinn. Derby Carillo, markvörður ÍBV, var besti leikmaður vallarins en hann átti frábæran dag í markinu.   

Strákarnir voru ekki þeir einu sem komust áfram í bikarnum, því stelpurnar sigruðu KR-inga í Frostaskjóli. KR-ingar komust yfir eftir skyndisókn á fyrstu mínútum leiksins og útlitið var því ekki bjart fyrir ÍBV. Sigríður Lára Garðarsdóttir skoraði jöfnunarmark ÍBV

eftir tæpan hálftíma og kom liðinu einnig í 1:3 undir lokin með flottu marki.

1200 keppendur á Orkumótinu

Orkumótið fór fram síðustu helgina í  júní og voru keppendur  rúmlega 1200 keppendur auk fjöldann allan af foreldrum og skyldmennum sem fylgdu eftir. Fjöldi liða hefur aldrei verið fleiri en 108 lið tóku þátt frá 35 félögum, spilaðir voru yfir 600 leikir á mótinu.

Mótið hófst á fimmtudegi í ágætis veðri en spilað var á mótinu frá klukkan 08.00 á morgnana til klukkan 17.00 á daginn. Spilar hvert einasta lið þrjá leiki á fimmtudeginum og föstudeginum en á laugardeginum spila liðin 4 leiki.

Ágætis veður var allan tíman en það rigndi örlítið seinnipartinn á föstudeginum en strákarnir létu það ekki á sig fá.   Mikið er að gera hjá strákunum meðan á mótinu stendur en dagskráin var til fyrirmyndar og alltaf eitthvað í gangi.

Á fimmtudagskvöldinu fór fram setning mótsins sem hófst á skrúðgöngu frá Barnaskólanum og endaði hún á Týsvelli þar sem Íris Róbertsdóttir formaður ÍBV íþróttafélags setti mótið. Á setningunni tekur hvert félag þátt í boðhlaupi og voru það Stjörnustrákar sem fóru með sigur af hólmi þetta árið í boðhlaupinu.

Á föstudagskvöldið fór fram kvöldvaka í íþróttahúsinu. Tóti trúður tróð upp og var með gamanleik og töfrabrögð við mikla kátínu strákanna. Kvöldvakan endaði síðan á því að Leó Snær tróð upp og ætlaði þakið að rifna af húsinu, en strákarnir tóku vel undir hjá Leó. Eftir kvöldvöku héldu síðan allir niður á Hásteinsvöll þar sem spilaðir voru 2 landsleikir á sama tíma en í landsleikinn tilnefnir hvert félag einn mann sem tekur þátt í landsleiknum, mótstjórn skiptir þeim leikmönnum í 4 lið og spila liðin síðan sín á milli fyrir framan fullan Hásteinsvöll.

Á laugardagskvöldið fór fram lokahóf þar sem allir sigurvegarar á mótinu voru verðlaunaðir en það er spilað um 13 bikara á mótinu. Víkingur 1 vann Orkumótsbikarinn eftir sigur á Stjörnunni í úrslitaleik mótsins.

ÍBV stóð sig mjög vel á mótinu en ÍBV 1 tapaði ekki leik á mótinu en þeir lentu í 5 sæti af 108 liðum sem verður að teljast mjög góður árangur. ÍBV mætti til leiks með 7 lið og stóðu þau sig öll mjög vel þrátt fyrir að vinna ekki nein verðlaun.

Á lokahófinu var einnig valið úrvalslið Orkumótsins en þá eru valdir 12 strákar sem þóttu hafa staðið sig best á mótinu, en þetta úrvalslið velja dómarar og mótstjórn mótsins. Ásgeir Galdur Guðmundsson leikmaður ÍBV var valinn í Orkumótsliðið annað árið í röð en hann er gríðarlega efnilegur knattspyrnumaður. 

(Eyjafréttir greindu frá)

Stjörnumenn hefndu fyrir tapið í Borgunarbikarnum

Eftir að hafa lagt Stjörnuna að velli í Borgunarbikarnum varð það hlutskipti ÍBV drengja að tapa fyrir þeim 0-1 í Pepsí-deildinni og var einnig leikið á gervigrasinu í Garðabæ. Vegna Evrópumótsins hefur Pepsí-deildin spilast öðruvísi en vanalega, hálf sundurtætt deild eins og Bjarni Jóhannsson þjálfari orðaði það. T.d. spilaði ÍBV þrjá leiki í júlí í deildinni, sem Bjarna fannst of lítið.

Sigur gegn botnliðinu

Það var frekar auðveldur sigur þegar ÍBV lagði Skagastúlkur á Hásteinsvellinum, 2-0 í fimmtu umferð Pepsí-deildar kvenna. Skagastúlkur verma neðsta sætið með 1 stig, ÍBV er í 6. sæti með 6 stig. 

Siggi Reim allur

Sigurður Reimarsson, Siggi Reim, lést á Hraunbúðum, dvalarheimili aldraðra í Eyjum 2. júlí, 87 ára að aldri. Hann var jarðsettur  9. júlí frá Landakirkju þar sem ÍBV íþróttafélag sýndi honum virðingu sína. Siggi var brennukóngur á Þjóðhátíðum í tugi ára og var einlægur áhugamaður um knattspyrnu alla tíð.

Bæði liðin áfram í Borgunarbikarnum

Kvennalið ÍBV vann stórsigur á Selfyssiskum stúlkum í 8 liða úrslitum Borgunarbikarsins, 5-0. Karlaliðið sigraði líka sína andstæðinga, Breiðablik, í Borgunarbikarnum með þremur mörkum gegn tveimur.

Eyjamenn á heimsmælikvarða

Árangur íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu verður lengi í minnum hafður. Liðið komst í 8 liða úrslit Evrópukeppninnar, þar sem það síðan tapaði fyrir ofursterkum Frökkum. Þótt ÍBV ætti ekki fulltrúa í knattspyrnuliðinu sjálfu, átti ÍBV kannski einn þann mikilvægasta, þjálfarann Heimi Hallgrímsson. Já við Eyjamenn megum vera stoltir af okkar manni, Heimi Hallgrímssyni og gleymum því ekki að hann er og verður einn af okkur. Maður sem tók út sinn þroska í Vestmannaeyjum og er enn ein staðfestingin á mikilvægi íþrótta fyrir bæjarfélagið. Þar er unnið starf sem er ein af helstu stoðum samfélagsins og hefur skilað afreksmönnum í fótbolta, handbolta, frjálsum og sundi og þjálfurum sem eru að ná frábærum árangri. ÍBV  átti líka fleiri fulltrúa í landsliðsteyminu; þá Einar Björn Árnason sem kokkaði ofan í hópinn, Ómar Smárason sem sá um upplýsingarmálin og Víði Reynisson sem var yfir öryggismálum. Þá var Jóhannes Ólafsson einn af hópnum frá KSÍ. Hann var í stuttu viðtali í  Eyjafréttum eftir heimkomuna. „En það sem stendur kannski helst upp úr eftir ferðina er þessi magnaði árangur liðsins og stuðningurinn sem fylgdi liðinu. Það var ótrúlegt að upplifa þetta og fylgjast með stemningunni sem var í kringum þetta. En auðvitað eru úrslit leikjanna hápunkturinn. Maður bjóst ekki alveg við þessu en samt var eitthvað sem sagði manni að þetta gæti gerst.“

Tap á Hlíðarenda

Strákarnir í meistaraflokki karla þurftu að sætta sig við tap á Vodafone-vellinum þrátt fyrir að hafa verið sterkari aðilinn framan af. ÍBV komst yfir snemma í leiknum með marki frá Simon Smidt en Valsarar jöfnuðu stuttu seinna. Þrátt fyrir að ÍBV hafi fengið aragrúa af færum og hálffærum þá voru það Valsarar sem tóku forystuna undir lok fyrri hálfleiks og þar við sat, 1-2 fyrir Val.

Aftur sigruðu ÍBV stúlkur 5-0, að þessu sinni KR í Pepsí-deildinni.

Stelpurnar í meistaraflokki kvenna virðast vera komnar á skrið þar sem þær hafa sigrað síðustu tvo leiki með fimm mörkum gegn engu. Rétta sóknarformúlan virðist vera fundin en Cloe Lacasse og Rebekah Bass finna sig mjög vel saman uppi á toppnum. Þá er vörnin að smella vel saman og virðist erfitt að skora fram hjá liðinu.

Ýmsar fjáraflanir meistaraflokkanna

Leikmenn meistaraflokkanna fást við ýmislegt annað en spila fótbolta. Meistaraflokkur karla í handbolta hefur verið sérlega duglegur í ýmsum fjáröflunum. Þeir tóku að sér að mála Glófaxahúsið við Strandveg að utan. Þeir hafa líka af og til séð um löndun úr Huginn VE 55. Þeir unnu líka við að byggja stigann uppí Heimaklett.

Til að létta undir með rekstri knattspyrnudeildar tók knattspyrnustelpurnar í meistaraflokki að sér að bera þrepin í nýju stigana í Heimakletti upp og koma þeim fyrir.

Sigur og jafntefli gegn FH

Stelpurnar í meistaraflokki kvenna eru enn á ný á sigurbraut. Þær sigruðu FH 2:0 á miðvikudaginn og eru því komnar með þrjá sigurleiki í röð og markatöluna 12:0.   Cloe Lacasse skoraði fyrsta mark ÍBV eftir rétt rúma mínútu en Sigríður Lára Garðarsdóttir bætti við marki úr vítaspyrnu sem Cloe krækti í.

Strákarnir í meistaraflokki karla nældu sér í stig gegn FH-ingum á heimavelli en fáir bjuggust við öðru en sigri FH-inga sem eru í efsta sæti deildarinnar. FH stillti upp óhefðbundnu liði  með fimm af þeirra sterkari leikmönnum á bekknum. Þetta nýttu Eyjamenn sér og voru síst lakari aðilinn í fyrri hálfleik.  Í seinni hálfleik urðu þó einstaklingsmistök þess valdandi að FH-ingar komust yfir. Derby Carillo kom þá langt út úr marki sínu og út fyrir vítateiginn til þess að handsama boltann en náði honum ekki. Þetta nýtti Jeremy Serwy sér en hann kom gestunum yfir 0-1 og þar við sat.

Símamótið – komu heim með bikar

Sjöundi, sjötti og fimmti flokkur kvenna ÍBV héldu á Símamótið um miðjan júlí en 74 stelpur tóku þátt undir merkjum ÍBV.   Í 7. flokki voru 23 stelpur sem mynduðu þrjú lið, í 6. flokki mynduðu 33 stelpur fimm lið og í 5. flokki mynduðu 18 stelpur tvö lið.   Í 7. flokki og 6. flokki var leikið í fimm manna liðum en í 5. flokki var leikið í sjö manna liðum. Einn bikar vannst hjá liðum ÍBV á mótinu en það var lið 4 í 6. flokki sem vann þann bikar. Þær spiluðu átta leiki og sigruðu 7 af þeim, einum leik lauk með jafntefli og var það fyrsti leikurinn. 

Farnir að nálgast fallsæti

Karlalið ÍBV er farið að síga talsvert á stigatöflunni eftir tap gegn ÍA á Akranesi, 0-2. Það leit í raun aldrei út fyrir að liðið myndi skora í þessum leik, sem sennilega er sá lélegasti í sumar. Eftir að hafa lent 2:0 undir sýndu Eyjamenn aldrei vilja til vinna leikinn. Sóknirnar voru hugmyndasnauðar og lokasendingar lélegar. Í liði ÍBV voru tveir af betri leikmönnum liðsins, Pablo Punyed og Sindri Snær Magnússon fjarri góðu gamni.

Leika til úrslita í Borgunarbikarnum

Kvennaliðið tapaði gegn  Þór/KA í Pepsí-deildinni, 0-2. Dæmið snérist hinsvegar við í Pepsí-deildinni, þegar liðin áttust við í undarúrslitunum. Þar báru Eyjastúlkurnar sigurorð af þeim norðlensku 1-2, eftir framlengdan leik. - Sóley Guðmundsdóttir, fyrirliði ÍBV, var að vonum sátt í leikslok og leyndi ekki gleði sinni í viðtali eftir leik.  „Ég er búin að bíða eftir þessu síðan ég byrjaði að spila fótbolta,“ sagði Sóley. „Það er loksins komið að þessu. Þetta var mikill baráttuleikur, völlurinn mjög blautur og því gátum við ekki spilað fallegan fótbolta. Þetta var þvílík barátta og við vorum yfir í baráttunni í dag.“  Framundan er því  úrslitaleikur á Laugardalsvelli þar sem mótherjarnir verða Breiðablik.

Fár í aðdraganda Þjóðhátíðar

Sú ákvörðun lögreglustjórans í  Eyjum um að kynferðisbrot á þjóðhátíð verði ekki tilkynnt fyrr en rannsóknarhagsmunir séu tryggðir, ollu miklu fári  í aðdraganda þjóðhátíðarinnar. Heilög umræða um málið tröllreið hluta þjóðarinnar og nokkrir skemmtikraftar tilkynntu að þeir  myndu ekki leika á þjóðhátíðinni.

Retro Stefson, Úlfur Úlfur, Agent Fresco, Emmsjé Gauti og Sturla Atlas áttu allir að koma fram á Þjóðhátíð. Þeir segjast ekki geta gert það, sem flytjendur og listamenn, vitandi það að einhverjir úr áhorfendaskaranum verði fyrir kynferðisofbeldi ef að bæjaryfirvöld og lögreglustjórinn í Vestmanneyjum hafi ekki gert allt sem í þeirra valdi stóð til að koma í veg fyrir það.   

Yfirlýsing þeirra félaga er svohljóðandi: Okkur blöskra viðbrögð yfirvalda í Vestmanneyjum við háværum kröfum samfélagsins undanfarna daga. Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum er frábær hátíð en kynferðisbrot á aldrei að þagga niður.  Þjóðhátíð, Vestmannaeyingar og við öll eigum að úthýsa kynferðisofbeldi með öllum tiltækum ráðum.  Í ljósi orðræðu og verklags lögreglustjórans í Vestmanneyjum undanfarna daga sem gengur þvert á þöggunarumræðuna sem hefur átt sér stað undanfarin ár í íslensku samfélagi, sjáum við okkur ekki annan kost í stöðunni en að draga okkur úr dagskrá Þjóðhátíðar í ár nema skýr stefnubreyting komi frá bæjaryfirvöldum og lögreglustjóra og það strax.   

Við getum ekki, sem flytjendur og listamenn á þessari hátíð, komið fram vitandi það að einhverjir úr áhorfendaskaranum verði fyrir kynferðisofbeldi ef að bæjaryfirvöld og lögreglustjórinn í Vestmanneyjum hafa ekki gert allt sem í þeirra valdi stóð til að koma í veg fyrir það.  Okkar krafa er sú að lögregluyfirvöld í Vestmanneyjum temji sér þau vinnubrögð sem Landsspítalinn og Stígamót telji vera æskilegust.  

Málið leystist síðan eftir fund bæjarstjóra og þjóðhátíðarnefndar með skemmtikröftunum.

Samstöðufundur

Þjóðhátíðarnefnd tók þessa umræðu mjög alvarlega og ákvað að gera enn betur í öryggismálum og gæslu, og hvöttu bæjarbúa til að mæta á samstöðufundi og það voru  ekki færri en 170 gestir á fundinum í Slippnum þar sem komið var saman undir nafni Druslugöngunnar sem fram fór þennan dag víða um land. Það var ákveðinn þungi yfir fólki og ekki að ástæðulausu í ljósi stanslausra árása fjölmiðla á Vestmannaeyinga vegna ákvörðunar lögreglustjóra að greina ekki frá tilkynningum um kynferðisafbrot á þjóðhátíð. Allt í einu var ákvörðunin orðin aukaatriði og ótrúlegustu fullyrðingar um Eyjamenn og þjóðhátíð fóru á flug. Óskar Jósúson, sem stýrði fundinum bað fólk um að láta það ekki slá sig út af laginu, horfa frekar fram á veginn og reyna að gera enn betur í forvörnum og vinna gegn kynferðisafbrotum á þjóðhátíð eins og alls staðar annars staðar.  

Þjóðhátíð – fjölmenn – veðurblíða – ein sú besta

Þjóðhátíðarinnar 2016 verður minnst fyrir það hvað veðrið var einstaklega gott, sól og kyrrt og um og yfir 20 stiga hiti á daginn. Varla kom dropi úr lofti og þetta ásamt frábærri umgjörð þar sem Brennan var á sínum stað á föstudagskvöldinu, flugeldasýningin á laugardagskvöldinu og Brekkusöngurinn og blysin á sunnudagskvöldinu gera hátíðina að ógleymanlegri upplifun fyrir alla sem mættu í Herjólfsdal. Þá má ekki gleyma barndagskrá sem að flestu var hefðbundin en söngkeppni og kassabílarall skipa orðið stærri sess en áður.

Öll gæsla var til fyrirmyndar og þó aldrei verði hægt að koma í veg fyrir einhverja pústra er ekki annað hægt að segja en að þjóðhátíð Vestmannaeyja 2016 hafi farið vel fram. Það ber m.a. að þakka fjölda sjálfboðaliða sem alltaf eru til þjónustu reiðubúnir þegar ÍBV kallar. Síðast en ekki síst má þakka það frábærum gestum sem mikið er ungt fólk á aldrinum 20 til 25 ára sem mörg hver eru að koma á sína fjórðu og fimmtu hátíð og þeir sem eru að koma í fyrsta skipti ætla ekki að láta sig vanta á næsta ári. Svo má ekki gleyma fjölskyldunum bæði aðkomu og okkur hér í Eyjum sem aldrei láta sig vanta.  

Þeir eru margir sem koma að verki í undirbúningi og framkvæmd þjóðhátíðar þar sem Dóra Björk Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri ÍBV-íþróttafélags og formaður þjóðhátíðarnefndar og Hörður Orri Grettisson halda um flesta þræði.

Sennilega var þetta þriðja fjölmennasta þjóðhátíðin frá upphafi, lætur nærri að gestafjöldi hafi verið um 13.500. Þá voru hvítu tjöldin 293 sem er mesti fjöldi frá árinu 1986. Þjóðhátíðarlagið 2016 heitir Ástin á sér stað, eftir Halldór Gunnar Fjallabróðir og Friðrik Dór.

Kærkominn sigur

Hann var orðinn langþráður sigurinn sem ÍBV vann í Pepsí-deildinni þegar liðið heimsótti Víking í Ólafsvík. Gunnar Heiðar Þorvaldsson sem var í fyrsta sinn í byrjunarliðinu í sumar skoraði eina mark leiksins á fyrstu mínútum hans. Bjarni Jóhannsson þjálfari var mjög sáttur með sína menn og þá aðallega fyrri hálfleikinn. „Þetta var flott byrjun og flottur fyrri hálfleikur. Það hjálpar alltaf að skora snemma í leik, það var vel gert hjá Gunnari og fylgdum við því mjög vel eftir. Við fengum fullt af færum í fyrri hálfleik og áttum að klára leikinn þá, miðað við þann urmul af færum sem við höfðum.“

ÍBV liðið er nú í þriðja neðsta sæti með 17 stig.

Bikarúrslitaveisla á Laugardalsvelli

Karlalið ÍBV í knattspyrnu fetaði í spor kvennaliðsins þegar þeir lögðu FH að velli með einu marki gegn engu þar sem danski sóknarmaðurinn Simon Smidt skoraði. Það er því ljóst að bæði karla og kvennalið ÍBV leika til úrslita í bikarkeppninni.

Leið stelpnanna í bikarúrslitin

Liðið sigraði KR á útivelli 1:3 með mörkum frá Sigríði Láru Garðarsdóttur, sem skoraði tvö og einu frá Díönu Dögg Magnúsdóttur. Liðið lenti undir í leiknum en sneri taflinu við.

Liðið sigraði Selfoss með fimm marka mun á heimavelli, 5:0, það var í raun aldrei spurning hvort liðið myndi fara áfram og þegar ÍBV skoraði á 24. mínútu var bara spurning um hversu stór sigurinn yrði. Rebekah Bass skoraði fyrsta markið, Cloe Lacasse næstu þrjú og Sigríður Lára það fimmta.

Liðið fór norður á Akureyri í undanúrslitunum og spilaði við Þór/KA. Stuttu áður hafði liðið tapað 2:0 fyrir norðan en hvílt lykilmenn einhvern hluta leiksins. Staðan að loknum venjulegum leiktíma var 0:0 en í framlengingunni var ÍBV sterkari aðilinn og Rebekah Bass skoraði á 112. mínútu. Bikarsagan: ÍBV hefur einu sinni orðið bikarmeistari í kvennafótbolta (2004). Þá varð liðið einnig deildarbikarmeistari í eina skiptið sem það hafði gerst. Bryndís Jóhannesdóttir og Mhairi Gilmour skoruðu mörk ÍBV í úrslitaleiknum sem endaði 2:0 gegn Íslandsmeisturum Vals.

Leið strákanna í bikarúrslitin

Í 32 liða úrslitum sigraði ÍBV Huginn Seyðisfirði 2:0 hér heima. Vann svo Stjörnuna úti 0:2 og Breiðablik 2:3 á útivelli. Lokaslagurinn var svo gegn FH þar sem Eyjamenn unnu 1:0. Bikarsagan: Frá upphafi bikarkeppninnar á Ísland árið 1960 hefur ÍBV sigrað í fjögur skipti en alls hefur liðið keppt tíu sinnum til úrslita. Liðið mætti KR b í úrslitum árið 1968 og fór með sigur af hólmi, 2:1. Aftur voru Eyjamenn komnir í úrslit 1970 en lutu í lægra haldi fyrir Fram, 2:1. Árið 1972 sigraði ÍBV FH 2:0. Árið 1980 tapaði ÍBV aftur fyrir Fram með sama mun. Dæmið snerist við árið eftir þegar Eyjamenn unnu Fram með þremur mörkum gegn

tveimur.   Tveimur árum seinna, 1983 léku Eyjamenn gegn ÍA sem hafði betur með tveimur mörkum gegn einu. Þá tók við þrettán ára bið, til 1996 og aftur gegn Skagamönnum og úrslitin þau sömu og síðast.   Árið eftir léku Eyjamenn gegn Keflvíkingum og fór sá leikur alla leið í vítaspyrnukeppni þar sem Keflvíkingar höfðu betur 5:4.

Sinn síðasta bikarmeistaratitil fram að hinum tilvonandi vann ÍBV árið 1998 eftir 2:0 sigur á Leiftri.  Tveimur árum seinna töpuðu þeir enn og aftur í úrslitum gegn Skagamönnum, 2:1 líkt og fyrri tvö skiptin, og er það síðasta skiptið sem þeir komast alla leið í úrslit þar til nú, árið 2016.

ÁGÚST:

Þannig fór það

Það  var stór áfangi hjá ÍBV að eiga lið bæði í karla- og kvennaliði ÍBV í úrslitum Borgunarbikarsins sem fram fór á Laugardalsvelli dagana 12. og 13. ágúst. Því miður urðu Eyjamenn og konur að sætta sig við silfurverðlaunin en stuðningsmennirnir klikkuðu ekki og voru síst færri á pöllunum og létu vel til sín heyra. Enn og aftur vantaði mörk  hjá körlunum Karlalið ÍBV spilaði við Valsara eftir að hafa farið erfiðu leiðina í bikarúrslitin, liðið sló út Huginsmenn, Stjörnuna, Breiðablik og FH. Í úrslitaleiknum mætti liðið Val eins og áður segir og byrjaði leikurinn ekki gæfulega fyrir Eyjamenn.   Valsarinn Sigurður Egill Lárusson fékk fyrsta færið og skoraði fyrsta markið eftir tæpar tíu mínútur, hann var síðan aftur á ferðinni þegar hann tvöfaldaði forystuna eftir tuttugu mínútna leik. Í millitíðinni hafði Gunnar Heiðar Þorvaldsson fengið gott tækifæri til að jafna leikinn fyrir Eyjamenn.   Restin af leiknum var nokkuð tíðindalítill og ekki mikið sem gerðist í síðari hálfleik, ÍBV fékk fá eða engin færi til að minnka muninn og Valsarar í raun verðskuldaðir sigurvegarar.

Alfreð Elías Jóhannsson, aðstoðarþjálfari var að vonum svekktur eftir leikinn. Hann sagði það þó gríðarlega reynslu fyrir ÍBV að komast í þennan leik. Við erum þó hrikalega svekktir að tapa, maður tapar gulli en vinnur ekki silfur,“ sagði Alfreð.

Eyjastelpurnar Berglind og Fanndís reyndust ÍBV erfiðar

Stelpurnar tóku á móti Blikum í bikarúrslitunum en þær höfðu farið nokkuð erfiða leið þar sem þrjú Pepsi-deildar lið urðu á vegi þeirra. KR, Selfoss og Þór/KA voru slegin úr leik en leikurinn við Þór/KA fór alla leið í framlengingu þar sem Eyjakonur reyndust sterkari aðilinn.   Í úrslitaleiknum byrjaði leikurinn alveg skelfilega. Olivia Chance, nýr leikmaður Blika, skoraði mark eftir rúma mínútu þar sem hún átti skot fyrir utan sem rataði í netið.   Berglind Björg Þorvaldsdóttir, uppalin Eyjakona, skoraði annað mark Blika eftir rúmlega tuttugu mínútna leik þar sem hún skallaði í netið eftir hornspyrnu. Svona var staðan í hálfleik og Blikar líklegri til að bæta við marki heldur en ÍBV að minnka muninn.

Lið ÍBV kom þó virkilega ferskt út í seinni hálfleikinn þar sem Natasha Anasi minnkaði muninn eftir tæpar fimm mínútur í seinni hálfleik. Þá leit allt eins út fyrir að ÍBV gæti jafnað leikinn. Tíu mínútum seinna komust Blikastelpur í 3:1 þegar önnur Vestmannaeyjamær skoraði en Fanndís Friðriksdóttir átti þá hnitmiðað skot út við stöng.

Leikurinn fjaraði fljótt út og voru mínúturnar ekki lengi að líða þar sem ÍBV vantaði mörk, allt kom fyrir ekki og tap í bikarúrslitunum því staðreynd.

Sigríður Lára Garðarsdóttir, leikmaður ÍBV  sagði í viðtali við Eyjafréttir eftir leikinn: „Þetta var ótrúlega mikil upplifun að fá að spila á Laugardalsvellinum fyrir framan frábæra stuðningsmenn okkar, umgjörðin var einnig til fyrirmyndar. Þótt úrslitin væru ekki okkur í hag, þá var þetta leikur sem ég mun seint gleyma og allt fer þetta í reynslubankann.“

Arionbankamótið

Það er af sem áður var þegar nánast einu knattspyrnumót hjá yngri flokkunum voru Shellmótið og Pæjumótið. Nú eru slík mót haldin vítt og breitt um landið. Eitt slíkt var Arionbankamótið sem haldið var á Víkingsvæðinu í Reykjavík. Þangað hélt 7. flokkur ÍBV, um 40 strákar sem mynduðu 8 lið og um 20 stelpur sem mynduðu þrjú lið.

Mótið sjálft er stórt og mikið og er alltaf jafn gaman fyrir krakkana að fá að taka þátt á þessu móti.  Hvert lið spilaði fimm leiki og sáust stórglæsilegir taktar inni á vellinum ásamt því að innlifunin í því að fagna mörkunum var mögnuð.  Ekki voru krýndir sérstakir sigurvegarar en hinsvegar var keppnisskap krakkana mikið og þau léku alla leiki til sigurs.

Mótlæti og aftur mótlæti

Er eitthvað  að spurðu stuðningsmenn eftir tapleik gegn Fylki. ÍBV átti sína spretti í leiknum, Fylkir fyrri til að skora, snemma í fyrri hálfleik. Elvar Ingi Vignisson jafnaði eftir um klukkutíma leik. Sigurmark Fylkis kom svo eins og reiðarslag, vörn ÍBV gleymdi sér og því fór sem fór. 2-1. - Þessi leikur var afar mikilvægur í botnbaráttunni og setti ÍBV í þrönga stöðu. Fallbaráttan  í algleymingi. Tveimur dögum eftir Fylkisleikinn sagði Bjarni Jóhannsson upp störfum sem þjálfari. Ekki hefur fengist skýring á ástæðum uppsagnarinnar og er hún því látinn liggja milli mála, en ljóst að einhverja ástæðu hafði Bjarni.

Alfreð Elías Jóhannsson aðstoðarþjálfari Bjarna og Ian Jeffs tóku við stjórn liðsins, allavega um sinn og stýrðu næsta leik liðsins sem var gegn Víkingum í Reykjavík. Sá leikur tapaðist einnig 0-1, þrátt fyrir að ÍBV hafði verið betri aðilinn.

Þá var röðin komin að neðsta liðinu í Pepsí-deildinni, Þrótturum að heimsækja Hásteinsvöllinn. Sá leikur var hálfleikjaskiptur. Í fyrri hálfleik óðu Eyjamenn í marktækifærum en   uppskáru aðeins eitt mark. Í seinni hálfleik snérist leikurinn við og Þróttarar tóku völdin á vellinum og settu á ÍBV aulamark og náðu með því jafntefli, 1-1.

Hnátu- og Pollamótið

Íslandsmótið í 6. flokki stúlkna og drengja kláraðist um miðjan ágúst en ÍBV var með sex lið í úrslitakeppninni. Fjögur lið voru kvennamegin, A-lið, B-lið, C-lið og D-lið en hjá strákunum voru tvö A-lið sem tryggðu sér þátttökurétt í úrslitunum.  Ekkert lið var með fleiri lið í úrslitakeppni þessara tveggja móta en ÍBV, sem verður að teljast frábær árangur frá ekki stærra bæjarfélagi en Vestmannaeyjar eru. Hjá strákunum vann annað liðið brons og hitt liðið endaði í sjötta sæti. Hjá stelpunum urðu A-lið, B-lið og C-lið í þriðja sæti yfir allt og D-liðið í 2. sæti yfir allt.

Frábær leikur hjá kvennaliðinu

Stelpurnar í meistaraflokki kvenna gerðu sér lítið fyrir og sigruðu Val með tveimur mörkum gegn engu á útivelli og skutust með því í fjórða sæti deildarinnar. ÍBV byrjaði leikinn frábærlega og fékk mikið af færum. Eitthvað hafði leikurinn róast þegar Rebekah Bass skoraði fyrsta mark leiksins með laglegu skoti utan teigs, rétt fyrir lok fyrri hálfleiks. 

Í seinni hálfleik var mikil barátta en Valskonur þurftu að sækja mark, ÍBV varð fyrir miklu áfalli á 80. mínútu leiksins. Þá fékk Sigríður Lára Garðarsdóttir sitt annað gula spjald og þar með rautt.   Þær létu það ekki á sig fá og stuttu seinna skoraði Cloe Lacasse annað mark ÍBV og kom liðinu í 2:0. Eftir látlausa sókn Valskvenna skoruðu þær mark. Þar var Dóra María Lárusdóttir á réttum stað í víta teignum og kláraði færi eftir sendingu frá Hlín Eiríksdóttur.   ÍBV hélt þó út og sigldu þær heim með stigin þrjú, Bryndís Lára Hrafnkelsdóttir átti alveg hreint stórbrotna markvörslu í uppbótartíma þegar hún varði skalla frá Kristínu Ýr Bjarnadóttur.

(Eyjafréttir greindu frá)

SEPTEMBER:

Tap gegn KR

Karlalið ÍBV í knattspyrnu mætti KRingum í Frostaskjólinu 10. september. Staða liðsins er ekki góð, er í 10. sæti með 18 stig og stutt í fallbaráttuna. Markmaðurinn Derby Carillon var meiddur og tók Halldór Páll Geirsson að sér að verja markið, sem hann gerði með sóma. Ekkert var skorað í fyrri hálfleik, en í seinni hálfleik dró til tíðinda, þá skoruðu KRingar tvö mörk og þar við sat. Stigin 3 sátu því eftir í „vesturbænum“.

Sigur gegn KR

Þessa sömu helgi léku Eyjastúlkurnar einnig við KR-inga og fór leikurinn fram á Hásteinsvelli. Nú snérist dæmið við, ÍBV stelpurnar sigruðu verðskuldað með þremur mörkum gegn engu. Það sem mest gladdi augað í leiknum var þriðja mark ÍBV sem Sigríður Lára skoraði nærri því frá miðju, fleygbolta í vinstra hornið, og það með vinstri. 

Fjárfest í nýjum bílum

Í sumar hefur félagið fjárfest í tveimur nýjum Ford Transit bílum. Þessir bílar eru annars vegar 17 manna og hins vegar 16. Gömlu bílar félagsins voru frá árinu 2006 og hafa þeir þjónað félaginu vel undanfarin 10 ár en þeir bílar voru gefnir til félagsins af Vinnslustöðinni og Ísfélaginu.

Áfram fallbarátta

ÍBV berst fyrir sæti sínu í Pepsídeild karla og leikmenn sýndu að þeir eru tilbúnir að berjast fyrir því. En því miður höfðu þeir ekki erindi sem erfiði í slagnum á móti Stjörnunni. Leiknum lauk með 1:2 sigri Stjörnunnar og það sem skildi að er að gestirnir nýttu færin sín en Eyjamenn ekki. Þrátt fyrir að hafa skapað sér ótal góð færi en inn vildi boltinn ekki.

Jafntefli

Breiðablik og ÍBV gerðu 1:1 jafn­tefli þegar liðin mætt­ust í 20. um­ferð Pepsi-deild­ar karla í knatt­spyrnu á Kópa­vogs­vell­in­um. 

Haf­steinn Briem kom ÍBV yfir á 38. mín­útu leiks­ins þegar hann skoraði með góðum skalla eft­ir horn­spyrnu Jóns Inga­son­ar. 

Hösk­uld­ur Gunn­laugs­son jafnaði síðan met­in fyr­ir Breiðablik þegar hann skoraði með skoti af stuttu færi á 47. mín­útu leiks­ins, en Hösk­uld­ur kom inná sem varamaður í hálfleik.

Þegar liðið ætlaði á fastalandið með Herjólfi til Landeyjahafnar, var orðið ófært. En drengirnir láta ekki sér ekki allt fyrir brjósti brenna. Þeir  fengu Lóðsinn til að skreppa með sig í Landeyjahöfn og mættu því til leiks á réttum tíma.

Eyjastelpur á skotskónum

ÍBV vann ör­ugg­an sig­ur á FH þegar liðin mætt­ust í næst­síðustu um­ferð Pepsi-deild­ar kvenna í knatt­spyrnu í Hafnar­f­irði. Loka­töl­ur urðu 5:0 og komst ÍBV upp í fjórða sætið, að minnsta kosti um tíma. Mbl.is greindi frá.

Staðan var 2:0 í hálfleik en eft­ir hlé bættu Eyja­kon­ur við þrem­ur mörk­um. Cloe Lacasse og Abigail Cottam skoruðu báðar tvö mörk fyr­ir ÍBV og Veronica Na­poli skoraði eitt. 

ÍBV er nú með 30 stig í fjórða sæt­inu. ´

Gleðidagur í Eyjum

Síðasta heimaleikur karlaliðs ÍBV í Pepsídeildinni var gegn Val. Það var greinilegt frá fyrstu mínútu, að Eyjastrákar lögðu allt í leikinn, voru meira en tilbúnir. Voru fullir sjálfstrausts og Eyjahjartað sló réttan takt. Eftir að Hafsteinn Briem opnaði markareikning ÍBV héldu þeim engin bönd og áður en yfir lauk hafði Aron Bjarnason bætt við þremur mörkum og sannfærandi sigur, 4-0 á Val. Þar með var fallbaráttan að baki þótt einn leikur sé eftir í Pepsídeildinni.  Þungu fargi var af mörgum  létt. Áframhaldandi vera meðal þeirra bestu næsta sumar, var nánast  tryggð.

Jafntefli við FH í síðasta leik tímabilsins

Eftir barning alla seinni umferð Pepsídeildar karla í fótbolta náðu Eyjamenn að klára tímabilið með þokkalegri reisn sem dugði til að halda liðinu í efstu deild. Leikurinn gegn Val á heimavelli um síðustu helgi lagði grunninn að því með 4:0 sigri ÍBV. Þar með var ÍBV komið á nokkuð lygnan sjó með 22 stig og mun hagstæðara markahlutfall en Víkingur Ólafsvík og Fylki sem voru í sætunum fyrir neðan. 

Þessu var svo fylgt eftir með 1:1 jafntefli á Íslandsmeisturum FH á útivelli í síðasta leik tímabilsins.  Á meðan töpuðu Víkingur og Fylkir sínum leikjum og leika Árbæingar í fyrstu deild að ári. Það var hinn ungi og efnilegi Devon Már Griffin sem hélt uppi heiðri Eyjamanna í Kaplakrika með marki í upphafi seinni hálfleiks. Er það hans fyrsta mark í efstu deild. 

Það þurfti svo víti fyrir Íslandsmeistarana til að jafna og það urðu lokatölurnar. ÍBV endaði með 23 stig í níunda sæti, vann sex leiki, gerði fjögur jafntefli og tapaði 11. Markatalan er athyglisverð, því á meðan ÍBV skoraði 22 mörk fékk liðið á sig 26 sem er með því lægsta í deildinni.

OKTÓBER:

Lokahóf knattspyrnufólksins

Laugardaginn 1. október var blásið til veislu í Höllinni þar sem knattspyrnusumarið var gert upp. Íris Róbertsdóttir formaður félagsins fór yfir knattspyrnusumarið og í framhaldi af því báru Einar Björn og félagar fram 5 rétta hlaðborð að hætti hússins. Sighvatur Jónsson hjá Sigvamedia var búinn að útbúa skemmtilegt myndband þar sem farið var yfir sumarið hjá meistaraflokkunum okkar.

Á hófinu fengu eftirfarandi leikmenn félagsins viðurkenningar:

2. fl. kv.

Mestu framfarir: Guðný Geirsdóttir

ÍBV-ari: Sirrí Sæland

Besti leikmaðurinn: Margrét Íris Einarsdóttir

2. fl. ka.

Markahæsti leikmaðurinn: Ásgeir Elíasson

Mestu framfarir: Víðir Gunnarsson

ÍBV-ari: Hallgrímur Þórðarson

Besti leikmaðurinn: Ásgeir Elíasson

Fréttabikar kvenna

Efnilegasti leikmaðurinn: Júlíana Sveinsdóttir

Fréttabikar karla

Efnilegasti leikmaðurinn: Devon Már Griffin

Mfl. kv.

Markahæsti leikmaðurinn: Cloé Lacasse

Mikilvægasti leikmaðurinn: Natasha Anasi

Besti leikmaðurinn: Cloé Lacasse

Mfl. ka.

Markahæsti leikmaðurinn: Simon Kollerup Smidt

Mikilvægasti leikmaðurinn: Andri Ólafsson

Besti leikmaðurinn: Aron Bjarnason

Lokahóf yngri flokkanna

Lokahóf yngri flokkanna var að venju haldið með stæl. 3.  flokkar félagsins héldu sér sitt lokahóf. Þar mættu prúðbúin ungmennin okkar og snæddu dýrindis máltíð ásamt eftirrétti og var vel til matar tekið. Þá voru skemmtiatriði og verðlaunaafhending ásamt pistlum þjálfara um starf flokkanna. 

Verðlaunahafar sumarsins voru: 

5.flokkur drengja yngri                                        5.flokkur stúlkna yngri

Framfarir Ísak Huginn Héðinsson                          Framfarir  katla Arnarsdóttir

ÍBV-ari  Jón Ingi Elísasson                                    ÍBV-ari Berta Sigursteinsdóttir

Ástundun   Nökkvi Guðmundsson                         Ástundun  Inga Dan Ingadóttir

5.flokkur drengja eldri                                         5.flokkur stúlkna eldri

Framfarir  Haukur Helgason                                  Framfarir Rakel Oddný Guðmunds

ÍBV-ari   Símon Þór Sigurðsson                            ÍBV-ari  Telma Sól Óðinsdóttir

Ástundun  Dagur Einarsson                                    Ástundun  Sunna Einarsdóttir                             

4.flokkur drengja yngri                                       4. flokkur stúlkna yngri                         

Mestar framfarir  Breki Þór Óðinsson                   Mestu framfarir  Clara Sigurðardóttir

ÍBV-ari  Hannes Haraldsson                                 Ástundun Hólmfríður Arna

Ástundun Richard Óskar Hlynsson                       ÍBV-ari yngri  Ragna Sara Magnúsd

ÍBV-ari  eldri  Harpa Valey Gylfadóttir

4.flokkur drengja eldri                                          

Mestar framfarir  Sigurlás Máni Hafsteins                                                       

ÍBV-ari  Björgvin Geir Björgvinsson                                                                

Ástundun  Richard Óskar Hlynsson 

3.flokkur karla                                                        3.flokkur kvenna

Efnilegastur:   Eyþór Daði Kjartanssson                     Efnilegust:  Ekki veitt

Mestar framfarir:  Gísli Snær Guðmundsson              Mestar framfarir: Inga B Sigursteinsd

ÍBV-ari:  Guðlaugur Gísli Guðmundsson                   ÍBV-ari:  Elsa Rún Ólafsdóttir

Bestur:  Daníel Már Sigmarsson                                 Best:  Elísa Björk Björnsdóttir

Byrjað á Íslandsmeisturunum í handboltanum

Bæði kvenna- og karlalið ÍBV í handbolta fóru með sigur af hólmi í fyrstu leikjum sínum á tímabilinu. Stelpurnar tóku á móti Gróttu þar sem lokatölur voru 34-25 og var Ester Óskarsdóttir markahæst með 12 mörk. Strákarnir fengu síðan Hauka í heimsókn þar sem lokatölur voru 34-28 og var Theodór Sigurbjörnsson markahæstur með níu mörk. 

Ósáttur við  jafnteflið

Arn­ar Pét­urs­son, þjálf­ari karlaliðs ÍBV í hand­knatt­leik, var allt annað en sátt­ur með 26:26 jafn­teflið gegn Fram í 2. um­ferð Olís-deild­ar­inn­ar en leikið var í Safa­mýri. Fram jafnaði á síðustu sek­únd­um leiks­ins.

Þetta var mjög dap­urt, al­veg frá fyrstu mín­útu. Síðari hálfleik­ur­inn var varla betri en sá fyrri, við mætt­um ein­fald­lega ekki til leiks og féll­um á elsta próf­inu í bók­inni, það að leyfa okk­ur að mæta hérna án þess að þurfa að hafa fyr­ir því,“ sagði Arn­ar við mbl.is. 

Varn­ar­leik­ur Eyja­mann var slapp­ur í dag.

„Það var af­skap­lega fátt til staðar í dag. Ef menn mæta ekki klár­ir, sama hvort menn ætla að spila vörn eða sókn, þá lenda þeir á vegg. Við lent­um á vegg í fyrri hálfleik og við sáum það á varn­ar­leik og sókn­ar­leik, líka færa­nýt­ing­una. Það kem­ur ung­ur strák­ur í markið sem er að verja vel. Við náðum okk­ur aldrei úr þessu og urðum yf­ir­spennt­ir. Við feng­um þrjú mörk í for­ystu en Fram­ar­arn­ir mættu okk­ur aft­ur og fóru að snerta okk­ur. Við þold­um það illa í dag, sem sýn­ir svo­lítið hvernig menn voru móti­veraðir í þessu,“ sagði hann enn­frem­ur. 

„Þetta er eitt­hvað sem við verðum að læra af. Við verðum að vera meðvitaðir um það að við þurf­um að mæta til leiks og þá erum við hel­víti góðir en ef ekki þá verðum við al­veg jafn lé­leg­ir,“ sagði hann að lok­um.

Ótímabært leikhlé varð Akureyringum að falli

Eyja­menn unnu Ak­ur­eyri með eins marks mun í 3. umferð Olísdeildarinnar, lokta­töl­ur 25:24 í Eyj­um. Leik­ur­inn var sá fyrsti í 3. um­ferð Olís-deild­ar karla en heima­menn komust á topp­inn með sigr­in­um.  

Ak­ur­eyri virðist hafa komið ÍBV á óvart í upp­hafi leiks þar sem þeir tóku öll völd frá fyrstu mín­útu. Þeir leiddu meðal ann­ars 4:7 og 6:8. Eft­ir það gáfu Eyja­menn í. ÍBV skoraði fimm mörk í röð og komust þar með 11:8 yfir. Á þeim kafla voru heima­menn meðal ann­ars ein­um manni færri. Þeir sýndu þá úr hverju þeir eru gerðir. 

Eyja­menn leiddu með tveim­ur mörk­um í hálfleik 14:12 en Ak­ur­eyr­ing­ar voru ekki á því að gef­ast upp. Þeir misstu Eyja­menn aldrei langt frá sér í seinni hálfleik og því varð leik­ur­inn spenn­andi allt til loka. 

Und­ir lok­in tókst gest­un­um að jafna met­in þegar tæp­ar þrjár mín­út­ur voru eft­ir. Þá virt­ust Eyja­menn vera að brotna niður og spiluðu þeir manni færri und­ir lok­in. Tom­as Ola­son kom aft­ur í mark gest­anna og hjálpaði til. 

Agn­ar Smári Jóns­son kom ÍBV í 25:24 en Ak­ur­eyr­ing­ar tóku miðju og gátu jafnað met­in þegar 7 sek­únd­ur voru eft­ir. Þeir skoruðu mark eft­ir að hafa tekið miðjuna en Sver­re Jak­obs­son hafði því miður fyr­ir þá tekið leik­hlé. Al­gjör­lega grát­legt fyr­ir gest­ina sem hefðu svo sann­ar­lega átt að fá stig í dag. 

Theo­dór Sig­ur­björns­son var marka­hæst­ur Eyja­manna með 7 mörk og hjá gest­un­um var Andri Snær Stef­áns­son með 9 mörk og Karol­is Strop­us með 8 mörk. 

Markverðir liðanna áttu fín­an leik en Stephen Niel­sen varði 12 skot í marki ÍBV og Tom­as Ola­son 11 hjá gest­un­um.

Hafnfirðingar betri

FH bar sigur­orð af ÍBV 36:30 þegar liðin mætt­ust í fjórðu um­ferð Olís­deild­ar karla í hand­knatt­leik í Kaplakrika. Bæði lið hafa fimm stig eft­ir fyrstu fjór­ar um­ferðir deild­ar­inn­ar.  

Eyja­menn hófu leik­inn af mikl­um krafti og Sig­ur­berg­ur Sveins­son lék við hvern sinn fing­ur í upp­hafi leiks­ins. FH-ing­ar náðu hins veg­ar að þétta vörn­ina og bakvið vörn­ina var Ágúst Elí Björg­vins­son í miklu stuði. Sókn­ar­leik­ur FH batnaði auk þess þegar á leið á fyrri hálfleik­inn og staðan var 15:15 í hálfleik. 

Tveim­ur leik­mönn­um var vísað af velli með rauðu spjaldi í fyrri hálfleik. Ágústi Birg­is­son, leik­manni FH, var vísað af velli með beinu rauðu spjaldi fyr­ir harka­legt brot á Agn­ari Smára Jóns­syni, leik­manni ÍBV. Þá var Sindra Har­alds­syni, leik­manni ÍBV, vikið þris­var sinn­um af velli í tvær mín­út­ur og var þar af leiðandi vísað af velli með rauðu spjaldi. 

FH hóf seinni hálfleik­in bet­ur og náði mest fjög­urra marka for­skoti. Munaði þar miklu um fram­lag Jó­hanns Birn­is Ingvars­son­ar í sókn­ar­leik FH, en Jó­hann Birg­ir skoraði mörk í öll­um regn­bog­ans lit­um. ÍBV neitaði hins veg­ar að gef­ast og minnkaði mun­inn í tvö mörk um miðbik seinni hálfleiks. 

Jó­hann Birg­ir Ingvars­son var marka­hæst­ur í liði FH með 10 mörk, en Sig­ur­berg­ur Sveins­son var hins veg­ar marka­hæst­ur í liði gest­anna sömu­leiðis með 10 mörk. Ágúst Elí Björg­vins­son varði 17 skot í marki FH, en Kol­beinn Aron Arn­ar­son og Andri Ísak Sig­fús­son vörðu sam­tals níu skot í marki ÍBV.

Karólína markahæst

Kvennalið ÍBV sigraði Fylki með fimmtán marka mun 33:18 í Vest­manna­eyj­um. Leik­ur­inn var í 3. um­ferð Olís-deild­ar kvenna en ÍBV er nú með fjög­ur stig við topp deild­ar­inn­ar. Mbl.is greinir frá. 

Leik­ur­inn byrjaði vel fyr­ir bæði lið en síðan fór að halla und­an færi hjá Fylki. Eft­ir að staðan var 3:3 breytt­ist það í 16:6 en þannig var staðan í hálfleik. 

Í seinni hálfleik veittu gest­irn­ir ÍBV móts­spyrnu en það var ekki nóg þar sem gæðin voru meiri í ÍBV. Loka­töl­ur 33:18 og hefði sig­ur­inn al­veg getað verið stærri. 

Karólína Lárus­dótt­ir skoraði sjö mörk í liði ÍBV en Guðný Jenný Ásmunds­dótt­ir varði 15 skot í mark­inu. Mel­korka Mist Gunn­ars­dótt­ir varði 11 skot í marki Fylk­is.

Handboltaþjálfarar félagsins í yngri flokkunum

Í byrjun október voru þjálfarar félagsins í handbolta kynntir til sögunnar. Þeir eru eftirtaldir:

Elísa Sigurðardóttir 7. fl. Kvk

Björn Elísasson 4. flokkur kvk

Kári Kristján Kristjánsson 3. flokkur kk

Brynjar Karl Óskarsson 4. flokkur kk

Elliði Snær Viðarsson 7. flokkur kvk og 6. flokkur kk (aðstoð)

Bergvin Haraldsson 6. flokkur kk og kvk - 5. flokkur kk – íþróttaskólinn

Dagur Arnarsson 6. flokkur kk og kvk (aðstoð)

Guðný Jenný Ásmundsdóttir íþróttaskólinn - 5. flokkur kvk

Hilmar Ágúst Björnsson 4. flokkur kvk - 5. flokkur kvk

Hrafnhildur Skúladóttir unglingaflokkur kvk/4. flokkur kvk

Sandra Erlingsdóttir 6. flokkur kvk og kk (aðstoð)

Grétar Þór Eyþórsson 7. flokkur kk

Ásgeir Jónsson 3. flokkur kk

Magnús Stefánsson 4. flokk kk

Rótert Aron Hostet 5. flokkur kk (aðstoð)

Sigurbergur Sveinsson 5. flokkur kk (aðstoð) 

Fyrstir til að sigra Stjörnuna

Eyja­menn sigruðu Stjörnu­menn með sjö marka mun í Vest­manna­eyj­um í 5. um­ferð Olís-deild­ar karla í hand­knatt­leik. ÍBV lagði grunn að sigr­in­um í fyrri hálfleik þar sem liðið yf­ir­spilaði Stjörnu­menn sem áttu eng­in svör, hvorki í vörn né sókn. Eyja­menn voru yfir með 17 mörk­um gegn 10 að lokn­um fyrri hálfleik. Róður­inn var því þung­ur fyr­ir gest­ina í seinni hálfleik. Theo­dór Sig­ur­björns­son og Kári Kristján Kristjáns­son skoruðu fimm mörk­in hvor í fyrri hálfleik.Gest­irn­ir byrjuðu seinni hálfleik­inn af krafti og litu út fyr­ir að geta komið til baka. Sú end­ur­koma var ekki lang­líf þar sem þeir duttu aft­ur í sama áhug­leysið og í fyrri hálfleik. Loka­töl­ur eins og áður seg­ir, 30:23.

Theo­dór Sig­ur­björns­son og Agn­ar Smári Jóns­son skoruðu mest fyr­ir ÍBV, Theo­dór skoraði átta og Agn­ar Smári einu færra. Starri Friðriks­son var at­kvæðamest­ur Stjörnu­manna með sex mörk. ÍBV er þar komið aft­ur á sig­ur­braut eft­ir slak­an leik gegn FH í síðasta leik. 

Geta unnið hvaða lið  sem er

Handboltalið kvenna ÍBV hafði betur gegn Selfossi í Vestmannaeyjum. Lokatölur voru

32:29 en staðan í hálfleik var 15:13.  ÍBV nældi sér í sinn þriðja sigur í deildinni. Selfoss er enn án stiga á botninum. Selfyssingar voru með 5:1 forystu í upphafi leiks áður en allt fór til fjandans hjá þeim. ÍBV skoraði næstu sex mörk og náði nokkrum öðrum svipuðum köflum í leiknum. Leikur gestanna var kaflaskiptur og voru slæmu kaflarnir virkilega slæmir. Klárt áhyggjuefni fyrir Selfoss þar sem liðið átti erfitt með að setja saman góðan tíu mínútna kafla. Heimakonur gerðu þó vel í að refsa Selfyssingum og hefði sigurinn vel getað verið stærri. ÍBV hélt fjögurra til fimm marka forystu allan leikinn og var sigurinn í raun aldrei í hættu. Tímabilið fer því virkilega vel af stað hjá ÍBV og líta Eyjakonur út fyrir að geta unnið hvaða lið sem er. 

Frumraun ungmennaliðsins

Í vetur teflir handknattleiksráð ÍBV fram tveimur liðum í karlaflokki; meistaraflokknum sem spilar í Olísdeildinni og Ungmennaliði, U-Á föstudaginn fékk svo U liðið Míluna í heimsókn og gerðu sér lítið fyrir og unnu 37-33, glæsilegur sigur hjá þessum efnilegu strákum.

Komnir í toppsætið

ÍBV komst í efsta sæti Olís-deild­ar karla í hand­knatt­leik með átta marka sigri á Gróttu, 26:18, í Hertz-höll­inni á Seltjarn­ar­nesi í kvöld. Grótta var marki yfir í hálfleiki, 12:11, en leik­ur liðsins hrundi í síðari hálfleik. ÍBV hef­ur þar með níu stig eft­ir sex leiki.

Leik­ur­inn var op­inn og skemmti­leg­ur fram­an af auk þess sem hraðinn var mik­ill. Leik­mönn­um sást ekki alltaf fyr­ir og mörg góð færi fóru í súg­inn. Gróttu­menn náðu þriggja marka for­skot, 7:4, eft­ir tæp­lega stund­ar­fjórðung eft­ir að Gróttu­menn sund­ur­léku vörn þeirra hvað eft­ir annað. Að sama skapi rötuðu skot Eyja­menn ekki í netið. ÍBV jafnaði met­in, 7:7, eft­ir tæp­ar 17 mín­út­ur. Aft­ur náð Grótta for­skot, nú tveim­ur mörku, 9:7. Það sem eft­ir lifði fyrri hálfleiks voru Gróttu­menn með frum­kvæðið og voru mark yfir í hálfleik, 12:11.

Eyja­menn byrjuðu síðari hálfleik af mikl­um krafti og komust yfir. Það ent­ist ekki lengi því sókn­ar­leik­ur­inn var mis­tæk­ur og skytt­un­um Agn­ari Smára Jóns­syni og Sig­ur­bergi Sveins­syni voru mislagðar hend­ur, sér­stak­lega þeim fyrr­nefnda. Gróttu­mönn­um hélst ekki á tveggja marka for­skoti vegna flumbru­gangs í sókn­ar­leikn­um. Eyja­menn gengu á lagið og skoruðu þrjú mörk í röð og komust marki yfir, 19:16, þegar 13 mín­út­ur voru til leiks­loka. Þá hafði Agn­ar Smári verið tek­inn af leik­velli og Theo­dór fært sig úr horn­inu yfir í skyttu­stöðuna. Þar með gekk bolt­inn bet­ur og færi opnuðust til skota hjá Sig­ur­bergi og Theo­dóri auk þess sem það losnaði um Kára Kristján Kristjáns­son á lín­unni.

ÍBV náði fimm marka for­skoti, 21:16, þegar tíu mín­út­ur rúm­ar voru til leiks­loka. Flest gekk Gróttu­mönn­um í mót, jafnt í vörn sem sókn. Stemn­ing­in sem var í liðinu fram­an af dofnaði þegar á móti blés. Kol­beinn Arn­ar­son kom líka sterk­ur inn í markið eft­ir að hafa verið klopp­ótt­ur fram­an af.

Mun­ur­inn jókst smátt og smátt endaði með átta marka sigri ÍBV, 26:18.

Theo­dór Sig­ur­björns­son bar sókn­ar­leik ÍBV uppi lengst af.

(mbl.is)

Nýtt knattspyrnuráð

Aðalstjórn ÍBV skipaði í októberbyrjun,  nýtt knattspyrnuráð fyrir meistaraflokk karla. Óskar Örn Ólafsson tilkynnti aðalstjórn í ágúst sl. að hann myndi ekki gefa kost á sér aftur til formennsku að loknu yfirstandandi keppnistímabili. Í kjölfarið skipaði aðalstjórn Pál Þ. Hjarðar til formennsku í ráðinu og lagði hann í dag fram tillögu um skipun ráðsins að öðru leyti. Þeir eru: 

Magnús Elíasson 

Magnús Steindórsson 

Haraldur Pálsson 

Haraldur Bergvinsson 

Kristján Georgsson 

Auk þess munu fleiri koma að starfinu til einstakra verka. 

Að gefnu tilefni vill aðalstjórn árétta að enginn hefur verið rekinn úr knattspyrnuráði. Aðalstjórn uppfyllti þá skyldu sína að skipa ráðinu nýjan formann í stað Óskars Arnar og nýr formaður gerði síðan tillögu um skipan ráðsins að öðru leyti - nú þegar starfstími fyrra ráðs rann út.

Nokkur eftirmáli varð af ráðningu Páls í embætti formanns knattspyrnuráðs. Margir úr gamla knattspyrnuráðinu töldu sig hafa verið rekna úr  því og urðu ósáttir. Slíkt ber aðalstjórn félagsins af sér.  Í íþróttahreyfingunni starfar fólk með sterkar skoðanir og mikið keppnisskap, - kannski má rekja  þetta mál til þess.

Nýr knattspyrnuþjálfari

Kristján Guðmundsson hefur verið ráðinn þjálfari meistaraflokks karla í knattspyrnu hjá ÍBV. Samningur Kristjáns er til þriggja ára. Kristján er reyndur þjálfari sem hefur bæði þjálfað meistaraflokka á Íslandi og í Færeyjum.

Hann stýrði HB Þórshöfn til meistaratitils í Færeyjum árið 2010 og Keflavík til bikarmeistaratitils árið 2006. Litlu munaði að Keflavík yrði Íslandsmeistari undir hans stjórn árið 2008.

Kristján hefur meðal annars sinnt þjálfun hjá Þór 2001-2002, Keflavík frá 2005-2009, Val 2011-2012 og Keflavík 2013-2015. Önnur lið sem hann hefur þjálfað eru ÍR og HB Þórshöfn en síðast var hann þjálfari Leiknis R.

Hann verður búsettur í Vestmannaeyjum.

Tap fyrir Stjörnunni

Stjarn­an bar sigur­orð af ÍBV í fimmtu um­ferð Olís-deild­ar kvenna, í TM-höll­inni, 40:30. Stjörnu­stelp­ur náðu strax yf­ir­hönd­inni í leikn­um og létu hana aldrei af hendi.

Staðan í hálfleik var 21:14, heima­stúlk­um í vil og munaði þar miklu um stór­leik Stef­an­íu Theo­dórs­dótt­ur, sem fór ham­förum í upp­hafi leiks.

Garðbæ­ing­ar héldu áfram að spila vel í síðari hálfleik, þar sem Rakel Dögg Braga­dótt­ir fór fyr­ir sínu liði, með mörg­um glæsi­leg­um mörk­um. Þá átti Haf­dís Lilja Torfa­dótt­ir einnig góðan leik í marki Stjörn­unn­ar og þegar uppi var staðið, munaði 10 mörk­um á liðunum. 

Hjá ÍBV var Ester Óskars­dótt­ir marka­hæst með níu mörk, Sandra Erl­ings­dótt­ir kom þar skammt und­an með átta mörk og Sandra Dís Sig­urðardótt­ir skoraði 5 mörk.

Fóru of seint í gang

Val­ur vann sinn fjórða leik í röð í Olís-deild karla í hand­knatt­leik  þegar liðið mætti ÍBV í Eyj­um í leik sem var frestað um nokkra daga, vegna vandamála með flug milli lands og Eyja, en Herjólfur gekk eins og venjulega.  Valsmenn hófu stórskotahríð strax í upphafi leiks og og höfðu forystu allan leikinn Framan af leik voru Eyjamenn á hálfri ferð og uppskáru samkvæmt því. En þegar líða tók á seinni hálfleikinn setti ÍBV í gírinn, barátta í vörninni og skæður sóknarleikur og náðu að minnka muninn niður í eitt mark. Það var einfaldlega orðið of seint og Valur fagnaði  30:27 sigri.  

Vals­menn réðu ferðinni í fyrri hálfleik og náðu þar mest sjö marka for­skoti, 11:4, þegar ÍBV skoraði aðeins eitt mark á um tólf mín­útna kafla. Þegar flautað var til hálfleiks voru Vals­menn með þægi­legt sex marka for­skot, 14:8. 

Eyja­menn sóttu hins veg­ar í sig veðrið þegar leið á seinni hálfleik­inn og minnkuðu mun­inn niður í eitt mark þegar sjö mín­út­ur voru eft­ir, í fyrsta sinn frá því í stöðunni 2:1. Loka­mín­út­urn­ar voru æsispenn­andi þar sem munaði jafn­an einu marki á liðunum. Vals­menn héldu hins veg­ar út og fögnuðu að lok­um þriggja marka sigri, 30:27.

Nýr framkvæmdastjóri knattspyrnunnar

Sunna Sigurjónsdóttir hefur verið ráðin framkvæmdastjóri knattspyrnudeildar karla hjá ÍBV íþróttafélagi. Sunna er lögfræðingur að mennt og bindum við miklar vonir við hennar störf. Hún mun hefja störf hjá félaginu mánudaginn 24. október.

Risaslagur

Risa slagur fór fram í Eyjum 20. október þegar ÍBV tók á móti Aftureldingu í Olís-deild karla.

Leikurinn var jafn allan fyrri hálfleikinn þar sem bæði lið spiluðu frábærlega og mikill hasar.

Afturelding virtist vera betri aðilinn í seinni hálfleik og sigraði 26 – 27 eftir spennandi loka sekúndur.

Davíð Hlíðdal Svansson markvörður Aftureldingar átti frábæran leik og var með 57% markvörslu.

Markahæstir ÍBV: Theodór Sigurbjörnsson 11, Kári Kristján Kristjánsson 4, Sigurbergur Sveinsson 4, Dagur Arnarsson 3.

Lok lok og læs

Hauk­ar sóttu tvö stig til Vest­manna­eyja í Olís-deild kvenna þegar liðið sigraði ÍBV með fimm marka mun 21:26. Karólína Bæhrenz Láru­dótt­ir var fjarri góðu gamni hjá ÍBV og mun­ar um minna í liðinu. Nú þegar eru marg­ir aðrir leik­menn í meiðslum og mátti sjá á þunnskipuðum hópnum. Eins og áður seg­ir lokaði Elín Jóna Þor­steins­dótt­ir marki gest­anna en hún varði 23 skot í leikn­um, sem er ótrú­legt. alla­vega helm­ing­ur þeirra var úr al­gjör­um dauðafær­um.Ester Óskars­dótt­ir og Sandra Erl­ings­dótt­ir drógu vagn­inn í marka­skor­un ÍBV og gerðu sjö mörk hvor.

Hrafnhildur til fyrirmyndar

Ansi áhugavert atvik átti sér stað í leik ÍBV og Hauka.  Hrafnhildur Skúladóttir, þjálfari ÍBV, sýndi þá af sér afar íþróttamannslega hegðun.Forsaga málsins er sú að leikmaður ÍBV varð fyrir hnjaski í leiknum og var spurð af dómara leiksins hvort hún þyrfti aðstoð sjúkraþjálfara. Hún svaraði því neitandi en þá var sjúkraþjálfari Haukaliðsins engu að síður lagður af stað inn á völlinn til að hlúa að leikmanni ÍBV en Hrafnhildur hafði beðið sjúkraþjálfara Hauka um að aðstoða sinn leikmann þar sem sjúkraþjálfari ÍBV var staddur inni í klefa að hlúa að öðrum leikmanni.Þar sem dómarar leiksins höfðu ekki gefið sjúkraþjálfara Hauka leyfi til þess að stíga inn á völlinn fékk Haukaliðið tveggja mínútna brottvísun og þurfti að spila manni færri. Það fannst Hrafnhildi ósanngjarnt þar sem hún hafði beðið sjúkraþjálfarann um að fara inn á völlinn. Brá hún þá á það ráð að kippa einum af sínum leikmönnum útaf líka næstu tvær mínúturnar svo áfram yrði jafnt í liðum.Tekið skal fram að ÍBV var undir á þessum tímapunkti og liðið endaði líka á að tapa leiknum. Hrafnhildur fær þó mikið hrós fyrir þessa gríðarlega íþróttamannslegu hegðun en ætla má að afar fáir þjálfarar hefðu gert það sama í þessari stöðu. 

Slegnir úr bikarkeppninni

Selfoss og ÍBV mættust í hörkuleik í 32. liða úrslitum bikarkeppninnar. Leikurinn var mjög jafn framan af og liðin skiptust á að skora. ÍBV leiddi í hálfleik, 16-13, og héldu Eyjamenn uppteknum hætti í síðari hálfeik. Mikil spenna einkenndi síðari hálfleikinn og þegar þrjár mínútur voru til leiksloka var staðan jöfn, 28-28. Hvorugu liðinu tókst að bæta við mörkum á þessum þriggja mínútna kafla og því þurfti að framlengja. Selfoss var einu marki yfir þegar framlengingin var að renna út en þá fengu Eyjamenn dæmt aukakast. Skot Sigurbergs Sveinssonar var varið og þar með voru úrslitin ljós, Selfoss fór áfram í 16-liða úrslitin eftir dramatískan sigur. Lokatölur 33-32.

Sorglegt mál

Sú breyting sem aðalstjórn ÍBV íþróttafélags ákvað að gera á knattspyrnuráði félagsins virðist ætla að draga dilk á eftir sér. Virðast samskipti aðila helst fara fram fyrir opnum tjöldum á facebook. Knattspyrnuvefurinn 433.is birti þessa frétt í lok október:

Aðalstjórn ÍBV og fyrrum knattspyrnuráð félagsins halda áfram að takast á og ekki sér fyrir endan á þeim deilum. Aðalstjórn ÍBV ákvað að láta knattspyrnuráðið fara eftir að Páll Hjarðar tók við sem formaður knattspyrnudeildar.

Aðalstjórnin sem var gert að fara er hinsvegar ósátt við hvernig staðið var að málum.

Ingi Sigurðsson sem sat í ráðinu segir að enginn úr aðalstjórn hafi beðið sig eða aðra úr ráðinu afsökunar á því hvernig staðið var að málum.

Knattspyrnuráðinu var tilkynnt um þessa ákvörðun í gegnum tölvupóst og hefur aðalstjórn beðist afsökunar á því.

Dóra Björk úr aðalstjórn félagsins svarar Inga í dag með yfirlýsingu og segir Inga fara með rangt mál.

Hér að neðan eru fullyrðingar Inga um málið og yfirlýsing aðalstjórnar ÍBV en umræðan fer fram í stuðningsmannahóp ÍBV á Facebook.

Fullyrðing Inga um málið:

Stuðningsmönnum til upplýsinga þá hefur enginn úr aðalstjórn beðið mig og mér vitandi aðra fyrrverandi ráðsmenn afsökunar á þeim vinnubrögðum sem aðalstjórn viðhafði í þessu máli. Jafnframt hefur engin skýring verið gefin til okkar fyrir þessari ákvörðun.

Því miður er það því sorgleg staðreynd að sjá í færslu Dóru Bjarkar framkvæmdastjóra ÍBV að þar er sannleikanum enn og aftur hagrætt. Þar segir Dóra að aðalstjórn telji það ekki henta hagsmunum félagsins að fjalla meira um málið.

Finnst félagsmönnum og stuðningsmönnum ÍBV til of mikils mælst að aðalstjórn gefi sér tíma til að funda með fyrrverandi knattspyrnuráði, skýra fyrir umræddum sjálfboðaliðum hvað bjó að baki ákvörðuninni, hvers vegna var staðið að henni á þann hátt sem raun ber vitni og sitja fyrir framan umrædda einstaklinga og biðjast afsökunar af einlægni og auðmýkt? Er það virkilega svo að félagið okkar er ekki manneskjulegra en þetta?

Trúið mér að í þessu máli er auðveldara um að tala en í að komast. Eftir sitja nokkrir einstaklingar sem eru særðir verulega og stjórnarmeðlimir aðalstjórnar sýna enga tilburði til að ljúka málinu.

Yfirlýsing frá Aðalstjórn ÍBV:

Aðalstjórn ÍBV telur ekki hjá því komist að bregðast við hreinum ósannindum í færslu Inga Sigurðssonar á þessari síðu, þar sem hann segist ekki kannast við neina afsökunarbeiðni af hálfu aðalstjórnar á því að hafa tilkynnt um nýjan formann knattspyrnuráðs í tölvupósti en ekki á fundi.

Hér eru staðreyndirnar í því máli:

1) Á sameiginlegum fundi aðalstjórnar og knattspyrnuráðs 5. október voru allir viðstaddir knattspyrnuráðsmenn beðnir afsökunar á að hafa fengið tilkynninguna með ofangreindum hætti.

2) Í símtölum við ALLA (nema einn sem var á sjó) fyrrverandi knattspyrnuráðsmenn 18. október áréttaði framkvæmdastjóri fyrir hönd aðalstjórnar fyrrgreinda afsökunarbeiðni og bauð hverjum og einum til fundar ef hann vildi nánari skýringar á framgangi málsins. Nokkrir þáðu boðið og mættu til fundar; aðrir afþökkuðu fundinn og sögðu málinu lokið af sinni hálfu – og einn bætti við að hann hefði þegar samþykkt afsökunarbeiðni og þyrfti ekki fleiri. Ingi Sigurðsson fékk með sólarhrings fyrirvara boð um að hitta aðalstjórnarmenn og framkvæmdastjóra kl. 18 sunnudaginn 23. október en mætti ekki til fundar. Það mættu fjórir af hálfu aðalstjórnar á þennan fund.    

3) Af ofangreindu má vera ljóst að allir fyrrverandi knattspyrnuráðsmenn hafa fengið afsökunarbeiðni a.m.k. tvisvar og sumir raunar oftar. Til þess að taka af öll tvímæli: Aðalstjórn biður fyrrverandi knattspyrnuráðsmenn afsökunar á því að hafa tilkynnt þeim um nýjan formann með tölvupósti í stað þess að boða þá til fundar.

Vantaði herslumuninn

ÍBV tapaði fyrir Fram, 20:17, í Fram­hús­inuí sjö­undu um­ferð. Fram var með yf­ir­burði í fyrri hálfleik og var fimm mörk­um yfir, 11:6, að hon­um lokn­um og hafði for­skot fram­an af síðari háll­feik. ÍBV-liðið lagði hins­veg­ar ekki árar í bát og gerði kröft­ugt áhlaup þegar á leið síðari há­fl­leik og minnkaði mun­inn í eitt mark í tvígang und­ir lok­in. Nær komust Eyja­kon­ur ekki og Fram-liðið fagnaði sigri á og áfram­hald­andi veru í efsta sæti deild­ar­inn­ar.

Fyrsti stund­ar­fjórðung­ur fyrri hálfleiks var jafn en leiðir skildu upp úr því. Fram-liðið varð manni fleira um skeið og komst þá tveim­ur mörk­um yfir, 7:5. ÍBV-liðinu tókst að ekki að brúa bilið, þvert á móti jók Fram við for­skot sitt og var fimm mörk­um yfir að lokn­um fyrri hálfleik, 11:6. Mun­ur­inn hefði hæg­lega getað verið meiri því Erla Rós Sig­mars­dótt­ir varði m.a. tvö víta­köst Fram­ara auk þess sem nokku opin færi í báðum horn­um fóru for­görðum hjá Safa­mýr­arliðinu. Sókn­ar­leik­ur ÍBV var slak­ur í fyrri hálfleik. Skot geiguðu auk þess sem liðið tapaði bolt­an­um margoft á ein­fald­ann hátt s.s. eft­ir að dæmt var skref og tvígríp. Það seg­ir meira en mörg orð að ÍBV skoraði aðeins eitt mark á síðustu 16 mín­út­um fyrri hálfleiks.

Fram­liggj­andi 5/​1 vörn ÍBV sló Fram­ara út af lag­inu auk þess sem Erla Rós Sig­mars­dótt­ir varði áfram vel í mark­inu. Eyjaliðinu tókst einnig að ljúka sókn­um sín­um bet­ur en áður og loka þar með fyr­ir hraðaupp­hlaup. Upp úr miðjum hálfleik var staðan, 15:11, Fram í vil og ell­efu mín­út­um fyr­ir leiks­lok var mun­ur­inn kom­inn niður í þrjú mörk,16:13, og tals­verð spenna hlaup­inn í leik­inn. For­skot Fram fór niður í eitt mark, 16:15, og 17:16, þegar sex mín­út­ur voru til leiks­loka. ÍBV-liðinu vantaði herslumun­inn upp á að jafna met­in. Það tókst aldrei. Fram náði þriggja marka for­skoti, 19:16, og hélt sjó til leiks­loka.

Fyrrverandi leikmenn ÍBV skoruðu 21 mark fyrir Selfoss

Sel­fyss­ing­ar unnu hreint út ótrú­leg­an sig­ur á ÍBV í Olís-deild karla í hand­bolta í kvöld. Loka­töl­ur í Valla­skóla urðu 38:32.

Eyja­menn höfðu frum­kvæðið fram­an af leikn­um og leiddu 7:9 þegar þrett­án mín­út­ur voru liðnar. Þá kom gott áhlaup hjá heima­mönn­um sem skoruðu níu mörk gegn þrem­ur á tíu mín­útna kafla og breyttu stöðunni í 16:12. For­skot Sel­foss var fimm mörk í hálfleik, 20:15.

Sel­fyss­ing­ar slökuðu ekk­ert á klónni í upp­hafi seinni hálfleiks og náðu níu marka for­skoti þegar rúm­ar tíu mín­út­ur voru liðnar. Þá tók Theo­dór Sig­ur­björns­son til sinna ráða og raðaði inn mörk­un­um fyr­ir Eyja­menn. Ótrú­leg sveifla til baka og ÍBV jafnaði, 32:32, þegar rúm­ar fimm mín­út­ur voru eft­ir. Þá var kraft­ur Eyja­manna á þrot­um. Helgi Hlyns­son skellti í lás í Sel­foss­mark­inu og heima­menn skoruðu síðustu sex mörk leiks­ins. 

Guðni Ingvars­son skoraði 13 mörk fyr­ir Sel­fyss­inga og Ein­ar Sverris­son 8, en hann átti ófá­ar stoðsend­ing­ar inn á Guðna á lín­unni. Helgi Hlyns­son varði 21 skot í marki Sel­foss.

Theo­dór Sig­ur­björns­son skoraði 13/​4 mörk fyr­ir ÍBV, þar af tíu í seinni hálfleik. Grét­ar Eyþórs­son kom næst­ur hon­um með 6 mörk. Andri Ísak Sig­fús­son varði 9 skot fyr­ir ÍBV.

mbl.is

Fimmti tapleikurin í röð

Hauk­ar færðust upp fyr­ir ÍBV ör­ugg­um og stór­um sigri á Eyja­mönn­um, 32:24, í 10. um­ferð Olís-deild­ar karla í hand­knatt­leik í Schen­ker-höll­inni á Ásvöll­um.. Hauk­ar réðu lög­um og lof­um í leikn­um í 50 mín­út­ur og var sig­ur þeirra síst of stór. Hauk­ar voru sex mörk­um yfir í hálfleik, 18:12. Mbl.is greindi frá. 

Þetta var fimmti tap­leik­ur ÍBV í röð í deild­inni og í bik­ar­keppn­inni. 

Eyja­menn byrjuðu leik­inn af krafti og voru marki yfir, 4:3, eft­ir tæp­lega níu mín­út­ur. En þá hrundi leik­ur þeirra al­gjör­lega. Leik­menn ÍBV gerðu hver mis­tök­in á fæt­ur öðrum í sókn­ar­leikn­um með þeim af­leiðing­um að Hauka fengu hvert hraðaupp­hlaupi eft­ir annað. Á átta mín­útna kafla skoruðu Hauk­ar átta mörk gegn tveim­ur Eyja­manna. Staðan breytt­ist í 11:6 en þar með var raun­um ÍBV ekki lokið. Hauk­ar bættu í og voru með sjö mörk­um yfir, 15:8. ÍBV rétti aðeins sinn hlut fyr­ir hálfleik þegar liðið var ekki nema sex mörk­um und­ir, 18:12. 

Vörn Hauka var ágæt í fyrr hálfleik auk þess sem Grét­ar Ari Guðjóns­son átti stór­leik í mark­inu og varði níu skot en hann byrjaði í mark­inu í fyrsta leik sín­um fyr­ir Hauk­ana á þess­ari leiktíð. Ann­ars færðu Eyja­menn Hauk­um leik­inn í hend­urn­ar í fyrri hálfleik með afar slök­um sókn­ar­leik sem byggðist mest í kring­um Sig­ur­berg Sveins­son sem nú í fyrsta sinn sem gest­ur á Ásvöll­um hvar hann lék um ára­bil og vann nokkra titla. Þegar við bætt­ist að leik­menn ÍBV voru sein­ir aft­ur í vörn­ina var ekki við góðu að bú­ast. 

Eft­ir sex marka for­skot í hálfleik var eins kæru­leysi gerði vart við sig á upp­haf­smín­út­um síðari hálfleiks hjá Hauk­um. Þegar við bætt­ist að meiri agi kom á leik ÍBV þá var mun­ur­inn fljót­ur að minnka. Agn­ar Smári Jóns­son var tek­inn af leik­velli eft­ir slak­an leik og síðan fékk Sig­ur­berg­ur Sveins­son þriðju brott­vís­un eft­ir tæp­ar fimm mín­út­ur. Agn­ar Smári fékk dágóða hvíld en kom inn á aft­ur þegar á leið hálfleik­inn.

Hauk­ar voru þrem­ur mörk­um yfir, 23:20, þegar rúm­ar 12 mín­út­ur voru liðnar af síðari hálfleik. Eyja­menn áttu mögu­leika á að minnka mun­inn í tvö mörk en þess í stað þá juku Hauk­ar for­ystu sína á ný og voru fimm mörk­um yfir, 25:20, þegar síðari hálfleik­ur var hálfnaður. Mun­ur­inn jókst áfram á ný og var kom­inn í níu mörk, 29:20, þegar átta mín­út­ur voru til leiks­loka. Úrslit­in voru ráðin. 

Ester í ham

ÍBV sigraði Val 28:23 í ní­undu um­ferð Olís-deild­ar kvenna í hand­knatt­leik, en leikið var í Vest­manna­eyj­um. Ester Óskars­dótt­ir gerði sér lítið fyr­ir og skoraði ell­efu mörk fyr­ir ÍBV. Leikurinn var afar spennuþrung­inn en fyr­ir leik­inn var Val­ur í fjórða sæti með 10 stig á meðan ÍBV var með 6 stig í fimmta sæt­inu. Eyja­kon­ur höfðu ekki unnið leik síðan 1. októ­ber en það breytt­ist í dag. Valskon­ur voru skref­inu á und­an ÍBV í fyrri hálfleik og fór liðið með tveggja marka for­ystu inn í hálfleik­inn, 10:12.Í þeim síðari tók Eyjaliðið við sér og fór Ester Óskars­dótt­ir þar mik­inn og gerði í heild­ina ell­efu mörk. Ásta Björt Júlí­us­dótt­ir kom þar næst á eft­ir með 7 mörk. Eyjaliðið náði að slíta Valsliðið frá sér und­ir lok­in og niðurstaðan fimm marka sig­ur, 28:23. Eins og áður seg­ir var þetta fyrsti sig­ur ÍBV síðan í byrj­un októ­ber en nú er liðið með 8 stig á meðan Val­ur er áfram með 10 stig.

Til baka á forsíðu