Annáll ÍBV íþróttafélags í 20 ár/2015 -
2015 -
Þrettándagleðin
Þrettándagleði ÍBV var haldin fyrstu helgina í janúar. Í nógu var að snúast í tengslum við hátíðina. Hápunktur hátíðahaldanna var á föstudagskvöld þegar hin eina sanna þrettándagleði fór fram. Veður var gott og snjór yfir þannig að allt naut sín eins og best verður á kosið.
Að hefðbundnum hætti var kveikt á kertum í hlíðum Molda sem mynda orðið ÍBV. Flugeldasýningin á Hánni var frábær. Gengu jólasveinarnir niður Hána að henni lokinni þar sem bæjarbúar og aðrir gestir tóku á móti þeim. Þaðan var gengið með Grýlu og Leppalúða í fararbroddi fylktu liði up pá malarvöllinn í Löngulág þar sem álfar, tröll og forynjur voru mætt eftir að hafa legið í dvala og dönsuðu, sungu og léku sér með bæjarbúum.
Arnar Pétursson fékk Fréttapíramída fyrir framlag sitt til íþrótta
Í kynningu Eyjafrétta á Arnari sagði: „Árið 2009 fluttist til Eyja ungur Eyjamaður ásamt fjölskyldu sinni, hann var upprunninn í Eyjum og hafði leikið handbolta með ÍBV en fluttist síðan á höfuðborgarsvæðið til náms. Ári eftir heimkomuna tók hann að sér þjálfun handboltaliðs ÍBV, setti sér nokkurra ára markmið, sem átti að enda í Íslandsmeistaratitli. En til að ná þessu markmiði þurfti ýmsu að breyta í kringum liðið. „Það þurftu líka margir að leggja hönd á plóg, leikmenn, handknattleiksráð og stuðningsmenn og ekki síst Gunnar Magnússon sem kom til liðsins sem annar þjálfari þess haustið 2013.
Síðasta vor fékkst uppskera erfiðisins, ógleymanlegur Íslandsmeistaratitill. Það er mat Eyjafrétta að þjálfarinn sem setti þessi háleitu markið árið 2010, Arnar Pétursson, sé verðugur handhafi Íþróttapýramídans á Íslandsmeistaraárinu 2014,“.
Arnar var lykilmaður í ævintýralegum sigri karlaliðs ÍBV í handbolta á Íslandsmótinu vorið 2014 en hann tók við liðinu í næst- efstu deild fyrir tímabilið 2010 til 2011, eftir að hafa leikið með liðinu veturinn áður. Arnar æfði sem ungur drengur bæði handbolta og fótbolta, fyrst með Knattspyrnufélaginu Tý og síðar með ÍBV og þótti mjög efnilegur í báðum greinum enda lék hann með yngri landsliðum í báðum greinum. Að lokum varð handboltinn fyrir valinu og lék Arnar fyrstu árin með meistaraflokki ÍBV og var m.a. í liðinu sem vann næstefstu deild árið 1995. Arnar lék um árabil með liðum á höfuðborgarsvæðinu, fyrst með Stjörnunni, síðan FH og loks Haukum en þar náði hann sínum besta árangri sem leikmaður og fyrirliði og vann fjölda titla. Með þá reynslu í farteskinu, kom hann með fjölskyldu sína til Vestmannaeyja og tók svo við ÍBV liðinu ári síðar.
Það er kannski fullmikið að segja að þessi góði árangur sé Arnari einum að þakka. En líklega á enginn stærri þátt í þessum fyrsta og eina Íslandsmeistaratitli ÍBV í karlahandboltanum. Þannig var Arnar ekki einungis þjálfari liðsins, heldur sá hann einnig um að ráða þjálfara yngri flokkanna og leikmenn meistaraflokkanna, skipulagði ferðalög liðsins og gerði í raun mun meira en ætlast er til af þjálfurum annarra félaga. Arnar er nefnilega Eyjamaður í húð og hár og ber sterkar taugar til félagsins. Hann vildi rífa liðið upp úr öskustónni og lagði sig allan fram við það. „Þar sem hjartað slær,“ hafði því kannski meiri þýðingu fyrir Arnar en marga aðra.
Erlingur að meika það
Erlingur Richardsson, nýr þjálfari handknattleiksliðsins Füchse Berlin, fyrrum leikmaður og þjálfari ÍBV. Hann kom ÍBV, ásamt Arnari Péturssyni upp í efstu deild árið 2013. Ári síðar urðu Eyjamenn Íslandsmeistarar og á Erlingur stóran þátt í því. Erlingur hélt út til Austurríkis að loknu tímabilinu 2013 og tók við austurríska liðinu West Wien. Markmiðið var að halda liðinu í efstu deild en Erlingur náði frábærum árangri með ungt og efnilegt lið. Það hafnaði í þriðja sæti deildarinnar, var einungis einu stigi frá toppnum.
Skellur gegn Gróttu
Eyjastúlkur mættu Gróttu í byrjun janúar í Vestmannaeyjum. Eyjastúlkur voru í 4. sæti fyrir leikinn en gestirnir í 2. sætinu. Það var ljóst strax í byrjun að það yrði erfitt fyrir heimakonur að ná einhverju út úr leiknum því margir ef ekki allir leikmenn Gróttu voru að spila vel. Sóknarleik stelpnanna okkar var haldið uppi af Drífu Þorvaldsdóttur og Veru Lopes en þær skoruðu rúmlega helming markanna. Leiknum lauk með sigri Gróttu, 21-31.
Andlát
Þorvarður Þorvaldsson lést 9. janúar 58 ára gamall. Hann slasaðist alvarlega þegar hann féll úr stiga fyrir nokkru síðan og bar þess aldrei bætur. Hann var jarðsettur frá Landakirkju 24. janúar, að viðstöddu miklu fjölmenni. Þorvarður var alla tíð gríðarlega öflugur félagi í ÍBV íþróttafélagi, en félagar stóðu heiðursvörð þegar kista hans var borinn úr kirkju.
Bryndís frá Kúfhól
Bryndís Hrafnkelsdóttir, markmaður meistaraflokks kvenna í knattspyrnu er uppalinn í Landeyjunum og hafði Eyjarnar fyrir augum alla tíð. Hún fluttist til Reykjavíkur þar sem hún varði markið m.a. hjá Breiðabliki. Jón Ólafur Danélsson taldi hana á að flytja til Eyja og leika með ÍBV. Bryndís hefur reynst félaginu afar vel, bæði knattspyrnulega og félagslega. Bryndís var í viðtali við Eyjafréttir en þar lýsir hún m.a.vinnustaðnum sínum Vestmannaeyjahöfn og vinnufélögunum þar. ,,Að hafa flutt til Eyja var besta ákvörðun sem ég hef tekið. Ég held að kallarnir mínir átti sig ekki á því hvað þeir gerðu mikið fyrir mig. Að hafa sniglast með þeim öll þessi þrjú ár gaf mér svo mikið, þarna komst ég loks í þessa rútínu sem ég þurfti svo mikið á að halda. Þeir spurðu endalaust hvað ég væri að bralla, hvernig gengi að læra og hvort ég hafi ekki náð öllum prófum.
Oft kom fyrir að óþarfa skapsveiflur voru í minni þegar illa gekk að læra og þeir náðu alltaf að koma mér í betra skap. Þeir skiptust síðan á að hringja í mig þegar ég var búin að dvelja lengi í Reykjavík til þess að heyra í mér hljóðið og ganga úr skugga um hvort það væri ekki örugglega allt í lagi. Þessir menn sýndu mér óendanlega þolinmæði í öllu sem ég gerði, þeir pössuðu upp á mig og gerðu allt fyrir mig. Með því gáfu þeir mér ómeðvitað spark í rassgatið, að nú myndi ég gjöra svo vel og haga mér og valda engum vonbrigðum. Ég þarf að haga mér vel og halda áfram á þeirri góðu braut sem ég er komin á. Þökk sé körlunum mínum og Eyjum,“ sagði Bryndís Lára að endingu.
Settu í fluggírinn
Strákarnir í 3. flokki karla gerðu góða ferð á meginlandið í endaðan janúar en þeir sóttu ÍR-inga heim. Leikurinn var í 8-liða úrslitum bikarkeppninnar og því ljóst að mikið var í húfi. Leikurinn varð aldrei spennandi en strákarnir settu strax í fluggírinn. Í hálfleik var staðan 9-19 en strákarnir eru með frábært lið og eru þeim allir vegir færir á tímabilinu. 3. flokkur karla er ekki fyrsta lið ÍBV sem tryggir sig inn í undanúrslitin en áður hafði meistaraflokkur kvenna og 2. flokkur karla gert slíkt hið sama. Hákon Daði Styrmisson skoraði 10 mörk, Friðrik Hólm Jónsson 8 og Elliði Viðarsson 7.
Önnur úrslit yngri flokkanna:
4. flokkur karla (eldri)
Grótta 28:29 ÍBV
4. flokkur kvenna (yngri)
KA/Þór 15:9 ÍBV
4. flokkur kvenna (yngri)
ÍBV 24:21 KA/Þór
4. flokkur kvenna (eldri)
KA/Þór 19:23
ÍBV 4. flokkur kvenna (eldri)
ÍBV 14:21 KA/Þór
2 leikmenn ÍBV í atvinnumennsku
Tveir fyrrum leikmenn ÍBV og núverandi landsliðsmenn skiptu um lið eftir áramótin. en þeir eru Viðar Örn Kjartansson og Guðmundur Þórarinsson. Guðmundur hafði leikið með Sarpsborg 08 í Noregi en var fenginn til Nordsjælland þar sem Ólafur Kristjánsson er þjálfari. Viðar Örn gerði hins vegar samning við Jiangsu Guoxin-Sainty frá Kína. Valerenga setti háan verðmiða á Viðar og að lokum kom kínverska liðið með tilboð sem ekki var hægt að hafna. Kaupverðið er talið vera um 2,25 milljónir evra. ÍBV fær einhvern pening vegna skiptanna en ekki liggur fyrir hversu há upphæðin er.
(Eyjafréttir greindu frá)
Völva Eyjafrétta rýnir í árið 2015
Eins og alltaf fer völvan yfir íþróttamál Eyjanna enda af nægu að taka. En byrjum á handboltanum. Kvennalið ÍBV stelur senunni í vor með góðum árangri. Liðið springur út eftir áramót og kemst alla leið í úrslit Íslandsmótsins en lýtur í lægra haldi fyrir Fram. En það sem eftir stendur er kjarni leikmanna sem munu skipa lið ÍBV næstu ár og halda félaginu í fremstu röð í kvennahandboltanum en Eyjaliðið byrjar næsta tímabil mjög vel. ÍBV kemst í Laugardalshöll í bikarnum í vor og ég sé mikla Eyjahátíð í Höllinni.
Árangurinn verður líka góður og stelpurnar fá verðlaunapening um hálsinn. Gengi Íslandsmeistaranna, karlaliðs ÍBV verður ekki jafn ævintýralegt og á síðasta ári í Íslandsmótinu. Liðinu kemur ekki til með að ganga illa, ÍBV kemst í undanúrslit en tapar þar fyrir liði sem spilar í rauðum búningum.
Bikarkeppnin verður hins vegar keppni Eyjaliðsins en ÍBV kemst alla leið í Laugardalshöll, eins og kvennaliðið. Væntingar verða miklar og mikil spenna, reyndar svo mikil að mér reynist ómögulegt að sjá hvort bikarinn fari til Eyja eða ekki. En mikið verður nú gaman á pöllunum.
Erfitt sumar í vændum
Fótboltinn hjá ÍBV má muna sinn fífil fegurri. Kvennaliðinu kemur til með að ganga ágætlega í sumar, liðið sýnir framfarir og endar í efri hluta deildarinnar, án þess þó að gera atlögu að toppnum. Ian Jeffs, nýr þjálfari liðsins er að móta liðið sem verður enn sterkara á komandi árum. Liðið kemst í undanúrslit í bikarnum en tapar þar fyrir Breiðabliki. Því miður eru ekki jákvæð teikn í kringum árangur karlaliðsins. Það er reyndar margt jákvætt í kringum liðið og karlafótboltinn eignast loksins gott bakland í sumar. En því miður verður tímabilið erfitt innan vallar og einhverjir erfiðleikar verða innan hópsins sem verður erfitt að losna við. Mér finnst eins og nýr þjálfari þurfi að slökkva elda víða í sumar og um mitt sumar missum við lykilmann úr leik. Eyjamenn verða í neðri hluta deildarinnar, falla ekki en verða ekki langt frá falli.
Jákvæðast við íþróttalífið í Eyjum er hins vegar unga kynslóðin. Þar eignumst við Íslandsmeistaratitla, bæði í handbolta og fótbolta en í þessum greinum hafa krakkarnir alist upp í íþróttaakademíum skólanna og munu þau láta ljós sitt skína.
Heimir Hallgrímsson, landsliðsþjálfari nær frábærum árangri á árinu. Ísland fer í umspil fyrir EM í Frakklandi og kemst áfram á dramatískan hátt við erfiðar vallaraðstæður á Laugardalsvelli næsta vetur, ekki ósvipað og kvennalandsliðið gerði á sínum tíma.
Rekstur ÍBV áfram erfiður
TM-mótið og Shellmótið halda áfram að vaxa og dafna og í ár verður bryddað upp á þeirri nýjung að veðurguðirnir verða hliðhollir Eyjamönnum og gestum þeirra í báðum mótunum. Þjóðhátíðin verður svo með svipuðu sniði og í fyrra og skilar ÍBV-íþróttafélagi lífsnauðsynlegum tekjum en mér sýnist að hátíðin endi með hvelli. Rekstur ÍBV-íþróttafélags verður áfram þungur og mér sýnist í lok árs verða forsvarsmenn farnir að kalla á aukna innspýtingu frá bæjaryfirvöldum.
Grétar íþróttamaður Vestmannaeyja
Á Viðurkennigahátíð Íþróttabandalags Vestmannaeyja sem haldin var í Höllinni seinnipartinn í janúar var Grétar Eyþórsson, handknattleiksmaður valinn íþróttamaður Vestmannaeyja árið 2014. Þá voru þau Sabrína Lind Adólfsdóttir og Dagur Arnarsson valin íþróttamenn æskunnar í Vestmannaeyja árið 2014.
Akademían hefur hjálpað mér mjög mikið
Dagur stundar nám við Framhaldsskólann í Vestmannaeyjum og hefur lokið við nám í íþróttaakademíunni. „Ég ákvað í haust að skrá mig ekki á nýjan leik í íþróttaakademíuna, ég er búinn með allt sem ég gat klárað þar. Akademían er í raun fimm annir sem ég kláraði nú í vor. Akademían hefur hjálpað mér mjög mikið, ekki bara sem handboltamanni heldur kennir hún manni líka margt tengt lífinu. Við fáum fyrirlestra um mataræði og markmiðasetningu og almennt heilbrigt líferni sem á eftir að koma að góðum notum í framtíðinni.“
Dagur hefur verið viðloðandi yngri landslið Íslands frá 15 ára aldri og hefur spilað þar 28 leiki.
Kom úr samstarfi við KS
Sabrína Lind Adolfsdóttir var valin Íþróttamaður æskunnar nú á dögunum. Sabrína er 18 ára og kemur frá Siglufirði. Hún hóf að æfa knattspyrnu 5 ára gömul og fluttist til Vestmannaeyja 16 ára til að spila fyrir ÍBV.
„Ég kem úr samstarfi ÍBV og KS en um leið og hugmyndin kom upp að fara til Vestmannaeyja að spila fótbolta var ekki aftur snúið og ég sló til. Ég hafði komið nokkrum sinnum áður til Eyja og var mjög hrifin af staðnum. Ákvörðunin var ekki erfið en að spila með ÍBV var skref upp á við fyrir fótboltaferilinn minn. Ég er mjög ánægð að hafa slegið til, mér líður mjög vel hér, hef aðlagast samfélaginu vel og á orðið Eyjapeyja fyrir kærasta,“ sagði Sabrína en hún er í sambandi með Birni Sigursteinssyni.
Barn og Íslandsmeistaratitill
Síðasta ár verður lengi í minningu haft hjá Grétari Þór Eyþórssyni, hann varð Íslandsmeistari með ÍBV í maí og í sama mánuði fæddist honum og unnustu hans, Önnu Ester Óttarsdóttur, sonurinn Óttar Þór og nú á dögunum var hann valinn Íþróttamaður Vestmannaeyja. Grétar Þór byrjaði að æfa handbolta þegar hann fluttist til Vestmannaeyja frá Þýskalandi, þá níu ára gamall. Í viðtali við Eyjafréttir sagði Grétar m.a.: „Fjölskyldan flutti heim frá Þýskalandi 1995 og þá fór ég strax að æfa handbolta með ÍBV en ég hafði ekki æft úti. Á þeim tíma var ekki mikið að frétta af yngri flokkunum ef við tökum mið af því hvernig staðið er að málum í dag. Hinir og þessir voru fengnir til að þjálfa og gæðin á æfingum voru eftir því. Án þess að vera að tala neikvætt um það ágæta fólk sem þá var að þjálfa, var mörgu ábótavant á þessum tíma hvað varðar metnað og skýra framtíðarsýn,“
1200 leikir – 43 starfsmenn á launaskrá
Á viðurkenningahátíð Íþróttabandalagsins ræddi Dóra Björk Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri ÍBV íþróttafélags um félagið og starf þess. Hún sagði að á árinu 2014 hefði ÍBV spilað rúmlega 1200 leiki í Eyjum og félagið var nú sem oftast áður stærsti viðskipavinur Herjólfs í farþegaflutningum. Félagið átti 23 íþróttamenn sem léku fyrir Íslands hönd með landsliðum og þrír þjálfarar félagsins stýrðu landsliðum Íslands og félagið ætti þar að auki þjálfara eins besta félagsliðs heims. ÍBV íþróttafélag varð Íslandsmeistari í þremur yngri flokkum og bikarmeistari í tveimur. Og Íslandsmeistari í meistaraflokki karla í handbolta. ÍBV íþróttafélag hefði að jafnaði 43 starfsmenn á launaskrá, félagið verslaði við fyrirtæki og stofnanir í Eyjum fyrir rúmar 100 milljónir króna. 50% allra grunnskólabarna stunda íþróttir á vegum félagsins og uppeldismenntað fólk sem sér um kennslu yngstu iðkenda félagsins er 10 talsins. 80 ungmenni stunda nám í Íþróttaakademíunni
Tveir sigrar á ÍR
ÍBV-konur lyftu sér í 4. sæti Olísdeildarinnar þegar þær unnu ÍR, 36-24. Með nokkurra daga millibili léku þær einnig bikarleik við ÍR þar sem lokatölur urðu 31-23. Með sigrinum er ÍBV komið í undanúrslit Coca cola bikarsins. Sigur ÍBV var aldrei í hættu og fengu ungar og efnilegar stelpur að spreyta sig og vakti innkoma Bryndísar Jónsdóttur í hægra hornið athygli en hún skoraði þrjú mörk og öll í röð.
Hækkun á æfingagjöldum
Breyting varð á æfingagjöldum hjá ÍBV-íþróttafélagi fyrir árið 2015 en þau voru samþykkt í aðalstjórn föstudaginn 16. janúar. Um nokkra hækkun var að ræða en nú verður æfingagjöldunum skipt eftir aldri iðkenda. Þetta kemur fram í frétt frá félaginu.
Árinu er skipt upp í þrjú tímabil hjá fimm til sex ára iðkendum félagsins og er fyrsti ársþriðjungur gjaldfrjáls. Eftir það kostar þriðjungurinn 10.000 krónur. Æfingagjöld fyrir sjö til tíu ára (1.-4. bekkur) hækka úr 59.000 krónum í 61.950 krónur, ellefu til tólf ára (5. og 6. bekkur)úr 59.000 krónum í 64.900 krónur og 13 til 16 ára (7.-10. bekkur) hækkar úr 59.000 í 67.900 krónur. Á stjórnarfundinum var ákveðið að skipta æfingagjöldunum eftir aldri iðkenda. Gjöldin hækka um 5% í yngsta aldurshópnum, 10% í 11 til 12 ára og 15% í 13 til 16 ára. Ástæðan er að kostnaður félagsins er meiri við eldri iðkendur, fleiri æfingar og fleiri ferðir.
Á árinu 2015 mun félagið kosta í samvinnu við Eimskip ferðir með Herjólfi hvort sem það er á Íslandsmót eða æfingamót. Ákveðið var að halda áfram að rukka eitt verð hvort sem krakkar eru í handbolta eða fótbolta eða báðum greinum.
Í viðtali við Eyjafréttir sagði Dóra Björk Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri ÍBV íþróttafélag: „Auðvitað er þetta mikill peningur en við þurfum að reka félagið og viljum bjóða krökkunum það besta. Félagið er að jafnaði að greiða niður barna- og unglingastarf fyrir um 20 milljónir á ári og er það ástæða þessarar hækkunar. Félagið útvegar foreldrafélögum ÍBV íþróttafélags vinnu fyrir að meðaltali 13.900 á ári fyrir hvern iðkanda en þessi vinna tengist mótunum okkar, Þrettándanum og Þjóðhátíð. Einnig standa foreldrafélögin í samvinnu við unglingaráð fyrir mörgum öðrum fjáröflunum í ferðasjóð iðkenda.“
2. flokkur taplaus
Annar flokkur karla í handbolta hefur leikið vel á tímabilinu en þeir eru enn taplausir að loknum níu leikjum. Af þessum níu leikjum voru fimm í forkeppni, tveir í bikar og tveir í deild. Strákarnir sóttu Hauka heim, en þeim leik lauk með tveggja marka sigri 23-25. Strákarnir voru þremur mörkum undir í hálfleik 16-13 en gáfust aldrei upp og tókst þeim að komast yfir í fyrsta sinn í leiknum þegar sjö mínútur voru eftir. Liðið spilaði frábæra vörn í síðari hálfleik sem skóp sigurinn. Degi seinna héldu strákarnir á Selfoss þar sem sæti í undanúrslitum var undir. Selfyssingar mættu með sitt besta lið og virkuðu sterkir á upphafsmínútum leiksins. Það tók strákana nokkurn tíma en þeir komust þó yfir og héldu þriggja marka forystu í hálfleik. Selfyssingar náðu varla að stoppa neina sókn ÍBV-liðsins fyrr en að staðan var orðin 23-32. Þá fóru heimamenn að taka áhættur sem skiluðu sér vel og náðu þeir að skora sex mörk í röð. Þá var forystan orðin að litlu en strákarnir hættu ekki og uppskáru loksins mikilvæg mörk sem tryggðu sigurinn. Lokatölur 32-36 og munu strákarnir því leika til undanúrslita í bikarkeppninni.
Yngri flokkarnir
5. flokkur kvenna átti enn eina frábæra helgi á dögunum en stelpurnar unnu alla átta leiki sína. Hilmar Ágúst Björnsson er þjálfari stelpnanna og var hann mjög sáttur með stelpurnar. Lið 1 vann þriðja mótið sitt á tímabilinu en lið 2 komst upp um deild.
Það var WOW-air sem stóð fyrir mótinu sem var hin besta skemmtun fyrir stelpurnar.
Úrslit yngri flokka í vikunni:
2. flokkur karla - Selfoss 32:19 ÍBV og FH/ÍH 31:26 ÍBV
3. flokkur karla - Þróttur 29:34 ÍBV og Selfoss 31:29 ÍBV
3. flokkur kvenna - ÍBV 31:22 Fram
4. flokkur karla - Valur 23:23 ÍBV
4. flokkur kvenna (eldri) - HK 28:18 ÍBV í 8-liða úrslitum bikarsins
4. flokkur kvenna (yngri) - Valur 29:10 ÍBV
Fótbolti.net mótið
Strákarnir í meistaraflokki ÍBV voru grátlega nálægt því að komast í úrslitaleikinn í Fótbolta.net mótinu. Fyrir leikinn gegn Íslandsmeisturum Stjörnunnar var ljóst að þeim dugði jafntefli til þess að komast í úrslitaleikinn. Bjarni Gunnarsson kom ÍBV yfir í upphafi leiks eftir sendingu Víðis Þorvarðarsonar en Stjarnan jafnaði undir lok fyrri hálfleiks. Það var síðan lítið eftir þegar Íslandsmeistararnir komust yfir og tryggðu sér farseðilinn í úrslitaleikinn. Tapið þýddi að ÍBV lenti í 3. sæti riðilsins og þurfti því að spila um 5. sætið gegn Skagamönnum. Leikurinn byrjaði frábærlega og kom Óskar Elías Zoega Óskarsson ÍBV yfir á upphafsmínútum leiksins. Gauti Þorvarðarson bætti síðan við marki í síðari hálfleik. Skagamenn reyndust sterkari á lokakaflanum og jöfnuðu metin í 2-2. Guðjón Orri Sigurjónsson varði víti í leiknum en það þurfti að grípa til vítakeppni til að komast að því hvort liðið myndi hafna í 5. sæti mótsins. Eyjamenn nýttu einungis eina spyrnu af þeim þremur sem liðið tók. Skagamenn skoruðu úr öllum fjórum spyrnum sínum og höfnuðu því í fimmta sætinu.
Grátleg töp
Það var súrt tapið hjá kvennaliði ÍBV þegar það mætti Fylkiskonum. ÍBV var undir mestallan leikinn. Að skora 33 mörk ætti undir venjulegum kringumstæðum að duga til sigurs en svo var ekki í þetta skiptið, því Fylkiskonur skoruðu 34 mörk.
Næsti leikur ÍBV var gegn Fram, sem var í 2. sæti deildarinnar. Styrkleikamunur var greinlega á liðunum og Fram sigraði 18-25. Ester Óskarsdóttir dró ÍBV-vagninn í markaskorun en hún skoraði tíu mörk gegn Fylki og níu gegn Fram. Vera Lopes náði sér ekki vel á strik í leikjunum tveimur en hún skoraði samtals sjö mörk.
B-liðið slegið út úr bikarkeppninni
B-lið ÍBV lauk þátttöku í bikarkeppninni þetta árið en bikarmeistara Hauka þurfti til þess að slá Eyjamenn út úr keppninni. Það verður ekki hægt að segja annað en að ÍBV B hafi veitt Haukum þokkalega keppni og skoruðu þeir fleiri mörk heldur en aðalliðið gerði tveimur dögum áður á móti Haukum.
Jafnræði var á með liðunum í upphafi en þó voru Haukar yfirleitt skrefinu á undan, náðu góðum kafla undir lok fyrri hálfleiks og var staðan 10:16 í hálfleik. Í upphafi síðari hálfleiks bjuggust flestir við að nú myndu Haukar ganga á lagið en það gerðist ekki. ÍBV náði að
minnka forskotið niður í fjögur mörk í stöðunni 16:20. Þá reimuðu Haukar á sig spariskóna og settu allt í botn. Refsuðu B-liðinu með hraðaupphlaupum og unnu að lokum sigur 21:33. Sigurður Bragason sannaði það í leiknum að hann hefur engu gleymt og skoraði sex mörk, Davíð Þór Óskarsson skoraði fjögur mörk en Benóný Friðriksson átti góða innkomu í síðari hálfleik og skoraði þrjú.
Feðgarnir Sigmar Þröstur Óskarsson og Friðrik Þór Sigmarsson stóðu í markinu og ákvað annar þeirra að standa á höndum eftir eina vörsluna. Það er allavega ljóst að þeir sem borguðu sig inn á leikinn urðu ekki fyrir vonbrigðum.
Yngri flokkarnir
Úrslit í leikjum yngri flokkanna í byrjun febrúar urðu þessi:
3. flokkur kvenna ÍBV 35:21Valur.
4. flokkur karla eldri ÍBV 23:24 Fjölnir.
4. flokkur kvenna yngri - Grótta 17:14 ÍBV (bikar) og Haukar 20:10 ÍBV.
Á sigurbraut
FH stúlkur heimsóttu Eyjarnar til að leika við ÍBV í Olísdeildinni, en það má segja að þær hafi rekist á vegg. Lokatölur voru 30:19 fyrir ÍBV.
Jón Gunnlaugur Viggósson, þjálfari ÍBV var fyrrum þjálfari FH og var leikurinn því mikilvægur fyrir hann. Leikurinn var í raun aldrei spennandi en ÍBV leiddi með fimm mörkum í hálfleik. Oftar en ekki slaka stelpurnar á eftir að hafa átt góðan fyrri hálfleik en ekki í þessum leik. Stelpurnar voru ákveðnar allan tímann og settu gestina undir stanslausa pressu á köflum.
Aftur í Laugardalshöll
Það eru orðin 25 ár síðan ÍBV komst í Laugardalshöllina í bikarkeppninni, þegar ÍBV varð bikarmeistari eftir eftirminnilegan leik við Víkinga. Nú fá þeir annað tækifæri í Laugardalshöll í undanúrslitum bikarkeppninnar eftir sigur á Aftureldingu 25-23. Hvítu riddararnir minntu á sig í leiknum mynduðu skemmtilega stemmningu.
Haukasigur í Eyjum
Haukar komu til Eyja í fyrsta leik Olísdeildar karla eftir áramót. Langt er um liðið síðan leikmenn léku síðasta leik sinn og voru því kannski svolítið ryðgaðir. Grétar Þór Eyþórsson virtist þó manna hressastur en hann skoraði fimm af fyrstu sex mörkum ÍBV í leiknum. Eftir ágætis byrjun virtist ekkert ganga upp og leiddu Haukar með tveimur mörkum í hálfleik. Eyjamenn virtust vera meðvitundarlausir í síðari hálfleik og gekk nánast ekkert upp. Haukar sigruðu loks með þriggja marka mun 17:21.
Andri og Jeffs aldursforsetar
Lengjubikarinn fór skelfilega af stað hjá karlaliði ÍBV en Fylkismenn voru andstæðingarnir. Það má segja að appelsínugulklæddir Árbæingar hafi verið betri á öllum sviðum knattspyrnunnar en þeir tóku forystuna snemma leiks. Fylkismenn voru því tveimur mörkum yfir í hálfleik. Þeir gengu síðan á lagið í síðari hálfleik og uppskáru fjögurra marka sigur. Andri Ólafsson og Ian Jeffs voru aldursforsetar byrjunarliðsins en margir ungir leikmenn spiluðu leikinn.
24-24
Meistaraflokkur karla gerði enga frægðarför í Safamýrina þegar þeir mættu Framarar sem eru aðeins einu stigi frá fallsæti í Olís-deild karla. Leikurinn endaði 24-24. Sannarlega þurfti ÍBV öll stigin en liðið er að berjast um heimaleikjaréttinn í úrslitakeppninni.
Sigur í framlengdum leik
Stelpurnar í 3. flokki hafa verið á fljúgandi siglingu undanfarið og tróna á toppi fyrstu deildar. Þær höfðu einnig staðið sig vel í bikarnum og voru komnar í undanúrslitin þar sem ÍR-ingar stóðu í vegi fyrir þeim. Fyrr á tímabilinu sigraði ÍBV sama lið ÍR með níu mörkum í Austurbergi. Stelpurnar ætluðu því að endurtaka leikinn. Allt virtist stefna í martröð fyrir stelpurnar þegar tvær og hálf mínúta voru eftir af leiknum. Þá leiddu heimastúlkur með þremur mörkum. Eyjahjartað sló þá gríðarlega hratt hjá ÍBV-stelpunum í síðari hálfleik framlengingarinnar en þar small vörn og markvarsla saman. Stelpurnar því á leið í Laugardalshöllina annað árið í röð þar sem liðið mætir Selfyssingum.
Sigur í deild og úrslit í bikar
3. flokkur karla hefur farið vel af stað í vetur og keppti sinn mikilvægasta leik þegar þeir mættu Akureyringum. Þar var toppnum náð í þriggja daga ferð strákanna. Ljóst var að Akureyringar þyrftu að eiga algjöran draumaleik til þess að eiga roð í ÍBV.
Akureyringar eru einni deild neðar en ÍBV, sem situr við topp 1. deildarinnar. Eyjamenn leiddu mest allan leikinn og höfðu fjögurra marka forystu þegar lítið var eftir. Sú forysta var allt í einu orðin að einu marki og því voru góð ráð dýr. Þá tókst Eyjamönnum hins vegar að skora mjög mikilvægt mark í sinni síðustu sókn og auka muninn í tvö mörk. KA-menn náðu síðan að minnka muninn í eitt mark úr aukakasti þegar leiktíminn var úti. Strákarnir okkar fara því í Laugardalshöllina og fögnuðu þeir því vel og innilega. Tveir leikmenn liðsins sáu um að skora flest mörkin. Nökkvi Dan Elliðason skoraði tíu og Friðrik Hólm Jónsson níu. Stefán Árnason þjálfar strákana sem mæta Val í úrslitum bikarsins.
Aftur voru strákarnir í eldlínunni en þá tóku þeir á móti sterkum FH-ingum. Fyrir leikinn höfðu bæði lið tapað þremur leikjum í deildinni og því mikið í húfi. Leikurinn var einnig sérstakur fyrir þær sakir að Stefán Árnason, þjálfari ÍBV, var að mæta föður sínum sem stýrir FH. Faðir Stefáns, Árni Stefánsson var, eins og margir vita, þjálfari hjá ÍBV fyrir nokkrum árum. Þar þjálfaði hann m.a. strákana sem Stefán þjálfar í dag. FH-ingar höfðu frumkvæðið í leiknum en á 15. mínútu gerðist vafasamt atvik. Þá vildu FH-ingar að markvörður ÍBV, Andri Ísak Sigfússon, fengi að líta rauða spjaldið. Andri slapp þó með skrekkinn og fengu FH-ingar einungis vítakast. FH-ingar voru nokkrum mörkum yfir allt þangað til að lítið var eftir af fyrri hálfleiknum. Þá tókst Eyjamönnum að minnka muninn niður í eitt mark og staðan í hálfleik því 14-15.
Í síðari hálfleiknum voru Eyjamenn sterkari og sigu hægt og bítandi framúr. Þeir höfðu þriggja marka forystu þegar nokkrar sekúndur voru eftir og fengu þá vítakast. Eitthvað fór það illa í Árna, sem fékk að líta rauða spjaldið eftir hörð mótmæli. Einn leikmaður FH-inga fékk einnig að líta rauða spjaldið á eftir Árna. Eyjamaðurinn Friðrik Hólm Jónsson, skoraði úr vítakastinu og fjögurra marka sigur ÍBV því staðreynd.
(Eyjafréttir greindu frá)
Tvö töp fyrir undanúrslitaleikinn
Eflaust hafa stelpurnar í meistaraflokki verið með hugann við undanúrslitaleikinn í bikarnum, þegar þær fengu Haukastúlkur í heimsókn. Afar slæmur kafli í seinni hálfleik varð þeim að falli og Haukar kláruðu leikinn, skoruðu 27 mörk en ÍBV 28. Eyjakonur vildu fá víti í sinni síðustu sókn og höfðu nokkuð til síns máls..
Stelpurnar áttu þó eftir að leika einn leik í viðbót fyrir undanúrslitaleikinn en stutt ferð á Selfoss var næst á dagskrá. Þeim leik tapaði ÍBV einnig, 25-27.
3. flokkur steinlá í bikarúrslitum
Það var mikil eftirvænting í herbúðum ÍBV strákanna fyrir leikinn gegn Val í úrslitum bikarsins. Þessi tvö lið höfðu mæst fyrr á leiktíðinni, á Hlíðarenda, og í þeim
leik sigruðu Valsarar næsta örugglega. Og bikarúrslitaleikurinn fór á sama veg, varð aldrei spennandi. Eftir um það bil fimmtán mínútur höfðu Valsmenn náð níu marka forystu. Sóknar- og varnarleikur ÍBV var afleitur í leiknum og ekkert í takt við það sem liðið hafði sýnt á tímabilinu. Strákarnir voru í rauninni aldrei í takt við leikinn, í hálfleik munaði níu mörkum, 9:18.
Í síðari hálfleik sýndu strákarnir þó aðeins betri hliðar og tókst að minnka muninn í
fimm mörk. Í stöðunni 17:22 höfðu strákarnir klikkað á fimm vítaköstum og hefði sagan verið önnur ef allavega þrjú þeirra hefðu farið inn. Þetta virtist ekki vera dagur strákanna en Valsarar völtuðu yfir þá á lokakaflanum, lokatölur 22:32.
Bikarmeistarar - Hafa unnið 17 leiki í röð
Stelpurnar í 3. flokki ÍBV eru ótrúlegar. Þær hafa ekki tapað leik á þessu tímabili eftir slakan fyrsta leik gegn Selfyssingum. Þær mættu þeim einmitt í úrslitum bikarsins. Þrjár stelpur sem spila stórt hlutverk hjá meistaraflokki spila með liðinu. Þær Erla Rós Sigmarsdóttir, Arna Þyrí Ólafsdóttir og Díana Dögg Magnúsdóttir en þær spiluðu allan leikinn.
Í upphafi leiksins var mikið jafnræði á með liðunum en ÍBV virtist þó alltaf vera einu til tveimur skrefum á undan. Í hálfleik var staðan 12:10 eftir flottan kafla ÍBV undir lok fyrri hálfleiks. Í síðari hálfleik sást vel hvort liðið væri á toppi deildarinnar. Stelpurnar sýndu sínar bestu hliðar en það var þó ein sem stal senunni. Sóley Haraldsdóttir átti frábæran leik og skoraði ellefu mörk. Þegar sóknir stelpnanna virtust vera að renna út í sandinn gat Sóley bjargað málunum. Lokatölur leiksins urðu 24:18 og var Sóley valin kona leiksins.
Final four - Töpuðu í undanúrslitum
ÍBV-stelpnanna beið erfitt verkefni í undanúrslitum Bikarsins. topplið Gróttu hafði verið á miklu skriði enda með gríðarlega sterkt lið. Stelpurnar okkar virtust einhvern veginn aldrei í takt við leikinn og töpuðu að lokum með sex marka mun, 28:34.
Mjög mikið var skorað í upphafi leiks, en varnirnar voru alls ekki sterkar. Eftir fimmtán mínútna leik var staðan jöfn 10:10. Gróttustúlkur náðu þá að slíta sig aðeins frá stelpunum okkar en staðan var orðin 13:18 undir lok fyrri hálfleiks. Þegar liðin gengu til búningsherbergja var staðan 14:18. Í upphafi síðari hálfleiks náði Grótta sjö marka forystu, þá virtust Eyjastelpur ætla að minnka muninn verulega. Sóknirnar urðu betri og vörnin góð í nokkurn tíma. Díana Dögg Magnúsdóttir minnkaði muninn í þrjú mörk þegar fimmtán mínútur voru eftir, þá hefði allt getað gerst. Munurinn var einungis tvö mörk þegar fimm mínútur voru eftir en þá sigu Gróttustelpur fram úr. Lokatölurnar gefa ekki endilega rétta mynd af leiknum en Grótta skoraði síðustu fjögur mörk leiksins. Stelpurnar okkar geta þó gengið með bakið upprétt frá leiknum þar sem Grótta burstaði Val í úrslitaleik bikarsins 29:14. Ester Óskarsdóttir skoraði mest fyrir ÍBV eða sex mörk, þar af tvö úr vítaköstum.
Grétar sá rautt en þá kviknuðu eldar
Útlitið var ekki bjart fyrir Eyjamenn í undanúrslitaleiknum í Coca cola bikarkeppninni 28. febrúar, gegn Haukum sem voru mættir til að hefna ófaranna í fyrra þegar Eyjamenn höfðu betur í rimmunni um Íslandsmeistaratitilinn.
Eftir 15 mínútna leik voru strákarnir einu marki undir. Grétar Þór Eyþórsson var á vítapunktinum og gat jafnað leikinn í 7:7. Grétar kastaði boltanum óviljandi í höfuð markvarðar Hauka sem greinilega stökk fyrir boltann. Það var ekki fyrr en að markvörðurinn öskraði á dómarann að Grétar fékk að líta rauða spjaldið. Alls ekki draumabyrjun fyrir Eyjamenn. Hákoni Daða Styrmissyni var hent beint í djúpu laugina þegar hann kom inn á fyrir Grétar. Innkoma Hákonar átti eftir að reynast Eyjamönnum dýrmæt þegar líða fór á leikinn. Margir héldu að þarna hefði sénsinn farið út um gluggann fyrir Eyjamenn. Haukar gengu á lagið og skoruðu hvert markið á fætur öðru áður en fyrri hálfleik lauk. Í hálfleik voru Eyjamenn svekktir og fjórum mörkum undir. Ástandið versnaði svo og versnaði þangað til staðan var 12:18 Haukum í vil. Þá gerðist það sem Eyjamenn þurftu, vörnin small og Kolbeinn Aron Arnarson fór að verja vel. Þegar vörnin smellur, koma hraðaupphlaup og þau nýttu Eyjamenn. Áður en Haukar gátu lagað sinn leik var ÍBV búið að skora níu mörk í röð. Strákarnir okkar leiddu því leikinn með þremur mörkum fyrir lokakaflann. Loksins skoruðu Haukar sitt fyrsta mark í þrettán mínútur en þá fylgdu tvö mörk ÍBV sem kláruðu leikinn. Strákarnir okkar því á leið í úrslitaleikinn, sem þá hafði svo lengi dreymt um.
Úrslitaleikurinn, alla á suðupunkti
Það sem klikkaði á fyrstu 40 mínútum undanúrslitaleiksins var vörnin, þegar hún small rúlluðu Eyjamenn yfir Haukana. Strákarnir voru því staðráðnir í því að spila öfluga vörn frá upphafi gegn FH-ingum í sjálfum bikarúrslitaleiknum þar sem allt var undir. Það gekk allt upp hjá Eyjamönnum í upphafi og var staðan 6:6 eftir fimmtán mínútna leik. FH-ingar náðu þá góðum kafla, spiluðu ótrúlega vörn og góða sókn, þeir breyttu stöðunni í 6:10 á svipstundu.
Þá hófst frábær kafli Eyjamanna, áður en flautan gall í hálfleik höfðu strákarnir jafnað í 11:11. Þessi kafli hélt áfram í upphafi síðari hálfleiks og var staðan orðin 19:14 áður en síðari hálfleikur var hálfnaður. Kolbeinn Aron Arnarson var í ótrúlegu stuði í leiknum en hann varði alls þrjú vítaköst. Staðan var svo 23:19 þegar einungis sex mínútur voru eftir en þá voru flestir farnir að bóka sigurinn. Þá klikkaði nánast allt sem gat klikkað hjá Eyjamönnum þessar síðustu mínútur. FH-ingum tókst að minnka muninn niður í eitt mark og höfðu boltann þegar mínúta var eftir. Vörn ÍBV varði slakt skot frá ungri skyttu FH-inga og sigldi þar með sigrinum í höfn. Allt ætlaði um koll að keyra í Laugardalshöllinni en ótrúleg stemning var í húsinu.
Eyjamenn eru því handhafar beggja stóru titlanna í handbolta karla.
Móttökurnar sem strákarnir fengu er þeir sigldu heim með bikarinn voru ótrúlegar.
Kolbeinn Aron Arnarson var ótrúlegur í úrslitaleiknum og varði nítján skot, þar af þrjú vítaköst. Hann varði einnig mörg skot úr opnum færum á mikilvægum tímapunktum í leiknum. Agnar Smári Jónsson skoraði mest Eyjamanna í leikjunum eða tíu mörk. Hann skoraði síðustu tvö mörkin gegn Haukum og síðasta markið gegn FH.
Hvítu riddararnir
Hvítu Riddararnir stjórnuðu stemningunni mjög vel en þessi stórkostlega stuðningsmannasveit hefur staðið sig ótrúlega vel síðustu tvö ár. Leikmenn og þjálfarar liðsins fara ekki í eitt einasta viðtal án þess að þakka fyrir stuðninginn og stemninguna sem hefur ekki verið meiri í íslenskum handbolta í mörg ár. Og uppskeran er fyrsti bikarmeistaratitill karla frá árinu 1991 þegar Eyjamenn unnu Víkinga eftir að hafa lent sjö mörkum undir.
Er Guð almáttugur í ÍBV
Þær voru ótrúlegar móttökurnar sem Bikarmeistarar ÍBV í handbolta fengu þegar þeir komu heim með á laugardagskvöldið. Klukkan var farin að halla í tólf á miðnætti þegar Herjólfur lagðist að bryggju en Eyjamenn létu það ekki á sig fá, fólk á öllum aldri stormaði niður á bryggju til að fagna hetjunum. Og hafi einhver efast um að Guð almáttugur haldi með ÍBV þá hvarf sá efi í gærkvöldi því veður var eins gott og það getur orðið á þessum árstíma, blankalogn og bjart. Eitthvað sem Eyjamenn hafa ekki séð í margar vikur.
Það gerði sitt til að skapa stemmningu sem ekki verður með orðum lýst og mun seint líða strákunum úr minni. Að venju var skotið upp flugeldum og blys loguðu á Heimakletti, Miðkletti og Ystakletti.
Erfitt er að segja til um hvað margir voru samankomnir til að samfagna Bikarmeisturunum en þeir voru eitthvað á milli 1000 og 2000 manns. Og til að undirstrika enn hvert hugur veðurguðanna beinist í handboltanum á Íslandi lagðist hvít slikja yfir Eyjarnar eftir móttökuna með Herjólfi. Hvítt er jú litur ÍBV. Þarna endurtók sig sagan frá í vor þegar ÍBV kom heim með Íslandsmeistaratitilinn. Þá skartaði náttúran sínu blíðasta, stjörnubjörtu kvöldi, fullu tungli og logni eins og núna.
Á eftir var sigurhátíð í Höllinni og á Háaloftinu fyrir strákana þar sem frítt var inn og sungið og dansað í fullu húsi fram á morgun.
Við erum öll í sama liði
Íris Róbertsdóttir formaður ÍBV íþróttafélags skrifaði þakkargrein í Eyjafréttir fyrir allan stuðninginn sem félagið fékk í öllum þeim bikarleikjum sem félagið tók þátt þessa febrúardaga:
Einskær gleði skín úr hverju andliti sem er á bryggjunni að taka á móti Bikarmeisturum ÍBV. Við erum öll Bikarmeistarar, við eigum öll „dolluna“, við höfum öll hlutverk í sigrinum, bara misstór. Þetta er okkar. Leikmenn og þjálfarar keppast við að láta okkur öll finna að þetta er okkar sigur. ÍBV er okkar félag - stór hluti af okkar samfélagi - og við getum öll glaðst því þetta er okkar afrek. Yngri iðkendur láta ekki heldur sitt eftir liggja. En það kostar blóð, svita og tár að landa titli og ekki eru allir eða öll samfélög svo lánsöm að upplifa það sem við höfum verið að upplifa í vor og um síðustu helgi. Á bak við árangurinn er mikil vinna allra þeirra sem eru á vellinum, sjálfboðaliða í nærumhverfinu og svo okkar stuðningsmanna. Samfélagslegt hlutverk ÍBV er því stórt og verður seint metið til fjár. ÍBV er það sem við getum glaðst yfir og sameinast um, við erum öll í sama liði, þar sem hjartað slær. Styðjum við bakið á ÍBV í orði og á borði og bæði þegar á móti blæs og í sigrunum. Förum alltaf alla leið á baráttugleðinni og samstöðunni, sem er okkar aðalsmerki.
Takk strákar, þjálfarar og sjálfboðaliðar fyrir að gefa okkur öllum hlutdeild í sigrinum.
Áfram ÍBV alltaf og alls staðar.
(Öll umfjöllunin um bikarleiki ÍBV er tekin í Eyjafréttum)
Sigurgangan heldur áfram
ÍBV-stelpurnar í 3. flokki, sem á dögunum urðu bikarmeistarar, halda áfram ótrúlegri sigurgöngu í deild og bikar. Eina tap stelpnanna það sem af er leiktíð var í fyrsta leiknum. Þá var liðið að koma úr ferðalagi frá Ítalíu og átti að spila leik gegn Selfossi áður en haldið var á ný til Eyja.
Síðan þá hefur allt gengið upp og liðið hefur unnið átján leiki í röð. Síðast gegn KA/Þór á heimavelli. Í hálfleik var staðan 14:10 og lokatölur voru 29:23. Selma Rut Sigurbjörnsdóttir átti frábæran leik og skoraði sex mörk. Díana Dögg Magnúsdóttir var þó markahæst með sjö mörk, Erla Rós Sigmarsdóttir átti flottan leik í markinu en hún varði 20 skot.
Skellur eftir bikarleikinn
Leikurinn gegn Val í Olísdeild karla var fyrsti leikurinn eftir að ÍBV varð bikarmeistari 28. febrúar. Fyrir leikinn héldu margir að Eyjamenn myndu ekki mæta upp á sitt besta í Vodafonehöllina og sú varð raunin. ÍBV komst aldrei í takt við leikinn og Valur vann 25-18.
Agnar Smári Jónsson skoraði fyrsta mark leiksins en þá tóku Valsmenn öll völd á vellinum.
Hákon Daði vakti athygli
Í 22. umferð Olísdeildarinnar heimsóttu ÍR-ingar Íþróttamiðstöðina og léku við ÍBV. Hákon Daði Styrmisson, strákur sem enn er í 3ja flokki vakti sérstaka athygli í liði ÍBV. Snöggur upp völlinn og skorar nánast í hverju færi. Agnar Smári Jónsson var aftur atkvæðamestur með sex mörk. Kolbeinn Aron Arnarson átti stórleik í markinu, varði 22 skot. Lokatölur, 30-28 fyrir ÍBV.
Um miðjan mars gerðu ÍBV og Haukar jafntefli í Eyjum, 22-22. Liðið tapaði síðan fyrir Stjörnunni með 26 mörkum gegn 28.
Eyjamenn hafa ekki haft oft ástæðu til að fagna í deildinni eftir að liðið varð bikarmeistari fyrstu helgina í mars. Það gerðist ekki á Akureyri þegar ÍBV-liðið tapaði 18-25.
Ekki gott gengi í Lengjubikarnum.
Þróttarar rústuðu karlaliði ÍBV í Lengjubikarnum, sigruðu með 5 mörkum gegn engu. Í fyrri hálfleiknum stjórnaði ÍBV ferðinni, átti hættulegri færi en Þróttarar komu varla við boltann. Þegar um tíu mínútur voru til hálfleiks skoraði Þróttur mark gegn gangi leiksins. Það virtist gjörsamlega slökkva á öllum kerfum Eyjamanna, sem vissu varla hvaðan á þá stóð veðrið í síðari hálfleik. 1. deildarlið Þróttar hreinlega valtaði yfir ÍBV. Mörkin sem ÍBV fékk á sig voru hvert öðru klaufalegra þar sem allt virtist vera að klikka hjá hvítklæddum. Að lokum höfðu Þróttarar skorað fimm mörk gegn engu Eyjamanna. (Eyjafréttir)
Sigurganga 5. flokks
Ótrúleg sigurganga stelpnanna í 5. flokki kvenna heldur áfram. Stelpurnar unnu sitt fjórða mót í röð, en einungis fjórum mótum er lokið. Samanlagt hafa stelpurnar spilað 15 leiki og hafa markatöluna 215:96. Þetta er hreint út sagt frábær árangur hjá stelpunum. Síðasta mót tímabilsins fer fram hér í Eyjum en þar geta stelpurnar tryggt sér sigurinn í síðasta mótinu. Það er ekki oft sem sama liðið vinnur öll mótin sem eru í boði fyrir flokkinn á tímabilinu. Hilmar Ágúst Björnsson er þjálfari flokksins en honum til aðstoðar er Björn Elíasson, faðir hans.
Önnur úrslit yngri flokka.
4. flokkur kvenna - eldri ÍR 17:19
ÍBV 4. flokkur kvenna - yngri - Fram 25:13 ÍBV.
Yngri flokkarnir
Stelpurnar í 4. flokki kvenna - eldri, spiluðu í vikunni hörkuleik gegn Fjölni, hér í Eyjum. Fjölnir og ÍBV eru hlið við hlið í töflunni og því ljóst að um hörkuleik var að ræða. Nú fer að líða að úrslitakeppni og getur hvert stig reynst mikilvægt í baráttunni um heimaleikjaréttinn. Það voru gestirnir sem byrjuðu mun betur og skoruðu meðal annars fyrstu tvö mörkin. Eyjastúlkum gekk illa að skora í fyrri hálfleik og klikkuðu m.a. á tveimur vítum með stuttu millibili. Gestirnir leiddu stóran hluta fyrri hálfleiks með þremur mörkum og var staðan í hálfleik 9:12.
Í stöðunni 10:13 gáfu Eyjastúlkur verulega í. Þær skoruðu fjögur mörk í röð og sneru leiknum í rauninni við. Á næstu mínútum var jafnt á öllum tölum upp að 18:18 en þá skiptu gestirnir um gír. Staðan var orðin 18:22 á augabragði og einungis tvær og hálf mínúta eftir. Eyjastúlkur sýndu frábæran varnarleik og gríðarlega mikil klókindi í sínum aðgerðum og uppskáru fjögur mörk, 22:22.
Lokamark leiksins skoraði Sirrý Rúnarsdóttir þegar einungis fimm sekúndur voru eftir af leiknum. Eva Aðalsteinsdóttir átti flottan leik en hún skoraði níu mörk. Þóra Guðný Arnarsdóttir spilaði einnig vel en hún var nýkomin frá Færeyjum þar sem hún tók þátt í landsliðsverkefni með U-17 landsliði kvenna. Tanya Rós Jósefsdóttir átti mjög góðan leik í markinu en hún hélt stelpunum oft á tíðum á floti.
Önnur úrslit yngri flokka:
2. flokkur karla ÍBV 32:25 Fram, Valur 26:22 ÍBV og ÍBV 36:32 FH.
3. flokkur karla - ÍBV 34:22 Grótta
3. flokkur kvenna - Fjölnir 23:36, ÍBV, ÍBV 35:29 Fylkir og ÍBV 32:25 Fjölnir.
4. flokkur karla - eldri - ÍBV 25:25 Þór/KA
4. flokkur kvenna - yngri - FH 24:19 ÍBV og Fylkir 28:16 ÍBV.
3. flokkur deildarmeistarar
Stelpurnar í 3. flokki kvenna hætta ekki að sópa til sín bikurum. Þær urðu á dögunum bikarmeistarar eftir auðveldan sigur á Selfossi í úrslitaleik. Nú á dögunum spilaði liðið við ÍRstúlkur og gátu stelpurnar tryggt sér deildarmeistaratitilinn með sigri.
Skemmst er frá því að segja að stelpurnar unnu sinn 21. leik í röð og tryggðu þar með deildarmeistaratitilinn. Stelpurnar höfðu frumkvæðið mestallan leikinn en ÍR-stúlkur komust hættulega nálægt þegar fór að líða að hálfleik. Þá sýndu okkar stelpur allar sínar bestu hliðar og leiddu með fimm mörkum í hálfleik, 17:12. Í síðari hálfleik var einungis formsatriði að klára leikinn sem stelpurnar gerðu með stakri prýði. Lokatölur 29:20 og deildarmeistarabikarinn fór því á loft. Sóley Haraldsdóttir átti frábæran leik og skoraði ellefu mörk, þar af fimm úr vítum. Díana Dögg Magnúsdóttir átti einnig mjög góðan leik en hún skoraði tíu mörk. Erla Rós Sigmarsdóttir varði fimmtán skot í markinu.
Herrakvöld
Herrakvöld ÍBV handboltans er með skemmtilegustu uppákomum í Vestmannaeyjum, það vita herramenn í Eyjum og þess vegna er alltaf fullt hús í Akóges þegar blásið er til leiks. Einar Björn og fleiri góðir sjá um matinn og tekst þeim að toppa sjálfa sig á hverju ári. Skemmtikraftarnir eru á heimsmælikvarða og hafa metnað til að gera betur árið eftir. En það skemmtilegasta eru gestirnir sem taka þátt í gleðinni af lífi og sál og leggja sig ekki síður fram en á leikjum ÍBV.
Frábær sigur stelpnanna í meistaraflokki
ÍBV tók forystuna strax og leikurinn hófst, í nokkurn tíma spiluðu þær besta handbolta sem þær hafa sýnt á leiktíðinni. Liðið stillti upp í hverri sókn og nýtti þann tíma sem var til staðar. Varnarlega voru stelpurnar sterkar og stóðu af sér margar góðar sóknir gestanna. Í hálfleik var staðan orðin 17:13 stelpunum okkar í vil eftir að þær náðu að nýta sína síðustu sókn í fyrri hálfleik. Í seinni hálfleik var ÍBV mun sterkara framan af og komst í 25:19. Stelpurnar voru heppnar að tapa ekki forskotinu niður í lokin á ömurlegum kafla. Eyjastúlkum tókst þó að spila út leikinn og lönduðu því gríðarlega mikilvægum stigum í baráttunni um heimaleikjaréttinn, 26-25. Ester Óskarsdóttir skoraði ellefu mörk, næstar henni voru Díana Dögg Magnúsdóttir með fimm og Vera Lopez með fjögur.
Yngri flokkarnir
3. flokkur karla: ÍBV 28:24 Valur, Haukar 29:27 ÍBV og Fram 30:37 ÍBV.
3. flokkur kvenna: ÍBV 31:26 Grótta.
4. flokkur karla eldri: FH 27:15 ÍBV og ÍBV 27:22 FH.
4. flokkur kvenna eldri: ÍBV 35:28 Þróttur og ÍBV 20:22 HK.
4. flokkur kvenna yngri: ÍBV 25:16 HK.
Lengjubikarinn
Ófarir meistaraflokks karla í fótbolta héldu áfram þegar liðið spilaði við Víkinga frá Ólafsvík, þeir höfðu einungis fjögur stig eftir fimm leiki. Eyjamenn voru þó með sex stig eftir sigur á BÍ/Bolungarvík. Í leiknum var fátt um fína drætti og fóru liðin mjög rólega af stað. Lokatölur 1-0 fyrir Víkinga.
Það gekk aðeins betur hjá stelpunum í meistaraflokki að skora. Þær skoruðu fimm mörk gegn Þór/KA í markaleik en fengu á sig 4 mörk. Þetta var þriðji leikur stelpnanna í Lengjubikarnum en fyrsti sigurleikurinn.
7. sætið í deildarkeppninni
Það gekk á ýmsu í þremur síðustu leikjum karlaliðs ÍBV í handboltanum. Þeir töpuðu heimaleik gegn Aftureldingu 23-31 og einnig í heimaleik gegn HK 37-38. Í útileik gegn FH gekk hinsvegar mun betur og ÍBV sigraði með 28 mörkum gegn 26. Í deildarkeppninni fékk ÍBV liðið 25 stig og lenti í 7. sæti. Mótherjar í úrslitakeppninni verður Afturelding sem einnig fá heimaleikjaréttinn.
4. sætið
Kvennalið ÍBV hafnaði í 4. sæti deildarkeppninnar með 28 stig eftir útisigur á Gróttu 26-28. ÍBV fær þar með heimaleikjaréttinn og leika við Haukastúlkur í úrslitakeppninni.
Lengjubikarinn, sigur í síðasta leik
Síðasti leikur karlaliðs ÍBV í knattspyrnu í Lengjubikarnum var gegn HK sem vannst 2-0 og gerði Gauti Þorvarðarson bæði mörkin. Þrátt fyrir sigurinn var ÍBV úr leik í Lengjubikarnum.
Komnar á samning hjá ÍBV
Í byrjun apríl skrifuðu níu efnilegar knattspyrnustelpur undir samning við ÍBV. Stelpurnar sem eru fæddar á árunum 1996-1999 munu spila stórt hlutverk í 2. flokki félagsins á tímabilinu. Einhverjar þeirra munu einnig spila með meistaraflokki. Liðið fór einnig í æfingaferð yfir páskana sem var vel heppnuð, allar stúlkurnar sem skrifuðu undir samning fóru með. Stelpurnar eru Ásta María Harðardóttir, María Björk Bjarnadóttir, Sigríður Sæland Óðinsdóttir, Díana Helga Guðjónsdóttir, Margrét Íris Einarsdóttir, Inga Hanna Bergsdóttir, Bríet Stefánsdóttir, Sóldís Eva Gylfadóttir og Unnur Ástrós Magnúsdóttir.
Úrslitakeppnin, sigruðu Hauka 30-24 í fyrsta leik
ÍBV-stelpurnar spiluðu fyrsta leikinn í 8-liða úrslitunum 6. apríl Stelpurnar voru með yfirhöndina frá upphafi leiks og sigruðu mjög örugglega.
Strax eftir fimm mínútur var munurinn orðinn fimm mörk og því aldrei spurning hvort liðið myndi sigra. Þegar markvarslan komst í gang í síðari hálfleik skildi aftur á milli liðanna. Í hálfleik munaði einungis fjórum mörkum en lokatölur 30:24. Ester Óskarsdóttir átti algjöran stórleik en hún skoraði þrettán mörk. Síðast þegar leikmaður ÍBV skoraði þrettán mörk gegn Haukum var í maí 2014. Þá skoraði Agnar Smári Jónsson þrettán mörk í úrslitaleiknum um Íslandsmeistaratitilinn.
Komnar í undanúrslit – Sigruðu Hauka 20-27 í leik nr. 2
Meistaraflokkur kvenna ÍBV í handbolta komst í undanúrslit Íslandsmótsins eftir að hafa sigrað Hauka í tveimur leikjum.
Fyrri leikurinn fór fram hér í Eyjum en ÍBV hafði undirtökin allan tímann. Í þeim síðari hafði ÍBV einnig undirtökin mestallan tímann. Ester Óskarsdóttir átti stórleik í fyrri leik liðanna en minna bar á henni í síðari leiknum. Þar fékk ÍBV mikið af hraðaupphlaupum og var Díana Dögg Magnúsdóttir markahæst með átta mörk.
Byrjuðu ekki vel
Undanúrslitaeinvígi ÍBV stúlkna gegn Gróttu byrjaði ekki vel. Þær steinlágu 27:16 fyrir gríðarlega sterku liði Gróttu. Margir héldu að þar með væri þátttöku stelpnanna að ljúka en þær blésu svo sannarlega á þær vangaveltur.
Í leik nr. 2 mættu ÍBV stelpurnar sterkari til leiks. Í hálfleik var staðan 14:14 en ÍBV spilaði frábærlega í fyrri hálfleik. Stelpurnar mættu klárar til leiks í síðari hálfleik og sýndu Gróttu í tvo heimana. Að lokum stóð ÍBV uppi sem sigurvegari og jafnaði því einvígið í 1:1. Ester Óskarsdóttir átti enn einn stórleikinn í Eyjum en hún skoraði átta mörk.
Þriðji leikurinn var á Seltjarnarnesi og það var greinilegt að Gróttustelpur ætluðu að hefna áfaranna í Eyjum í síðasta leik. ÍBV stelpur mættu mun ákveðnari en þær nýttu sér öll mistök Gróttu. Heimastúlkur náðu þó að snúa leiknum sér í vil og ná tveggja marka forystu um miðbik síðari hálfleiks. Þá small vörn stelpnanna saman og Ólöf Kolbrún Ragnarsdóttir tók við sér í markinu. Hún varði mikilvæg skot og sigu Eyjastelpur fram úr. Munurinn var kominn í þrjú mörk og hélst út leikinn og endaði í sigri ÍBV, 22-25. Einungis fjórir leikmenn ÍBV skoruðu mark samanborið við átta leikmenn Gróttu. Það er því ótrúlegt að ÍBV hafi náð að vinna leikinn. Vera Lopez átti einn besta leik sinn á leiktíðinni en hún gerði ellefu mörk.
Komust ekki úrslitaleikinn
Liðin mættust í fjórða leik í Vestmannaeyjum þar sem ÍBV gat tryggt sér farseðilinn í úrslitaeinvígið en Gróttu stelpur voru mun ákveðnari í þeim leik og ætluðu greinilega ekki í sumarfrí og sigruðu 21-34. Oddaleikur liðanna var frábær skemmtun og bauð upp á allt sem góður handboltaleikur þarf að bjóða upp á. ÍBV byrjaði leikinn af krafti og komst í 4-1, Grótta tók þá leikhlé og náði að laga leik sinn og fram undan var jafn og spennandi leikur. Fyrri hálfleikur var mjög kaflaskiptur en Grótta leiddi í hálfleik 11-9. Grótta byrjaði síðari hálfleikinn betur en ÍBV náði fljótlega að jafna leikinn. Skiptust liðin á að leiða en markmenn liðanna beggja voru að spila virkilega vel og Ólöf Kolbrún Ragnarsdóttir, markmaður ÍBV varði 20 skot. Lokakaflinn var æsispennandi þar sem ÍBV hefði getað tryggt sér sigur en staðan var 18-19 fyrir ÍBV og þær voru manni fleiri og í sókn. En þær fengu dæmda á sig leiktöf og Grótta brunaði upp og Laufey Ásta Guðmundsdóttir jafnaði leikinn og framlenging niðurstaðan. Fyrri hluti framlengingar var nokkuð jafn en Grótta var sterkari aðilinn í þeim síðari og vann að lokum tveggja marka sigur 24-22.
Grótta hafði á endanum betur í einvíginu gegn ÍBV um að komast í úrslit í handbolta kvenna þetta árið og mætir þar Stjörnunni. En litlu mátti muna og þurfti oddaleik og framlengingu til að knýja fram úrslitin. Voru Eyjakonur grátlega nálægt því að komast áfram, marki yfir og með boltann þegar aðeins 40 sekúndur voru eftir af venjulegum leiktíma og með boltann. Grótta náði boltanum og jafnaði og hafði betur í framlengingunni. Lokatölur voru 24:22.
Vantaði stöðugleika
„Ég hefði viljað að liðið hefði sýnt meiri stöðugleika. Leikur eitt og fjögur voru virkilega slakir þar sem við töpuðum stórt. Hins vegar sýndum við okkar rétta andlit í hinum leikjunum og fannst mér við klaufar að að hafa ekki klárað einvígið í venjulegum leiktíma í oddaleiknum,“ sagði Ester Óskarsdóttir í viðtali við Eyjafréttir. „Mér fannst vanta stöðuleika í liðið á tímabilinu. Við gátum verið frábærar í einum leik en svo sjálfum okkur verstar í þeim næsta, okkur vantaði stöðuleika að mínu mati.“
Æfingaferð til Spánar
Í páskavikunni hélt 28 manna hópur kvennaliðs ÍBV í knattspyrnu í æfingaferð til Albir á Spáni. Í ferðasögu sem Sigþóra Guðmundsdóttir og Guðný Óskarsdóttir skrifuðu í Eyjafréttir sögðu þær ferðina hafa lukkast mjög vel. „ÍBV tók þátt í Junior Cup. Stelpurnar í öðrum flokki spiluðu þrjá leiki á mótinu. Tvo leiki á föstudeginum og einn á laugardeginum, og gaman var að sjá framfarir hjá þeim öllum. Aukið sjálfstraust á boltann skilaði sér í skemmtilegum leikjum, þó að engir væru sigrarnir.“ Þá hafi meistaraflokkur fengið óvænt æfingaleik við KR, seinni partinn á skírdag. Þá segja þær í ferðasögunni að allar hafi stelpurnar skilað sér heim, en af 30 boltum sem þær fóru með hafi aðeins 25 þeirra skilað sér aftur á eyjuna fögru.
Þegar TG9 talar
Meistara- og 2. flokkur ÍBV í knattspyrnu fór líka í æfingaferð Spánar um páskana. Víðir Þorvarðarson, skrifaði ferðasögu í Eyjafréttir. Í ferðasögunni segir að fyrsta grasæfing undirbúningstímabilsins hafi verið tekin þegar þeir komu á hótelið. „Eftir hana var borðað í matsal hótelsins og var maturinn afar góður en þegar síðustu menn ætluðu að fá sér var allur matur búinn. Þá tók okkar maður, TG9, til sinna ráða og hraunaði yfir afgreiðslufólkið og þegar TG9 talar þá er best að hlusta og hlýða.“
„Annan daginn voru tvær æfingar og hvíldu menn sig á milli þeirra inni á herbergjum því enn lét sú gula ekki sjá sig. Þriðja daginn var svo leikur gegn Þór Akureyri. Þrátt fyrir að einungis væri verið að spila upp á heiðurinn var mikill hiti í leiknum og ætlaði allt að sjóða upp úr á köflum en dómari leiksins, TG9, náði að róa mannskapinn áður en illa fór. Leiknum lauk með sigri okkar 3:1 þar sem Foringinn, Andri Ólafsson, skoraði fyrsta markið og svo bætti Gauti bróðir við tveimur. Fjórða daginn var svo æfing um morguninn og frí það sem eftir lifði dags. Sólin hafði enn ekkert látið sjá sig svo eftir æfingu skelltu sumir sér í sauna sem var á hótelinu til að fá loksins smá hlýju úti á Spáni. Fimmta daginn voru tvær æfingar og var loksins farið að glitta í sólina. Milli æfinganna lágu menn á sundlaugarbakkanum og þrjóskuðust við að baða sig í sólinni þó hitastigið hafi ekki verið neitt frábært. Bjarni Gunn gat loksins tekið fram sólarvörnina sína sem var fyrir börn og af styrkleika 30. Að morgni sjötta dags voru lyftingar og æfing um miðjan dag um kvöldið fór liðið svo saman út að borða og svo spiluðum við á spil eftir matinn. Þar var Gauti sannfærður um að verið væri að svindla á sér og var rosalega hissa á því að hann væri sá eini í hópnum sem tæki eftir þessu samsæri gegn sér.
Brúnir og sællegir birtust svo drengirnir aftur á Heimaey eftir páska.
2. flokkur úr leik
Annar flokkur karla hjá ÍBV í handbolta hefur lokið þátttöku þetta tímabilið. Liðið beið lægri hlut gegn sterku Haukaliði um helgina. ÍBV hafði einungis tapað einum leik á heimavelli fyrir helgina en það var í undanúrslitum bikarsins. Það má því segja að strákarnir okkar hafi fallið á báðum stóru prófunum sem fyrir þá voru lögð. ÍBV stjórnaði leiknum í byrjun en Haukar komust yfir rétt undir lok fyrri hálfleiks. Þá forystu létu Haukar aldrei af hendi en ÍBV saxaði þó á forskotið áður en leiknum lauk. Lokatölur eins og áður segir 31:34.
Tap gegn Íslandsmeisturunum
Stelpurnar í meistaraflokki kvenna spiluðu sinn fjórða leik í Lengjubikarnum gegn Íslandsmeisturum Stjörnunnar. ÍBV var án tveggja þjálfara sinna í leiknum þar sem Ian Jeffs var á Spáni, með meistaraflokki karla, en Jón Ólafur Daníels son var með fermingarveislu hjá dóttur sinni. Stjarnan hafði öll völd á vellinum allan leikinn, þær komust í 5:0 áður en Shaneka Gordon minnkaði muninn undir lokin. ÍBV situr á botni A-riðils Lengjubikarsins með 3 stig.
Enn á sigurbraut í handbolta
Stelpurnar í 3. flokki kvenna stigu engin feilspor gegn HK2. Fyrirfram var búist við stórsigri ÍBV en HK stelpur létu það ekki á sig fá, þær komust í 4:2 og stefndi allt í spennandi leik. Þá kom hinsvegar 12:0 kafli frá Eyjastelpum sem gerði algjörlega úti um leikinn. Í hálfleik var staðan 19:10 en spiltíma stelpnanna var dreift mjög vel. Allar stelpurnar fengu að spila stóran hluta leiksins, en honum lauk 32:22. Sóley Haraldsdóttir var að vanda markahæst með ellefu mörk, Díana Dögg Magnúsdóttir skoraði fimm og Selma Rut Sigurbjörnsdóttir gerði þrjú. Erla Rós Sigmarsdóttir átti stórleik í markinu en hún varði 23 skot.
Yngri flokkarnir
4. flokkur karla - FH 28:17 ÍBV, ÍBV2 33:20 Hörður, ÍBV 32:21 Hörður, ÍBV 28:23 Hörður 4. flokkur kvenna, eldri - Fram 19:13 ÍBV
4. flokkur kvenna, yngri ÍBV 24:18 Afturelding
Úr leik í úrslitakeppninni
Ljóst var að ÍBV átti erfitt verkefni fyrir höndum þegar liðið þurfti að sækja Aftureldingu heim, í fyrsta leik átta liða úrslita Íslandsmótsins. Afturelding var nýliði í efstu deild en hafði staðið sig framar öllum vonum. ÍBV hafði einnig dalað mjög mikið á síðustu vikum og liðið ekki líkt því sem það var á sama tíma í fyrra. Þegar 55 sekúndur voru eftir af leiknum var staðan 20:22, Eyjamönnum í vil. Þá tókst ÍBV á einhvern ótrúlegan hátt að glutra niður forystunni og framlenging því staðreynd. Þar sem Mosfellingar voru með mun breiðari hóp en Eyjamenn var það nánast leikur einn fyrir þá að sigra í framlengingu. Lokatölur 27:25 og Eyjamanna beið því erfitt verkefni í Vestmannaeyjum í næsta leik.
Í leik nr. 2 var ÍBV upp við vegg. Liðið virtist höndla pressuna vel fyrstu 10 mínútur leiksins og komust í 5-0. Þá fór leikurinn að jafnast. Í síðari hálfleik tóku gestirnir forystuna og héldu henni til loka og skutu ÍBV út úr úrslitakeppninni. Lokatölur 27-25 fyrir Aftureldingu.
Kolbeinn Aron var aftur bestur Eyjamanna en hann varði 16 skot. Andri Heimir Friðriksson átti einnig góðan leik en hann skoraði sex mörk.
Tvö ár í paradís
Gunnar Magnússon þjálfari karlaliðs ÍBV í handbolta þjálfaði liðið síðastliðin 2 ár og náði árangri með það sem lengi verður í minnum hafður, en er nú á förum frá ÍBV. Guðmundur Tómas Sigfússon, íþróttablaðamaður á Eyjafréttum átti viðtal við hann á síðum blaðsins og er gripið niður í það viðtal hér og segir fyrst frá ástæðum þess að hann kom til Eyja.
„Ég var í landsliðsferð með Erlingi (Richardssyni) í júní 2013. Hann talaði um að ÍBV væri að leita að þjálfara þar sem hann væri á leið erlendis til að þjálfa. Þegar ég kom úr ferðinni ræddum við konan þetta, hún varð strax spennt fyrir því að flytja til Vestmannaeyja. Ég var næstum því búinn að skrifa undir samning við úrvalsdeildarlið Bodø í Noregi þetta sama vor en þegar ÍBV kom upp vorum við strax mjög spennt,“ sagði Gunnar en maður veltir því fyrir sér hvort sami árangur hefði náðst ef Gunnar hefði haldið til Noregs, í stað Vestmannaeyja.
Þá er Gunnar spurður um hvernig hann sjá næstu ár hjá ÍBV.
„Það er svo gott og öflugt fólk á bak við þetta að klúbburinn stendur ekki og fellur með einum manni. Yngri flokka starfið er frábært hér í Eyjum og það er ótrúlegt að ekki stærra bæjarfélag geti státað af jafn góðum árangri. Einnig elur liðið upp marga góða handboltamenn, það eru margir efnilegir að koma upp en það verður gaman að fylgjast með þeim í framtíðinni.“
Og svo er það kveðjustundin: „ Þegar við vorum búin að fara vel yfir stöðuna fannst okkur þetta vera rétti tímapunkturinn á að flytja heim. En að það yrði erfitt að kveðja Vestmannaeyjar. Að sjálfsögðu verður það erfitt. Við höfum átt tvö frábær ár hérna og kynnst svo mörgu góðu fólki. Það er óhætt að segja að við kveðjum Vestmannaeyjar með söknuði. Þetta voru tvö ár í paradís og við erum mjög þakklát fyrir að hafa komið hingað.
Aðstaðan ein sú besta
Jón Gunnlaugur Viggósson tilkynnti fyrir úrslitaeinvígið við Gróttu, að hann hygðist leita á nýjar slóðir í þjálfun. Í viðtali við Eyjafréttir sagði Jón Gunnlaugur: „Stuðningurinn sem yngri flokkarnir fá hér í Eyjum er einhver sá besti sem ég hef kynnst. Það hefur líka komið mér á óvart hversu margir frábærir einstaklingar eru tilbúnir að fórna ófáum klukkutímum í sjálfboðavinnu fyrir klúbbinn.“ Jón Gunnlaugur segir að ákvörðunin að koma til Eyja hafi verið frábær sem og að hafa farið í kvennaþjálfun. „Maður þroskast sem þjálfari á hverju ári, bætir sig og lærir. Það hefur að sjálfsögðu hjálpað mér sem þjálfara að hafa farið í kvennaþjálfun og að hafa komið til Eyja var og er frábær ákvörðun. Aðstaðan einhver sú besta sem þekkist og margir sem sameinast í að ná árangri.“
Eyjablikk endurnýjar samning við ÍBV
ÍBV-íþróttafélag og Eyjablikk hafa endurnýjað samstarfssamning sinn en Eyjablikk hefur verið einn stærsti styrktaraðili yngri flokka ÍBV síðastliðin tvö ár. Fyrri samningur tók gildi í byrjun árs 2013 og rann út í lok árs 2014. Nýr samningur tók gildi í byrjun þessa árs og gildir út árið 2016 og á þeim tíma mun Eyjablikk verða einn aðalstyrktaraðili yngri flokka félagsins. Allir yngri flokkar félagsins verða merktir Eyjablikk á keppnistreyjum eins og undanfarin ár, auk þess sem fatnaður þjálfara mun verða merktur Eyjablikk. Eyjablikk ehf. er blikk og stálsmiðja sem starfar í Eyjum. Eyjablikk sinnir öllum þeim verkum sem tilheyra blikksmíði, járnsmíði og jafnvel líka vélsmíði oft á tíðum.
5. flokkur Íslandsmeistari
Stelpurnar í 5. flokki kvenna eru með langbesta liðið á Íslandi í sínum flokki. Þær unnu öll fimm mótin sem voru í boði á árinu, en ekki nóg með það, því liðið vann hvern og einn einasta leik. Rétt eins og það hafi ekki verið nóg þá vann liðið alla leikina nema tvo með tíu marka mun eða meira. Þetta er ótrúlegur árangur hjá stelpunum sem hafa svo sannarlega hælana þar sem önnur lið komast ekki með tærnar. Á síðasta tímabili urðu stelpurnar einnig Íslandsmeistarar. B-lið stelpnanna er einnig það besta á landinu, í síðasta móti vetrarins komst B-liðið upp í fyrstu deild. Engu öðru B-liði hefur tekist að tryggja sér sæti í efstu deild 5. flokks kvenna. Stelpurnar eru einnig með fyrirmyndarþjálfara en feðgarnir Björn Elíasson og Hilmar Ágúst Björnsson stýra þeim.
Stelpurnar sem urðu Íslandsmeistarar og unnu alla sína leiki í vetur í 1. deild með 148 mörkum í plús eru Andrea Gunnlaugsdóttir - Aníta Björk Valgeirsdóttir - Birta Lóa Styrmisdóttir - Bríet Ómarsdóttir - Clara Sigurðardóttir - Harpa Dögg Gylfadóttir - Linda Björk Brynjarsdóttir - Helga Sigrún Svansdóttir - Mía Rán Guðmundsdóttir - Telma Aðalsteinsdóttir
Svo var það ÍBV2 sem vann 2. deildina og er besta B-lið landsins. Í því liði voru Katrín Bára Elíasdóttir - Helga Stella Jónsdóttir - Helga Sigrún Svansdóttir - Hekla Sól Jóhannsdóttir - Aníta Björk Valgeirsdóttir - Aðalheiður Stella Sæmundsdóttir - Anna Margrét Jónsdóttir - Anika Hera Hannesdóttir - Sigurlaug Sigmundsdóttir og Stefanía Ósk Bjarnadóttir.
Hrafnhildur þjálfar ÍBV stúlkur næsta vetur
Hrafnhildur Skúladóttir, fyrrverandi landsliðskona, mun taka við liðinu á næsta leiktímabili. Ef orðið goðsögn á einhvern tímann við þá fellur Hrafnhildur í þann flokk. Hún er leikjahæsta og markahæsta íslenska landsliðskonan. Hún hefur spilað 170 leiki og skorað í þeim 620 mörk fyrir íslenska landsliðið. Auk þess að eiga frábær ár með landsliðinu hefur Hrafnhildur lyft fjöldamörgum titlum með Valskonum.
Arnar þjálfar ÍBV karla næsta vetur
Gengið hefur verið frá ráðningu Arnars Péturssonar sem næsta þjálfara meistarflokks karla í knattspyrnu. Hann tekur við þjálfun liðsins af Gunnari Magnússyni. Arnar þarf ekki að kynna fyrir stuðningsmönnum ÍBV. Hann lék með ÍBV upp alla yngri flokka og var í liði ÍBV sem vann 2. deild karla 1995. Arnar lék einnig með Stjörnunni, FH og Haukum og varð tvívegis Íslandsmeistari með Haukum, sem fyrirliði, áður hann sneri aftur heim árið 2009 og tók við þjálfun ÍBV sem þá lék í 1. deild. Undir stjórn Arnars og Erlings Richardssonar vann ÍBV 1. deildina 2013 og ásamt Gunnari Magnússyni gerði Arnar ÍBV að Íslandsmeisturum 2014. Á nýliðnu keppnistímabili tók Arnar sér hlé frá þjálfun en snýr nú aftur af fullum krafti.
Lokahóf handboltafólks
Handboltafólk hafði sannarlega tilefni til að fagna á vetrarlokum ÍBV íþróttafélags. Lokahóf meistaraflokka félagsins var haldið á Háaloftinu og voru gestir um 120 talsins. Eftir glæsilegan veislumat var sýnt myndband, þar sem karla- og kvennalið félagsins voru í aðalhlutverkum á gamansaman hátt. Handboltafólkið kann greinilega fleira en kasta bolta.
Árangur félagsins í handbolta á síðasta vetri var með ágætum. Bæði meistaraflokksliðin komust í úrslitakeppnina og var kvennalið félagsins hársbreidd frá því að leika úrslitaleikina. Íris Róbertsdóttir, formaður ÍBV íþróttafélags, sagði í ávarpi sem hún flutti á lokahófinu, að hún væri stolt af árangri vetrarins. Hún sagði að árangur yngri flokkanna hefði líka verið mjög góður. „Þrír titlar í hús; stúlkurnar fæddar 2002 urðu Íslandsmeistarar annað árið í röð og töpuðu ekki leik á Íslandsmótinu. Þær töpuðu heldur ekki leik, þegar þær unnu titilinn í fyrra.
Unglingaflokkur stúlkna varð bikarmeistari og deildarmeistari og átti glæsilegt tímabil. Öll liðin okkar í kvenna- og karlaflokki frá 4. flokki og upp úr komust í og úrslitakeppni.“ Þá sagði Íris að góður árangur meistaraflokka hefði jákvæð áhrif á yngri flokkana. „Þið öll sem keppið og starfið fyrir hönd félagsins eruð fyrirmyndir og þessi góði árangur eykur áhuga á handbolta, það vitum við öll. Vel hefur verið staðið að umgjörð um yngri flokkana og hefur það skilað sér. Við erum mjög vel mönnuð af þjálfurum og starfsfólki og vil ég nota þetta tækifæri og þakka þeim fyrir þennan vetur. En það sem gerir mig jafnvel enn stoltari er líka árangurinn utan vallar. Umgjörðin, stemmningin og allt sem fylgir. Það kostar mikla vinnu og skipulagningu hjá handknattleiksráði að láta hlutina ganga og hjá öllum sjálfboðaliðunum, sem koma svo með og síðast en ekki síst þeim sem keppa fyrir hönd félagsins og hrífa okkur með. Fyrir hönd aðalstjórnar vil ég segja; þið eruð frábær.“
Íris sagði að félag eins og ÍBV íþróttafélag væri stolt okkar bæjarfélags. „Þegar vel gengur erum við glöð og það sást svo sannarlega hvað hægt er að gera með mikilli vinnu, hafandi gleðina og sigurviljann að vopni. Stemmingin og sú jákvæða umfjöllun sem félagið fékk í kringum Bikarhelgina, var ómetanleg fyrir okkur öll, sem störfum í kringum félagið, smitandi gleði var til staðar og það var ekki hægt annað en að hrífast með. Allir voru bikarmeistarar, hvort sem þeir æfa íþróttir eða ekki, við höfðum öll hlutverk. Það er svo mikilvægt. Þegar við vinnum vinnuna og finnum gleðina stöndum við okkur ekki bara best á vellinum, heldur líka í stemmningunni og munum að sigurhefðin er mikilvæg og nauðsynlegur partur af trúnni á verkefnið og framtíðina. Sem er björt“ sagði Íris að lokum.
Viðurkenningar að þessu sinni hlutu:
Meistaraflokkur karla
Besti leikmaðurinn: Magnús Stefánsson.
Efnilegastur: Hákon Daði Styrmisson.
ÍBV-arinn: Grétar Þór Eyþórsson.
Mestu framfarir: Bergvin Haraldsson.
Meistaraflokkur kvenna:
Besti leikmaðurinn: Ester Óskarsdóttir
Efnilegust: Díana Dögg Magnúsdóttir
ÍBV-arinn: Selma Rut Sigurbjörnsdóttir
Mestu framfarir: Kristrún Ósk Hlynsdóttir.
2. flokkur
Mestu framfarir: Magnús Karl Magnússon
Efnilegastur: Svavar Kári Grétarsson
3. flokkur:
Mestu framfarir: Elliði Snær Viðarsson og Erla Jónatansdóttir
Efnilegust: Hákon Daði Styrmisson og Arna Þyrí Ólafsdóttir
Bestur: Nökkvi Dan Elliðason.
Eyjafréttir hafa til margra ára veitt efnilegasta handboltafólkinu viðurkenningar. Að þessu sinni hlutu Dagur Arnarsson og Erla Rós Sigmarsdóttir Fréttabikarana. Þetta unga íþróttafólk er meðal fjölmargra annarra leikmanna ÍBV sem leikið hafa með landsliðum Íslands og verið í fremstu röð. Þrátt fyrir ungan aldur eru þau bæði leikmenn meistaraflokka ÍBV.
Dóra Björk Gunnarsdóttir framkvæmdastjóri félagsins kallaði síðan upp Unni Sigmarsdóttur og veitti henni viðurkenningu, en Unnur hefur þjálfað fyrir félagið í 30 ár og unnið á annan tug titla með félaginu, fleiri en nokkur annar. Þá var Gunnar Magnússon, þjálfari meistaraflokks karla, kvaddur með viðhöfn, en hann heldur nú á nýjar slóðir eftir frábært starf í Eyjum.
Yngri flokkarnir
24 leikja sigurgöngu lokið
:: ÍBV 19:20 Fylkir
Það hlaut að koma að því að einni ótrúlegustu sigurgöngu í sögu ÍBV myndi ljúka. Stelpurnar í 3. flokki kvenna hafa staðið sig ótrúlega vel á tímabilinu en töpuðu fyrir Fylki. Leikurinn var í undanúrslitum Íslandsmótsins og því grátlegt að tapa á þessum tímapunkti. Stelpurnar töpuðu fyrsta leik tímabilsins en unnu síðan 24 leiki í röð. Þær eru því bikarmeistarar og deildarmeistarar. Það verður að teljast frábær árangur og geta stelpurnar verið stoltar af frammistöðu sinni. Margar stelpur eru nú að ganga upp úr 3. flokki og verða annað hvort í meistaraflokki ÍBV á næstu leiktíð, eða í meistaraflokki annars liðs. Einhverjar stelpur eiga þó eftir nokkra leiki með meistaraflokki kvenna sem hefur staðið sig vel undanfarið.
Strákarnir töpuðu illa
:: ÍBV 29:31 HK
Tímabilinu er lokið hjá 3. flokki karla eftir grátlegt tap gegn HK, í undanúrslitum Íslandsmótsins. Fyrir leikinn var búist við hörkuleik þar sem um tvö sterk lið var að ræða. Nokkuð jafnræði var á með liðunum í upphafi en HK virtist alltaf skrefinu á undan. Á 27. mínútu átti sér stað nokkuð ljótt atvik þar sem markverði ÍBV og leikmanni HK lenti saman. Dómari leiksins sá sig knúinn til þess að reka báða leikmenn af velli. Í hálfleik leiddu gestirnir með þremur mörkum. Hægt og bítandi tókst ÍBV að saxa á forskot gestanna og jafna metin að lokum. Þá tók hins vegar við nokkurs konar sirkus hjá dómurum leiksins. Mörg vafaatriði áttu sér stað en oftar en ekki dæmdu dómarar leiksins gestunum í vil. Í síðustu sókn leiksins fékk einn af þjálfurum ÍBV nóg og var rekinn af velli, eftir að hann lét dómarana heyra það. Lokatölur voru 29:31 en litlu sem engu munaði að Eyjamenn næðu að jafna metin, undir lok leiksins. Stuttu eftir leikinn var valinn hópur fyrir landsliðsverkefni hjá U-19 ára landsliði Íslands. Í hópnum er Hákon Daði Styrmisson, leikmaður 3. flokks. Einnig er Nökkvi Dan Elliðason einn af „varamönnum“ hópsins, en hann er til taks þurfi einhver að boða forföll í ferðina. Þeir tveir hafa báðir leikið gríðarlega vel á leiktíðinni með 3. flokki, 2. flokki og meistaraflokki.
4. flokkur kvenna
- eldri sleginn úr leik :: Þór/KA 20:18 ÍBV
Enn einn flokkur ÍBV var sleginn úr leik þegar ÍBV fór fýluferð norður. ÍBV hafði sigrað Selfoss nokkrum dögum fyrr með fimm marka mun 20:15. Fyrir norðan voru Eyjastelpur í stöðugum vandræðum sóknarlega, en fáar glufur var að finna á vörn Þórs/KA. Okkar stelpur voru þremur mörkum undir í hálfleik, en þegar þær fundu glufurnar virtist það vera of seint. Flottu tímabili hjá stelpunum er því lokið en þær geta borið höfuðið hátt eftir flotta frammistöðu á leiktíðinni.
Bónus styrkir ÍBV
Knattspyrnuráð ÍBV íþróttafélags og Bónus hafa undirritað samstarfsamning þar sem Bónus verður aðalstyrktaraðili knattspyrnuliðs karla í Pepsídeild. Samningurinn felur í sér öflugt samstarf þar sem markmiðið er að samningurinn efli starf beggja aðila í Vestmannaeyjum.
Forsvarsmönnum Bónus er vel kunnugt hvað öflugt íþróttalíf í Vestmannaeyjum hefur mikið gildi fyrir samfélagið í Eyjum. Þess vegna er það Bónus mikils virði að geta komið strax að málum og orðið öflugur bakhjarl knattspyrnulífs í Vestmannaeyjum.
Knattspyrnan af stað
Fyrsti leikur meistaraflokks karla í Pepsí-deildinni var gegn Fjölni á Fjölnisvellinum. Nýr þjálfari, Jóhannes Harðarson, Skagamaður sem hefur verið að þjálfa í Noregi undanfarin ár, hefur nú tekið við ÍBV liðinu. Væntingar stuðningsmanna fyrir sumarið eru hófstilltar, að vera um miðja deild í lok mótsins. Í þessum fyrsta leik sumarsins mátti ÍBV þola 0-1 tap, en átti samt þokkalegan leik, en það var þó ekki fyrr en undir leikslok að liðið sýndi hvað það gat, en náði ekki að skora.
Konu- og herrakvöld ÍBV
Konu- og karlakvöld ÍBV var haldið í Höllinni og á Háaloftinu 30. apríl. Kvöldið var liður í fjáröflun fyrir knattspyrnudeild ÍBV og voru fjölmörg fyrirtæki og einstaklingar sem komu að því að gera kvöldið sem glæsilegast.
Logi Bergmann sá um veislustjórn ásamt séra Ólafi Jóhanni Borgþórssyni og tókst þeim frábærlega til. Boðið var upp á girnilegt hlaðborð að hætti Einsa kalda, glæsilegt happadrætti og skemmtiatriði þar sem Sverrir Bergmann, Halldór Fjallabróðir og Ingó veðurguð fóru á kostum. Að lokinni formlegri dagskrá var slegið upp risadansleik sem stóð framundir morgun.
Ölgerðin styrkir ÍBV
Á fyrsta heimaleik ÍBV í fótbolta var skrifað undir nýjan samstarfssamning milli ÍBV íþróttafélags og Ölgerðar Egils Skallagrímssonar. Í tilkynningu frá félaginu segir;„Samstarfið hefur verið langt og farsælt en Ölgerðin hefur verið stærsti styrktaraðili ÍBV íþróttafélags frá 2002.
Samningurinn er til fimm ára og rennur því út í lok árs 2019. Samstarfið lýtur að stærstum hluta að þjóðhátíðinni en þar hefur Ölgerðin verið ráðandi á svæðinu varðandi auglýsingar sem og séð um markaðssetningu og verður lítil breyting þar á.“
Fyrst heimaleikurinn og annar heimaleikurinn
ÍBV tók á móti Stjörnunni í sínum fyrsta heimaleik í 2. umferð Pepsi-deildarinnar. Jóhannes Þór Harðarson gerði eina breytingu á liði ÍBV fyrir leikinn, Gauti Þorvarðarson var í byrjunarliði ÍBV en samtals voru sjö uppaldir leikmenn í byrjunarliðinu sem eru frábærar fréttir fyrir ÍBV og það starf sem unnið er þar.
Stjarnan var sterkari aðilinn ÍBV virtist ekki alveg vera tilbúið og tók smá tíma fyrir liðið að fara í gang. Fyrsta mark leiksins kom á 12. mínútu þegar Jeppe Hansen komst einn inn fyrir vörn ÍBV eftir sendingu frá Karli Finsen. Hansen lék á Guðjón Orra í markinu og setti boltann í netið. Staðan 0:1 í hálfleik fyrir Stjörnuna og það urðu lokatölur leiksins.
1 stig í húsi eftir 5 umferðir
Fylkismenn sigruðu ÍBV með þremur mörkum gegn engu í þriðju umferð Pepsi-deildar karla. Öll mörk Fylkis komu á síðasta korteri leiksins en Eyjamenn brotnuðu algjörlega við fyrsta markið.
Það var svo í fjórðu umferð þegar Leiknismenn komu í heimsókn á Hásteinsvöllinn, að Eyjamenn skoruðu sitt fyrsta mark og fengu fyrsta stigið. Liðið átti flotta spretti í leiknum. ÍBV fékk á sig mark eftir einungis 70 sekúndur eftir mikinn klaufagang í vörninni. Eyjamenn voru þó ekki lengi að jafna og það gerði Víðir Þorvarðarson.
Þegar haldið var svo í Frostaskjólið og leikið við KR var jafntefli 0-0 allt þar til 10 mínútur voru eftir leiknum, að KR skoraði eina mark leiksins. Þá kostaði mislukkað úthlaup Guðjóns Orra stigin. Guðjón Orri Sigurjónsson átti þó góðan leik og bjargaði nokkrum sinnum vel, hann greip vel fyrirgjafir KR-inga en missti einbeitinguna eitt augnablik undir lokin.
Erfið byrjun
Eyjastúlkur sóttu eitt stig á Akureyri en það var Shaneka Gordon nældi í stigið í síðari hálfleik. Leikurinn var sá fyrsti í Pepsi-deild kvenna. Staðan var jöfn í hálfleik en heimakonur tóku forystuna fimm mínútum eftir að flautað var til síðari hálfleiks. Tíu mínútum síðar var einum leikmanni Þórs/KA vísað af velli með sitt annað gula spjald. Eyjakonur voru fljótar að vinna sig inn í leikinn og skoraði markadrottningin Shaneka Gordon jöfnunarmarkið fimm mínútum síðar. Stelpurnar nældu því í stig á Akureyri, en leikið var inni í Boganum, sökum vallaraðstæðna.
Eyjastúlkur voru svo grátlega nálægt því að sækja stig á Selfoss þegar liðið tapaði með einu marki í 2. umferð. Sigurmark Selfoss kom á lokamínútunni en þar var fyrrum leikmaður ÍBV, Hrafnhildur Hauksdóttir, að verki.
Selfoss komst tveimur mörkum yfir, áður en Sigríður Lára Garðarsdóttir og Cloe Lacasse jöfnuðu metin fyrir ÍBV. Mark Selfyssinga á 90. mínútu kom þó í veg fyrir að ÍBV tækist að sækja tvö stig úr fyrstu tveimur leikjunum og lokatölur 2-3 fyrir Selfoss.
Svo komu tveir sigrar
Þegar Þróttur kom í heimsókn í Pepsí-deild kvenna bjuggust flestir við auðveldum sigri stelpnanna okkar. Þróttarar hafa ekki riðið feitum hesti í kvennaboltanum í langan tíma og það breyttist ekki á Hásteinsvelli. ÍBV fékk aragrúa af færum í fyrri hálfleik en það var Kristín Erna Sigurlásdóttir sem kom liðinu yfir. Þrátt fyrir ótal færi og sénsa tókst ÍBV ekki að skora annað mark í leiknum og 1:0 því niðurstaðan. Næst sótti ÍBV Aftureldingu heim. Sterka leikmenn vantaði í lið heimakvenna og bjuggust flestir við sigri ÍBV. Sú varð raunin en leikurinn vannst með þremur mörkum gegn engu. Kristín Erna Sigurlásdóttir skoraði aftur fyrsta markið og staðan því 0:1 í hálfleik. Í síðari hálfleik gengu stelpurnar á lagið en Sabrína Lind Adolfsdóttir skoraði mark með skalla og kom ÍBV í 0:2. Eftirleikurinn var auðveldur og var það Shaneka Gordon sem innsiglaði sigurinn undir lok leiksins úr vítaspyrnu. Stelpurnar eru því með sjö stig í Pepsi-deildinni og sigla lygnan sjó í efri hlutanum.
Yngri flokkarnir
2. fl. karla: ÍBV 1:1 Grótta
3. fl. karla A-lið: ÍBV 1:2 KA
3. fl. karla B-lið: ÍBV 0:4 KA 3. fl. karla C-lið: ÍBV 3:6 KA
4. fl. kvenna A-lið: ÍBV 2:2 Fylkir
5. fl. karla C-lið: ÍBV 2:5 Fram2
5. fl. karla D-lið: ÍBV 4:6 Fram2
5. fl. kv. A-lið: Víkingur 9:0 ÍBV
5. fl. kv. B-lið: Víkingur 1:1 ÍBV
5. fl. kv. C-lið: Víkingur 1:3 ÍBV
Fyrsti sigurinn
Eyjamenn unnu sinn fyrsta leik í Pepsi-deild karla þegar Víkingar komu í heimsókn. Tuttugu mínútna kafli í fyrri hálfleik skóp sigur Eyjamanna en þar skoruðu strákarnir okkar þrjú mörk.
Fyrsta markið kom upp úr hornspyrnu sem kom eftir að Jonathan Glenn klikkaði á vítaspyrnu. Víkingar höfðu legið í sókn fyrstu mínúturnar en ÍBV tók leikinn yfir eftir markið. Hafsteinn Briem skoraði fyrsta markið með þrumuskoti af stuttu færi. Aron Bjarnason fylgdi fyrrum Framaranum eftir og skoraði með þrumuskoti af 25 metrum. Skotið hafði þó viðkomu í einum varnarmanni Víkinga en markvörður þeirra átti ekki séns. Þótt ótrúlegt megi virðast skoruðu Eyjamenn þriðja markið stuttu seinna, liðið því búið að skora fleiri mörk á korteri en í fyrstu fimm leikjum mótsins.
Eimskip styrkir ÍBV
ÍBV íþróttafélag og Eimskip skrifuðu undir nýjan styrktar- og samstarfssamning til tveggja ára á heimaleik ÍBV gegn Víkingum í meistaraflokki karla. Samningurinn snýr að farþegaflutningum Herjólfs sem rekinn er af Eimskip, fyrir leikmenn, liðstjóra og þjálfara deilda ÍBV og mun samningur þessi því létta mikið undir rekstri félagsins. Markmið Eimskips er að styðja við kröftugt starf ÍBV í mótun ungra iðkenda og létta þannig undir með ÍBV að skila öflugri uppbyggingu í íþróttastarfi og sinna uppeldishlutverki sínu í Vestmannaeyjum. Merki Eimskips verður á keppnisbúningum meistaraflokks félagsins í kvenna- og karlaknattspyrnu eins og verið hefur undanfarin ár og einnig verður félagið áberandi í öllu starfi ÍBV. Það góða samstarf sem verið hefur á undanförnum árum í kringum viðburði ÍBV verður áfram sem hingað til og mun ÍBV leggja sig fram um að auka þetta samstarf enn frekar til hagsbóta fyrir ÍBV, Eimskip og Herjólf. Gylfi Sigfússon og Íris Róbertsdóttir skrifuðu undir samninginn.
=== Bæði liðin áfram í Borgunarbikarnum === Stelpurnar okkar í meistaraflokki kvenna unnu frábæran sigur á einu besta liði 1. deildar HK/Víkingi 6-0. Karlaliðið sigraði Létti léttilega í 32.liða úrslitunum, 0-6. Ungur strákur í liði ÍBV Richard Sæþór Sigurðsson skoraði 2 markanna.
Slakt
Eyjamenn sátu í tíunda sæti deildarinnar fyrir leikinn gegn Keflvíkingum sem vermdu botnsætið, leikið var í Keflavík. Skemmst er frá því að segja að Keflvíkingar unnu sinn fyrsta sigur 3:1 en þeir voru sterkari aðilinn allan leikinn.
TM mótið
TM-mótið í Eyjum fór fram um miðjan júní en þar koma saman lið úr fimmta flokki kvenna og keppa sín á milli um níu bikara. Á fimmtudeginum voru spilaðir þrír leikir en liðunum var síðan raðað í riðla eftir úrslitum þessa dags. Á föstudeginum var svipað uppi á teningnum, þau lið sem unnu sína leiki voru færð upp um styrkleikaflokk og þau lið sem töpuðu voru færð niður. Þá voru enn öll liðin í séns á því að vinna bikar þegar á laugardaginn var komið. Á laugardeginum var síðan spilað hratt, leikirnir voru styttir úr 2x15 mínútum niður í 2x12 mínútur. Um morguninn voru spilaðir þrír leikir en þeir skáru úr um það hvort liðin áttu möguleika á að komast í úrslitin eftir hádegi. Þá voru spilaðir átta úrslitaleikir á átta völlum og síðast en ekki síst var aðalleikurinn. Þar áttust við tvö bestu lið mótsins, Fylkir og Stjarnan. Liðin höfðu áður mæst í Íslandsmótinu en þá rúllaði Stjarnan yfir Fylki. Það sama varð uppi á teningnum í þessum leik en þær bláklæddu réðu lögum og lofum á vellinum og þegar upp var staðið sigruðu þær með fjórum mörkum gegn engu.
Á kvöldskemmtuninni fór fram leikur milli landsliðs og pressuliðs en öll lið höfðu fengið einn fulltrúa í öðru hvoru liði. Breiðablik og ÍBV fengu þó tvo fulltrúa þar sem Blikar voru með flest liðin á mótinu og skapast hefur hefð fyrir því að ÍBV fái að senda tvo leikmenn, sökum þess að ÍBV og KFR senda saman lið til leiks. Landsliðið hafði betur í leiknum og sigraði 2-0. Í landsliðinu var Birta Sigurborg Úlfarsdóttir frá ÍBV/KFR en hún hafði leikið gríðarlega vel á mótinu. Í pressuliðinu var síðan Birta Líf Agnarsdóttir frá ÍBV en hún stóð sig einnig gríðarlega vel á mótinu, sem og í landsleiknum. Þórhildur Þórhallsdóttir, frá Víkingi og Karen Guðmundsdóttir frá Val skoruðu mörk landsleiksins.
ÍBV liðunum gekk mjög vel á mótinu en allir krakkarnir voru sínu félagi og foreldrum til sóma. ÍBV sendi fjögur stúlknalið til leiks og tvö strákalið sem léku sem gestalið. Gestaliðin fengu skráð tap í öllum leikjum sínum í mótinu þó svo að flestir þeirra hafi unnist. A-liði ÍBV gekk gríðarlega vel í mótinu en þær töpuðu úrslitaleik um næststærsta bikarinn í mótinu gegn Breiðabliki. ÍBV komst yfir í leiknum en í síðari hálfleik reyndust Blikar sterkari og sigruðu að lokum 2-1. Hér að neðan má sjá nöfn allra bikaranna og sigurvegara þeirra. Lið ÍBV voru að mestu byggð á þeim stelpum sem voru í 6. flokki í fyrra en þar tókst stelpunum að verða Íslandsmeistarar. TM-móts bikarinn: Stjarnan 1 Huginsbikarinn: Breiðablik 1 Ísleifsbikarinn: Breiðablik 2 Bergsbikarinn: Stjarnan 2 Glófaxabikarinn: Höttur 1 Dala-Rafnsbikarinn: RKV 1 Gullbergsbikarinn: Haukar 3 Drangavíkurbikarinn: FH 3 Stígandabikarinn: Þór Akureyri 3 Þá var Anna Kolbrún Ólafsdóttir, leikmaður Fylkis, valin efnilegasti leikmaður mótsins af þjálfurum annarra liða. Mjótt var á munum í kosningunni og stóð valið á milli þriggja leikmanna. Að lokum sigraði Anna Kolbrún í kosningunni og átti það svo sannarlega skilið. Afturelding/Fram var þá kosið prúðasta lið mótsins.
(Eyjafréttir greindu frá)
Létt hjá ÍBVstelpum
Eyjakonur áttu ekki í neinum einustu vandræðum með afleitar KR-stelpur á Hásteinsvellinum. Markvörður KR var meiddur og því er útispilari í markinu hjá þeim. Þetta nýttu stelpurnar sér og létu oftar en ekki vaða á markið. Fyrsta markið kom eftir ellefu mínútna leik en þá fylgdu nokkur önnur í kjölfarið. Áður en maður vissi af var staðan orðin 4:0 ÍBV í vil og ekki nema 30 mínútur komnar á klukkuna. Þær Kristín Erna Sigurlásdóttir og Þórhildur Ólafsdóttir voru fyrstar að koma boltanum yfir línuna en Sigríður Lára Garðarsdóttir bætti við næstu tveimur mörkum. Síðara mark Sigríðar var einkar glæsilegt en hún valsaði framhjá nokkrum KR-ingum áður en hún skaut föstu skoti á nærhornið og boltinn söng í netinu.
Díana Dögg Magnúsdóttir jók forskotið, hún átti bylmingsskot með hægri fæti sem söng í netinu. Kristín Erna Sigurlásdóttir bætti síðan við öðru marki sínu í leiknum þegar innan við tíu mínútur voru til leiksloka. Kristín er því komin með fjögur mörk í fimm leikjum og er aðeins einu marki frá efstu konum á markalistanum.
Mættu ofjörlum
FH-ingar sóttu þrjú stig til Vestmannaeyja í 8. umferð Olísdeildar karla. Áttu ekki í miklum vandræðum með það þegar upp var staðið. Lokatölur urðu 4:1 fyrir stórveldið úr Hafnarfirðinum, úrslitin gefa ekki endilega rétta mynd af leiknum en ÍBV var vel inni í leiknum alveg þangað til á síðustu metrunum.
Lærisveinar Gregg Ryders
Eyjamenn voru fyrstir til að leggja lærisveina Gregg Ryders að velli en það gerðu Eyjamenn í bikarnum. ÍBV spilaði frábærlega og uppskar mark í sitt hvorum hálfleiknum. Fyrra markið skoraði Jonathan Glenn af stuttu færi en Víðir Þorvarðarson gerði það seinna. Þróttarar fengu varla færi í leiknum og þá er mikið sagt.
Jafntefli við Val
Í ágætlega spiluðum leik gerðu Valur og ÍBV jafntefli 1-1 í Pepsí-deild karla. Jonathan Glenn skoraði mark ÍBV úr vítaspyrnu.
Flottur sigur gegn Fylki
ÍBV stúlkum hefur gengið ágætlega í Pepsí-deildinni.Sigruðu Fylki á Fylkisvellinum 1-4 og sem stendur í 3ja sæti með 13. stig. Liðið spilaði gríðarlega vel í fyrri hálfleik en uppskar þó ekki mark fyrr en á 33. mínútu. Þar var Kristín Erna Sigurlásdóttir að verki en hún skoraði af stuttu færi. Mörkin áttu síðan eftir að koma á færibandi á næstu mínútum. Shaneka Gordon bætti við tveimur mörkum á 41. mínútu og þeirri 45. Cloe Lacasse lét sig ekki vanta í hóp markaskorara því hún skoraði fjórða mark ÍBV stuttu eftir Shaneka hafði skorað seinna mark sitt. Það var því einungis formsatriði fyrir ÍBV að klára leikinn en úrslitin voru eiginlega ráðin eftir 45 mínútur.
Tryggvi lét af störfum fyrirvaralaust
Tryggvi Guðmundsson, lét af störfum sem aðstoðarþjálfari ÍBV í endaðan júlí. Hann var ekkert að fegra sinn hlut sinn í málinu. Tryggvi mætti undir áhrifum áfengis á æfingu og þá sem aðalþjálfari í forföllum Jóhannesar Harðarsonar yfirþjálfara. Í kjölfarið varð að samkomulagi milli hans og knattspyrnuráðs ÍBV að hann hætti. Voru það Ingi Sigurðsson og Andri Ólafsson sem stýrðu liðinu til sigurs gegn Breiðabliki í síðasta leik.
Í fjölmiðlum hefur Tryggvi engum kennt um nema sjálfum sér, hann og enginn annar hafi komið sér í þessa stöðu. Segist hafa fengið sér nokkra kalda fyrir æfingu og hélt að hann kæmist upp með það. „Það þýðir ekkert að grafa hausinn í sandinn. Maður verður að horfast í augu við staðreyndir og nú er bara að setja tappann í flöskuna,“ sagði Tryggvi við Eyjafréttir í gær. „Maður verður að átta sig á því hvað maður hefur gert og hvað þetta eru stór mistök. Það er kominn tími á að gera eitthvað í málinu og sá tími var auðvitað kominn fyrir löngu.“ Tryggvi segist ætla að taka því rólega næstu vikur og njóta þess að vera með börnunum sínum hér í Eyjum. „Nýta tímann til að rækta sjálfan mig og taka mér tak. Auðvitað brást ég ekki bara sjálfum mér heldur líka öllum sem eru í kringum mig. Kærustunni, börnunum, liðinu, þjálfarateyminu og þeim sem treystu mér þegar ég var ráðinn.
Orkumótið
Orkumótið fór fram síðustu helgina í júní. Þá spiluðu tæplega þúsund strákar fótbolta frá fimmtudegi til laugardags. Framkvæmd mótsins og umgjörð stóðst væntingar að venju en vindurinn var óvenju orkumikill á Orkumótinu. Strákarnir létu það ekki á sig fá og léku sinn fótbolta þar sem gleðin var í fyrirrúmi.
Strákarnir eru í 6. flokki og leyndu hæfileikarnir sér ekki þar sem mörg glæsimörkin voru skoruð, framtíðin er svo sannarlega björt. Leikið er í riðlakeppni þar sem ný keppni hefst á hverjum degi, liðunum er raðað í styrkleikaflokka eftir getu og færast þau annaðhvort upp eða niður um flokk eftir úrslit hvers dags. Öll lið eiga því séns á laugardeginum þegar hafist er handa að spila um bikarana þrettán sem í boði eru. Breiðablik vann Orkumótið í ár en þeir spiluðu gegn FH, lokatölur leiksins voru 2-1.
ÍBV tefldi fram sex liðum á mótinu. Tvö þeirra stigu á verðlaunapall, ÍBV 1 lenti í 2. sæti um Bjarnareyjarbikarinn en Stjarnan stóð uppi sem sigurvegari eftir að hafa unnið úrslitaleikinn 2-1. ÍBV 2 hampaði Álseyjarbikarnum en þeir mættu Fylki í úrslitaleiknum. Leikurinn endaði með 1-1 jafntefli en ÍBV hlaut bikarinn í ár vegna þess að þeir skoruðu á undan Fylki í leiknum. Veðrið lét finna fyrir sér Keppendur mættu til Eyja í blíðu á miðvikudaginn. Kári fór þó fljótlega að blása og var allhvasst frá fimmtudegi og fram að lokum móts. Strákarnir létu þó veðrið ekkert á sig fá og spiluðu alla sína leiki og lögðu sig alla fram.
Eitthvað var um að fólk þurfti að leita sér skjóls en allt blessaðist að lokum og fóru allir sáttir heim að loknu frábæru Orkumóti.
Verðlaunahafar
Orkumótsbikarinn Breiðablik-1
Elliðaeyjarbikarinn Afturelding-1
Bjarnareyjarbikarinn Stjarnan-1
Heimaeyjarbikarinn KA-1
Helgafellsbikarinn Höttur-1
Stórhöfðabikarinn Víkingur-2
Suðureyjarbikarinn Breiðablik-4
Álseyjarbikarinn ÍBV-2
Surtseyjarbikarinn Stjarnan-4
Heimaklettsbikarinn FH-4
Ystaklettsbikarinn Grindavík-2
Eldfellsbikarinn Grótta-3
Helliseyjarbikarinn Víkingur-3
Prúðustu liðin;
Sindri/Neisti, Þróttur Rvk
Háttvísi KSÍ; Grótta
Boðhlaup; Afturelding
Í Orkumótsliðið voru þeir valdir; Ágúst Orri Þorsteinsson, Breiðablik Amin Cosic, HK Arnar Daði Jóhannsson, Afturelding Arnar Smári Arnarson, Breiðablik Árni Dagur Sveinsson, Fram Ásgeir Galdur Guðmundsson, ÍBV Benedikt Máni Guðmundsson, Stjarnan Dagur Óli Grétarsson, FH Daníel Breki, ÍA Hlynur Þórhallsson, Þróttur R Jóhannes Kristinn, KR Viktor Ernir, Víkingur.
Dramatík í aðdraganda sigurleiks
Gríðarleg dramatík var fyrir leik ÍBV gegn Breiðabliki í Pepsi-deild karla. Rétt fyrir leik komu í ljós veikindi í fjölskyldu Jóhannesar Þórs Harðarsonar, þjálfara ÍBV, sem leiddu til þess að hann tók sér tímabundið frí frá þjálfun. Jóhannes hélt til Noregs og skildi Tryggva Guðmundsson, aðstoðarþjálfara liðsins og Inga Sigurðsson eftir með liðið. Á síðustu æfingu kom upp leiðindaatvik þegar Tryggvi mætti á æfingu degi fyrir leik undir áhrifum áfengis. Þá var strax ákveðið af hálfu ÍBV að um brot á samningi væri að ræða. Tryggvi viðurkenndi brotið strax og var málið því útkljáð í miklu bróðerni, að sögn Tryggva. Ingi Sigurðsson, gömul knattspyrnuhetja hér í Eyjum, stýrði því liðinu í leiknum gegn Blikum. Aðstoðarmaður Inga í leiknum var fyrirliði ÍBV, Andri Ólafsson, sem glímir við meiðsli þessa dagana. Degi eftir leik, sendi ÍBV út tilkynningu en þar kom fram að Tryggvi hefði verið rekinn frá félaginu.
Eyjamenn urðu fyrstir til að leggja Blika í Pepsi-deild karla þegar liðið vann öruggan tveggja marka sigur á Hásteinsvelli. Leikurinn var klárlega sá besti sem liðið hefur spilað á tímabilinu en sterkt lið Blika komst hvorki lönd né strönd í leiknum. ÍBV kláraði leikinn á tveggja mínútna kafla í seinni hálfleik með mörkum frá Jonathan Glenn og Víði Þorvarðarsyni.
ÍBV er nú í næstneðsta sæti Pepsídeildarinnar með 8 stig.
50 nemendur í Íþróttaakademíunni
Skýrsla Íþróttaakademíu Grunnskóla Vestmannaeyja og ÍBV fyrir skólaárið 2014-2015 var lögð fram til kynningar í fræðsluráði. Í skýrslunni kom fram að 50 nemendur í níunda og tíunda bekk hafi verið skráðir í íþróttaakademíuna í vetur, 27 drengir og 23 stúlkur, sem eru rúmlega 40% nemenda í þessum árgöngum. Nú eru hins vegar skráðir 45 nemendur sem er um 42% af heildar nemenda fjölda í sömu bekkjum fyrir veturinn 2015 til 2016. Í skýrslunni kom einnig fram að samstarf GRV og ÍBV hafi gengið mjög vel og að kennarar finni fyrir auknum metnaði í námi, ástundun og aga.
Nemendur akademíunnar hafi skilað góðum námsárangri og séu til fyrirmyndar. Fræðsluráð þakkar góða skýrslu og þakkar bæði GRV og ÍBV fyrir það góða starf sem unnið er í Íþróttaakademíunni.
Stelpurnar úr leik í Borgunarbikarnum
Eyjastúlkur máttu lúta í lægra haldi fyrir liði Selfoss í undanúrslitum Borgunarbikarsins, 1-3, eftir framlengdan leik og vítaspyrnukeppni.
Strákarnir halda hinsvegar áfram
ÍBV tryggði sér farseðilinn í undanúrslit Borgunarbikarsins þegar liðið sigraði Fylki með fjórum mörkum gegn engu á Hásteinsvelli. Leikurinn var sá besti sem liðið hefur sýnt í sumar og jafnframt sá besti sem liðið hefur spilað í nokkur ár. Fylkismönnum tókst ekki að ógna marki Eyjamanna í leiknum og nýttu hvítklæddir öll sín færi. Gunnar Þorsteinsson, Ian Jeffs og Bjarni Gunnarsson skoruðu mörk ÍBV, Bjarni reyndar með 2 mörk.
Tap á Skaganum
Jóhannes Þór Harðarson, þjálfari ÍBV sneri til baka eftir langa fjarveru og stýrði liðinu í leiknum gegn ÍA, sem leikinn var á Akranesi í 11. umferð Pepsídeildarinnar, Ingi Sigurðsson fékk því smáhvíld frá því hlutverki. Þjálfaraskiptin virtust ekki hafa nein áhrif á liðið en Víðir Þorvarðarson kom ÍBV yfir snemma leiks með skalla af stuttu færi. ÍA skoraði hinsvegar 3 mörk áður en leikurinn var úti og stóðu því uppi sem sigurvegarar.
3. flokkur á sigurbraut
Strákarnir í 3. flokki karla eru annað árið í röð komnir í undanúrslit bikarkeppninnar. Á síðustu leiktíð féll liðið úr leik gegn ógnarsterku liði KR í undanúrslitunum en í ár ætla þeir lengra. Nú þegar hafa strákarnir sigrað Valsmenn, Skagamenn og svo Grindvíkinga.
Í fyrstu umferð sigraði liðið Valsmenn 3:1 en þar lenti liðið undir eftir 23. mínútna leik. Guðlaugur Gísli Guðmundsson og Eyþór Daði Kjartansson sáu til þess að liðið var einu marki yfir í hálfleik. Kristófer Númason bætti síðan við þriðja markinu og þar með síðasta naglanum í kistu Valsara í síðari hálfleik. Liðið spilaði síðan við ÍA á Hvolsvelli. Skemmst er frá því að segja að ÍA var engin fyrirstaða fyrir liðið. Þrír sem bera nafnið Daníel voru í byrjunarliðinu í leiknum. Daníel Már Sigmarsson skoraði fyrstu tvö mörkin á 17. og 19. mínútu en nafni hans Daníel Örn Griffin bætti við tveimur mörkum á 21. og 47. mínútu. Skagamenn klóruðu í bakkann áður en Daníel Andri Pálsson skoraði lokamarkið á 77. mínútu.
Sætið í átta liða úrslitum var þar með tryggt. Þá þurfti liðið að fara alla leið til Grindavíkur, þar spilaði liðið vel og sigraði 3:1. Enn héldu menn með nafnið Daníel áfram að skora en Daníel Griffin kom ÍBV yfir í fyrri hálfleik. Daníel Már Sigmarsson skoraði tvö mörk í síðari hálfleik og sætið í undanúrslitum því tryggt.
Tap og sigur
Breiðablik sótti öll stigin til Eyja í miklum rokleik þar sem lokatölur voru 4:0 í 10. umferð Pepsídeildarinnar. Eyjastelpur virtust aldrei byrja leikinn áttu eiginlega aldrei séns. Þær snéru hinsvegar blaðinu við þegar þeir sigruðu lið Þórs/KA með þremur mörkum gegn engu.
Engir bekkjabílar á þjóðhátíð
Margir eru ósáttir við þá ákvörðun að akstur bekkjabíla skuli aflagður á þjóðhátíð og hrundið var af stað undirskrifasöfnun gegn þessari ákvörðun. Er einhver möguleiki að þessari ákvörðun verði snúið við, þar sem mikil þrýstingur er á svo verði gert? Hörður Orri Grettisson í Þjóðhátíðarnefnd var spurður þessarar spurningar í Eyjafréttum. „Hvort þessari ákvörðun verður snúið við eða ekki, er ekki í okkar höndum. Embætti lögreglustjóra lagði á það ríka áherslu að farþegum verði aðeins ekið á til þess gerðum ökutækjum yfir þjóðhátíðina 2015.“
Mini þjóðhátíð á Grandanum
Þjóðhátíðartjald með öllu tilheyrandi var sett upp á veitingastaðnum Bergsson RE í húsi Sjávarklasans á Grandagarði 16 í Reykjavík. Í tjaldinu var boðið upp á veitingar í anda þjóðhátíðar og reynt að fanga hina sönnu þjóðhátíðarstemningu sem myndast ár hvert í hvítum tjöldum heimamanna. Með þessu vildu fyrirtæki í Húsi sjávarklasans og Bergsson RE kynna hefðir þjóðhátíðar fyrir höfuðborgarbúum. Þjóðhátíðarnefnd ÍBV kynnti dagskrá hátíðarinnar og tjaldið var þá formlega opnað. Hreimur Heimisson tók lagið af því tilefni en hann mun koma fram á hátíðinni með hljómsveit sinni Land og synir.
„Það er frábært að hafa þetta litla útibú hér á Reykjavíkursvæðinu og lofa þeim sem hafa ekki upplifað þessa stemningu að fá smjörþefinn,“ segir Dóra Björk Gunnarsdóttir framkvæmdastjóri ÍBV.
Þrjú töp í röð gegn Selfossi
Selfoss vann góðan sigur á Eyjakonum í Pepsi-deild. Leiknum lauk með tveggja marka sigri gestanna sem skoruðu í báðum hálfleikjum. Þetta er þriðji leikurinn sem Selfoss vinnur á móti ÍBV á tímabilinu.
Tveir nýir leikmenn og Ingi við stjórnvölinn
Ingi Sigurðsson var aftur kominn í þjálfaragallann og stýrði ÍBV til fjögurra marka sigurs gegn Fjölni á Hásteinsvelli. Jóhannes Harðarson þurfti að fara aftur til Noregs af persónulegum ástæðum. ÍBV-liðið hefur nú unnið alla þá leiki sem Ingi hefur stjórnað, en það er frábært afrek hjá Inga og markatalan er 0:10.
Sigurinn var aldrei í hættu eftir frábæra byrjun ÍBV. Tveir nýir leikmenn komu inn í félagaskiptaglugganum til ÍBV, Gunnar Heiðar Þorvaldsson og Jose „Sito“ Enrique. Sito var mjög spenntur að opna markareikninginn og þurfti ekki að bíða lengi. Hann potaði inn fyrirgjöf Arons Bjarnasonar eftir rúmlega hundrað sekúndna leik. Það var því ljóst frá byrjun hversu góður Sito er. Eyjamenn mættu til leiks en það er mun meira en Fjölnismenn geta sagt, þeir létu aldrei sjá sig inni á vellinum. Hafsteinn Briem tvöfaldaði forystuna með frábæru viðstöðulausu skoti eftir þrettán mínútna leik. Ian Jeffs tók þá aukaspyrnu sem rataði beint á vinstri fótinn á Hafsteini. Besta sókn Eyjamanna í leiknum kom stuttu seinna en þá fékk Gunnar Heiðar boltann á miðjum vallarhelmingi Fjölnis, hann lék boltanum áfram og kom honum á Aron Bjarnason. Aron lék boltann áfram og kom honum á fjærstöngina, þar lúrði Sito eins og gammur en hann hitti boltann mjög vel. Annað markið í röð sem var skorað með viðstöðulausu vinstri fótar skoti í nærhornið. Sito átti því frábæra byrjun.
En Eyjamenn voru ekki hættir. Gunnar Heiðar Þorvaldsson nældi í vítaspyrnu í síðari hálfleik sem hann fékk að taka sjálfur, Gunnar gerði engin mistök á punktinum þó svo að hann hafi þurft að tvítaka spyrnuna. Fjölnismenn gátu ekki annað en beðið eftir lokaflautinu sem kom svo loksins, lokatölur 4:0 en staðan hefði getað verið verri fyrir gestina, sem gátu ekkert. Frábær byrjun nýju leikmannanna hjá ÍBV og loksins er maður orðinn spenntur fyrir næsta leik, það verður hausverkur fyrir þjálfara ÍBV að ákveða hver skal byrja næsta leik þegar liðið er með fjóra framherja í fanta formi. ÍBV er nú í 10. sætinu en þó aðeins sex stigum frá því fimmta.
Gunnar Heiðar Þorvaldsson þarf ekki að kynna fyrir neinum Eyjamanni, hann átti frábær tímabil hér rétt eftir aldamótin með ÍBV. Hann fór til Svíþjóðar árið 2004 og hefur verið í atvinnumennsku síðan. Nú er hann snúinn heim og ætlar að hjálpa ÍBV í baráttunni í Pepsideildinni sem og í Borgunarbikarnum. Gunnar var ekki lengi að ákveða hvaða lið hann ætlaði að fara í þegar ljóst var að hann væri á leið til Íslands.
Ásmundur tekur við ÍBV liðinu af Jóhannesi
Ásmundur Arnarsson, fyrrum þjálfari Fylkis í Pepsi-deild karla, hefur tekið við ÍBV. Samningur Ásmundar við knattspyrnudeild ÍBV gildir til loka tímabils en þá verður tekin ákvörðun um það hvort framlengja eigi við hann. Jóhannes Harðarson sagði þjálfarastarfi sínu upp af persónulegum ástæðum.
2. flokkur kominn á mikið skrið
Eftir brösuglega byrjun hjá strákunum í 2. flokki þetta árið hafa þeir komist á beinu brautina. Botninum var náð þegar liðið tapaði sannfærandi 4:2 gegn Selfyssingum í júní. Eftir það hafa strákarnir spilað fjóra leiki og hafa unnið þá alla. Liðið hefur einungis fengið á sig tvö mörk á þeim tíma en bæði þeirra komu úr vítum. Fyrsti sigurleikurinn kom gegn HK-ingum í lok júní. Þá skoraði Erik Ragnar Gíslason mark eftir um tuttugu mínútna leik. Erik býr í Mexíkó en á íslenska foreldra og dvelur hér á sumrin. Hann hefur átt mjög gott tímabil en hann skorar eða leggur upp nánast í hverjum einasta leik.
Sigurður Grétar Benónýsson skoraði síðan tvö mörk með stuttu millibili og gerði út um leikinn. HK-ingum tókst að klóra í bakkann þegar Sveinn Aron Guðjohnsen, sonur Eiðs Smára Guðjohnsen, skoraði fyrir HK úr vítaspyrnu. Næsti leikur var gegn Þrótturum sem höfðu átt sína bestu spretti í síðustu tveimur leikjum. Þróttarar sáu þó aldrei til sólar í leiknum. Richard Sæþór Sigurðsson, er Eyjamaður en kom til liðs við ÍBV frá Selfossi fyrir tímabilið. Hann hefur reynst liðinu vel en hann skoraði fyrstu tvö mörk leiksins, það fyrra var stórglæsilegt. Staðan var því 0:2 í hálfleik og útlitið ekki gott fyrir Þróttara. Breki Ómarsson nýtti fyrsta færi síðari hálfleiks og kom ÍBV í 0:3 áður en Hallgrímur Heimisson skoraði fjórða og síðasta mark leiksins. Elliði Snær Viðarsson, markvörður ÍBV, gerði sér lítið fyrir og varði vítaspyrnu í stöðunni 0:3 en hann hefur verið öflugur í síðustu leikjum.
Valsmenn voru næstu andstæðingar en nokkrum dögum áður höfðu þeir náð jafntefli við taplausa Fjölnismenn sem voru á toppi deildarinnar. ÍBV byrjaði leikinn betur en Valsmenn áttu aldrei séns. Richard skoraði stórglæsilegt mark eftir tólf mínútna leik þegar hann tók boltann á lofti og skilaði honum snyrtilega í fjærhornið. Devon Már Griffin fylgdi síðan eftir sterkum skalla frá Richard rétt undir lok fyrri hálfleiks og staðan því orðin 2:0. Síðari hálfleikurinn var lítið sem ekkert fyrir augað en ÍBV sigldi þó tveggja marka sigri í höfn. Þá var komið að síðasta leiknum í þessari leikjahrinu fyrir þjóðhátíð en þar biðu Þórsarar. Þórsarar höfðu deginum áður rústað liði Aftureldingar með fimm mörkum gegn engu. Margir leikmenn ÍBV í leiknum höfðu einnig spilað leik degi áður uppi á Skaga með KFS gegn Kára. ÍBV hélt áfram að byrja leikina frábærlega en Erik Ragnar Gíslason
skoraði fyrsta mark leiksins eftir góðan einleik við teig Þórsara. Sex mínútum síðar á 20. mínútu skoraði Hallgrímur Heimisson fallegt mark eftir sendingu frá Felix Erni Friðrikssyni frá kantinum. Hallgrímur Þórðarson skoraði næsta mark með góða skoti úr teignum eftir sendingu utan af kanti á 37. mínútu en Þórsarar virtust vera þreyttir eftir leikinn daginn áður. Þeim tókst þó að klóra í bakkann af vítapunktinum á 64. mínútu leiksins en nær komust þeir ekki. ÍBV-strákar eru þá í 6. sæti deildarinnar en eiga marga leiki inni á liðin í kringum sig. Takist þeim að vinna þá leiki sem þeir eiga inni fara þeir alla leið upp í þriðja sæti deildarinnar. Sigurður Grétar Benónýsson og Richard Sæþór Sigurðsson hafa verið atkvæðamestir í liðinu en Sigurður er með fjögur mörk og Richard fimm.
Sáu aldrei til sólar
Eyjamenn sáu aldrei til sólar gegn sterkum Stjörnumönnum í Garðabænum. Stjörnumenn sigruðu með þremur mörkum gegn engu en þetta var fyrsti leikur Ásmundar Arnarssonar með ÍBV.
Naumur sigur gegn Þrótti
ÍBV stelpurnar í meistaraflokki kvenna unnu nauman sigur á þriðjudegi fyrir Þjóðhátíð gegn Þrótturum sem eru í fallsæti. Leikurinn endað 3-2. ÍBV er í 6. sæti deildarinnar að tólf umferðum loknum en einungis tvö stig eru upp í þriðja sætið.
Bikardraumurinn úti, ÍBV sá aldrei til sólar
Bikardraumur Eyjamanna er úti í Borgunarbikar karla þetta sumarið. Mjög erfitt verkefni beið liðsins sem sótti KR-inga heim í Frostaskjólið á fimmtudeginum fyrir Þjóðhátíð. Skemmst er frá því að segja að KR-ingar skelltu Eyjamönnum með fjórum mörkum gegn einu. Eyjamenn fjölmenntu á pallana og löngu fyrir leik voru margir Eyjamenn komnir í stúkuna
Þjóðhátíðin með þeim stærstu
„Ég gæti trúað að við höfum flutt á bilinu 9.000 til 10.000 þjóðhátíðargesti í ár, gekk allt að óskum og farþegar til fyrirmyndar,“ sagði Gunnlaugur Grettisson, rekstrarstjóri Herjólfs. „Það er komin mikil reynsla á flutninga í kringum þjóðhátíð og auk frábærrar áhafnar eru lögregla og gæslufólk með okkur í þessu. Við fögnum því líka að Herjólfur hefur aldrei flutt fleiri farþega en í júlí, alls 74.036 farþega á móti 59.808 í fyrra sem er um 24 % fjölgun.“
Það eru fleiri en Herjólfur sem flytja fólk á og af þjóðhátíð og sagði Hannes Kristinn Sigurðsson, starfsmaður hjá Flugfélaginu Erni að vel hafi gengið að koma fólki frá Eyjum með flugi á mánudaginn. „Ernir flutti um 250 farþega í 13 ferðum. Svo var Flugfélag Íslands líka að fljúga og fluttu þeir um 300 farþega í sjö ferðum. Allt gekk ljómandi vel og voru farþegar alveg til fyrirmyndar“ segir Hannes. Alfreð Alfreðsson hjá Viking Tours hefur sömu sögu að segja af farþegum Viking Tours. „Allir voru hressir og þetta gekk bara frábærlega. Við fluttum um 1000 manns í 11 til 12 ferðum en allar ferðir hjá okkur þann daginn voru fullar,“ segir Alfreð. Gera má ráð fyrir að um 2.500 Eyjamenn hafi síðan bæst við þá sem sóttu hátíðina ofan af fastalandinu og hafi þá um 12.500 verið á Þjóðhátíð þegar flest var á sunnudeginum.
Í ár voru nýjungar á skipulagi aðkomunnar að Dalnum. Girðingum var stillt upp við göngustíginn og þegar komið var að rukkunarskúrnum var búið að koma upp hliðum til að aðgreina miðasöluna frá inngangi í Dalinn
Óhætt er að segja að dagskrá Þjóðhátíðar hafi verið óvenju glæsileg í ár og greinilegt er að mikill metnaður er hjá nefndinni að hafa úrvalið fjölbreytt. Erfitt er þó að gera öllum til hæfis og hafa allir skoðanir á því hvað megi betur fara og hver eigi að spila hvenær, en öruggt er að allir hafi fundið eitthvað fyrir sig.
Eins og oft er fyrir Þjóðhátíð, fékk hún stóran skerf að neikvæðri umfjöllun í ýmsum fjölmiðlum. Viðbrögð Eyjafólks var sem fyrr að standa vörð um þjóðhátíðina. Ómar Garðarsson, ritstjóri Eyjafrétta skrifaði grein í blaðið þar sem hann gagnrýndi meðal annars umfjöllun í þættinum Vikulokin á RUV. Hann skrifaði: Það var ófögur mynd sem dregin var upp af þjóðhátíð Eyjamanna og þeim sjálfum í þættinum, Vikulokin á Rás eitt sl. laugardagsmorgun. RÚV ákvað að gefa skotleyfi á Páleyju Borgþórsdóttur og þjóðhátíðina. Það vissi Helgi Seljan fyrir þegar hann valdi viðmælendur í laugardagsþátt sinn, allt valinkunnir Akureyringar sem gerðu sér kannski ekki grein fyrir því að um leið og þeir drógu Eyjamenn niður í svaðið lýstu þeir samfélagi kúgunar og ógna á Akureyri sem ég er ekki viss um að Akureyringar séu sáttir við. Það hentaði greinilega ekki að Eyjamenn ættu sér málsvara í þættinum og þegar viðmælendur náðu hvað hæstum hæðum þakkaði Helgi fyrir að þátturinn var tekinn upp á Akureyri en ekki Vestmannaeyjum.
Páll Scheving yfirmaður gæslunnar sem stendur vaktina á Þjóðhátíðinni sagði í viðtali við Eyjafréttir að hátíðin í ár hafa gengið vel fyrir sig.
„Gestir hátíðarinnar höguðu sér mjög vel og virtist góða skapið og gleðin vera allsráðandi. Því miður hafa verið tilkynnt þrjú kynferðisbrot en það getur verið mjög erfitt fyrir okkur að verjast þeim. Veðrið lék við hátíðargesti sem veldur því að minna er um slys og spennu og gleðin verður meiri. Góðir gestir og gott veður gefur góða hátíð.“
Veður var ágætt alla þjóðhátíðardagana, hálfskýjað og þurrt alla dagana, nema á laugardagsmorgun þegar rigndi.
Miðaverð í Dalinn var 22.900 og 18.900 í forsölu. Sunnudagsverðið var kr. 13.900.
Tveir fulltrúar Eyja á HM U-19
Á Heimsmeistaramóti U-19 ára landsliðsins í handbolta sem fram fer í Rússlandi á ÍBV tvo fulltrúa, Hákon Daða Styrmisson og Nökkva Dan Elliðason.
Sólarsigur á Hásteinsvelli
Kvennalið ÍBV vann stórsigur á botnliði Aftureldingar og lyfti sér þar með upp í 3. sætið. Leikurinn fór fram á Hásteinsvelli í glampandi sól og ÍBV gaf tóninn strax í byrjun leiks.
Eftir einungis nokkurra mínútna leik höfðu Eyjastúlkur skorað tvö mörk en þar voru þær Cloe Lacasse og Díana Dögg Magnúsdóttir að verki. Kristín Erna Sigurlásdóttir kom ÍBV í 3:0 áður en Cloe Lacasse bætti við enn einu markinu undir lok fyrri hálfleiks. Leiknum
var því nánast lokið eftir 45 mínútur og einungis formsatriði að klára hann. Guðrún Bára Magnúsdóttir bætti svo við fjórða markinu í seinni hálfleik.
Töframaðurinn Sito
ÍBV sigraði Leikni með tveimur mörkum gegn engu á Leiknisvelli í fyrsta leik liðsins eftir þjóðhátíð. Leikurinn var afar mikilvægur þar sem bæði lið eru að berjast fyrir lífi sínu í Pepsídeildinni.
ÍBV komst upp fyrir Leiknismenn með sigrinum en útlitið hefði verið nokkuð svart fyrir Eyjamenn ef sigur hefði ekki unnist. Það var töframaðurinn Sito sem skoraði bæði mörk ÍBV. Eftir sendingar frá Gunnari Heiðari Þorvaldssyni.
Gæti reynst dýrkeypt tap
Það fór hinsvegar ekki eins vel í viðureign ÍBV og Fylkis. Eyjamenn töpuðu fyrir Fylki á Hásteinsvelli en Fylkismenn skoruðu eina mark leiksins vegna markmannsmistaka.
Mistökin gætu reynst dýrkeypt þegar stigin verða talin í lok tímabilsins. Jóhannes Karl Guðjónsson tók aukaspyrnu á kantinum og virtist hún vera að fara beint á Guðjón Orra Sigurjónsson í marki heimamanna, hann missti þó boltann inn í markið og stigin því Fylkismanna.
Sér um að elda ofan í leikmenn
Kristín Valtýsdóttir hefur séð um að elda ofan í svanga knattspyrnukappa meistaraflokks karla síðastliðin tvö sumur. Áður sá Kristín ásamt fleirum um stuðningsmannakaffið. Hlutverk Kristínar er fjölbreytt og margþætt. Hún var í viðtali við Eyjafréttir: „Daginn fyrir leiki sæki ég matinn til Gríms. Þaðan fer ég til Henna heildsala og kaupi meðlætið, ef það er til dæmis hvítur plokk fiskur er það kannski salat en ef það er fiskibuff þarf ég sósu og kartöflur. Ég kaupi þetta og geri klárt hér heima allt sem ég get, tek daginn í það. Ég mæti alltaf einum og hálfum tíma fyrir leik og klára undirbúninginn sem er að raða borðum, finna diska og annað sem til þarf. Í hálfleik fer ég og kveiki á ofninum og er tilbúin með allt heitt þegar leikurinn er búinn en ég missi alltaf af síðustu tíu mínútunum,“ sagði Kristín en hún er mikill áhugamaður um fótbolta og finnst oft erfitt að missa af lokamínútum leiksins.
Hvernig er með andrúmsloftið eftir sigur eða tapleiki er munur á því? „Já, ég finn alveg hvort liðið hefur tapað. Ég passa mig líka eftir tapleiki að segja; þetta var ekki nógu gott í dag og verður betra næst. Ég hafði það fyrir reglu að ég kem eins fram við alla hvort sem hann er í KR eða ÍBV. Það eru allir jafnir og strákarnir gera það líka, þeir koma alltaf vel fram. Auðvitað eru þeir misfúlir eða misglaðir en upp til hópa eru þeir mjög kurteisir og glaðir að fá að borða eftir leik.
En ég fann það í fyrra, þegar gekk ekki nógu vel, þá voru þeir lengur í sturtu og mun lengur að koma í matinn en þegar gengur vel eru þeir mjög fljótir, þetta gefur augaleið, ef maður er glaður er maður fljótari að öllu og lengur ef maður er leiður.“
Deildu stigunum
Eyjamenn og KR-ingar deildu stigunum í 1:1 jafntefli á Hásteinsvelli. Leikurinn átti að fara fram degi áður en einungis hluti af leikmannahóp KR komst í tæka tíð á leikstað. Var honum frestað þrátt fyrir að þjálfarateymi KR-inga og dómarar leiksins væru mættir í tímanlega. Það var ákvörðun KSÍ að fresta leiknum því um 24 tíma en knattspyrnuráð meistaraflokks karla var alls ekki ánægt með þessa ákvörðun. Knattspyrnuráðið barðist fyrir því að fá dæmdan sigur í leiknum en án árangurs.
Klikkaði á víti
Stelpurnar okkar misstu Þór/KA og Selfoss fram úr sér með tapi í Frostaskjólinu. – Í Eyjafréttum sagði að KR hafi spilað sinn besta leik í sumar en ÍBV spilaði þó ekki vel. ÍBV fékk fyrstu tvö færin en það voru þó heimakonur sem tóku forystuna á 35. mínútu. Cloe Lacasse klikkaði síðan á dauðafæri af vítapunktinum þegar Sigríður Lára Garðarsdóttir var felld í teig KR-inga. Cloe klikkaði á vítinu og heimakonur því einu marki yfir í hálfleik. Þórhildur Ólafsdóttir, fyrirliði liðsins, jafnaði metin eftir nokkrar mínútur í seinni hálfleik en það voru KR-ingar sem skoruðu síðasta markið í leiknum og ÍBV því farið að sogast nær Fylki og Val í sjötta og sjöunda sæti deildarinnar.
2. flokkur kvenna
ÍBV og HK/Víkingur áttust við í Kópavogi þar sem HK/Víkingur hafði betur 2:1. Heimakonur skoruðu fyrsta markið en Eyjastelpur svöruðu stuttu síðar með marki frá Díönu Dögg Magnúsdóttur. Þegar fyrri hálfleik var að ljúka komust heimakonur aftur yfir og fleiri urðu mörkin ekki.
2. flokkur karla
ÍBV og Selfoss mættust í öðrum flokki karla þar sem ÍBV sigraði örugglega 4:1.
ÍBV komst í 2:0 eftir mörk frá þeim Hallgrími Þórðarsyni og Hallgrími Heimissyni. Selfoss náði að minnka muninn í byrjun síðari hálfleiks og voru þá aðeins sprækari. Eyjamenn voru ekki hættir og skoraði Sigurður Grétar Benónýsson gott mark þegar rúmlega tíu mínútur voru eftir af leiknum. Fyrirliðinn Hafsteinn Gísli Valdimarssn innsiglaði svo sigurinn með glæsilegu marki beint úr aukaspyrnu, lokatölur því 4:1.
Sigur í baráttuleik
ÍBV tók á móti Fylki í Pepsídeild kvenna í fjörugum baráttuleik. ÍBV byrjaði leikinn betur og marka skorarinn knái, Cloe Lacasse kom ÍBV yfir á upphafsmínútunum. ÍBV var sterkari aðilinn fyrsta hálftímann og komust í nokkur ákjósanleg færi en þá jafnaði Fylkir metin og staðan var jöfn þegar liðin gengu til búningsherbergja. Síðari hálfleikur var mjög fjörugur, markmenn beggja liða í aðalhlutverki og stóðu þær sig virkilega vel. Fyrirliðinn Þórhildur Ólafsdóttir kom ÍBV í 2:1 en ÍBV hélt forystunni ekki lengi því fyrirliði Fylkis, Ólína G. Viðarsdóttir, jafnaði. Eyjastelpur voru ekkert að svekkja sig of mikið á markinu, tóku miðju og brunuðu upp allan völlinn og fengu dæmda vítaspyrnu eftir að brotið var illa á Sesselju Líf Valgeirsdóttur. Kristín Erna Sigurlásdóttur fór á punktinn en markmaður Fylkis varði vel. Það var svo Sigríður Lára Garðarsdóttir sem innsiglaði sigur ÍBV undir lok leiksins, lokatölur 3:2.
Mikilvæg stig í botnbaráttunni
ÍBV tók á móti botnliði Keflavíkur á Hásteinsvelli 18. umferð Pepsídeildarinnar. Bæði lið þurftu nauðsynlega á sigrinum að halda til að tryggja veru sína í úrvalsdeild að ári en Keflavík var fyrir leikinn í neðsta sæti deildarinnar og ÍBV í því tíunda.
ÍBV var mun betri aðilinn í leiknum og var ekki að sjá mikilvægi leiksins á liði Keflavíkur, þeir voru virkilega andlausir og sköpuðu sér fá færi, svo fór að ÍBV hafði 3:0 sigur.
ÍBVarar á heimsvísu
Íslenska landsliðið í knattspyrnu vann það afrek að komast í fyrsta sinn inn á Evrópumótið í knattspyrnu sem haldið verður í Frakklandi á næsta ári. Fyrst með sigri á Hollendingum úti í Amsterdam og síðan með jafntefli gegn Kazakstan á Laugardalsvelli. Líklega hefur íslenska þjóðin sjaldan fagnað nokkru íþróttaafreki jafn innilega og þessu.
Að sjálfsögðu finnst Vestmannaeyingum þeir eiga stóran hlut í þessu; Einsi kaldi var sérstaklega fenginn til að elda ofan í landsliðið og annar þjálfara liðsins er Heimir Hallgrímsson, borinn og barnfæddur Eyjamaður.
Ómar Smárason, fjölmiðlafulltrúi KSÍ var meðal Vestmannaeyinga í teymi í kringum íslenska landsliðið. Hann var í viðtali við Eyjafréttir að loknum Hollandsleiknum. Í viðtalinu rekur hann aðkomu Vestmannaeyinga að landsliðinu. „Einar Björn Árnason, kokkur tryggir fjölbreytni og gæði í mat, enda mataræði afar mikilvægur þáttur í undirbúningi íþróttamanna fyrir kappleiki. Jóhannes Ólafsson er í stjórn KSÍ og landsliðsnefnd og Víðir Reynisson er öryggisstjóri , gætir að öllum öryggisþáttum í tengslum við ferðalög liðsins, á hótelum, við æfingar og aðra viðburði. Reynir Guðsteinsson, fyrrverandi skólastjóri í Barnaskóla Vestmannaeyja er faðir hans, við Víðir erum s.s. bræðrasynir. Gunnar Gylfason, starfsmaður liðsins, heldur utan um allt skipulag, ferðamál, hótel, flug, rútur og aðra aðstöðu og þjónustu sem þörf er á, er í raun framkvæmdastjóri liðsins. Gylfi Guðnason frá Vegamótum er faðir Gunnars, Týssi var mágur Gylfa þ.e. Systa hans Týssa, Sigurbjörg Guðnadóttir er systir Gylfa, Eiríkur skólastjóri og Hjalli voru föðurbræður Gunnars. Óðinn Svansson, nuddari, er af Skuldarættinni, þremenningur Sigurgeirs ljósmyndara,“ sagði Ómar að endingu.
Tryggðu sér sæti í 1. deild
ÍBV tryggði sér sæti í fyrstu deild 2. flokks karla í handbolta en forkeppnin var leikin í hér í Eyjum. ÍBV vann riðilinn með fjögur stig en Haukar lentu í öðru sæti með tvö stig og tryggðu sér einnig sæti í fyrstu deild.
ÍBV vann alla leiki sína, fyrst Hauka 20-18 eftir að hafa strax tekið forystuna og hélt henni allt til enda.
Gerðu góða ferð á meginlandið
Stelpurnar í 2. flokki kvenna gerðu góða ferð upp á land þegar þær mættu Aftureldingu/Fjölni í deildinni, en liðin eru í þriðja og fjórða sæti deildarinnar. Stelpurnar sigruðu 3-2 með mörkum frá Sóldísi Evu Gylfadóttur og Díönu Helgu Guðjónsdóttur sem skoraði tvö. Margrét Lára Hauksdóttir fékk svo að líta rauða spjaldið þegar korter var eftir af leiknum en það kom ekki að sök.
Íslandsmeistarar í 5. flokki
Fimmti flokkur kvenna B í fótbolta tók þátt í úrslitakeppni KSÍ í ágúst þar sem stelpurnar unnu tvo leiki og gerðu eitt jafntefli. Það tryggði þeim efsta sætið og um leið úrslitaleik við Breiðablik 2 úr hinum riðlinum.
Úrslitaleikurinn fór fram á sunnudaginn í Fífunni í Kópavogi. Stelpurnar léku flottan fótbolta og uppskáru sigur eftir skemmtilegan leik 2-0. Mörkin skoruðu Birta Líf Agnarsdóttir og Sigurbjörg Ósk Sigurðardóttir.
Stelpurnar sigldu svo heim með Herjólfi, með bikarinn í farteskinu þar sem tekið var á móti þeim með flugeldum þegar Herjólfur sigldi inn höfnina. Þjálfari stelpnanna er Sigríður Ása Friðriksdóttir.
Töpuðu stigum í uppbótartíma
Stelpurnar í meistaraflokki kvenna hafa leikið tvo leiki í Pepsí deildinni þar sem þær hafa verið með stig eða öll stigin þrjú þegar venjulegur leiktími er liðinn en tapað þeim í uppbótartíma og fengið aðeins eitt stig út úr leikjunum tveimur gegn Stjörnunni og Val.
Stelpurnar léku gegn Stjörnunni sem komst yfir í upphafi leiks en ÍBV náði að jafna þegar 78 mínútur voru liðnar af leiknum en þar var að verki Esther Rós Arnarsdóttir. Allt stefndi í jafntefli hjá liðunum en Stjörnustelpum tókst svo í uppbótartíma að tryggja sér sigurinn með marki frá Hörpu Þorsteinsdóttur.
Valur kom svo í heimsókn til Eyja. ÍBV stelpurnar þurftu nauðsynlega á sigri að halda til að ná fjórða sætinu í deildinni af Þór/ KA. Kristín Erna Sigurlásdóttir skoraði eina mark ÍBV. Allt leit út fyrir að Eyjastelpur færu með sigur af hólmi en í uppbótartíma, nánar tiltekið á 91. mínútu, náði Hildur Antonsdóttir að jafna metin, 1-1 og þar fór draumurinn um fjórða sætið.
Meistarar meistaranna 2015
ÍBV varð meistari meistaranna í karlaflokki í handknattleik eftir nauman sigur á Haukum, 25-24 sigur í Schenker-höllinni. Með sigrinum tókst strákunum að hefna fyrir tapið í fyrra gegn Haukum í sama leik en þá tapaði ÍBV með eins marks mun.
Tóku þátt í Ragnarsmótinu á Selfossi
Kvennalið ÍBV í handbolti tók þátt í Ragnarsmótinu á Selfossi í byrjun september og endaði þar í fjórða sæti af sex liðum en þetta var í fyrsta sinn sem konur keppa á Ragnarsmótinu en Ragnarsmótið er árlegt minningarmót sem haldið er til minningar um Ragnar Hjálmtýsson einn af efnilegri handboltamönnum Selfoss sem lest árið 1988.
5. sætið niðurstaðan
ÍBV mætti á Kópavogsvöll í síðustu umferð Pepsi-deildar kvenna en Blikar höfðu tryggt sér Íslandsmeistaratitilinn og unnu leikinn örugglega 3:0. Blikar eru með ógnvænlegt lið en þær hafa einungis fengið á sig fjögur mörk í allt sumar og hafa verið í algjörum sérflokki. Þær skoruðu tvö mörk fyrir hálfleik, ÍBV komst í nokkur færi en tókst ekki að nýta þau. Blikar gerðu svo endanlega út um leikinn undir lokin. ÍBV fékk 25 stig í deildinni í ár sem skilaði liðinu í 5. sætið. Markahæstar Eyjakvenna voru þær Kristín Erna Sigurlásdóttir og Shaneka Gordon en þær skoruðu átta mörk hvor, Shaneka þurfti til þess þrettán leiki en Kristín sautján. Cloe Lacasse skoraði síðan sjö mörk.
2. flokkur kvenna – ÍBV 1 – Afturelding Fjölnir 0
Stelpurnar í 2. flokki spiluðu sinn síðasta leik á tímabilinu, með sigrinum fór liðið upp í 2. sætið þar sem þær enda, nái ÍA ekki að sigra Aftureldingu/Fjölni í síðasta leiknum. Díana Dögg Magnúsdóttir skoraði eina markið í leiknum þegar rúmar tíu mínútur voru eftir. Mikill hiti var í leikmönnum í leiknum en markverði Aftureldingar/Fjölnis og framherja ÍBV lenti saman í leiknum. Þetta var fjórði heimaleikur ÍBV á tímabilinu en þær hafa nú sigrað í þremur þeirra, eini sigur stelpnanna á útivelli kom einmitt gegn sama liði fyrir stuttu síðan. Þrjár stelpur komust á listann yfir tíu markahæstu leikmenn riðilsins. Díana Dögg skoraði tíu mörk, Esther Rós Arnarsdóttir fimm og Þórey Helga Hallgrímsdóttir þrjú. Díana Helga Guðjónsdóttir og Júlíana Sveinsdóttir voru þær einu sem spiluðu alla leikina í mótinu.
Rán í Kaplakrika
Eyjamenn voru rændir í Kaplakrika, þegar þeir sóttu FH-inga heim í 19. umferð Pepsi-deildar karla. Ian Jeffs kom ÍBV yfir eftir um korters leik, þá átti Víðir sendingu innfyrir á Gunnar Heiðar sem hljóp yfir boltann. Þar kom Ian Jeffs á fljúgandi siglingu og renndi boltanum framhjá markverði FH.
Í Eyjafréttum sagði að Steven Lennon hafi jafnað metin „en þurfti til þess risastór mistök frá Abel Dhaira. FH-ingar sýndu snilli sína í upphafi síðari hálfleiks þegar Atli Guðnason slapp í gegn og kom boltanum í markið. Einungis fimm mínútum eftir markið gerðist ótrúlegt atvik. Hafsteinn Briem átti skalla að marki FH-inga, boltinn fór inn fyrir línunni en Kassim Doumbia, sem er einn umdeildasti knattspyrnumaður landsins, sló boltann út með hendinni. Í fyrsta lagi var ekki dæmt mark, þó svo að boltinn hafi verið kominn vel yfir línuna. Fyrst dómarinn dæmdi ekki mark, þá héldu allir að hann ætlaði að flauta víti og senda Doumbia í sturtu, allt kom fyrir ekki. Dómarinn lét leikinn halda áfram og dæmdi stuttu seinna hornspyrnu. Eyjamenn voru augljóslega ævareiðir en af þeim rétt rúmlega 1500 manns sem voru á leiknum og miklum fjölda fólks í stofunni heima, voru einungis tveir menn sem sáu ekki atvikið. Því miður voru það einu mennirnir sem hefðu þurft að sjá atvikið en Þóroddur Hjaltalín, dómari leiksins og aðstoðardómari hans voru að horfa í aðra átt. Til að bæta gráu ofan á svart fengu FH-ingar mjög vafasama vítaspyrnu undir lok leiksins og kláruðu þar með leikinn og líklega Íslandsmeistaratitilinn í leiðinni.“
Olísdeild kvenna – fyrsti leikur ÍBV
ÍBV og Fram mættust í Safamýrinni um miðjan september en þar hófst Olís-deild kvenna. Fram var spáð 2. sæti deildarinnar en ásamt Gróttu voru þessi tvö lið langefst í spá þjálfara, fyrirliða og formanna liðanna í deildinni. ÍBV var spáð 5. sætinu en margir leikmenn hafa yfirgefið liðið.
Fram byrjaði leikinn aðeins betur en ÍBV komst yfir með frábærum 6:0 kafla. Vörnin var þó aðalatriðið og eins og allir vita þá fylgir markvarsla góðum varnarleik. Erla Rós Sigmarsdóttir stóð í markinu og varði 20 skot, Vera Lopes var atkvæðamest með 7 mörk.
Grátlegt tap – ÍBV 24 – Valur 26
Eyjamenn fóru illa að ráði sínu og skutu sjálfa sig út úr leiknum þegar innan við tíu mínútur voru eftir. Eyjamenn réðu lögum og lofum inni á vellinum allan fyrri hálfleikinn en Valsarar áttu ekki svör við neinum sóknum ÍBV.
Mörkin komu úr mörgum áttum en Theodór Sigurbjörnsson var þó atkvæðamestur með 11 mörk. Þau voru þó nokkur batamerkin á ÍBV liðinu frá því í leikjunum gegn Aftureldingu í úrslitakeppninni í fyrra. Leikurinn hafði aðeins meiri þýðingu þar sem þessum liðum var spáð fyrstu tveimur sætunum í deildinni. ÍBV leiddi leikinn allt frá fyrstu mínútu til þeirrar 55. Þá sigu Valsarar hægt og rólega fram úr og lönduðu í lokin tveggja marka sigri. Þetta tap á mjög líklega eftir að kenna Eyjamönnum mikið en handboltinn er langhlaup og það á eftir að koma í ljós þegar líða fer á tímabilið
Mikilvæg stig - Pepsídeildin
Eyjamenn nældu í gríðarlega mikilvægt stig á heimavelli gegn bikarmeisturum Vals á Hásteinsvelli. Staðan var ekki vænleg þegar rúmar tíu mínútur voru eftir af leiknum en frábær endasprettur tryggði eitt stig. Leikurinn hófst alls ekki illa en Sito kom ÍBV yfir eftir 16 mínútna leik þegar Hafsteinn Briem skallaði boltann niður fyrir hann. Sito bombaði boltanum þá í nærhornið en þetta mark er það sjötta sem Sito skorar í sínum níunda deildarleik. Valsmenn sýndu úr hverju þeir eru gerðir þegar Patrick Pedersen jafnaði metin stuttu seinna. Patrick er á góðri leið með að tryggja sér gullskóinn en hann er með 13 mörk eftir átján leiki. Sigurður Egill Lárusson nýtti sér holur í vörn Eyjamanna í síðari hálfleik og skoraði með föstu skoti af stuttu færi. Kristinn Freyr Sigurðsson nýtti sér einnig glufur í vörn ÍBV þegar hann skaut boltanum af stönginni og inn. Útlitið því alls ekki vænlegt fyrir Eyjamenn þegar rúmar tíu mínútur voru eftir af leiknum. Þá átti Sito skot að marki sem Ingvar Þór Kale réð alls ekki við, boltinn rúllaði uppi við marklínuna þegar Gunnar Heiðar Þorvaldsson kom honum yfir línuna, eitt auðveldasta mark sem Gunnar hefur skorað á sínum ferli. Einungis tveimur mínútum seinna fékk Ian Jeffs frábæra sendingu frá Bjarna Gunnarssyni og skilaði hann boltanum örugglega í bláhornið.
2. flokkur karla
Strákarnir í 2. flokki luku tímabilinu með tapi gegn Aftureldingu. Strákarnir okkar sem byrjuðu tímabilið illa, réttu úr kútnum og voru óstöðvandi um miðbik sumars. ÍBV vann meðal annars efstu tvö liðin, KA og Fjölni í seinni leikjum liðanna í deildinni. Tap gegn HK og tvö gegn Aftureldingu gerðu útslagið og 3. sætið því úr sögunni.
Afturelding skoraði sigurmarkið í uppbótartíma en ÍBV hafði staðið sig gríðarlega vel í leiknum. Nokkra sterka pósta vantaði í liðin en þeir Hafsteinn Gísli Valdimarsson, Devon Már Griffin, Breki Ómarsson, Elliði Snær Viðarsson, Erik Ragnar Gíslason og Felix Örn Friðriksson voru allir fjarverandi. Markahæstur hjá strákunum í sumar var Sigurður Grétar Benónýsson en hann skoraði fjórtán mörk í sautján leikjum. Enginn leikmaður náði að spila alla leikina en ásamt Sigurði spiluðu þeir Ásgeir Elíasson og Hallgrímur Þórðarson sautján leiki af átján.
Fyrsti heimaleikjasigurinn
Eyjamenn urðu fyrstir til þess að vinna ÍR-inga á þessari leiktíð þegar liðið sigraði 32:31 á heimavelli í 5. umferð Olísdeildar karla. ÍR-ingar höfðu sigrað alla andstæðinga sína áður en þeir héldu til Eyja. ÍBV þurfti á sigri að halda þar sem tímabilið hafði ekki byrjað eins og þeir hefðu óskað sér, töpuðu í fyrstu tveimur heimaleikjunum, gegn Fram 24-25 og gegn Haukum 19-21. Áður hafði liðið sigrað Gróttu á útivelli 23-34 en tapað fyrir Val einnig á útivelli 24-26.
ÍBV stelpur komnar í toppsætið í Olísdeildinni
Stelpurnar í meistaraflokki kvenna eru svo sannarlega að gera það gott þessa dagana. Með sigri á ÍR-ingum lyfti liðið sér á topp deildarinnar eftir þrjár umferðir.
Fyrri hálfleikurinn var alls ekki frábær af hálfu Eyjakvenna en þar virkuðu ÍR-stelpur mun grimmari. Þær náðu upp góðri vörn og markvarsla Eyjakvenna var lítil. ÍR-stúlkur gengu því á lagið og skoruðu 16 mörk gegn 13 í fyrri hálfleiknum. ÍBV-Stelpurnar sýndu sitt rétta andlit um leið og síðari hálfleikur hófst, það leið ekki langur tími þangað til að staðan var orðin jöfn 17:17. Eftir það sigu stelpurnar okkar fram úr. Vera Lopes vaknaði til lífsins en hún skoraði alls tíu mörk í leiknum, sterkir leikmenn stigu upp þegar á reyndi og liðið sigraði sem ein heild. Lokatölur eins og áður segir 28:32. Ásamt Veru voru þær Greta Kavaliuskaite og Ester Óskarsdóttir með nokkur mörk, eða fimm hvor. Liðið er því komið á topp deildarinnar með fullt hús stiga eftir þrjá leiki. Selfoss og Grótta hafa einnig unnið báða leiki sína og deila toppsætinu með Eyjastúlkum.
Lokahóf yngri flokkanna
Að loknu knattspyrnusumri er jafnan komið saman og fagnað árangri sumarsins á lokahófi. Nýverið var slíkt haldið hjá yngri flokkum ÍBV á Hásteinsvelli. Að lokinni verðlaunaafhendingu var slegið upp heljarinnar grillveislu.
Verðlaunahafar félagsins haustið 2015:
5. flokkur drengja yngri:
Andrés Marel Sigurðsson, mestar framfarir.
Karl Jóhann Örlygsson, ÍBV-ari.
Einar Þór Jónsson, ástundun.
5. flokkur stúlkna yngri:
Kristbjörg Unnur Friðbergsdóttir, mestar framfarir.
Elísa Elíasdóttir, ÍBV-ari.
Thelma Sól Óðinsson, ástundun.
5. flokkur drengja eldri:
Arnar Gauti Egilsson, mestar framfarir.
Georg Rúnar Ingimarsson, ÍBV-ari.
Ólafur Már Gunnlaugsson, ástundun.
5. flokkur stúlkna eldri:
Karen Eir Magnúsdóttir, mestar framfarir.
Ragna Sara Magnúsdóttir, ÍBV-ari.
Hólmfríður Arna Steinsdóttir, ástundun.
4. flokkur drengja:
Jón Kristinn Elíasson, efnilegastur.
Andri Steinn Sigurjónsson, mestar framfarir.
4. flokkur drengja eldri:
Arnar Þór Lúðvíksson, ÍBV-ari.
4. flokkur drengja yngri:
Björgvin Geir Björgvinsson, ÍBV-ari.
4. flokkur stúlkna:
Clara Sigurðardóttir, efnilegust.
Aníta Björk Valgeirsdóttir, mestar framfarir.
4. flokkur stúlkna eldri:
Elísa Björk Björnsdóttir, ÍBV-ari.
4. flokkur súlkna yngri:
Birta Lóa Styrmisdóttir, ÍBV-ari.
3. flokkur karla:
Róbert Aron Róbertsson, besti leikmaðurinn.
Frans Sigurðsson, efnilegasti leikmaðurinn.
Aron Smári Magnússon, ÍBV-ari.
Þórður Yngvi Sigursteinsson, mestar framfarir.
3. flokkur kvenna:
Margrét Íris Björnsdóttir, besti leikmaðurinn.
Inga Birna Sigursteinsdóttir, mestar framfarir.
Eva Lind Ingadóttir, ÍBV-ari.
Lokahóf eldri flokkanna
Lokahóf ÍBV fór fram í Höllinni 3. október. Um var að ræða uppskeruhátíð fótboltans. Sumarið var gert upp en meistaraflokkur karla hjá félaginu endaði í tíunda sæti en meistaraflokkur kvenna í því fimmta.
Sumarið var einnig gert upp hjá öðrum flokki karla og öðrum flokki kvenna. Enduðu strákarnir í fjórða sæti af tíu liðum en stelpurnar í öðru sæti í sinni fimm liða deild.
Hjá öðrum flokki kvenna fékk Júlíana Sveinsdóttir verðlaun fyrir mestar framfarir, Þóra Kristín Bergsdóttir var þá valin ÍBV-arinn. Hjá strákunum fengu þeir Tómas Aron Kjartansson og Hjalti Jóhannsson verðlaun, Tómas fyrir framfarir og Hjalti var valinn ÍBV-arinn. Hafsteinn Gísli Valdimarsson og Ásta María Harðardóttir voru útnefnd best í sínum flokki. Díana Dögg Magnúsdóttir og Sigurður Grétar Benónýsson voru bæði markahæst í sínum flokki og hrepptu einnig Fréttabikarinn eftirsótta.
Hjá meistaraflokki hlutu Bjarni Gunnarsson og Sóley Guðmundsdóttir þann heiður að vera ÍBV-ararnir. Jose Sito og Kristín Erna Sigurlásdóttir voru markahæst, en Hafsteinn Briem og Sigríður Lára voru valin best.
Að finna sitt gamla form
Lánlausir FH-ingar áttu hreint hræðilegan leik þegar þeir töpuðu sannfærandi gegn ferskum Eyjapeyjum. Í stöðunni 6:7 fyrir gestina sneri ÍBV taflinu sér í vil og var staðan eftir tæpar 40 mínútur 21:11 fyrir Eyjamenn. Sigurinn var aldrei í hættu og að lokum munaði átta mörkum á liðunum, 31:23.
Theodór Sigurbjörnsson heldur áfram að eiga hvern stórleikinn á fætur öðrum en hann skoraði tíu mörk. Restin af mörkunum dreifðist vel á restina af liðinu. Ungir og efnilegir leikmenn fengu að spreyta sig mikið en þeir Hákon Daði Styrmisson, Nökkvi Dan Elliðason og Dagur Arnarsson skoruðu samtals sjö mörk fyrir liðið. Leikmennirnir eru á yngsta ári og miðári í 2. flokki en ljóst er að framtíðin er björt í Eyjum.
Í 8. umferð lék ÍBV gegn Víkingum í Víkinni. Fyrir leik gerði Arnar Pétursson athugasemd við gólfið sem virkaði flughált. Það tók ekki langan tíma fyrir Stephen Nielsen að renna á hálu gólfinu en hann þurfti að fara af velli eftir rúma mínútu og kom ekki meira við sögu í leiknum. Óvíst er hvort hann geti tekið þátt í Evrópuleikjunum sem eru framundan. Lykilmaður Víkinga meiddist áður en Andri Heimir Friðriksson virtist hafa snúið sig á ökkla, allt gerðist þetta í fyrri hálfleik.
Eyjamenn voru þó miklu sterkari handboltalega séð en þeir réðu lögum og lofum inni á vellinum. Í hálfleik var staðan 11:14 og þrátt fyrir að Víkingar hafi klórað í bakkann í byrjun síðari hálfleiks voru Eyjamenn einfaldlega mun sterkari. Strákarnir okkar kláruðu leikinn fagmannlega og unnu að lokum fjögurra marka sigur 22:26. Theodór var loksins ekki langmarkahæstur en hann skoraði fjögur mörk eftir erfiða byrjun í leiknum, Einar Sverrisson átti stórleik og skoraði sjö mörk. Kári Kristján Kristjánsson og Magnús Stefánsson skoruðu, líkt og Teddi, fjögur mörk hvor.
Halda enn toppsætinu
ÍBV sigraði KA/Þór nokkuð örugglega í Olís-deild kvenna þegar 6. umferð deildarinnar fór fram. ÍBV hefur farið ótrúlega vel af stað en þær hafa unnið alla sex leiki sína. KA/ Þór átti í raun aldrei séns en liðið var skilið eftir strax í upphafi. Í stöðunni 3:3 skildu leiðir og skoruðu Eyjastelpur sautján mörk gegn einungis fjórum áður en flautað var til hálfleiks. Hrafnhildur Ósk Skúladóttir, nýr þjálfari liðsins, gat enn og aftur leyft ungum og efnilegum stelpum að sýna hvað í þeim býr í síðari hálfleik. Gott útspil hjá Hrafnhildi sem kemur einungis til með að styrkja hópinn fyrir komandi átök. Lokatölur voru 32:20 en þær Drífa Þorvaldsdóttir og Greta Kavaliuskaite skoruðu báðar sjö mörk. Ester Óskarsdóttir gerði fimm, Vera Lopes fjögur og Selma Rut Sigurbjörnsdóttir þrjú. ÍBV er eins og áður á toppi deildarinnar og nú með tólf stig eftir fyrstu sex leikina.
Komust áfram í Áskorendabikarnum
Eyjamenn komust áfram í 2. umferð Áskorendabikars Evrópu eftir tvo sigra á ísraelska liðinu Hapoel Ramat Gan. Þetta var annað árið í röð sem að Eyjamenn mæta ísraelsku liði en þetta lið var klárlega lakara en liðið sem mætti til Eyja síðast. Báðir leikirnir fóru fram í Íþróttahúsinu í Vestmannaeyjum.
Leikmenn ÍBV byrjuðu einvígið á algjörri flugeldasýningu þar sem sirkusmark opnaði einvígið, áður en maður vissi af var liðið komið í 8:0 í fyrri leiknum. Þá tók hins vegar við langur slæmur kafli þar sem Ísraelarnir fengu alltof mikið gefins. Það sást augljóslega hvort liðið var sterkara en samt virtust gestirnir alltaf vera inni í leiknum. Fyrri leiknum lauk með fjögurra marka sigri 25:21 og þá leit einvígið út fyrir að ætla að verða spennandi. Byrjun Ísraelanna í síðari leiknum var mun betri, þar leiddu þeir 3:0 eftir átta mínútna leik en þá virtist sviðsskrekkurinn farinn úr Eyjamönnum. Leikmenn liðsins léku frábærlega það sem eftir var af einvíginu. Markvarsla, varnarleikur og hraðaupphlaup héldust í hendur og leiddi liðið með fjórum mörkum í hálfleik. Þá var einvíginu þannig séð lokið og fengu ungir og sprækir Eyjapeyjar að spila restina af leiknum.
Hákon Daði Styrmisson átti frábæra innkomu í síðari hálfleik þar sem hann skoraði sjö mörk úr átta skotum. Nökkvi Dan Elliðason, Páll Eydal Ívarsson, Dagur Arnarsson og Svanur Páll Vilhjálmsson komust allir á blað en þessir drengir eru allir á yngsta og miðári í 2. flokki félagsins. Magnús Karl Magnússon átti líka góða innkomu þrátt fyrir að komast ekki á blað. Stórlið Benfica bíður ÍBV í næstu umferð en ennþá á eftir að taka ákvörðun um það hvar þeir leikir verða spilaðir. Benfica hefur farið vel af stað í Portúgal en þeir eru með næstbesta lið deildarinnar á eftir Porto. Þeir hafa sigrað í sjö af fyrstu átta leikjum sínum en töpuðu einmitt fyrir Porto.
Erna gengur til lið við Fylki
Kristín Erna Sigurlásdóttir hefur gengið frá tveggja ára samningi við Fylki. Kristín hefur spilað í Eyjum allan sinn feril og á að baki 125 leiki með ÍBV, í þeim hefur hún skorað 84 mörk.
Sagan endalausa?
Frábær byrjun ÍBV í Olís-deild kvenna virðist engan enda ætla að taka. Liðið hefur unnið alla sjö leiki sína í mótinu til þessa. tæpara mátti það þó ekki standa gegn Fylki, ÍBV sigraði 30-31.
Grátlegt tap
ÍBV tapaði sínum fyrsta leik af síðustu níu í deild og Evrópukeppni þegar liðið mætti Val í Eyjum. Úrslitin réðust ekki fyrr en nokkrum sekúndum fyrir leikslok, 27-26. Grátlegt fyrir ÍBV en Valsmenn eru nú með betri innbyrðisviðureignir gegn ÍBV, sem gæti haft sitt að segja í lok tímabils.
Steinlágu gegn Haukum
Haukar unnu ÍBV auðveldlega í Eyjum í 10. umferð Olís-deildarinnar. Í raun átti ÍBV aldrei séns. Arnar Pétursson, annar þjálfari ÍBV, var fjarverandi þegar liðin mættust en hann var staddur erlendis. ÍBV komst yfir í leiknum en einungis í samtals 12 sekúndur í leiknum.
Varnir liðanna voru mjög öflugar en Haukavörnin þó sterkari. Mikill hasar var í leiknum og fóru þrjú rauð spjöld á loft, einungis eitt þeirra vegna þriggja tveggja mínútna brottvísana. Fyrri hálfleiknum lauk ömurlega fyrir Eyjamenn sem þá voru sex mörkum undir, 9:15.
Seinni hálfleikurinn byrjaði ekkert rosalega vel því að fyrirliði liðsins, Magnús Stefánsson, fékk að líta rauða spjaldið fyrir brot á Adam Hauki Baumruk en Magnús virtist slá hann í andlitið. Adam fékk síðan sjálfur rautt spjald fyrir meint olnbogaskot í átt að Brynjari Karli Óskarssyni en rétt áður en það gerðist hafði fyrirliði Hauka, Matthías Árni Ingimarsson, fengið sína þriðju tveggja mínútna brottvísun.
Haukar voru sterkari á síðustu mínútunum og sigldu öruggum sigri í höfn. ÍBV fjarlægist því topplið Hauka og Vals enn frekar, Andri Heimir Friðriksson átti flottan leik og skoraði sex mörk. Markvarslan var ekki góð í leiknum en markmenn ÍBV vörðu níu skot gegn nítján vörðum boltum Hauka.
B-liðið áfram
ÍBV-B tryggði sér sæti í 16-liða úrslitum Coca-Cola bikars karla þegar liðið mætti Haukum 2. Leiknum lauk með fimm marka sigri ÍBV-B 22-27, en sigurinn hefði getað orðið mun stærri.
Skemmtilegur og leiðinlegur
ÍBV og Grótta mættust í Eyjum og unnu Eyjakonur með tveggja marka mun, 22-20. Leikurinn var einn af þeim skemmtilegra á að horfa.
Eins og leikurinn gegn Gróttu var góður, var leikurinn gegn Val ömurlegur í Vodafone-höllinni. ÍBV sýndi sinn versta leik á tímabilinu og mögulega í lengri tíma. Liðið tapaði með ellefu marka mun, 28-17, en þetta var jafnframt fyrsti tapleikur stelpnanna á leiktíðinni.
Yngri flokkarnir
Stelpurnar í unglingaflokki kvenna hafa byrjað tímabilið ágætlega en þær eru með sjö stig eftir fimm umferðir. Liðið varð deildar- og bikarmeistari í fyrra en nú leikur liðið í 2. deild. Stelpurnar eru búnar að tapa einum leik og gera eitt jafntefli í fyrstu fimm leikjunum. Liðið hefur þá unnið þrjá leiki, gegn ÍR, Fram 2 og Val 2. Um helgina spilaði liðið tvo leiki á meginlandinu en liðið gerði 21:21 jafntefli við Selfoss og sigraði síðan Fram 2 með tíu marka mun, 24:34. Um helgina voru þær Ásta Björt Júlíusdóttir, Sirrý Rúnarsdóttir og
Þóra Guðný Arnarsdóttir með flest mörk stelpnanna. Sirrý skoraði 15, Þóra Guðný 10 og Ástu Björt tókst að skora 12 mörk en þar af sjö í seinni leiknum. Liðið varð deildar- og bikarmeistari í fyrra en nú leikur liðið í 2. deild. Stelpurnar eru búnar að tapa einum leik og gera eitt jafntefli í fyrstu fimm leikjunum. Liðið hefur þá unnið þrjá leiki, gegn ÍR, Fram 2 og Val 2. Um helgina spilaði liðið tvo leiki á meginlandinu, gerði 21:21 jafntefli við Selfoss og sigraði síðan Fram 2 með tíu marka mun 24:34.
Halda toppsætinu
ÍBV mætti Haukum í Schenkerhöllinni þegar fyrsti leikur tíundu umferðar Olís-deildar kvenna fór fram. Haukar unnu með átta mörkum 33:25 en sigurinn hefði vel getað verið stærri. Á undan hlutu þær skell á móti Val en náðu að koma sér á réttan kjöl gegn Selfossi. Þangað sótti ÍBV tvö stig með fimm marka sigri, 30:35.
Alfreð aðstoðarþjálfari
Alfreð Elías Jóhannsson hefur verið ráðinn aðstoðarþjálfari meistaraflokks karla í knattspyrnu ásamt því að vera aðalþjálfari 2. flokks karla. Alfreð verður aðstoðarmaður Bjarna Jóhannssonar sem var ráðinn þjálfari ÍBV á dögunum. Alfreð er fæddur og uppalinn í Grindavík en á ættir að rekja til Vestmannaeyja. Amma hans er Ingibjörg Bryngeirsdóttir frá Búastöðum. Bjuggu amma hans og afi í Vestmannaeyjum með fjölskyldu sína en fluttust til Grindavíkur í gosinu. „Ég endaði í Grindavík þess vegna. Afi minn og nafni, Alfreð Elías Sveinbjörnsson, er í dag eins og fleira skyldfólk mitt búsettur í Eyjum.“ Sagði Alfreð í viðtali við Eyjafréttir.
Hafa tapað fjórum leikjum í röð
Enn gengur ekkert hjá ÍBV í Olís-deild karla en liðið hefur nú tapað fjórum leikjum í röð, eftir tvo tapleiki, gegn Fram og Gróttu á einni viku. Staðreyndin að ÍBV hafi tapað leikjunum er slæm en spilamennska liðsins var í raun enn verri. Eyjamenn mættu Fram í Safamýrinni síðasta fimmtudag en þar höfðu heimamenn betur með fimm marka mun 26:21.
Unnu HK en duttu út í Áskorendabikarkeppni Evrópu
Um miðjan nóvember spilað meistaraflokkur kvenna við HK í 12. umferð Olísdeildarinnar, sá leikur vannst 22-31. Stelpurnar héldu síðan beint út til Serbíu. Í Serbíu beið erfitt verkefni þar sem Knjaz Milos beið eftir stelpunum sem mótherji þeirra í Áskorendakeppni Evrópu. Þar spiluðu liðin tvo leiki sem Serbarnir unnu, þann fyrri með tveimur mörkum og þann síðari með þremur mörkum.
Fyrri leikur ÍBV gegn Knjaz Milos í Serbíu í Áskorendabikar Evrópu tapaðist með tveimur mörkum þar sem ÍBV var undir mestallan tímann. Í hálfleik leiddu Serbarnir með tveimur mörkum en sú varð einnig niðurstaðan, lokatölur því 30:28. Greta Kavaliuskaite var markahæst í liði ÍBV en hún skoraði sjö mörk, Telma Amado gerði sex en þær Vera Lopes og Ester Óskarsdóttir skoruðu fimm. Saman skoruðu þessir fjórir leikmenn 23 mörk af 28 hjá ÍBV. Síðari leikur liðanna fór fram í sömu höll en þar hefði ÍBV þurft að vinna upp tveggja marka forskot. Skemmst er frá því að segja að stelpurnar töpuðu einnig en nú með þriggja marka mun 31:28. Serbarnir byrjuðu betur og náðu fljótt forskoti, þær leiddu leikinn með fjórum mörkum þegar tæpar 20 mínútur voru liðnar. Gott leikhlé Hrafnhildar Óskar Skúladóttur virtist hafa skilað sér vel þegar ÍBV minnkaði muninn í eitt mark. ÍBV náði síðan að jafna metin rétt fyrir lok fyrri hálfleiks en að honum loknum var staðan 15:15. ÍBV náði meðal annars forystunni í síðari hálfleik en þá kom að kafla þar sem Serbarnir skildu ÍBV eftir. Eftir rúmar 50 mínútur leiddu Serbarnir með fjórum mörkum en það var einfaldlega of mikið fyrir okkar stelpur. Lokatölur 31:28 og því samanlagt 61:56 í einvíginu. Ester Óskarsdóttir var markahæst í síðari leiknum með sjö mörk, Vera Lopes skoraði sex og Greta Kavaliuskaite fimm.
Yngri flokkarnir í knattspyrnu
Annar flokkur kvenna og karla héldu á fasta landið og spiluðu leiki í Faxaflóa-mótinu. Annar flokkur kvenna ÍBV leikur nú með Keflavík í sameiginlegu liði en liðið spilaði gegn Breiðablik/Augnablik 2 og Þrótti um helgina.
Fyrri leikurinn fór fram í Reykjaneshöllinni þar sem ÍBV/Keflavík sigraði nokkuð örugglega með fjórum mörkum gegn engu Breiðabliks/Augnabliks. Í byrjunarliðinu voru sjö leikmenn Keflavíkur en einungis fjórir frá ÍBV. Þrjú markanna komu þó frá leikmönnum ÍBV þar sem Díana Helga Guðjónsdóttir skoraði tvö og María Ársól Þorvaldsdóttir, sem kemur frá KFR, skoraði eitt mark. Hitt markið skoraði Birgitta Hallgrímsdóttir, leikmaður Keflavíkur. Í leiknum gegn Þrótti í Laugardalnum sigraði ÍBV með einu marki gegn engu, ekki hafa fengist upplýsingar um markaskorara í þeim leik. Strákarnir áttu ekki góða helgi þegar þeir sóttu Stjörnuna heim á Samsung-völlinn í Garðabæ. Þetta var annar leikur strákanna í Faxaflóa-mótinu en sá fyrri tapaðist með tveimur mörkum gegn engu gegn ÍA á Skaganum. Staðan var ekki slæm í hálfleik, 0:0 en það var ótrúlegt hvernig leikurinn endaði. Stjörnumenn skoruðu níu mörk gegn engu í síðari hálfleik. Felix Örn Friðriksson fékk að líta rauða spjaldið eftir rúman klukkutíma en þá var staðan orðin 4:0.
Loksins sigur
ÍBV sigraði ÍR með einu marki í Austurbergi en hvorugu liði hafði gengið vel í síðustu leikjum. Sigurinn var virkilega mikilvægur fyrir ÍBV þar sem liðið heldur nú út til Portúgals til að spila tvo leiki gegn Benfica í Áskorendakeppni Evrópu. ÍR-ingar voru yfir stærstan hluta fyrri hálfleiks en góður kafli ÍBV undir lok hálfleiksins gerði það að verkum að staðan var jöfn 14:14. ÍBV komst í fyrsta skiptið yfir í leiknum eftir 36 mínútna leik en þá gerðu þeir nokkur mörk í röð. Undir lok leiksins var ÍBV með yfirhöndina og náði tveggja marka forskoti þegar tvær mínútur voru eftir. ÍR-ingar minnkuðu muninn í eitt mark en komu ekki skoti á markið í síðustu sókn sinni. Sigur ÍBV því staðreynd í þessum mikilvæga leik. Kári Kristján Kristjánsson átti góðan leik en hann skoraði sex mörk, Einar Sverrisson gerði einnig sex mörk. Kolbeinn Aron Arnarson varði fimmtán skot í marki Eyjamanna. ÍBV er nú í fimmta sæti deildarinnar en á leik inni á lið Aftureldingar sem er í fjórða sætinu með einu stigi meira.
Yngri flokkarnir
Fimmti flokkur karla vann alla sína leiki og komst upp um deild á öðru mótinu í röð. Næst mun liðið leika í 2. deild A eftir að hafa unnið alla sína leiki um helgina, þeir hafa sigrað í öllum sínum leikjum í ár. 5. flokkur kvenna átti einnig frábært mót og endaði í 1. - 2. sæti mótsins um helgina, liðið vann þrjá leiki og gerði eitt jafntefli. Þá spiluðu 6. flokkar félagsins á Akureyri og gekk þeim mjög vel. Stelpurnar spiluðu frábærlega og unnu 1. deildina, þær hafa því unnið fyrstu tvö mót ársins. Strákarnir voru með tvö lið og stóðu þau sig með mikilli prýði, voru bæði nálægt því að vinna sínar deildir. Þessi árangur hjá krökkunum er flottur en æfingasókn hefur verið góð í haust og vetur og liðin eru að uppskera eftir því.
Í 2. sæti yfir jólin
Stelpurnar okkar í Olís-deild kvenna halda áfram að standa sig vel. Þær unnu fimmtán marka sigur á Fjölni í Íþróttahúsinu í Vestmannaeyjum.
Gestirnir áttu í raun aldrei séns þar sem stelpurnar okkar byrjuðu leikinn af miklum krafti. Gestirnir hafa ekki verið mikil fyrirstaða fyrir lið í deildinni en stelpurnar okkar voru ekki að sýna neina miskunn. Í hálfleik var staðan 21:10 en góður kafli stelpnanna undir lok fyrri hálfleiks skilaði því. ÍBV náði mest sextán marka forskoti í stöðunni 33-17 en lokatölur voru 38:23. Vera Lopes skoraði tíu mörk en þær Ester Óskarsdóttir og Greta Kavaliuskaite gerðu báðar sjö mörk.
Stelpurnar verða því í 2. sæti deildarinnar yfir jólin og áramótin þar sem langt frí verður gert á deildinni.
Hetjuleg barátta í Lissabon
Eyjamenn eru úr leik í Áskorendakeppni Evrópu eftir tvö töp í höfuðborg Portúgals, Lissabon. Leikið var ytra, föstudag og laugardag. Eyjamenn töpuðu fyrri leiknum með tveimur mörkum eftir að hafa leitt leikinn lengst af. Í seinni leiknum opnuðust flóðgáttir í síðari hálfleik en þá gengu heimamenn á lagið og sigruðu með átta marka mun.
Fyrir fyrri leikinn bjuggust fæstir við því að ÍBV myndi veita portúgalska stórliðinu samkeppni. Það afsannaðist strax á fyrstu mínútunum þegar ÍBV spilaði glimrandi vel. Eyjamenn komust fljótlega í þriggja marka forystu og létu þeir fáu Eyjamenn sem voru í stúkunni vel í sér heyra. Forystan varð síðan fjögur mörk en Einar Sverrisson, skytta liðsins, var vægast sagt sjóðandi heitur í fyrri hálfleiknum. Þegar Eyjamenn voru yfir með fimm mörkum í stöðunni 12:7 kom vægast sagt ömurlegur átta mínútna kafli. Þar klikkuðu strákarnir á vítakasti og fékk liðið á sig fjögur mörk en skoraði ekki eitt einasta. Í hálfleik var staðan því 14:13, ÍBV í vil, eftir tvö mörk frá Einari undir lokin. Í fyrri hálfleiknum fóru Eyjamenn mjög illa með fimm eða sex dauðafæri sem vega þungt þegar leikurinn er gerður upp. Í upphafi síðari hálfleiks komust Eyjamenn þrisvar sinnum þremur mörkum yfir og virtust þeir vera að sækja frábæran sigur í fyrri leiknum. Hægt og bítandi sigu Benfica-menn fram úr en þeir skoruðu síðan fimm mörk gegn einu sem breytti stöðunni úr 22:20 í 23:25. Á þessum kafla klúðraði ÍBV öðru vítakasti. ÍBV náði að jafna metin í tvígang áður en stórliðið skoraði síðustu tvö mörk leiksins.
Einar Sverrisson var markahæstur Eyjamanna með tólf mörk, þar af átta í fyrri hálfleik. Það var ljóst að róðurinn yrði erfiður í seinni leiknum ef ÍBV ætlaði sér áfram í þessu einvígi, Benfica-menn virtust hafa lært á sterka 5-1 vörn Eyjamanna sem gerði vel í fyrri hálfleik fyrri leiksins. Eyjamenn fóru heldur betur vel af stað í seinni leiknum og komust þeir yfir fimm sinnum á fyrstu tíu mínútunum. Heimamenn settu þá í næsta gír og sýndu góðan kafla þar sem liðið skoraði þrjú mörk í röð. Leikmenn ÍBV spýttu þá í lófana og komust aftur yfir en þeir voru tveimur mörkum yfir eftir tuttugu mínútur. Leikmenn Benfica eru þó engin
lömb að leika sér við, þeir nýttu sér öll mistök ÍBV og voru einu marki yfir í hálfleik 17:16. Seinni hálfleikur virtist ætla að fara til fjandans þegar heimamenn komust fjórum mörkum yfir strax á 32. mínútu. Þá komu fjögur mörk frá ÍBV í röð og staðan jöfn. Eftir það tóku þeir öll völd á vellinum og virtust alltaf vera með leikinn í höndum sér. Lokakaflinn var ömurlegur hjá ÍBV þar sem liðið fékk á sig sjö af síðustu átta mörkum leiksins. Tíu marka tap í heildina var því staðreynd en þeir Einar Sverrisson og Andri Heimir Friðriksson voru markahæstir í seinni leiknum með sex mörk hvor.
Sigurganga 2. flokks
Sigurganga 2. flokks karla hélt áfram þegar liðið sigraði Gróttu á útivelli. Leikurinn var spilaður eldsnemma morguns á laugardegi en áhorfendafjöldi náði aldrei tveggja stafa tölu í húsinu. Strákarnir höfðu fyrir leikinn unnið báða leiki sína í deildinni og Akureyri í bikarnum. Þetta var annar útileikur liðsins í deildinni gegn Gróttu sem hafði unnið þrjá af fyrstu fjórum leikjum sínum. Elliði Snær Viðarsson, sem hefur fengið mikið af tækifærum með meistaraflokki, meiddist snemma leiks og gat einungis spilað um fimm mínútur af leiknum. Innan liðsins eru þó aðrir strákar sem geta gert hluti upp á eigin spýtur og má meðal annars nefna helstu markaskorara leiksins, þá Nökkva Dan Elliðason (9), Dag Arnarsson (9) og Hákon Daða Styrmisson (11). Gríðarlega mikið var skorað í leiknum en bæði lið keyrðu hraða miðju miskunnarlaust til þess að fá auðveld mörk. Vörn ÍBV liðsins hefur oft verið sterkari en lokatölur leiksins urðu 36:37 ÍBV í vil. ÍBV komst einungis einu sinni komist yfir í leiknum en það var þegar ein sekúnda var eftir af leiknum, þá skoraði Magnús Karl Magnússon eftir að leikmenn Gróttu höfðu kastað boltanum frá sér fimm sekúndum fyrir leikslok.
Slæmt gengi
Strákarnir okkar í meistaraflokki karla í handbolta hafa einungis unnið einn af síðustu sex leikjum sínum í deildinni og einn af síðustu átta í öllum keppnum. Þeir töpuðu með eins marks mun gegn FH-ingum í Kaplakrika rétt fyrir jólin. Lítið var skorað í leiknum en lokatölur voru 24:23 fyrir heimamenn.
Bara skemmtun
ÍBV B tapaði með þrettán marka mun gegn stjörnum prýddu liði Valsara í gamla salnum í Íþróttahúsi Vestmannaeyja á aðventunni.. Lokatölur voru 20:33 en í hálfleik leiddu gestirnir einungis með einu marki.
Fjöldinn allur af miðum var seldur fyrir leik en talið er að tæplega 400 miðar hafi selst. Fyrstu mínúturnar gengu eins og í sögu þar sem B-liðið komst þremur mörkum yfir. Hafa skal í huga að þrír af lykilmönnum Valsara voru geymdir á bekknum allan fyrri hálfleikinn og þar á meðal aðalmarkvörður liðsins sem vermdi tréverkið allan tímann. B-liðið hélt ágætri forystu stóran hluta fyrri hálfleiksins en Sigurður Bragason, Leifur Jóhannesson og Hilmar Ágúst Björnsson stýrðu sóknarleiknum. Á tuttugustu mínútu komust gestirnir yfir í fyrsta skiptið en strákarnir okkar jöfnuðu metin aftur. Valsmenn leiddu þó með einu marki þegar liðin gengu til búningsherbergja. Eitthvað virtist staðan fara í taugarnar á þjálfara Vals, sem sagði dómurum leiksins að dómgæslan væri ekki boðleg. Þar að auki henti hann tveimur af sínum lykilmönnum strax inn á völlinn á fyrstu mínútu seinni hálfleiks. Guðmundur Hólmar Helgason, einn nýjasti landsliðsmaður Íslands, kom inn á og byrjaði að valda usla. Honum tókst að skora átta mörk á þeim rúmu tuttugu mínútum sem hann spilaði. Á þessum kafla misstu leikmenn B-liðsins leikinn frá sér og varð hann því ekki eins spennandi og í fyrri hálfleiknum. Það vantaði þó ekkert upp á skemmtanagildi leiksins þar sem tveir skemmtilegir hlutir litu dagsins ljós. Eftir eina sókn B-liðsins gaf Vignir Stefánsson, fyrrum leikmaður ÍBV, sirkus-sendingu á Pálma Harðarson sem skoraði glæsilegt mark. Þetta líkaði áhorfendum og Valsarar sáu einnig ákveðinn húmor í þessu. Undir lok leiksins skoraði svo Guðmundur Ásgeir Grétarsson, betur þekktur sem Gummi-pönk, mark. Þá ætlaði allt um koll að keyra í húsinu og má segja að þakið hafi rifnað af húsinu þegar Gummi dansaði við Gangnam Style, lag Psy, sem gerði garðinn frægan hér fyrir nokkrum árum.
Tryggvi heiðraður
Bókaútgáfan Tindur, sem gefur út bókaflokkinn, Íslensk knattspyrnu veitti árleg heiðursverðlaun sín þegar bókin fyrir árið 2015 kom út. . Þau hlaut að þessu sinni Tryggvi Guðmundsson fyrir einstæðan árangur sinn á ferlinum, bæði innanlands og utan, hvað varðar markaskorun, stoðsendingar og leikjafjölda.
Brokkgengir karlar
ÍBV spilaði tvo leiki með stuttu millibili á heimavelli rétt fyrir jólin þegar Akureyri og Víkingar komu í heimsókn. Fyrri leikurinn var gegn Akureyri og lauk með jafntefli 21-21, þar sem ÍBV kom glæsilega til baka en síðari hálfleikurinn vannst með sex mörkum. Víkingar komu síðan í heimsókn tveimur dögum síðar en þar bar ÍBV sigurorð af röndóttum gestunum. Lokatölur voru 34:28 en staðan í hálfleik var 18:12.
ÍBV hélt svo til Akureyrar helgina á eftir og aftur gerðu liðin jafntefli, 25 mörk gegn 25.
Síðasti leikur fyrir áramót var svo gegn Aftureldingu og var leikið Eyjum. Afturelding hafði betur, 26-28.
Um áramótin var ÍBV í 5. sæti Olísdeildarinnar með 18 stig.
Óskar nýr framkvæmdastjóri knattspyrnunnar
Knattspyrnuráð ÍBV gekk á dögunum frá samningi við Óskar Jósúason en hann mun taka við stöðu framkvæmdastjóra hjá meistaraflokki og 2. flokki félagsins. Óskar er fæddur og uppalinn í Eyjum þar sem hann spilaði upp yngri flokkana með ÍBV, Tý og Þór. Þá var Óskar á mála hjá ÍBV árin 1998 til 2002. Hann lék t.a.m. í leik gegn Leiftri um titilinn meistari meistaranna árið 1998. Óskar hefur undanfarin ár starfað við Grunnskóla Vestmannaeyja þar sem hann hefur hlotið gott orð fyrir störf sín sem kennari. Hjálmar Jónsson, sem gegndi starfinu síðustu misseri, ákvað að taka ekki slaginn á ný með stjórninni.
Heimir þjálfari ársins
Það kom fáum á óvart að Heimir Hallgrímsson skyldi vera kjörinn þjálfari ársins 2015 í kjöri Samtaka íþróttafréttamanna. Heimir fékk 215 stig í kjörinu en niðurstöður voru kynntar í Hörpu miðvikudaginn 30. desember. Þórir Hergeirsson, þjálfari norska kvennalandsliðsins í handbolta, fékk 69 stig en hann varð heimsmeistari á dögunum. Heimir náði ótrúlegum árangri með íslenska landsliðið sem hann stýrir ásamt Lars Lagerback. Saman stýrðu þeir félagar liðinu inn á Evrópumótið sem fram fer í júní á þessu ári. Þetta er í fyrsta skiptið sem íslenskt karlalandslið fer á stórmót og því um ótrúlegan árangur að ræða