Þórður Runólfsson (öryggismálastjóri)

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Þórður Bjartmar Runólfsson.

Þórður Bjartmar Runólfsson frá Saltvík á Kjalarnesi, járnsmiður, vélfræðingur, kennari, öryggismálastjóri fæddist þar 15. september 1899 og lést 31. júlí 1994.
Foreldrar hans voru Runólfur Þórðarson bóndi, verkamaður, f. 25. ágúst 1874, d. 20. apríl 1947, og kona hans Kristín Jónsdóttir, f. 9. júlí 1874, d. 6. nóvember 1912.

Þórður nam járnsmíði hjá Guðmundi Jónssyni í Reykjavík 1916-1920 og lauk sveinsprófi 1920, tók vélsjórapróf í Vélstjóraskóla Íslands 1921, próf í véltæknifræði í Technikum Mittwida í Saxlandi 1922-1925.
Hann var verksmiðjustjóri við fiskimjölsverksmiðju Gísla Johnsens í Eyjum 1925-1926, starfaði við kennslu á mótornámskeiðum Fískifélags Íslands 1926-1928.
Þá vann hann við samningu reglugerða um verksmiðju- og vélaeftirlit fyrir ríkissjórnina 1928-1929, skoðunarmaður við sama 1929-1940, verksmiðjuskoðunarstjóri ríkisins 1940-1952 og öryggismálastjóri 1952-1970.
Þórður var kennari við Vélskólann í Reykjavík 1932-1934 og 1949-1975. Auk þess kenndi hann á námskeiðum í vélfræði og samdi kennslubók um þau efni.
Hann teiknaði og hafði eftirlit með byggingu Síldarverksmiðju ríkisins á Siglufirði 1934-1935, teiknaði og sá um byggingu á síldarversmiðju Ingólfs hf. á Ingólfsfirði 1942-1943 og á Siglufirði og Skagaströnd 1945-1946.
Hann var fulltrúi Íslands í samstarfsnefnd Norðurlanda um öryggisbúnað við vinnu 1947-1962.
Þórður var listhneigður, teiknaði og málaði í frístundum sínum.
Hann hlaut ýmsar viðurkenningar fyrir störf sín.
Helstu rit:
1. Kennslubók í mótorfræði 1928.
2. Kennslubók í vatnsvélafræði, 1952 .
3. Bókin um bílinn (þýtt og endursamið), 1952.
4. Ritgerðir um slysahættu og varnir gegn slysum í blöðum og tímaritum.
Þau Sigríður Júlíana giftu sig í Eyjum 1926, eignuðust tvö börn, Runólf í Eyjum og Jakobínu í Reykjavík.
Þau fluttust til Reykjavíkur, bjuggu á Ásvallagötu 16, þá á Hávallagötu 27 og síðar í Tómasarhaga. Jakobína móðir Sigríðar bjó hjá þeim frá 1938 til dánardægurs.
Sigríður Júlíana lést 1991. Þórður dvaldi síðasta ár sitt á Hrafnistu í Reykjavík. Hann lést1994.

I. Kona Þórðar, (3. júlí 1926), var Sigríður Júlíana Gísladóttir frá Eyjarhólum, f. 29. júlí 1904, d. 7. október 1991.
Börn þeirra:
1. Runólfur Þórðarson efnaverkfræðingur, verksmiðjustjóri í Áburðarverksmiðjunni, f. 30. september 1927 á Þrúðvangi, Skólavegi 22. Kona hans Hildur Halldórsdóttir.
2. Jakobína Þórðardóttir stúdent, tækniteiknari, deildarstjóri alþjóðadeildar Rauða Krossi Íslands, f. 9. september 1930 í Reykjavík, 27, d. 13. mars 2017. Maður hennar, skildu, var Jón Þorláksson.


Heimildir

  • Samantekt: Víglundur Þór Þorsteinsson.
  • Íslendingabók.is.
  • Kennaratal á Íslandi. Ólafur Þ. Kristjánsson og fleiri. Prentsmiðjan Oddi 1958-1988.
  • Manntöl.
  • Morgunblaðið 9. ágúst 1994. Minning.
  • Prestþjónustubækur.
  • Verkfræðingatal. Ritstjóri: Þorsteinn Jónsson. Þjóðsaga ehf. 1996.


Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.