Úr fórum Árna Árnasonar/Verk annarra/Til Finnlands
Jump to navigation
Jump to search
- Úr fórum Árna Árnasonar
- Til Finnlands
- Hví berast helsár kvein frá austur átt,
- hví óma dauðastunur mæðra og barna?
- Hver myrðir á svo hryllilegan hátt
- og hlífist ei að beita vopnamátt
- gegn litlum hóp, sem ekkert á til varna?
- Hví drúpir byggð og bær um Norðurlönd,
- hví blika tár í augum þeirra manna,
- sem treysta því, að hlífi æðri hönd
- þeim hetjum, sem nú verja Karelsströnd
- gegn brjáluðu æði blóðgra vargatanna.
- Í sárum flakir Finnlands hrausta þjóð,
- sem frelsi og ættjörð hærra lífi virðir.
- Enn drýpur Finnlands heita hjarta blóð
- sem heilög fórnardögg á vígaslóð
- mót ofurvaldi, er hverja hugsjón myrðir.
- Með sverðin reidd í hverri hetjumund,
- einn hópur smár gegn múgsins fjölda stendur.
- Hver dáir ei þá dirfsku og karlmannslund,
- sem dauðann heldur kýs á feðragrund
- en selja frelsi og fjör í böðlahendur?
- Hve sárt, hve sárt, að heyra hróp og kvein,
- er helsærð bræðraþjóð í kvölum stynur.
- Hve sárt, hve sárt að hafa ei hjálpráð nein,
- er huggað geti og létt þau sáru mein
- að geta ei rétt þér hönd sem hollur vinur.
- Vor einlæg samúð veikur vottur er
- þess vilja, er smæð vor aðeins sýnt þér getur.
- Við hötum, þjáumst, elskum öll með þér,
- þín örlög hörð sem bróður grátum vér.
- Þín bæn er vor, þín djarfa dáð oss hvetur.
- Vit, finnska þjóð, þó fláar fjandaklær
- þig frelsi ræni og vefji þrældómsböndum,
- þín hetjulund er logi fagurskær,
- sem leifturbliki gegn um myrkrin slær
- í sál hvers manns og svanna á Norðurlöndum.
- En þú, sem myrðir sakleysingjans sál
- og særðar mæður banahöggum lemur,
- sem hverja fagra hugsjón berð á bál
- og byggir hástól fyrir grimmd og tál
- og rétt þess veika hörðum hælum lemur,
- sú tíð mun koma, er greiðir þú þín gjöld.
- Hver glæpur hraðast leikur þann, sem fremur,
- þó sigri nú í svip þín helráð köld,
- vit, síðar hefnd og blóðskuld þúsundföld
- á þér og börnum þínum niður kemur.
- Þín eiturtunga hlífist hvergi við
- með hræsni að smjatta á fögrum bróðurorðum,
- í lýðsins hjörtu að ljúga um skjól og frið,
- að lofa rétti og bjóða veikum grið,
- nú sést þín efnd, í svörtum smánarorðum.
- En sjálfri þér þú ristir rammast níð,
- þín rauða lygi er sundurtætt og hrakin.
- Sem blóðug martröð blekktum heimsins lýð
- nú blasir við og geymist alla tíð
- þín böðulsásýnd blæjulaus og nakin.
- Hver telur það ei lífs síns mesta lán
- að lifa fjarri þínum æðisglóðum?
- Hver vogar sér að verja þína smán?
- Hver vogar sér að telja frelsisrán
- og hryðjuverk til heilla nokkrum þjóðum?
- Ef nokkur meðal vor svo argur er,
- skal uppi skömm þess níðings alla daga,
- því hver, sem blóðþyrsts morðhunds málstað ver,
- þess myrta dreyra á sekum höndum ber,
- og nafn hans geymir sama glæpasaga.
- Við blossa af þinni björtu fórnarglóð
- skal bál það kveikt, er engin þýlund slekkur.
- Hver dropi blóðs, er döggvar þína slóð,
- til drottins kallar, uns af finnskri þjóð
- hver fjötur þrældómsoksins aftur hrekkur.