Úr fórum Árna Árnasonar/Bæn fyrir sjómönnum

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search




Úr fórum Árna Árnasonar


Bæn fyrir sjómönnum


Úr eigu Árna Árnasonar, Grund. Í eftirmála segir Árni símritari, að ekki sé vitað um höfund hennar, en hún sé fundin meðal annarra blaða úr eigu hjónanna á Grund, Árna Árnasonar og Jóhönnu Lárusdóttur:

Hjá þér, almáttugi og algóði guð, er bæði viljinn og mátturinn að veita hjálp og liðsinni veikum og vanmáttugum jarðarinnar börnum. Og treystandi þínum kærleik og almætti, leyfum vér oss að hefja hug vorn þangað, hvaðan vér eigum hjálpar von. Óumræðileg náð og svalandi huggunarlind er það að hafa leyfi til að opna hjarta sitt og senda þaðan hugskeyti bænarinnar upp að hásæti þínu, drottinn. Lof og dýrð sé þér drottinn, að þú hefur leyft oss, já hvatt oss og kennt oss að biðja þig.
Notum því iðuglega bænarinnar náð og biðjum guð iðuglega í öllum lífsins kringumstæðum, því bænin má aldrei bresta oss.
Sérlega köllun til bænarinnar hafa nú allir þeir menn, sem stofna verða lífi og heilsu í háska á hinum hættulega sjó. Vér felum þér, himneski faðir, alla sjómenn til umönnunar og varðveizlu og þá sérstaklega þá sjómenn, sem stunda sjó í þessari veiðistöð. Margt er það, sem knýr þá til þess að biðja, þar á meðal hættan og þörf á því, er viðheldur líkamans lífi. Þurfandi ert þú mín sál nema þú drottinn uppljúkir þinni örlátu hendi, örmögnumst vér á leiðinni.
Því vona allra augu á þig, lítandi yfir hafið, hið mikla forðabúr, vonandi, að þú bætir úr þörfum allra þeirra, er við þröng kjör búa, að þú léttir hinum þungu áhyggjum af hjarta hins snauða, að þú gleðjir hinn mædda, klæðir hinn klæðlitla og gjörir hinn ófrjálsa, skuldugan mann að frjálsum og sjálfstæðum manni.
Legg þína örlátu hönd yfir sjómennina, himneski faðir, og yfir atvinnu þeirra. Þörfin knýr þá til bænar, en hættan gjörir það einnig. Sjórinn er breytilegastur og þar með hættulegastur allra höfuðskepna. Lát þína almættishönd, drottinn minn, hvíla yfir skipum og skipverjum, bæg hinum mörgu og miklu hættum hafsins frá þeim öllum, en þegar í hinn óumflýjanlega háska er komið, þá leið þú sjómennina farsællega gegnum háskann. Gef þeim heilsunnar hnoss, að þeir glaðir og ánægðir megi stunda sína atvinnu. Gef þeim traustið til þín, trúna á þig, kærleikann til þín og friðinn frá þér.
Gef þeim ástvinum, sem skilið hafa um stund, glaða samfundi á sínum tíma, og gleð þú heimilin með ríkulegum feng, ríkulegri uppskeru af sjómannsins sveita og áreynslu, að farsællega enduðu hinu hættulega starfi.
En komi slys og dauði, þá gef þú þeim, er kallast kunna burt, að deyja með guðsanda í hjartanu, og þeir sem hlut áttu þá að máli, segi þá í traustri trú: „Verði drottins vilji, hans sem gaf og hans sem tók.“ Himneski faðir. Vér biðjum, að þín örláta, þín almáttuga, þín græðandi hönd sé með sjómönnunum og öllum mönnum, bæði á sjó og landi. Í Jesú nafni, Amen.


Úr fórum Árna Árnasonar, efnisyfirlit