Úr fórum Árna Árnasonar. Verk annarra/Viðlega í Súlnaskeri 1942

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search
Úr fórum Árna Árnasonar


ctr


Viðlega í Súlnaskeri sumarið 1942


Veiðimenn: Hjálmar Jónsson frá Dölum og Svavar Þórarinsson frá Suðurgarði.
Sókningsbátur: Gísli J. Johnsen VE-100. Skipstjóri Sigurjón Ingvarsson.
Farið var að heiman kl 20, föstudagskvöld 17. júlí. Ferðin gekk vel suður að Skeri, og uppgangur, því að upp voru þeir komnir kl. 21:45. Þá var strax byrjað að draga upp dótið, og var það fjandi erfitt, þareð við vorum aðeins tveir, en dráttarhæðin er 60 metrar frá sjó upp á brún. En allt hafðist þó upp og fór báturinn heim aftur kl 22:45, en þá var líka allt dót uppdregið. –
Við fórum þá strax að tjalda og ganga frá okkur, fá okkur bita og búa kaffi, því að vel matlystugir vorum við orðnir. Það gekk allt eins og í sögu, og lögðumst við mettir til svefns kl. 01:00, þann 18. júlí.
Við vöknuðum snemma og fengum okkur árbít, en fórum síðan að veiða. Það var suðvestan kaldi og þoka, og lítill fugl við. Svavar veiddi 100 stk., Hjálmar 140. Til matar var súla og kartöflur, sem smakkaðist vel.
19. júlí, sunnudag var svarta þoka og logn allan daginn og lundi sást ekki. Veiði var því engin. Til matar höfðum við fiskabollur og kartöflur. Dagurinn leið hægt og leiðinlegt var aðgerðarleysið – en verst var að hafa ekkert að lesa til þess að stytta sér stundir með. En dagur leið þó að kvöldi.
20. júlí, mánudagur: Vestan kaldi, fremur lítill fugl við.
Svavar veiddi 170 stk., Hjálmar 260 stk. Á borðum var í dag lundasúpa – yndælasti herramannsmatur, enda vel borðað.
21. júlí, þriðjudagur: Sókningsdagur. Austan kaldi. Svavar veiddi 170 stk., Hjálmar 130. Fengum þessa ferð 250 í mannspart. Lundan gáfum við niður ,,á Helli“. Á borðum var kjöt í dag.
22. júlí: Norðaustan stormur til kl. 16, en þá gekk til suðvestan-áttar. Mjög lítill fugl við. Hjálmar veiddi í dag 180 stk. og Svavar 160 stk. – Á borðum súla með kartöflum.
23. júlí: Suðaustan bræla fyrst, en lygndi svo alveg. Þó nokkuð við af fugli, enda veiddi Hjálmar 260 stk. og Svavar 240 stk. Mátti það gott kallast, og meira hefði veiðst, ef ekki hefði blálygnt austanvindinum. Á borðum var í dag fiskibollur með kartöflum.
24. júlí: Logn og blíðuveður – glaða sólskin og afar heitt, svo maður gat varast hreyft sig. Samt var farið til veiða og veiddi Hjálmar 80, en Svavar 90 stk. Sókningsbáturinn kom og sendum við heim 280 í hlut. Á borðum var kjöt í sósu – nammi - namm – og rabarbaragrautur.
25. júlí, laugardagur: Logn og gífurlegur hiti, glampandi sólskin og blíða. Hjálmar veiddi 150, Svavar 100 stk. Sigurjón Gottskálksson í Hraungerði kom, og drifum við okkur heim með honum snögga ferð eða til mánudags.
27. júlí, mánudag fórum við heiman aftur suður í ,,Súlnasker“ á trillubátnum ,,Gæfa“ ásamt Álseyingum, sem voru að fara til veiða, og var kl. 22 er við fórum frá bryggjunni. Með okkur skermönnum voru 2 stúlkur (já – það er ekki gott að maðurinn sé einn !!). Ragnheiður Jónsdóttir frá Dal, hjúkrunarnemi og stúlka, sömuleiðis hjúkrunarnemi er Lolla nefndist, andskotans ári snaggaralegar stelpur. Þá var og með okkur Brynjólfur Jónatansson frá Breiðholti. Ætluðu þessi þrjú upp á ,,Skerið“ ef þeim litist það fært og skerpresturinn ekki amaðist við þeim. Var mest hætta á, að hann væri á móti heimsókn stúlknanna. Þar aldrei fyrr svo vitað verði, höfðu stúlkur komið upp á ,,Súlnasker
Kl. 00:20, þann 28. júlí – vorum við komin suður að ,,Skerinu“, og hafði ferðin þangað gengið að óskum.
Síðari hluti þessarar sögu er í raun frásögnin: Einsdæma Súlnaskersferð. (Heimaslóð).


Úr fórum Árna Árnasonar, efnisyfirlit