Úr fórum Árna Árnasonar. Verk annarra/Bitavísur eða skipavísur

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit




Úr fórum Árna Árnasonar
Bitavísur eða skipavísur

Bitavísur voru venjulega skornar út aftan á hinn svokallaða hábita, sem er aftarlega á skipinu, milli skuts og austursrúms, og var útskurður þessi oft ger af miklum hagleik. Aðeins örfáar af vísum þessum eru nú ógleymdar. Læt ég hér á eftir fara þær, sem ég hef heyrt frá eldra fólki hér í Vestmannaeyjum.
Hvenær byrjað var á að yrkja bitavísur, er mér ókunnugt um, en hitt þykist ég vita, að lítið hafi verið að því gert eftir miðja 19. öld.
Venjulega voru vísur þessar bæn til guðs um farsæld fyrir skipið til lands og sjávar, og eru margar þeirra eftir góðkunn skáld, enda vísurnar margar mjög vel gerðar.


Eldri skip í Eyjum.
Bitavísur eftir Pál skálda Jónsson.
Lukkureynir
Höppum stýri á hnísu mýra flóði,
hættumein og slys ei nein ofbjóði
lægis-hreini
Lukkureyni,
leiðir beini,
Guð, sá eini góði.
Vestmannaey
Vænti ég fleyið Vestmannaey að heiti
vogar – skundi, er líður stund að - reiti
eignar beimi
aflann teymi
upp úr geymi
og heilum heim að fleyti.
Pétursbátur
Aflakjör í fiskaför
fyrðum vel svo láti,
kjósum fyrstan formann Krist
fyrir Pétursbáti.
Um smá jul, sem hét Gæfa:
Trúar búin trausti á Krist,
trássar afli Kára,
Gæfa í sævar – lánið list,
litla gimblan ára.
Skrauti
Drottins máttur, höndin há,
happafengjum sjóa,
auðgi “Skrauta“ og alla þá
á honum, sem róa.


Óþekktir höfundar
Friður
Árblíðu far Friður
för, gæfu kjör hreppi,
Góðgjarn guð stjórni,
geim, lagi beim vægi.
Mild höndin sæld sendi,
sið blessi, geð hressi.
Lífs föður, lof lýðir,
láð virstu í náð Kristi.
Gideon
Milding heiti menn, sem veiti
á mastra dýri,
lukku veiti á laxamýri
ljóssins anda kóngur stýri.
Enok
Enok leiði áls um heiði
og auki gæðunum,
veginn greiði, grandi sneiði
guð á hæðunum.
Mýrdælingur
Ljúfi Guð um landahring
leiði í miskunn sinni,
menn og skipið Mýrdæling,
mein svo ekkert finni.
Pétursey
Pétursey – marar – meyja
mildi drottins gilda
hreppi og hvergi sleppi
hafs um breiðar leiðir.
Gef, drottinn, giftu, en heftu
grand á sjó og landi,
ást og drottins ótti
auki megn Ránar þegnum.

(Höfundar þessarar vísu er séra Gísli Thorarensen á Felli í Mýrdal, sem var gott skáld.)

Blíður lið ljáðu,
líði á víði,
vörð berðu borði,
búa og hjúa,
Greið gjöf frá miði,
glaða, alfaðir.
Bráðu æði boða
bending af – vendi.
Höfundur séra Jón Austmann
Langvinnur
Langvinnur þig lukkan styðji
á laxapolli.
Hann sem býr á himnapalli
hallardrottinn, yfir þig stalli.

Þessari síðustu vísu, sem er eftir séra Jón AustmannOfanleiti, var snúið af Árna nokkrum Níelssyni sjómanni hér, sem var vel hagmæltur, þannig:

Langvinnur þig lukkan styðji
um laxastreiti
svo höfðingjanum á Háaleiti
honum aukist magafeiti.


Úr fórum Árna Árnasonar, efnisyfirlit