Úr fórum Árna Árnasonar. Verk Árna og annarra/Kveðskapur úr Álsey
- Úr fórum Árna Árnasonar
- Kveðskapur úr Álsey
Formálar úr „Eyjar og úteyjalíf – Úrval verka Árna Árnasonar símritara frá Grund. Sögufélag Vestmannaeyja í samstarfi við Safnahús Vestmannaeyja 2012.“
Talsvert hefur varðveist af kveðskap um Álsey og Álseyinga. Munar þar hvað mestu, að Árni Árnason var „Álseyingur“, og því fjalla flest af úteyjaljóðum hans um þá eyju og þá, er þar dvöldu. En Óskar Kárason var einnig drjúgur í kveðskap um Álsey, og auðvitað skráði Árni allan þann kveðskap og geymdi í safni sínu.
- Álseyjarljóð 1951
- Lag: Ennþá er fagurt til fjalla
- eftir Oddgeir Kristjánsson.
- Í vestrinu, hátt móti hæðum,
- heillar mig draumfögur sýn:
- Álsey í sefgrænum slæðum
- og sindrandi kvöldroða lín.
- Og draumsýnin fagra mig dregur
- sem drjúpandi ungmeyjartár.
- Þar hefir og verið minn vegur
- og velferð um daga og ár.
- Ég hleyp þar um bríkur og bekki,
- bringi og rótfúnar tær,
- flughratt um fláka og kekki,
- flesin og brekkurnar tvær.
- Hér finn ég þann unað og yndi,
- og allt það, er veitir mér þor,
- fegurð og lífið í lyndi
- leikandi um sólbjartast vor.
Oft hefir þetta verið sungið við raust, bæði úti í eynni og svo á afmælishófum bjargveiðimannafélagsins, síðan það var stofnað 1952. Að sjálfsögðu hafa á hverju sumri verið ein eða tvær harmonikur í Álsey, og þeir spilað á þær, Árni Árnason og Hjálmar Jónsson, ekki síst, þegar skemmtiferðafólk hefir komið út í ey, sem ekki er nein nýlunda þar, því segja má, að hver stórhópurinn komi eftir annan sér til skemmtunar og upplyftingar og þá ekki síður kvenfólk en karlmenn. Þá er gjarna slegið upp balli í fjárréttinni, þar eð ekki er um annað danspláss að ræða, og dansað af hjartans lyst og sungið við raust.
- Daglegt líf í Álsey.
- (Gamanbragur)
- Lag: Siggi var úti etc...
- Í Álseyjarkofanum gott er að kúra,
- kannske með örlítinn dreitil með sér,
- grípa í háfinn og tifa smá túra,
- en tylla sér hvergi, sem veiðilegt er.
- Ó, þú Hjáli, sem aldrei ert þunnur,
- alltaf þambar sem hriplekur brunnur.
- Við höfum Suðurhafslandsölið súra,
- og sjúkrahúsmeyjarnar upphefjast hér.
- Í Álsey má enginn vera að veiða,
- menn eru að leikjum og tala oft heim.
- Tveir þurfa að malla og matinn tilreiða,
- en meyjarnar ögrandi brosa við þeim.
- Komdu hér, Jói, og kysstu hana Fríðu,
- kenndu stelpunni Álseyjar-blíðu.
- Maggi er svo daufur og dæmalaus bleyða
- við dömur, sem kunna að bjóða upp á geim.
- Hann Geiri með píunni svefnhúsið sópar,
- syngjandi pússar hvern ketil og pott.
- En Jónas við „Brandara“ talar og hrópar:
- „Mikið helvítis ósköp er kofinn nú flott“.
- Hér er fjölmennt af fjörugum meyjum,
- færeyískum og hópur úr Eyjum.
- Nú væru strákarnir skussar og glópar,
- ef sýndu ei telpunum atlæti gott.
- Í nóngilið hurfu þau Hallberg og Palda,
- en Hjáli úr kojunni saknaði fljótt
- forláta teppis, svo ég er að halda,
- að eitthvað sé Hallberg í Gerði ei rótt.
- Mummi er suður í Siggaflesi
- skemmtir þar hrundinni úr Vallanesi.
- Laugi vill ólmur og uppvægur tjalda
- með Esther, því nú skal í Geirfugl í nótt.
- Þeir Jói og Helgi á Gathelli ganga,
- glaðir með sprundin af klæðunum flett.
- Árni er léttur og farið að langa
- lipurt að tjútta einn nýmóðins sprett.
- Hvar er gullfagra snótin hún Gígí?
- Fór hún með Geira?... Æ, komdu hér, Bíbí.
- Hann Gauja við neyðum við nikkuna að hanga
- og neitum að dansa í kindanna rétt.
- Já, svona er lifað og leikið hjá okkur,
- lífsgleði mikil og bræðralag kátt.
- Fuglinn er horfinn, það fæst ekki nokkur,
- þótt förum til veiða í landnyrðingsátt.
- Halló, Brandur… Ég hætti að mala.
- Hjáli er kominn og vill fá að tala.
- Hann brölt’i upp í stólinn, sá bölvaði rokkur
- og búinn að messa á færeyskan hátt.”
- Veiðimannavísur úr Álsey
Þessi ljóð eru nær ábyggilega eftir Óskar Kárason, a.m.k. er eitt blaðið í handritasafninu merkt honum, og kveðskapurinn sver sig mjög í hans ætt. Ekki er þess getið frá hvaða ári þetta er.
- Forspjall:
- Álsey glæst í öldur rennd
- yndisþokkann styður.
- Hefur bæði „Haus“ og „Lend“
- hrygginn fastan viður.
- Glitar röðull eyju-Áls
- öllum litum sínum.
- Hnitar lundinn flugið frjáls
- fyrir vinum sínum.
- Mínum vitum fyrir frjáls,
- flugið lundinn hnitar.
- Sínum litum öllum Áls-
- eyju röðull glitrar.
- (Vísur nr. 2 og 3 eru sléttubönd, þ.e. hægt að lesa bæði aftur á bak og áfram).
- Veiðimannatal.
- Þó nú aldrei eygist sól
- Álseyjar á grundum,
- virðar hennar vot við skjól
- vaskir bana lundum.
- Þar á margur veiðivon
- verjinn háf- í lunda.
- Þar er Jónas Sigurðsson
- sjóli talinn þunda.
- Útvarp stundar einnig sá,
- oft í tali glaður.
- Flesið Sigga ferðast á
- fimur veiðimaður.
- Grundar Árni greinast má,
- greindur máls á letur.
- Vísnasmiður, vaskur sá,
- veiðir flestum betur.
- Siðinn ungur lærði sá
- lipur háf með skunda.
- Lengi hefur Álsey á
- erjað staði lunda.
- Hjálmar Dala, letra ljóð
- lista köttinn fjalla.
- Háfnum veifar, grip með góð,
- garpur á veiði alla.
- Sannleik mælir sagna skýr
- seggur valinn eyjar.
- Glaðlyndur og halur hýr
- hatar vín og meyjar!
- Prúður Jóhann Gísla grér
- greinist fjöll við traustur.
- Sá um eyna fimur fer
- fugls við drápið hraustur.
- Hólum-Eyjar hann er frá
- held ég megi sanna.
- Drengur fjalla djarfur sá,
- dáir veig og svanna.
- Jónasar ég segi svein
- Sigurgeirs með heiti(r).
- Handbrögð notar hvergi sein
- háf þá lunda beitir.
- Garpur veiði greinast má
- glæst við fjöllin alinn.
- Hylli svanna hefir sá
- heiðurs drengur talinn.
- Hef ég talið hölda þá,
- hafs, sem eyna prýða.
- Víki rostinn virðum frá
- vermi þá sólin blíða.
- Lokavísur við veiðimannatal í Álsey
- Tvö ég sumur Álsey á,
- arkaði til lunda.
- Gaman var með görpum þá
- ginið við að dunda.
- Kvöldsett þar er kletts við ból,
- kann ég óð um banga.
- Þaðan aldrei signuð sól
- sést til hvílu ganga.
- Þeir, sem Álsey geta gist
- glöðum meður þundum,
- hennar munu helga list
- heiðra öllum stundum.
- Hálft er aldar tímatal
- tvö plús þrjú með ára.
- Enda spjallið óðar skal
- Óskar sonur Kára.
- Í Álsey
Í þessum þætti Álseyjarljóða bregður Óskar Kárason á leik með hin ýmsu rímform. Í raun er alltaf um sömu vísuna að ræða, sömu orðin, en forminu breytt, enda var Óskar Kárason snillingur á því sviði ljóðagerðar.
Sléttubönd, | Glitar röðull eyju-Áls | |
síðhend og | öllum litum sínum. | |
frambrugðin. | Hnitar lundinn flugið frjáls | |
fyrir vitum mínum. | ||
Sléttubönd | Mínum vitum fyrir frjáls | |
frumhend og | flugið lundinn hnitar. | |
afturbrugðin. | Sínum litum öllum Áls- | |
eyju röðull glitar. | ||
Sléttubönd, | Glitar röðull eyju-Áls | |
síðhend, frum- | öllum sínum litum. | |
síð stímuð. | Hnitar lundinn flugið frjáls | |
fyrir mínum vitum | ||
Sléttubönd, | Vitum mínum fyrir frjáls | |
frumhend, fram- | flugið lundinn hnitar. | |
síð stímuð. | Litum sínum öllum Áls- | |
eyju röðull glitar. | ||
Sléttubönd | Glitar litum eyju-Áls | |
frumframhend. | öllum röðull sínum. | |
Hnitar vitum flugið frjáls | ||
fyrir lundinn mínum. | ||
Sléttubönd | Mínum lundinn fyrir frjáls | |
síðbakhend. | flugið vitum hnitar. | |
Sínum röðull öllum Áls- | ||
eyju litum glitar. | ||
Víxlhend, | Röðull glitar eyju-Áls | |
framaftur | öllum sínum litum. | |
brugðin. | Lundinn hnitar flugið frjáls | |
fyrir mínum vitum. | ||
Hringhenda. | Röðull glitar eyju-Áls | |
öllum litum sínum. | ||
Lundinn hnitar flugið frjáls | ||
fyrir vitum mínum. | ||
Víxlhend, | Röðull sínum eyju-Áls | |
síðbakhend | öllum glitar litum, | |
lundinn mínum flugið frjáls | ||
fyrir hnitar vitum. |