Úr fórum Árna Árnasonar. Ókunnur höfundur/Vorsins vor

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit




Úr fórum Árna Árnasonar


Vorsins vor
Vorsins vor, sem klakaböndin klýfur
kraftur þinn í leyndust fylgsni skín.
Yfir mínum andans vonum svífur,
að mér veitist sumargjöfin þín.
Heilagleikans birtan brautryðjandi
bú þér veg í gegnum hjarta mitt.
Komdu inn, þú kraftur allsvaldandi,
kom sem fyrst með sólaraflið þitt.


Þegar vorsins andi klakann kyssir,
klökknar rótin, leysist fjötrum frá.
Sambandið, ef sólin eigi missir
sælan fundin ofan að er þá.
Þeim er nóg, er nægtir drottins finna,
náðarhöndin við oss örlát er.
Gjafir sínar lætur hann ei linna,
lífsins viðhald um það vitna ber.


Stönzum við og heyrum himna lagið:
Harpa vorsins ómar allt í kring.
Rísum upp og bindum bræðralagið,
birtum það frá eigin verkahring.
Elska guð af öllu hjarta þínu
og þinn bróður eins og sjálfan þig.
Til vor drottinn lagði þessa línu,
lögmálið æ endurtekur sig.


Sól og dögg eins fátækum er fundin.
Faðir ljóssins gefur öllum jafnt.
Bent var oss að skoða liljulundinn,
loftsins fuglar einnig fá sinn skammt.
Náttúran um nægtir sínar talar,
nærast lauf og ljúf út springa blóm.
Andvarinn í úðans öldum hjalar
óort ljóð um lífsins skapadóm.
(Höf. ókunnur)


Úr fórum Árna Árnasonar, efnisyfirlit