Úr fórum Árna Árnason. Ókunnir höfundar/Ýmis ljóð — og kveðjur til Árna

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit




Úr fórum Árna Árnasonar


Ýmis ljóð — og kveðjur til Árna


Árni Árnason fimmtugur
Á afmælisdegi sínum, 19. mars 1951, barst Árna þetta ljóð.
Því miður hefur Árni ekki skráð, hver sendandinn er,
en ljóðið lýsir ævistarfi Árna afar vel.


Þú byrjaðir ungur á Landsímans leið,
að létta þar störfin með handtökin greið,
því fjörið í blóð þitt var borið.
Og þjóðholl hún reynst hefur þjónustan sú
og þrjátíu ár eru hjáliðin nú
og enn er þér alllétt um sporið.


Þú hljóðmerkjum breyttir í innrituð orð
með eldingarhraða við ritsímans borð,
og enginn var fimari fundinn.
Þú lagðir við hlustir og heyrðir það fljótt,
ef háski var skipunum búinn um nótt,
er lokaðist Leiðin og sundin.


Í umgengni‘ og starfinu vinsæll þú varst,
um víðlendisstöðvanna kynning þín barst
með tækjum á láði og legi.
Nú árið þér lyftir í öldungadeild,
en óskirnar berast frá þjóðinni‘ í heild
um farsæld á framtíðarvegi.


Nú hálfnuð er öldin og einnig ert þú, –
að árunum jafn, en það hryggir mig nú,
sjá vík milli vina og stranda.
En framtíðin veiti þér hamingjuhag
og heiðri og prýði þinn afmælisdag,
sú ósk má um eilífðir standa.


Á fimmtugsafmælinu fékk Árni einnig þetta ljóð
sent í heillaskeyti og undir því stendur H.S:
Ég óska þér fimmtugum friðar í senn
og fullsælu gleði við arminn.
Að treinist þér aldurinn tvöfaldur enn.
Svo tekurðu lagið á garminn.


Fleiri afmælisljóð
Á afmælisdaginn árið 1944 fær Árni þessa kveðju,
og undir skrifar „Guðmundur og fjölskylda“.
Líklega er þó höfundurinn einhver annar,
en á þessum árum var mjög algengt að menn ortu
fyrir aðra, og tók Árni slíkt oft að sér.
En þessi afmæliskveðja hljómar svo:
Svona er lífið, svona flýr tíminn,
saman búa Árni og síminn.
Báðir eldast, línurnar lengjast,
lof fá báðir, ástböndum tengjast.


Í æsku var hann Árni táglíminn,
með árunum hann varð skratti kíminn.
Óska ég, hans líf mætti lengjast,
og lánið við hann alla stund tengjast.


Á afmælisdaginn 1945 fær Árni heillaóskaskeyti
frá móður sinni, svohljóðandi:
Beri til þín birtu og hlýju
broshýr sérhver ævistund.
Alls hins besta á ári nýju
óskar mamma þín á Grund.
Ekki er víst, að Jóhanna, móðir hans,
hafi sjálf ort þetta, samanber það, sem að framan greinir,
en vísan er mjög skemmtileg, nafn sendandans hluti af vísunni,
og Árni beitti þessu sjálfur í eigin kveðskap
sem og fleiri hagyrðingar þessara ára.


Og borgað bölvaðan símann
Þetta skemmtilega ljóð er að finna í handritasafni Árna.
Ekki er vitað, hver sá Ragnar er, sem það sendir,
og búið að loka fyrir síma hans, en líklega hefur Árni
skuldað honum fé, ef marka má innihald kvæðisins.
Sæll vertu, elsku Árni minn.
Andskotans bölvaður símstjórinn
tróð í gat á telefón mínum.
Orðin er kerling mín alveg snar,
æst í að kjafta af sér tuskurnar.
Sjálfur ligg ég í sæng með sárum pínum.


En ef að fengi ég, Árni minn,
ávísun – löngu eftir tímann. –
Góði sendu þá sendilinn,
svo ég geti skrifað á bleðilinn
og borgað bölvaðan símann.
Ragnar


Hannes sladdi

Þessa vísu er að finna í handritasafni Árna og meðfylgjandi skýringar:
Í sambandi við Hannes, sem nefndur var sladdi, Gíslason, mætti minnast hér gamallar vísu, sem gerð var um hann og annan, sem voru í fýleggjasnatti. (sjá nánar um Hannes, grein Árna í Bliki 1960, Gengið á reka. Ekki veit ég, hver er höfundur vísunnar, en hún er svona:

Hann Gummi minn er gamall og greindur,
gekk þar í dauðann, sem Herjólfur bjó.
Hannes er í háfjöllum reyndur,
hrapaði löngum, en samt aldrei dó.

Ekki verður nú vitað, hver þessi Guðmundur er, sem hrapað hefir í Herjólfsdal, en hans var ávallt getið sem „Gummi sem dó í Dalnum“. Hannes mun vera Hannes sá, er nefndur var Hannes sladdi. Mun viðurnefni hans komið af því, að hann var alltaf að snudda eftir fýl og eggjum hans hingað og þangað um Heimaey. Hann hrapaði víst nokkrum sinnum, en einu sinni allalvarlega úr Bensanefi í Stóra-Klifi, meiddist nokkuð mikið, en ekki lífshættulega og jafnaði sig furðu fljótt.


Lausavísur úr ýmsum áttum
Þroskaglæður eyjaarfs
öðrum gæði tryggja,
gegnum æði orku og starfs
allir þræðir liggja.
Mjög er ég nú matarlaus
og maður ekki kátur,
kaupa þyrfti kindarhaus
og kannski líka slátur.
Hafir þú um kyrrlátt kveld
kysst og faðmað halinn,
passa skaltu æstan eld,
inni, sem er falinn.
Sól í heiði sífellt skín,
svannar gleði hrósa.
Hugsa ennþá heitt til þín,
Halla, Guðbjörg, Rósa.
Mikið er hún Halla heit,
hreint sem glóðir brenni.
Enginn samt það ennþá veit
hver ylinn fær af henni.
Í eldhúsinu brasar Björn,
þó báran yfir skvetti.
Malar sinni kjaftakvörn,
kaldur á einu bretti.
Þarna er kveðið um Björn Bergmundsson,
sem var kokkur á bát og hafði að orðtaki:
„Kaldur á einu bretti.“


Og hér er ort um stýrimann og skipstjóra
á m/b Skaftfellingi:
Garðar splæsir glerhart tóg,
gerist hiti mikill.
Æðir hér um allan sjó
Einar skiptilykill.


Þingvísur frá Alþýðusambandsþingi

Margar þingvísur urðu til á síðasta ( hvenær?) Alþýðusambandsþingi, og eru hér nokkrar.
Eftirfarandi vísa varð til, er Lúðvík Jósefsson kom með tillögu um að fresta þingi til næsta hausts:

Vilja þeir nú færa fórn
og flytja þing á næsta haust,
enda víki ekki stjórn
alveg fyrirvaralaust.


Í bíl á leið til þingsetu inn í Mjólkurstöð
urðu þessar spurningar og svör til:
Á að vaka enn í nótt?
á að maka skjöldinn?
á að saka eðlið ljótt?
á að taka völdin?
Það á að aka þangað skjótt,
það á að baka gjöldin,
það á að vaka þar í nótt,
það á að taka völdin.


Margt blaðamanna var á þinginu,
og er kjörbréf höfðu verið afgreidd,
varð þessi til:
Nú er úti þrúkk og þvaður,
það var leyst með snjallræði.
Bágt er að vera blaðamaður
og bannað að greiða atkvæði.


Og, er þingstörf loks byrjuðu:
Loksins hefst nú þetta þing,
þing, sem hæfir verkalýð,
lýð, sem kommum brá á bing,
bing, sem hlaust í þeirra tíð.


Jón Rafnsson flutti skýrslu um
gerðir fyrrverandi sambandsstjórnar
og urðu umræður um hana:
Völdin höfðu víst til tjóns,
vel það dæmin sanna.
Er nú rætt um afbrot Jóns
og annarra slíkra manna.


Um fyrrverandi Sambandsstjórn:
Hér skal öllum lokið leik,
létt mun verða fórnin.
Eftir dómi dæmd og bleik
dauðans bíður stjórnin.


Úr fórum Árna Árnasonar, efnisyfirlit