Ólafur Helgason (Godthaab)

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Ólafur Helgason verkamaður í Godthaab, síðar í Utah fæddist 23. júní 1870 í Björnskoti í V-Eyjafjallahreppi og lést 24. apríl 1945.
Foreldrar hans voru Helgi Ólafsson bóndi í Björnskoti, f. 1833, d. 20. apríl 1889, og kona hans Þuríður Halldórsdóttir húsfreyja, f. 25. febrúar 1830, d. 28. febrúar 1905.

Ólafur var með foreldrum sínum í Björnskoti 1870, tökubarn í Ormskoti þar með vinnukonunni móður sinni 1880. Þá var faðir hans vinnumaður á Moldnúpi þar.
Hann fluttist til Eyja 1887 og var vinnumaður í Frydendal til 1890, í Godthaab 1891 og þaðan fór hann til Utah 14. maí 1892.
Í skrá Þorbjargar konu hans segir, að hún hafi verið unnusta hans í Eyjum, safnað fyrir fari hans vestur og sent honum.
Þau héldu strax til Scofield í Utah, þar sem Ólafur stundaði námugröft, en um vorið sneru þau til Spanish Fork og bjuggu þar síðan.
Ólafur vann við margt í Utah, rúði sauðfé, vann í sykurverksmiðju, við járnbrautir, var starfsmaður kaupfélagsverslunarinnar (Co-op Store) í Spanish Fork og fékkst við bókhald. Hann lagði sérstaka stund á enskunám.
Þau Þorbjörg Hólmfríður eignuðust 7 börn (segir 10 annarsstaðar), misstu tvö þeirra í bernsku.
Ólafur lést eftir heilablæðingu 1945. Þorbjörg lést 1947.

Kona Ólafs, (6. júlí 1892), var Þorbjörg Hólmfríður Magnúsdóttir húsfreyja, f. 6. apríl 1869 á Fögruvöllum, d. 5. desember 1947.
Börn hér:
1. Roy Victor.
2. Ole Christian.


Heimildir

  • Samantekt: Víglundur Þór Þorsteinsson.
  • Manntöl.
  • Our Pioneer Heritage Vol. 7. Kate B. Carter. Daughters of Utah Pioneers. Salt Lake City 1964.
  • Prestþjónustubækur.


Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.