Ávarp. Katrín Gunnarsdóttir
í bókinni Eyjar og úteyjalíf – Úrval verka Árna Árnasonar símritara frá Grund. Sögufélag Vestmannaeyja í samstarfi við Safnahús Vestmannaeyja 2012.
Fyrir hönd afkomenda Árna Árnasonar símritara frá Grund vil ég þakka hinni sjálfskipuðu ritnefnd fyrir drengilegt og óeigingjarnt starf við að koma skrifum hans um fuglaveiðar og úteyjalífið í Vestmannaeyjum í bókarform og gefa það út með þeim glæsibrag sem við fáum nú að njóta.
Þar með er sú vinna sem hann lagði mikinn metnað í, að safna og skrifa, gerð aðgengileg fyrir komandi kynslóðir til glöggvunar á mannlífinu í Vestmannaeyjum fyrr á tímum.
Ég var alin upp hjá Árna og Katrínu sem voru móðurafi minn og amma. Ég nefndi þau pabba og mömmu, sem þótt alveg sjálfsagt. Við bjuggum í Ásgarði við Heimagötu 29, í sambýli við Guðrúnu, ömmusystur mína og mann hennar, Þorstein bóksala, og hjá þeim bjó einnig langamma, hún Gíslína.
Á sumrin fór Árni pabbi í Álsey að veiða lunda, og þegar lundakippurnar komu í land fóru Kata mamma og systir hennar út í Hjall, sem svo var kallaður og var sambyggður Ásgarði, og reyttu lunda af miklum krafti, og sólin skein utan við dyrnar. Fyrir utan það að veiða lundann í Álsey var hann líka kokkur í eyjunni og spilaði á harmonikku þegar tekið var lagið á góðra vina fundi eftir góðan veiðidag.
Ég var ekki gömul þegar ég fór að fara með Árna pabba þegar hann var að hitta hina og þessa menn og konur til að fá upplýsingar um allt mögulegt varðandi lífið í Eyjum. Í minningunni er það eldra fólkið sem hann var að ná tali af. Þessi samtöl áttu sér stað við hinar ýmsu aðstæður, jafnvel að viðmælandi lá uppi í rúmi undir sæng og hann sat á stól við rúmið og spurði og hlustaði. Eða það var staðið undir húsvegg og skeggrætt. Inni á skrifstofum hjá jakkafatamönnum, niðri á bryggju á tali við þá sem þar voru að fara eða koma. Fara í heimsóknir til kvenna sem vissu eitt og annað, eða bara að mæta einhverjum á förnum vegi, og þá var stoppað og tekið smáspjall, og ef það var kona var hönd borin upp að hattinum og heilsað virðulega áður en samtalið hófst.
Hann hafði starfsaðstöðu, skrifstofu, í kjallaranum í Ásgarði. Þar vann hann við stórt skrifborð sem stóð undir vegg. Á því voru ýmiss konar blöð og bækur í misjafnlega háum stöflum og svört ritvél og svartur skífusími. Við aðra veggi voru minni borð þar sem komið var fyrir bókum og pappírum, og man ég þar sérstaklega eftir brúnni, allstórri bók, sem var manntalsbók, og var henni oft flett. Þarna fékk hann líka heimsóknir, og þá voru það oft myndir sem var verið að skoða eða bæta í texta sem var í vinnslu.
Hans aðalvinna var þó að vera símritari og loftskeytamaður á Símstöðinni. Það var vaktavinna og frívaktin gaf tækifæri til að safna fróðleik og skrifa um menn og málefni staðarins. Og gegnum starf sitt kynntist hann mörgum sem hann síðan gat leitað til varðandi skrif sín.
Það sem einnig var ofarlega í huga hans var Byggðasafnið í Vestmannaeyjum. Hann var í fyrstu stjórn þess, og hann og þeir menn sem með honum störfuðu þar lögðu hornstein að því sem er varðveitt í dag á Byggðasafni Vestmannaeyja.
Ég tel það hafa verið forréttindi fyrir mig að fá að alast upp hjá þeim Árna og Katrínu.
Athygli á umhverfi og náttúru Eyjanna vaknaði við hlið hans þar sem ég sleit barnsskónum, og grunnurinn að áhuga mínum á fornleifafræði, sem ég er að vinna við í dag, var svo sannarlega lagður þar sem ég fylgdist með munasöfnun og viðtölum hans við sagnamenn og sagnakonur.
- Katrín Gunnarsdóttir.