Ritverk Árna Árnasonar/Ársæll Grímsson (Dölum)
Kynning.
Ársæll Grímsson bóndi í Dölum, síðar í Sveinskoti á Hvaleyri við Hafnarfjörð fæddist 9. janúar 1901 í Nýborg á Stokkseyri og lést 23. febrúar 1998.
Faðir hans var Grímur bóndi og sjómaður í Nýborg í Stokkseyrarsókn 1901, f. 5. september 1858 í Sigluvíkursókn, Rang., d. 21. ágúst 1927, Bjarnason bónda og smiðs í Gljákoti í Þykkvabæ og í Bráðræði á Akranesi, f. 18. apríl 1834 í Háfssókn, Rang., d. 24. febrúar 1920, Sigurðssonar bónda í Norður-Nýjabæ í Háfssókn 1835, f. 21. september 1809, d. 25. mars 1866, Jónssonar, og konu Sigurðar í Norður-Nýjabæ, Ástríðar húsfreyju, f. 9. nóvember 1792, d. 10. janúar 1838, Einarsdóttur.
Móðir Gríms og barnsmóðir Bjarna var Þuríður húskona í Gerði í Stokkseyrarsókn 1870, f. 20. október 1825, d. 20. júlí 1882, Jónsdóttir bónda í Traðarholti í Stokkseyrarsókn 1835, f. 1793, d. 15. mars 1836, Grímssonar (af Bergsætt) og konu Jóns í Traðarholti, Ingibjargar húsfreyju þar, f. 1792, d. 1862.
Móðir Ársæls og kona Gríms var Helga húsfreyja, f. 10. desember 1863 í Stokkseyrarsókn, d. 26. júlí 1916, Þorsteinsdóttir, bónda á Haugi í Gaulverjabæjarsókn 1850, f. 25. mars 1815, d. 17. maí 1864, Felixsonar bónda á Haugi í Gaulverjabæjarsókn 1835, Hafliðasonar, og konu Felix, Ólafar húsfreyju á Haugi 1835, f. 30. júlí 1773, d. 11. nóvember 1860, Jónsdóttur.
Móðir Helgu og barnsmóðir Þorsteins var Sólborg vinnukona, f. 2. febrúar 1825, d. 1. júlí 1888, Jónsdóttir. Móðir Sólborgar var Gróa húsmóðir á Hafurbjarnarstöðum í Útskálasókn 1840, f. 1796, d. 3. júní 1867, Brynjólfsdóttir bónda í Litlu-Sandvík Björnssonar.
Ársæll Grímsson var albróðir Guðna Grímssonar skipstjóra.
Kona Ársæls var Hansína Árný Magnúsdóttir, f. 12. janúar 1904, d. 16. september 1980.
Börn Ársæls og Hansínu:
1. Maggý Jórunn Ársælsdóttir, f. 9. apríl 1927.
2. Margrét Ársælsdóttir, f. 2. desember 1928, d. 23. apríl 1990.
3. Erla Ársælsdóttir, f. 30. júní 1930.
4. Hannes Ársælsson sjómaður í Grindavík, f. 29. nóvember 1931, drukknaði 26. apríl 1949.
5. Grímur Guðmundur Ársælsson sjómaður, útgerðarmaður, trillukarl, verkamaður í Hafnarfirði, f. 17. nóvember 1940 í Dölum, d. 29. nóvember 2008.
Úr fórum Árna Árnasonar símritara:
Bjargveiðimannatal.
Ársæll er í hærra lagi, dökkhærður, nokkuð limalangur, allþrekinn og beinastór. Hann er stilltur í framkomu og virkar daufur og tilbaka, en er í sínum hóp glaður, ræðinn og fróður vel um ýmislegt. Hann bjó um skeið í Dölum hér, en flutti svo suður með sjó og ílentist að Hvaleyri við Hafnarfjörð, þar sem hann býr allsæmilegu búi.
Hann var í Álsey og kom sér þar vel sem góður og vel virkur félagi. Veiðimaður var hann að vonum ekki mikill, en áhugasamur og fylginn sér.
Hann hafði ekkert komið við að veiða lunda, fyrr en hann kom að Dölum, þá uppkominn maður. Ársæll var góður félagi og traustur. Í Álsey reyndi oft á þrek hans og reyndist hann harðduglegur burðarmaður. Eitt sinn rann hann til í veiðistað,
Snorrastöðum, allt fram á brún, svo að hann var hálfur fram af, en háfurinn festist á netinu og bjargaðist hann þannig. Dag einn var hann að veiða við vesturbrún „á Flánni í Gilinu“ allt til kvölds. Daginn eftir ætlaði hann í sama stað, en þá var staðurinn hrapaður af. Þetta hvekkti Ársæl mjög mikið. – Drenglyndur maður.
Úr fórum Árna Árnasonar, efnisyfirlit
Heimildir
- Samantekt: Víglundur Þór Þorsteinsson.
- Eyjar og úteyjalíf – Úrval verka Árna Árnasonar símritara frá Grund. Sögufélag Vestmannaeyja í samstarfi við Safnahús Vestmannaeyja 2012.
- Íslendingabók.is.
- Manntöl.
Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.