Viðlagasjóður

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 15. júní 2006 kl. 09:50 eftir Daniel (spjall | framlög) Útgáfa frá 15. júní 2006 kl. 09:50 eftir Daniel (spjall | framlög)
Fara í flakk Fara í leit

Þann 7.febrúar 1973 lögðu sjö alþingismenn úr öllum stjórnmálaflokkum fram frumvarp til laga um neyðarráðstafanir vegna eldgosins á Heimaey. Var frumvarpið samþykkt samhljóða og í annarri grein laganna var gert ráð fyrir stofnun Viðlagasjóðs vegna hamfaranna.

Hlutverk Viðlagasjóðs var sett niður í fjóra punkta: 1. Að tryggja hag Vestmannaeyinga og stuðla að vernd og endurreisn byggðar þeirra. 2. Að greiða kostnað vegna björgunarstarfs, flutninga og röskunar á höfum vegna eldsumbrotanna í Vestmannaeyjum. 3. Að bæta tekjumissi og eignatjón af völdum eldgossins á Heimaey. 4. Að draga úr áhrifum náttúruhamfara í Vestmannaeyjum á afkomu og atvinnulíf Vestmannaeyinga og þjóðarheildarinnar og gera hvers konar fjárhagsráðstafanir í þessu skyni.

Ákveðið var að ríkissjóður legði 160 milljónir króna í sjóðinn og Atvinnuleysistryggingasjóður legði til aðrar 160 milljónir. Um miðjan febrúar hafði stjórn Viðlagasjóðs tekið við yfirstjórn allra mála í Vestmannaeyjum. Lausn á húsnæðismálum Vestmannaeyinga var stærsta og erfiðasta verkefni stjórnar Viðlagasjóðs. Úr þeim málum rættist fyrst þegar innfluttu húsin komu til landsins um sumarið.

Bætur fyrir horfin hús og eyðilögð voru greidd í fjórum áföngum, sá fyrsti var 20.október 1973. Mat á skemmdum innanstokksmunum og glötuðum innbúum var leyst af hendi sem og greiðslur fyrir skemmda bíla og þess háttar. Bætur fyrir húseignir voru miðaðar við brunabótamat húsa.