Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 2004/ Um Halkiona

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 21. febrúar 2017 kl. 11:33 eftir Karibjarna2 (spjall | framlög) Útgáfa frá 21. febrúar 2017 kl. 11:33 eftir Karibjarna2 (spjall | framlög)
Fara í flakk Fara í leit
GUÐJÓN ÁRMANN EYJÓLFSSON



Um Halkiona



Einn fugl sem heitir Halkion
um hafið blá búin
af Drottni bústað á*

Inngangur
Hratt líður stund. Mér finnst ótrúlegt að nú í vor eru 42 ár síðan ég skrifaði mína fyrstu grein í Sjómannadagsblað Vestmannaeyja.
Þetta var í 12. árgang ( þá ranglega merktur 11. árgangur) árið 1962 og hét greinin Skipsnafnið Halkion.
Ég hafði fundið ágæta bók um gríska goðafræði, sem ég hef verið hrifinn af allt frá því ég var í menntaskóla. Ásamt öðru efni voru þarna sögur rómverska skáldsins Ovidíusar (f. 43 f. Kr.- d. 18. e. Kr.) um myndbreytingar (Metamorp-hoses), þar á meðal goðsögnin um Halkion. En í áratugi áttu frændur mínir í Gerði skip með því nafni og stjórnuðu; lengst allra Stefán Guðlaugsson (f.1888 - d.1965).
Ég þýddi frásögn Ovidíusar, grísku goðsögnina um konungshjónin Keyx og Halkion, og breytingu þeirra í fugla.
Frá grísku goðsögninni og nafni Halkýons er unnt að rekja bein áhrif og skyldleika sagna hér á Íslandi.
Fjöldi listaverka (málverk, höggmyndir, tónverk, leikrit og óperur) er byggður á hinum ævafornu grísku goðsögnum. Einna þekktust sagna um myndbreytingu er goðsagan um Pygmalion og Galatheu, sem ensk-írska skáldið, George Bernhard Shaw, hafði sem bakgrunn leikritsins Pygmalion. Heimsfrægur söngleikur og kvikmyndin „My fair lady“ var síðar gerð eftir leikritinu en þar er blómasölustúlkunni Elizu breytt í hefðarmey með því að kenna henni rétt tungutak og framburð enskunnar.
Við frekari athugun á nafninu Halkion komst ég að raun um að það er þekkt skipsnafn víða um Evrópu og er oftar ritað Alcyon en Halcyon, enda er stafurinn h hljóðlaus í upphafi orða í mörgum tungumálum, t.d. í ítölsku, arftaka latínunnar. Á íslensku hefur nafnið bæði verið ritað Halkion og Halkýon, sem ég held að sé réttara. Halkion er eitt merkilegasta skipsnafn á Íslandi.
Þegar nafnið Halkion, Alcyon, Halcyon, Halkýon eða Akione hefur rekið á fjörur mínar í nöfnum skipa, bókmennta eða lista, hefi ég allar götur síðan 1962 haldið því til haga.
Hér birtist hluti af þessum samtíningi frá liðnum árum.

Halkion aflahæstur á vetrarvertíðinni 1962
Sérstök ástæða var til að birta sögu Halkiona í Vestmannaeyjum í Sjómannadagsblaðinu 1962, því Halkion VE 205 var aflahæsti bátur í Vestmannaeyjum vetrarvertíðina 1962 og Stefán Stefánsson í Gerði „Fiskikóngur Vestmannaeyja“. Halkion aflaði þessa vertíð 924 tonna, sem var 50 tonnum meiri afli en næsti bátur fiskaði og var tvöfaldur meðalafli.
Þetta er löngu „fyrir gos“ og aflakvóta á allan fisk! Vertíðarlífið í Vestmannaeyjum á þessum árum verður öllum, sem það upplifðu, ógleymanlegt, bryggjurnar og allt hafnarsvæðið iðandi af fólki og bátum allan sólarhringinn þegar umsvifin voru mest.

Goðsögnin í frásögn Ovidíusar
Þar eð langt er síðan greinin um skipsnafnið Halkion birtist, eru helstu atriði goðsögunnar rifjuð upp.
Keyx og Halkíon voru konungshjón í Þessalíu í Grikklandi. Keyx var sonur Fosforos (Lucifers), morgunstjörnunnar, sem fer fyrir Áróru, gyðju morgunroðans. Halkion var drottning Keyxar konungs. Hún var dóttir Eólosar vindakonungs.
Þessalía er mikil slétta í norður Grikklandi, sunnan Makedóníu. Á landamærum Þessalíu og Makedóníu er hið fræga fjall, Ólympos, hæsta fjall Grikklands, snæviþakið. Þar var bústaður Ólympsgoða, sem gríska skáldið Hómer lýsir. Við Olympsfjall eru kenndir Óympíuleikarnir.
Keyx og Halkion unnust hugástum. Eitt sinn varð Keyx að fara í hættulega ferð og þrátt fyrir illt hugboð Halkionar drottningar og bænarorð fór Keyx í þessa hættuför.
Skipið fórst og Keyx konungur með því en hann æðraðist ekki, nafn Halkíonar var á vörum hans er öldurnar lukust yfir höfði hans.
Halkion drottning beið manns síns og taldi dagana. Hún bað einkum til Heru (Friggjar), sem varð snortin af ást hennar og sendi hina hraðfleygu sendimey Ólympsgoða, regnbogagyðjuna Írisi, til svefnguðsins Hypnosar (Somnusar). Hypnos birti Halkion í draumi hvað gerst hafði. Morfeus, sonur Hypnosar, sem gat tekið á sig hvers manns líki, vitjaði Halkion í draumi sem Keyx konungur og sagði: „Góða Halkion, sjá eiginmaður þinn er hér.“ Holdvotur laut hann yfir rekkju hennar. „Þekkirðu mig ekki eða hefur ásjóna mín breyst í dauðanum ? Halkion, ég er dáinn. Nafn þitt var á vörum mér er öldurnar lukust yfir höfði mínu. Það er engin von um að sjá mig framar en veit mér hófug tár þín, lát mig ekki fara ósyrgðan til Helheima Hadesar.“ Þangað flutti ferjumaðurinn Karon framliðna yfir fljótið Akkeron.
Á hverjum degi fór Halkion niður að ströndinni til þess að gæta að því hvort hún fyndi lík Keyx, eiginmanns síns. Einn daginn rak það að landi. Halkion varpaði sér harmi lostin í hafið og hrópaði: „Ó, ástvinur minn!“ En þá gerðist undrið. Guðirnir voru miskunnsamir! Í stað þess að Halkion hyrfi í öldurnar, flaug hún yfir sjónum. Bæði Halkion og Keyx höfðu breyst í fugla en ást þeirra var jafn heit og áður. Þau sjást ávallt saman og svífa yfir sjónum eða líða á öldum hafsins. Síðan þetta gerðist. er úthafið algjörlega kyrrt og rennislétt og enginn vindblær gárar hafflötinn í samfleytt sjö daga á hverju ári. Þetta eru þeir dagar þegar Halkion liggur á hreiðri sínu sem vaggar á hafinu. Á hverjum vetri koma þessir algjöru stilludagar sem eru nefndir Halkionsdagar.
Hér lýkur ágripi af goðsögninni um Halkion og Keyx eftir frásögn Ovidíusar.

Fornminjar í Paphos á Kýpur
Fyrir nokkrum árum, kom ég til Kýpur og fór þá til Paphos, þar sem eru frægar fornminjar frá grískri gullöld. Leiðsögumaður var kýpversk kona. Ég spurði hana um goðsögnina um Halkion og Keyx.
Hún þekkti vel sögnina en sagði að Halkion hefði verið barnshafandi þegar hún kastaði sér í hafið og guðirnir miskunnuðu sig yfir hana og gerðu að sjófugli.

Stjarnan Halcyone
Skærasta stjarnan í stjörnuhópnum „Sjöstirninu“ heitir Halkion og er þá sögð dóttir Atlasar, sem stóð undir hvelfingu himins við Gíbraltarsund en þaðan er komið heiti Atlasfjalla í Afríku, sunnan Njörvasunds.
Grímur Thomsen skáld (1820-1896) var manna kunnugastur skáldskap forn-Grikkja, mikill unnandi grískra fornmennta og þýddi mörg kvæði þeirra á íslensku. Kvæði Gríms eru enn í dag lesin og sungin t.d, „Á Sprengisandi“ (Ríðum, ríðum, rekum yfir sandinn o.s.frv.), „Táp og fjör“ o.fl. Eitt kvæða Gríms heitir „Stjarnan“ og fjallar um „sólarkerfi.“ Það er átta erindi og eitt þeirra er:

Í Halcyone situr hann* sjálfur,
sveiflar þaðan hnatta fjöld,
fjærstu alheims yfir álfur
almættis hann breiðir skjöld
*Drottinn

Halkion - Haftyrðill - „hinn norræni Halkýon“-(Plautus alle)
Um varp halkions (eða haftyrðils) segir náttúru-og fiskifræðingurinn Bjarni Sæmundsson í riti sínu Fuglunum: „Sagan um fuglinn halkion“ (eða haftyrðilinn) að hann geri sér hreiður úti á rúmsjó og kleki þar eggjum sínum er hreinasta búbilja.“
Þetta bendir til þess að sögnin og trúin á kynjafuglinn Halkýon og varp hans á úthafinu hafa haft einhverja útbreiðslu hér á landi. Bjarni Sæmundsson (1867-1940) var ættaður úr Grindavík, fæddur þar og uppalinn, en einmitt í Grindavík eru heimildir um sömu sögn og sams konar þjóðtrú og var í Grikkland og á Bretaníu í Frakklandi á töframætti Halkýons. Auðsæld átti að fylgja því heimili, þar sem hamur Halkýons var hengdur upp í skemmu. Upp frá því átti þar aldrei að bresta björg í búi. Þessa sögu kannaðist fyrrnefnd leiðsögukona í Paphos á Kýpur einnig vel við.
Ísfuglinn* (Bj.Sæm.) eða bláþyrill (Fuglabók Fjölva) (flugkafarinn meðal spörfugla) heitir á ensku Kingfisher, en á dönsku og norðurlandamálum kongfisker eða isfugl.
Haftyrðill nefnist sökonge á dönsku, polarkonge á norsku, alkekung á sænsku. Á ensku heitir hann „little auk“ eða „auklet
Ég held, að norðurlandabúar hafi blandað saman þessum „kónganöfnum“! Annars vegar er kóngsheitið í upphafi orðs (kongfisker) í heiti bláþyrils (ísfuglsins) og hinsvegar í enda orðs í heiti haftyrðils (sökonge, o.s.frv.). Heitið Halkýon hafi því færst yfir á haftyrðilinn, sem í lifnaðarháttum minnir um margt á bláþyril. Hér norður í höfum þekktu fæstir bláþyril af raun en höfðu aðeins heyrt eða lesið um þennan kynjafugl. Hann er eini suðræni fuglinn sem lifir svo norðarlega en þó ekki norðar en í sunnanverðri Svíþjóð og í Danmörku er hann sjaldséður.

Haftyrðillinn, hinn norræni eða íslenski Halkýon, er hánorrænn fugl. Á síðustu áratugum hefur haftyrðli fækkað svo mjög á Íslandi að hann er nærri því horfinn og er hitnandi veðurfari kennt um. Síðustu pörin urpu í Grímsey. Árið 1981 voru þar aðeins tvö varppör en árin 1997 og 1998 var þar ekkert hreiður. Haftyrðill er stranglega friðaður hér á landi. Haftyrðill er minnstur íslenskra svartfugla, á stærð við stara, 20 -29 cm. á lengd, samanrekinn og kubbslegur, með stutt og kúpt nef, kolsvartur á baki og höfði, bringan drifhvít og fætur steingráir með svartar sundfitjar. Haftyrðill verpir einu eggi á milli steina í urð og í klettaspningum. Undir tungunni er fuglinn með kinnpoka sem hann safnar í æti, svifi og krabbadýrum, og ælir því í ungann.
Kjörsvæði haftyrðilsins er Norður-Íshafið, Thule,nyrst á Grænlandi, Nóvaja Semlja og Svalbarði og eru þar milljónir fugla. Í urðinni, undir fuglabjörgunum við Thule, er t.d. álitið að verpi um 10 milljónir haftyrðla. Í stífri norðanátt hefur fuglinn stundum hrakið hingað til lands og þá hundruðum saman, allt inn á miðhálendi Íslands, að Dyngjufjöllum og Öskju. Þegar haftyrðil rak svo hundruðum skipti og sumir segja í þúsundatali að norðurströnd landsins, ýtti það undir hugmyndir fólks um furðufuglinn Halkýon. En í Íslenskum Sjávarháttum segir: „Gamlir menn sögðu gott fiskiár í vœndum þegar mikið sást af haftyrðlum uppi við land. Sú var einnig trú á Vestfjörðum að von vœri á hafís ef margt var um þessa fugla“

Bláþyrill - „Halkýon Suðurlanda“ (Alcedo atthis)
Sérstaklega litfagur fugl. Þegar hann steypir sér í vatnið eftir fiski, hefur því verið líkt við glóandi málm sem fellur sjóðandi í vatnið. Á fuglinn bregður stálbláum lit, einnig glitrar á rauðan, hvítan og grænan lit. Bláþyrill (ísfugl, kóngsfiskari) er um 16 cm á lengd og með stórt höfuð, nefið er 4 cm. langt og nýtist fuglinum vel til veiða þegar hann steypir sér leiftursnöggt af grein, grípur fisk með nefinu og flýgur síðan með hann á öruggan stað. Bláþyrill hefur því einnig verið nefndur „flugfiskari.“
Það er merkilegt að lesa hin löngu halkionskvæði í safni Sigmundar M. Long, sem benda til þess að á Austurlandi og víðar um landið, hafi verið sagnir af bláþyrli. Í öðru erindi Halkionskvæðis eftir Þórarin Matthíasson, sem fyrr er vitnað til, er því lýst hve halkioninn er litfagur og að þetta sé lítill fugl en með „nokkuð langt“ nef sem á þá greinilega við bláþyril en ekki haftyrðil.

Í tittlings líki oss tjeður
er hann tilsýndar fagur
rauð grœnn á fjaðrirnar.

og í næsta erindi:

Nefið er bleikt og nokkuð langt
en nipurt (=lipurt) þó
kunnur við Sikileyjarsjó.

Um hávetur sjer hreiður
út á hafinu býr, þá drjúgust er nótt
en dagur er rír.

Þessi kvæði, frá fyrri tíð um halkion, eru ef til vill ekki mikill skáldskapur en þau fylgja grísku goðsögninni og höfundar þekkja sögnina. Inn í kvæðið um halkion er fléttað trú og boðskap um