Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1969/ Útilegan mikla 1869

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 25. apríl 2016 kl. 13:31 eftir StefánBjörn (spjall | framlög) Útgáfa frá 25. apríl 2016 kl. 13:31 eftir StefánBjörn (spjall | framlög) (Ný síða: <center><big><big>'''ÚTILEGAN MIKLA 1869'''</big></big></center><br> Á þessu ári eru 100 ár, síðan Vestmannaeyingar háðu hörðustu baráttu og þrekraun við óblíða nátt...)
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Fara í flakk Fara í leit
ÚTILEGAN MIKLA 1869


Á þessu ári eru 100 ár, síðan Vestmannaeyingar háðu hörðustu baráttu og þrekraun við óblíða náttúru, sem hér fara sögur af. Var þetta í útilegunni miklu, í enduðum febrúar 1869, þegar 14 áraskip með 218 sjómenn innanborðs lágu úti austan undir Bjarnarey.
Má telja útilegu þessa átakanlegasta dæmi, sem um getur, um harða lífsbaráttu síðustu aldar á hafnlausri úthafsströnd. Út af fyrir sig er útilegan afrek forfeðra okkar og sýnir, að Íslendingar hafa alltaf átt í sér þrautseigju og hörku. Nærri má geta hver örvænting fólksins og kvíði í landi hefur verið, meðan svo til allir sjómenn og fyrirvinnur héraðsins voru matarlausir og vanbúnir á opnum skipum úti í slíku foraðsveðri, sem gekk yfir Eyjuna. Íbúatala Vestmannaeyja var þá 520 til 530 manns, en úti í hríðarsorta, frosti og brimróti, börðust á þriðja hundrað sjómenn fyrir lífi sínu við hamrömm náttúruöfl. Að vísu voru margir sjómannanna úr nærsveitunum (landmenn), en þessir 218 sjómenn voru 42% mannfjölda Eyjanna þá; það svarar til 2.100 (tvö þúsund og eitt hundrað) manns í Vestmannaeyjum í dag. Þetta er í sannleika sagt ótrúleg tala og staðreynd, eins og öll saga útilegunnar reyndar er nú á tímum. Útilegur smábáta, þetta böl hverrar vertíðar hér áður fyrr, eru sem betur fer úr sögunni.
En um útileguna segir Jóhann Þ. Jósefsson í eftirfarandi grein: „óhætt er að fullyrða, að enginn viðburður hefir orðið fólki í Vestmannaeyjum jafnminnisstæður á síðustu öld."
Í Sögum og sögnum úr Vestmannaeyjum, sem Jóhann Gunnar Ólafsson fyrrv. bæjarfógeti safnaði og komu út á árunum 1938-1939 (2. útgáfa 1966), er langur og ítarlegur þáttur um útileguna eftir frásögn Hannesar lóðs. Hannes var þó í landi þessa frægu útilegu. Vildi svo óvenjulega til að á leið til skips (Hannes var þá háseti á Gideon, 17 ára gamall), datt hann ofan í krapableytu og varð að snúa heim og hafa fataskipti.
Hér birtast tvær frásagnir af þessum voðaatburði, hin þriðja er, eins og áður segir, í sögum og sögnum, og eru þá Vestmannaeyingum nærtækar allar helztu heimildirnar um Útileguna miklu 1869. Þakka ég Jóhanni Gunnari Ólafssyni fyrir aðstoð hans við þáttinn, en hann sendi blaðinu greinina úr Heimskringlu.
Frásögnum þessum ber vel saman, en eru þó allar þrjár hver með sínu sniði. Til dæmis um ofviðrið getur Hannes þess, að Gideon var kominn inn undir Miðhúsaklett, en þá drógu þeir ekki lengra og fuku árarnar upp úr keipunum. Sigldi Gideon síðan hraðbyri á árunum einum saman austur fyrir Bjarnarey.
Vertíðina 1869 var veðrátta umhleypingasöm og hlutir aðeins 50-200 fiskar.
Vertíðina 1868 var hin mesta ördeyða, sem komið hafði í Vestmannaeyjum og þá hallæri og sultur fyrir hvers manns dyrum. Má ímynda sér framtíðarhorfur fólks að fá svo þannig áhlaup og stórslys í byrjun vertíðar, en í útilegunni fórust 3 skip og 18 menn létu lífið. - Ritstj.