Séra Brynjólfur Jónsson

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 15. júní 2005 kl. 16:13 eftir Jonas (spjall | framlög) Útgáfa frá 15. júní 2005 kl. 16:13 eftir Jonas (spjall | framlög)
Fara í flakk Fara í leit

Séra Brynjólfur Jónsson sóknarprestur að Ofanleiti var þingmaður Vestmannaeyjinga 1858 til 1864. Hann mætti ekki til þings árið 1861, en sæti hans á því tók Árni Einarsson, bóndi á Vilborgarstöðum, sem kjörinn hafði verið varamaður hans.

Séra Brynjólfur var fæddur að Hofi í Álftafirði 8. september 1826, sonur hjónana séra Jóns prests á Hofi Bergssonar, prests í Vallanesi Magnússonar og konu hans Rósu Brynjólsdóttur prests í Eydölum Gíslasonar. Stúdent í Reykjavík 1848 og lauk guðfræðiprófi frá Prestaskólanum árið 1850. Gerðist aðstoðarprestur í Vestmannaeyjum 1852 til 1858, en sóknarprestur að Ofanleiti eftir það til æviloka, en hann lést í Vestmannaeyjum 19. nóvember 1884.

Séra Brynjólfur lét sér mjög annt um hagsmuna- og framfaramál Vestmannaeyinga. Hann gerðist bindindismaður á skólaárum sínum og var það alla ævi. Drykkjuskapur var mikill í Vestmannaeyjum þegar hann gerðist þar prestur enda brennivín ódýrt á þeim tíma og miklar staupagjafir í hinum dönsku selstöðuverslunum. Gekkst hann árið 1864 fyrir stofnun bindindisfélags í Vestmannaeyjum, ásamt þáverandi sýslumanni Bjarna E. Magnússyni. Varð félagið mjög fjólmennt miðað við fólksfjölda og bar góðan árangur.

Árið 1862 gjörðist hann forgöngumaður að stofnun Lestrarfélags Vestmannaeyja ásamt þeim Bjarna E. Magnússyni sýslumanni og J. P. T. Bryde, kaupmanni. Nafni félagsins var síðar breytt í Bókasafn Vestmannaeyja og starfar það enn í dag og er eitt af elstu og stærri bókasöfnum í landinu. Ennig var séra Brynjólfur kosinn í fyrstu stjórn Skipaábyrgðarfélags Vestmannaeyja, en árið 1907 var nafni þess breytt í Bátaábyrgðarfélag Vestmannaeyja og hefur félagið starfað óslitið frá stofnun þess og er elsta starfandi innlenda vátryggingarfélagið hér á landi.