Milljarðamæringar frá Texas

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 5. júlí 2005 kl. 09:29 eftir Skapti (spjall | framlög) Útgáfa frá 5. júlí 2005 kl. 09:29 eftir Skapti (spjall | framlög)
Fara í flakk Fara í leit

Jóhannes Esra Ingólfsson, Esra í Lukku, er einn af þessum sem kryddar tilveruna mikið hér í Vestmannaeyjum. Hann hefur fengist við margt í lífinu, svo sem að vinna sem kjötiðnaðarmaður, stíga ölduna sem sjómaður og höndla með verðbréf. Esra er hæfileikaríkur maður mjög, enda Ellireyingur, myndu sumir segja, og talar í myndrænu máli. Eftirfarandi frásögn, sem Árni Johnsen skráði, skýrir kannski málið frekar.

Milljarðamæringar frá Texas

Einu sinni komu milljarðarmæringar frá Texas í heimsókn í Elliðaey. Þeir kunnu vel við sig í þessari fögru og sérstæðu eyju og vildu kaupa hana. Þegar þeim var sagt að hún væri ekki föl vildu þeir kaupa milljón lunda til þess að matreiða á hótelum sínum í Bandaríkjunum. Ellireyingarnir sögðust ekki geta selt þéim milljón lunda því að þó svo að um tíu milljónir lunda væri í Vestmannaeyjum yfir sumartímann veiddu menn aðeins brot af þeim fjölda. En Texasbúarnir höfðu ekki áhuga á neinu minna.

Esra gekk um í þungum þönkum drykklanga stund en vék sér síðan að Texasbúunum, gaf þeim fingurvink og sagði: „Come with me.“

Þeir fóru síðan út í brekku og sátu þar daggóða stund. Þegar Esra kom aftur í hús sagði hann félögum sínum að hann væri búinn að gera samning við Bandaríkjamennina um sölu á milljón lundum.

Félagarnir gáfu lítið fyrir þessar fréttir og sögðu að hann gæti ekki staðið við slíkan samning, þetta væri tómvitleysa.

„Strákar, látið ekki svona.“ sagði Esra þá „Þið verðið að hugsa þetta í stærra samhengi: Business is business.“


Heimildir


  • Lífins melódí, Árni Johnsen, 2004, Vaka-Helgafell