Lúðrasveit Vestmannaeyja

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 10. júní 2005 kl. 13:27 eftir Skapti (spjall | framlög) Útgáfa frá 10. júní 2005 kl. 13:27 eftir Skapti (spjall | framlög)
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Fara í flakk Fara í leit

Lúðrasveit var sett á laggirnar í Vestmannaeyjum árið 1904 og starfað til ársins 1916, þá undir stjórn Brynjólfs Sigfússonar, tónskálds og organista. Starfið lagðist niður í tvö ár, en þegar Helgi Helgason, tónskáld, fluttist til Vestmannaeyja árið 1918 hóf sveitin að starfa að nýju. Undir stjórn Helga starfaði lúðrasveitin til ársins 1921. Starfið lagðist síðan aftur niður á árunum 1921 til haustsins 1924, en Auðbjörn Emilsson endurvakti þá lúðrasveitina í annað skiptið. Lúðrasveitin var undir leiðsögn Auðbjörns til sumars 1925, er Hallgrímur Þorsteinsson, frá Reykjavík kom til Eyja og stjórnaði sveitinni næstu þrjú sumur, eða til ársins 1927. Ragnar Benediktsson, frá Mjóafirði, stjórnaði lúðrasveitinni í fjarveru Hallgríms.

Árið 1925 byrjuðu þeir Oddgeir Kristjánsson og Hreggviður Jónsson að leika í lúðrasveitinni undir stjórn Hallgríms Þorsteinssonar og störfuðu þar til ársins 1932, en þá hætti sveitin störfum. Það var í þriðja sinn er sveitin lagði upp laupana. Árið 1939 flutti Hreggviður Jónsson aftur til Vestmannaeyja eftir nokkurra ára búsetu í Reykjavík, þar sem hann starfaði með lúðrasveitinni Svaninum. Hófust þeir Hreggviður og Oddgeir þá handa við að endurreisa starf lúðrasveitar í Vestmannaeyjum og hefur sveitin nú starfað óslitið í 65 ár. Oddgeir stjórnaði síðan Lúðrasveit Vestmannaeyja, sem tók upp það nafn við hina þriðju endurreisn, frá árinu 1939 til æviloka, 1966. Hreggviður starfaði við hlið Oddgeirs sem formaður Lúðrasveitar Vestmannaeyjum frá stofnun ásamt því að leika á Sousafón (túbu).

Eftir að Oddgeir féll skyndilega frá tók Martin Hunger við sem stjórnandi Lúðrasveitar Vestmannaeyja. Martin starfaði frá aprílmánuði 1966 til ársloka 1969. Þá tók við stjórnartaumunum Björn Sv. Sveinsson (sonur Sveins Björnssonar, fyrsta forseta Íslands) og var til janúarmánaðar 1971 er Ellert Karlsson hóf að stjórna lúðrasveitinni. Ellert var síðan með lúðrasveitina fram að gosi, í janúar 1973. Þess má geta að Björn Sv. leysti Ellert af á veturna, en hann var þá við nám í tónlistarkennaranám í Reykjavík. Björn Leifsson tók síðan að sér að vera stjórnandi Lúðrasveitar Vestmannaeyja, er hún hóf störf að nýju eftir gosið. Björn starfaði fram á haust 1976 er Stefán Sigurjónsson tók við stjórnartaumunum. Haustið 1977 tók Hjálmar Guðnason við af Stefáni og var með Lúðrasveit Vestmannaeyja fram til ársins 1988. Stefán Sigurjónsson hefur verið stjórnandi lúðrasveitarinnar frá 1988 til dagsins í dag.