Kristinn Magnússon (Sólvangi)

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Kristinn Magnússon, Sólvangi, fæddist á Seyðisfirði 5. maí 1908 og lést 5. október 1984. Árið 1915 fluttist Kristinn til Vestmannaeyja ásamt foreldrum sínum, Magnúsi Jónssyni og Hildi Ólafsdóttur.

Kristinn
Aftari röð frá vinstri: Jón, Sigurður, Ólafur og Kristinn.
Fremri röð frá vinstri: Unnur, Magnús, Sigurbjörg og Rebekka.

Kristinn var kvæntur Helgu Jóhannesdóttur hjúkrunarkonu og eru börn þeirra: Theódóra (látin), Ólafur Magnús hafnarstjóri í Vestmannaeyjum, Jóhannes (látinn), Guðrún og Helgi (látinn).

Kristinn byrjaði sjómennsku árið 1924 en formennsku hóf hann árið 1932 á Pipp. Eftir það er Kristinn meðal annars með Hilding og Gylfa II. Kristinn var formaður í rúmlega 30 ár. Eftir að hann kom í land sá hann um rekstur Verkamannaskýlisins á Básaskersbryggju.

Loftur Guðmundsson samdi eitt sinn formannsvísu um Kristin:

Karskur á Pipp um kólguskeið
Kristinn upp þorskinn grefur,
sveigir ei strax af sinni leið
né samþykkt öllum gefur.

Óskar Kárason samdi einnig formannavísu um Kristin:

Þegar ólgu aldan grett
örk í fangi rólar,
svæðið kólgu klýfur nett
Kiddi á vangi Sólar.

Óskar samdi seinna aðra vísu um hann:

Kristin ég læt á lista
liða, sem gá til miða.
Magnússon marling fagnar
mildingur sá, er Hildings
hring nýjum brims á bryngi,
beitir í fiski leitum.
Stýra kann skatinn skýri
skrumlaust í hríðar flaumi.

Myndir



Heimildir

  • Óskar Kárason. Formannavísur. Vestmannaeyjum, 1950.
  • Óskar Kárason. Formannavísur II. Vestmannaeyjum, 1956.
  • Sjómannablaðið Víkingur. Farmanna- og Fiskimannasamband Íslands.
  • Sjómannadagsblað Vestmannaeyja. 1995.